Ísland yfir og allt um kring

Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Mörg kunnugleg andlit á Keflavíkurflugvelli þennan morgun. Ragnheiður á Rithöfundasambandinu er mætt með nýja tösku og Forlagspostulinn Jóhann Páll hefur komið sér fyrir á kaffihúsinu með stríðnisbrosið sitt, Guðrún konan hans ekki langt undan fremur en hún Guðrún mín. Þriðja Guðrúnin, Vilmundardóttir, er innan seilingar líka, klár í slaginn fyrir hönd bjartsýna forlagsins. Hin margreynda Silja lætur sig ekki vanta og Egill Helgason er þarna á sínu sérstaka vappi. Einhver hefur orð á því í rananum að farmurinn sé dýrmætur en aðrir eru á því að gott væri að skipta út ef illa færi.

Menningarfréttamaðurinn Jórunn Sigurðar situr við gluggann í sætisröðinni okkar, tilbúin að fanga herlegheitin á band. Fyrsti landnámsmaðurinn var fjóra daga á leiðinni en hafði enga servíettu, segir á munnþurrkunni sem flugfreyjan réttir mér. Við verðum á fjórða tíma. Jón Gnarr kemur út af salerninu yfir Norðursjó, hálfdaufur á svip í óburstuðum skóm. Við töskubandið á flugvellinum í Frankfurt ræðum við Forlagspostulinn um  meinta tvíkynhneigð konunnar sem hefur boðist til að hýsa okkur í gegnum Couchsurfing-vefinn. Frammi bíður Sigtryggur Sögueyjarformaður á hvítri skyrtu eftir fyrirmennunum. Leigubílstjórinn angar, ég er á báðum áttum. Heimilisfangið vefst fyrir honum, hann vill laga það til en Guðrún andæfir. Á 170 km hraða talar hann í síma, á ensku og öðru framandlegu máli, skoðar kortið sem Guðrún réttir honum og stillir gps-tækið. Hann kemur okkur þó á áfangastað og allt stemmir, sonur konunnar tekur á móti okkur, vísar okkur á litla íbúð og fylgir okkur síðan á bókamessuna. Eftir nokkurt ráp um langa ganga finnum við salinn þar sem setningarathöfnin á að fara fram. Vopnaleit við innganginn. Kristján Bóka stífpressaður og ábúðarmikill fyrir innan. Gerður Kristný stendur uppi við súlu álengdar, rétt eins og hún sé gyðja út úr Snorra-Eddu. Bóka-Benni brosir hringinn. Guðrún áttar sig skyndilega á því að hún er með boðsmiða fréttakonunnar undir höndum, Jórunn hafði beðið hana að halda á honum meðan hún næði sér í drykk. Á síðustu stundu birtist Jórunn, gustmikil og andstutt, hefur hlaupið um allt í leit að miðanum. Okkur er vísað til sætis framan við kvikmyndavélarnar, beint fyrir aftan Bjartsáhöfnina, og mundum heyrnartólin. Guðrún stendur upp til að svipast um bekki en myndasmiðurinn fyrir aftan biður hana vinsamlegast að fá sér sæti aftur. Eitthvað byrjar athöfnin sérkennilega, skruðningar heyrast, einhver tæknibrella virðist hafa farið forgörðum. Ég kveiki á tólunum þegar formaður þýska bókasambandsins stígur í pontu, í útliti eins og Dominique Strauss-Kahn, og heyri þýða rödd Gauta Kristmannssonar. Minn mættur til að túlka á íslensku og Sabine konan hans í hina áttina.

Íslenski skálinn á Bókamessunni. Mynd: Egill Jóhannsson.

Formaðurinn segir að í Þýskalandi sé 60% rafbóka halað niður ólöglega; Stefáni Hjörleifssyni hljóðbókaútgefanda þykir það ekki mikið. Svo kemur samarekinn ráðamaður og því næst borgarstjórinn sem segist hafa fengið nýju þýðingarnar á Íslendingasögunum að gjöf og hyggist lesa öll bindin. Haha. Loks er röðin komin að Íslendingi, sjálfur Arnaldur Indriðason hefur upp raust og talar um auðmýkt og vont veður. Ekki er hin kúpta Guðrún Eva Mínervudóttir síðri, segir að amerísku bíómyndirnar sem hún hafi séð séu mun fleiri en íslensku bækurnar sem hún hafi lesið. Ég bíð eftir að listrænn viðburður hefjist, en þá stígur þýski utanríkisráðherrann fram. Hann talar lengi og er fyrr en varir kominn út í sálma um Evrópusambandið, fagnar umsókn Íslands og uppsker klapp flestra annarra en forseta Íslands. Ráðherrann prjónar við ræðuna, greinilega ekki fengið klapp lengi, kannski ekki áttað sig á því að fólkið klappaði af því það hélt að ræðunni væri lokið, stingur Guðrún að mér. Ólafur Ragnar klifrar að lokum upp á sviðið og flytur þjóðlega ræðu þar sem hann nafngreinir nokkra karlhöfunda en gleymir að minnast á kvenkynið eins og Gerður Kristný bendir á í Fésbókarfærslu síðar.

Svo troðast allir út og áleiðis að íslenska skálanum: Ehrengast Island blasir við á stórum borðum. Inni eru risatjöld sem á er varpað myndum af fólki að lesa bækur heima hjá sér. Stemmningin er dempuð, ró og friður. Æðstiprestur Halldór Guðmundsson vildi flytja Ísland til Þjóðverja og það hefur tekist. Allt í einu lifnar einhver myndin og manneskjan fer að lesa upphátt. Í teningslaga tjaldi í miðjunni eru gamalkunn landslagsmyndskeið á fimm vegu; landið er víst partur af okkur. Sumir leggjast og fylgjast dolfallnir með, eina stúlku hitti ég sem horfði á átján umferðir í rykk. Aðrir eiga eftir að hlýða á hverja höfundarkynninguna á fætur annarri eða dvelja löngum stundum í setustofunni innst, blaða í bókum, fá sér kaffi, spjalla við Íslandsvini, leita að bókum eftir sig í hillunum. Þýskt par hittum við, íslenskumælandi, sem rekur upp stór augu þegar það heyrir að við séum frá Ísafirði, hafði keypt sér hús í Hnífsdal.

Íslenski skálinn á bókamessunni. Mynd: Egill Jóhannsson.

Á  miðvikudagsmorgni hefst leikurinn fyrir alvöru. Á bás íslensku útgefendanna er Kristján Bóka ábúðarmikill enda básinn fullur af ráðamönnum. Össur, Svandís, Þorgerður Katrín og Gunnar Snorri sendiherra og fleiri. Ég ráfa yfir á aðra bása, tek bæklinga og spyr um smásögur frá fjarlægum löndum eins og Aserbasjan, Malasíu, Írak og Íran. Fæ mismunandi móttökur, sums staðar virðast menn ekki vita hvað smásaga er. Ég fer með þýðandanum mínum að finna ritstjóra hjá þýsku forlagi, þær kannast við bókarkaflann úr Feigðarflani sem Sagenhaftes hafði sent þeim og eru jákvæðar. Hitti Kolbrúnu Haraldsdóttur og Hubert Seelow sem höfðu ritstýrt þýðingum á smásögum eftir mig og fleiri höfunda. Birnirnir Gunnar og Skúli eru mættir galvaskir til að kynna Gunnar Gunnarsson og Pétur Gunnarsson hefur verið að kynna Þórberg. En hvar er Guðbergur? spyr einhver. Og hvar er smásagan? Hún er m.a. á jarðlestarstöðinni, Die Schönsten Erzhälungen Islands, og ég á framlag þar líka; rogginn yfir því. En Gyrðir er víst væntanlegur, segja þeir hjá Uppheimum, talsverður áhugi á smásögunum hans eftir Norðurlandaverðlaunin. Og Hallgrímur Helga er mættur í sófann og talar um þagnarmenninguna á Íslandi, fer á milli þýsku og íslensku; þekkir sín takmörk, skárra en að klæmast á þýskunni eins og henti Gnarrinn og Örninn Einar. Sjón hefur stillt sér upp fyrir framan kvikmyndavél frammi á gangi og í einu skotinu stillir Einar Kára sér upp fyrir ljósmyndara eins og hann sé af ætt Sturlunga. Kristín Steins situr á kumpánlegu spjalli við þýskan blaðamann og eitt hádegið er Arnaldur mættur í bláa sófann sem þýsk sjónvarpsstöð sýnir beint frá. Spyrillinn er fullur lotningar, talar margsinnis um hvað Arnaldur sé frægur og þá ekki síður persónan Erlendur. Arnaldur tjaldar íslensku en hinn ofurmælski Arthúr Björgvin þýðir beint; haugur af fólki fylgist með. Umberto Eco næstur á eftir honum. Jón Kalman bankar kankvíslega í hausinn á mér með upprúlluðu blaði, kannski Zeit Literatur sem hann er sjálfur í og dreift er á messunni. Siggi Svavars siglir á milli funda; 36 fundir á þremur dögum. Í íslenska skálanum er Einar Már mættur með sagnaþulinn Hómer sem getur ekki ímyndað sér að í regngráu tilbreytingarleysi Reykjavíkur búi sagnaþjóð. Einar segir að bankamennirnir hafi notað tungumálið til að ráðskast með okkur, við séum nú að endurheimta það. Andri Snær heldur áfram að fylgja Draumalandinu eftir, mikilvægustu bók aldarinnar. Við Gunnar Dungal erum allt í einu lentir á óformlegum fundi með Karitas úr menntamálaráðuneytinu að ræða eftirfylgni fyrir hönd Bókmenntasjóðs. Þorgrímur Þráins stendur upp fyrir gamalli  konu, vaxinn upp úr takkaskónum og kann sig. Þórarinn Eldjárn gengur yfirvegaður um, Unnur konan hans gaukar að mér fallegri athugasemd. Úti í bæ má finna nokkur fornsagnahandrit í trjástofnum í innsetningu Gabríelu Friðriks; vörðurinn hleypur á milli stofnanna eins og hann óttist að þau hverfi. Eiríkur Norðdahl gerir lukku með óhefðbundnum ljóðagjörningi eitthvert kvöldið, orðinn gamall í hettunni þótt kornungur sé. Steinunn Sigurðar er þar eins og annars staðar og hin djúpúðuga Auður Ava að ógleymdri Kristínu Marju sem er að koma úr langri upplestrarferð um Þýskaland. Og svo er það danslistin og tónlistin, íslensk list yfir og allt um kring eins og vera ber.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *