Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Ísland var ekki það eina sem allt snerist um á bókastefnunni í Frankfurt. Þetta er risavaxin kaupstefna þar sem nánast allar þjóðir og þjóðflokkar koma saman í einhverri mynd. Einn þeirra stærstu er hinn arabíski heimur og voru margir áhugasamir að sjá hvaða áhrif arabíska vorið svonefnda hefði á heimsmyndina og bókmenntirnar þar. Voru allmargir dagskrárliðir tileinkaðir þessu málefni og voru tveir þeirra mjög athyglisverðir, sá fyrri sneri að hinum menningarlegu og pólitísku hliðum þeirra miklu umbrota sem nú standa yfir í hinum arabíska heimi; þar töluðu undir stjórn Mustafas Al-Slaimans ljóðskáldin Hleil Abdelwakil Al Bijou frá Lýbíu, Adel Karasholi frá Sýrlandi og Þýskalandi, en ljóð eftir hann má m.a. lesa í Jóni á Bægisá 7/2003, auk þeirra voru þarna Túnisinn Slaheddine Lahmadi og egypska skáldkonan og bókmenntafræðingurinn Iman Mersal.

Hjá öllum þjóðum sem þurfa á andlegum þrótti að halda í baráttu til nýrrar sjálfsmyndar er hlutverk skálda og rithöfunda mikilvægt og það fer ekki hjá því, að rétt eins og á Íslandi 19.aldar, skipta ljóðskáld og rithöfundar nú miklu máli í opinberri arabískri umræðu um þjóðfélagsmál, réttlæti og sögu. Einhvern veginn er það þannig að í þjóðfélögum sem leita nýs sjálfs er rödd þeirra miklu sterkari en stjórnmálamanna og ýmissa álitsgjafa. Þetta var raunin í búsáhaldabyltingunni hér á landi líka. Það er ekki fyrr en síðar að pólitíkusarnir og besservisserarnir taka yfir og stjórnmálaumræðan verður a.m.k. eitthvað litlausari en áður.

Á eftir þessum umræðum var röðin komin að ungskáldum og tjáðu þau sig öll um „ástandið“ og fluttu úr verkum sínum, skáldið Ali Al Jallawi frá Barein, Egyptinn Deeb rappaði af krafti og palestínska skáldkonan Hind Shoufani flutti einnig ljóð. Allt er þetta vel þekkt listafólk í sínum heimi og það er oft langt á milli staða hjá þeim, en merkilegt var þó að af kveðskapnum, í þýðingu a.m.k., stafaði vissum rómantískum blæ sem líka minnti svolítið á fyrri tíð í vestrænni ljóðlist; kannski þurfa mismunandi menning og tímar mismunandi ljóðrænu.

Ég upplifði svo eitt þriðja augnablik í tengslum við araba þegar í hitti Egyptann Samir Grees, góðvin minn frá námsárum, sem er blaðamaður og starfar bæði fyrir Deutsche Welle í Þýskalandi og dagblaðið Al Hayat sem er eitt það víðlesnasta yfir landamærin í arabaheiminum. Við hittumst fyrir tilviljun og eftir að við höfðum heilsast spurði hann hvort hann gæti tekið við mig snöggt viðtal. Ég skildi ekki alveg hvers vegna, en það skýrðist þegar hann spurði lykilspurningarinnar: „Menn velta því fyrir sér í arabaheiminum hvernig á því standi að Ísland, með rétt rúmlega 300 þúsund íbúa, hafi verið boðinn heiðurssess á bókastefnunni í Frankfurt á meðan arabaríkin 22 með hundruð milljóna íbúa þurftu að vera öll saman?“

Það varð fátt um svör hjá mér, annað en að vísa til bókmenntasögu okkar, en það er kannski ekkert sérlega sannfærandi; Arabar skrifuðu ekki aðeins Kóraninn og Þúsund og eina nótt, heldur má segja að þýðingastarf þeirra á miðöldum hafi hreinlega bjargað stórum hluta fornmenningar Vesturlanda frá glatkistunni. Spurningunni var þannig í raun ósvarað, en hún sýnir í hnotskurn hversu mikils heiðurs íslenskar bókmenntir urðu aðnjótandi eina viku í október 2011.

Það sem mína furðu vekur eftir á að hyggja er hversu litla athygli það vakti í fjölmiðlum hér á landi. Ef við berum það saman við það fé og athygli sem veitt er t.d. í íþróttalandslið (karla n.b.) þegar þau leika á stórmótum erlendis, þá er þetta neyðarlegt, en speglar kannski betur hið raunverulega menningarástand vel feitrar og dekraðrar þjóðar.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *