Ritdómur: Vindasálin snertir streng

Um höfundinn

Ástráður Eysteinsson

Ástráður Eysteinsson tók við starfi forseta Hugvísindasviðs Háskóla Íslands árið 2008. Hann er prófessor í almennri bókmenntafræði og hefur verið gistiprófessor við erlenda háskóla og verið virkur í alþjóðlegri rannsóknasamvinnu. Sjá nánar

Minning kann að vera mynd af því sem var, en þar með er merking hennar ekki tæmd. Hvað segir myndin mér þegar hún –  af einhverjum sökum – færist nær? Flytur hún mér kannski öðrum þræði boð um það sem ekki varð en hefði getað orðið? Er minning fræ sem verður ætíð fræ þótt af því kunni að spretta jurtir í tímans rás?

Fyrsta ljóðið í nýrri ljóðabók Þorsteins frá Hamri heitir einmitt „Fræ“ og þar segir að „vera“ manns sé öll „sveipuð svip / einhvers í vændum, / einhvers sem ekki kom“. Sennilega geyma allir innra með sér fortíð sem átti sér framtíð – framtíð sem ekki varð, en óx kannski á laun sem angi úr þessu fræi. Nema fræið eigi enn eftir að njóta varmans frá „biðinni“, svo vísað sé til lokalína ljóðsins. Erum við, jafnvel þegar við sinnum einhverju lífsverkefni af hvað mestum móð, ef til vill líka að bíða eftir einhverju öðru? Hvaða brögð skyldu þá vera í tafli Tíma kóngs?

Næsta ljóð bókarinnar nefnist „Í árdaga“ og hefst svo:

Ég og þú
vorum jörðin í svefni; einhver
bærði línhjúp loftsins og opnaði
sýn hinum frjóa draumi um dag og veru.

Ég og þú
urðum skaparar, skáld; og sólin
lýsti upp heim okkar, runnana, rjóðrin.

Eins og oft fyrr í ljóðum Þorsteins mynda hrynjandi og ljóðstafir sterka þræði innan forms sem gæti annars virst óbundið. Þessi tvö glæsilegu erindi orka á mann eins og upphaf mikils ljóðs þar sem frekar skal sagt af heimi og „veru“ þeirra tveggja. Í reynd er einungis eftir ein lína:

En ljóðin, síðan þá, mun óvíst hvar eru.

Þau eru þó ekki alglötuð og kannski áttu þau ríkan þátt í sköpun annarra ljóða sem varða slóð skáldsins allt fram á hin svokölluðu efri ár, er hann hefur lesið sig gegnum ótaldar „arkirnar gráu“, eins og segir í ljóðinu „Veraldarsaga, bernskumynd“. Og nú er hann „með síðustu heftin“. En arkirnar eru komnar úr bernskumynd og þannig tengjast sjónbaugarnir í þessari ljóðabók, fortíð og framtíð – báðar virðast hraða sér til ljóðmælandans, svo sem segir í ljóðinu „Hvörf, sjónmál, hafsaugu“:

Allt kom það nær,
í sífellu svolítið nær,
og loks með látum

„Hvörf“ merkir skil, umskipti, en í orði Þorsteins býr einnig það margvíslega „mannshvarf“ sem verður á einni ævi, og þó kemur sitthvað í leitirnar, stundum óvænt, áður en líður að hinu endanlega hvarfi eða hvörfum. Skáldið yrkir á hverfanda hveli, þar sem tími og vera eru skyggnd og hugleidd. Í ljóðinu „Úr vegi“ horfir ljóðmælandi á eigið líf og álasar sér kannski fyrir „aðfaraleysi“; fyrir að hverfa eigin sjónum og annarra, uns „vindasálin“ ein veit hvar hann leynist.

Þó beinir skáldið hafsaugunum einnig að samtíma sínum og samfélagi – og í ljóðinu „Ljósin inni“ er spurt hverskonar ljós það séu sem nái að blakta „í sjálfhverfu, síngjörnu, / átfreku oflætishófinu.“ Þorsteinn kveður hér óvenjufast að orði, en líklega er ekki vanþörf á, nú þegar margt í samfélagslegri orðræðu, ekki síst stjórnmálaumræðu, virðist eiga að deyfa okkur fyrir raunveruleika oflætishófsins; rétt eins og hér á landi hafi einungis orðið tæknileg bilun eða hiksti í vélinni sem hægt verði að lagfæra.

Þegar skáldið skrifar: „Það vorar um síðir, vonandi“ (í ljóðinu „Í verunni“), á það áreiðanlega ekki við „endurreisn“ hins átfreka heims þar sem hugtakið „samfélag“ fór halloka fyrir „eignarhaldsfélagi“. Hinsvegar þurfum við að rannsaka „brunarústir“ og það sem í öskunni leynist, ekki síst „undrið sjálft: / hið óbrunna kvika hjarta“, en svo hljóða lokalínur ljóðsins „Eftir eld“.

En þeir eru margvíslegir, eldarnir á lífsleiðinni, og ekki auðfarið um þá alla með ólaskað hjarta. Í ljóðinu „Áfram“ fáum við svipmynd úr ferðalaginu. Fyrri hluti ljóðsins hljómar svo:

Áfram, áfram! Við mér vegmóðum taki
djöflasandar, meinvættir, mannskaðagil,
naumur kostur og náttmyrkrið eitt að þaki!

Friðarhuggun af stjörnu um stundarbil:
samfundir, svipir að baki …

Sjá má hve haganlega Þorsteinn frá Hamri nýtir sér og endurnýjar hefðbundið ljóðmál. Hér, eins og víðar í ljóðum hans fyrr og síðar, er jafnframt viss þjóðsagnakeimur af heimsmyndinni, enda erum við um margt enn föst í lögmálum þjóðsagna og ævintýra. Í ljóðinu „Sauðamenn“ er spurt hvert þeir fari sauðamennirnir sem „hverfa á föstunni“, og lokaljóðið, „Stórir komu skarar“, kallast á við Heineþýðingu Jónasar Hallgrímssonar um viðburði þá er urðu í tunglsljósi, en umhverfis manninn hér eru „hafþök, hál eins og gler …“.

Ekki verður undan ferðinni vikist, enda er manneskja „ferðalag / og ferðalag er manneskja: / áfangar ýmsir / í sálinni líkt og í löndum“ (eins og segir í ljóðinu „Áfangar“). En þá komum við aftur að því hve hlykkjótt leiðin getur verið, jafnvel svo að hún nálgast stundum löngu yfirgefinn áfangastað. Í ljóðinu „Svo sem snertuspöl héðan“ segir af einhverju sem var en ljóðmælandi telur þó í engu stjórna ferðum sínum. Og þó: „Þá heyri ég einhvern hóa …“. En það er ekki aðeins hóað úr fjarskanum, heldur getur skipulag tímans riðlast á ýmsan hátt; mikilvægar stundir verða óvænt til, ljóðmælandinn í „Árstíðunum“ veit þess dæmi „að vorið hafi sprungið út gegnum síma“ og að inn um opinn glugga hafi borist litríkir deplar sem lýstu upp hugann „á miðjum / hinum mannskæða þorra.“

Víðar yrkir Þorsteinn um það hvernig slík stund verður að lifandi streng. Við eigum hvert um sig einn streng og verðum að finna hljómbrigði hans í þeim lífsgarði sem okkur gefst að rækta. Um þann streng yrkir Þorsteinn í undurfallegu ljóði þar sem hann vísar til þessara hugljúfu lína í þýðingu Jóns Þorlákssonar á Paradísarmissi Miltons: „Blíður er árblær, / blíð er dags koma, / fylgja henni tónar töfrafullir / árvakra fugla, / sem er eyrna lyst.“ Ljóð Þorsteins nefnist „Hér stilltu guðir streng“:

Hér stilltu guðir streng;
hann struku dægrin blíð;
þann óm til eyrna bar
mér árblær forðum tíð.
Ég nem hann ljósar nú
er nálgast rökkrið svalt.
Svo fer einn dag að flest
mun fullnað, jafnvel allt.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *