Gyllti drekinn eftir Roland Schimmelpfennig

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Höfundur Roland Schimmelpfennig
Þýðing Hafliði Arngrímsson
Leikstjórn Kristín Eysteinsdóttir
Leikarar Jörundur Ragnarsson, Dóra Jóhannsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Halldór Gylfason og Sigurður Skúlason
Leikmynd  og búningar Snorri Freyr Hilmarsson
Tónlist Björn Kristjánsson (Borko)
Lýsing Kjartan Þórisson

Roland Schimmelpfennig er þýskur höfundur sem hefur getið sér gott orð í heimalandi sínu og víðar. Hér á Íslandi hafa áður verið flutt tvö leikverk eftir hann, annað í útvarpi, Arabíska nóttin, hitt á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins, Konan áður.

Verkið Gyllti drekinn  er eins konar sögustund með fimm sögumönnum. Hér segir frá fólki sem vinnur eða býr í húsi þar sem veitingastaðurinn Gyllti drekinn er starfræktur. Örlög þessa fólks fléttast saman á sérkennilegan hátt. En miðdepillinn er þó saga ólöglegs innflytjanda, ungs Kínverja sem þjáist af tannpínu. Hann er í leit að systur sinni, sem ekki er þó langt undan. Persónuflóran er stór en aðeins fimm leikarar segja söguna, eins og áður sagði.

Verkið er mjög í ætt við epískt leikhús, þarna eru lítil atriði sem virðast ekki tengjast saman en eru þó öll órjúfanleg heild í sögunni. Hinn brechtíski- stíll er allsráðandi. Hann felur í sér m.a. að áhorfendur eru stöðugt og með ýmsum hætti minntir á þeir eru í leikhúsi. Sagan er oft sögð í þriðju persónu, sagt er upphátt hvernig höfundur skrifar lýsingu í handriti eins og þagnir o.fl. í þeim dúr.

Þarna er kynhlutverkum víxlað, konur leika karla og öfugt og aldur skiptir heldur ekki máli. Til að mynda lék Halldór Gylfason unga stúlku á mjög fallegan hátt og Dóra Jóhannsdóttir lék groddalegan karlmann. Aðrir leikarar voru Jörundur Ragnarsson, Hanna María Karlsdóttir og Sigurður Skúlason. Öll voru þau mjög einlæg í hlutverkum sínum enda er leikritið þess eðlis að annað væri hreinlega óviðegiandi. Þarna eru farið inn á myrkar hliðar mannskepnunnar en verkið hefur vissulega kómískar hliðar.

Sýningin fer heldur hægt af stað og mikið er um endurtekningar á texta. Leikarar lesa upp matseðill veitingahússins af og til í gegnum verkið og getur það verið ansi leiðigjarnt til lengdar. Smám saman fer þó myndin að skýrast og áhorfendur átta sig á hvernig í hlutunum liggur. Blákaldur raunveruleikinn blasir við og ekki er laust við að um mann fari hrollur.

Leikmynd og búningar Snorra Freys Hilmarssonar veitir verkinu einfalda umgjörð sem þó undirstrikar umhverfi þess og íbúa. Ljós Kjartans Þórissonar og tónlist Björns Kristjánssonar eru með ágætum og þýðingin hnökralaus hjá Hafliða Arngrímssyni.

Leikstjóri Gyllta drekans er Kristín Eysteinsdóttir. Einlæg túlkun hennar á verkinu skiptir sköpum og er þarna margt mjög vel gert.

Gyllti drekinn er vandað leikrit, ekki laust við óhugnað og því ekki við hæfi viðkvæmra þrátt fyrir stefnu leikstjóra og höfundar að segja söguna án augljósrar hluttekningar.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *