Lífið er yndislegt

Gunnar Helgason
Mamma klikk og Pabbi prófessor
Mál og menning, 2015 og 2016
Gunnar Helgason sló í gegn með Fótboltasögunni miklu, sagnabálkinum um tilfinningasama fótboltaguttann Jón Jónsson, og þar áður hafði hann skrifað dágóðan slatta af bókum fyrir börn. Fyrst skrifaði hann tvær bækur um félagana Gogga og Gjóna (1992 og 1995). Þá kom út bókin Grýla árið 1997 og Nornin dularfulla og gauksklukkan árið 2010. Gunnar hefur vaxið með hverri bók og verðskuldað hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir bækur sínar. Hér er fjallað um nýjustu bækur Gunnars, Mömmu klikk frá árinu 2015 og framhald þeirrar bókar, Pabbi prófessor, sem er nú nýútkomin. Sú fyrrnefnda hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2015 og jafnframt hefur Þjóðleikhúsið tryggt sér réttinn til að setja söguna upp á svið.

Í fyrri bókinni getur Stella varla á sér heilli tekið sökum þess hve hallærisleg og áberandi móðirin er og einsetur sér að „breyta mömmu“, sama hvað það kostar.
Stella, sem er alveg að verða þrettán ára í Mömmu klikk, er sólin sem allt snýst um í báðum bókum sem fjalla um hversdagleg ævintýri hennar og samskipti við fjölskyldu og vini. Einst og titlarnir gefa til kynna tengist fyrri bókin meira móður hennar, ópersöngkonunni sem bíður eftir stóra tækifærinu, og sú seinni föðurnum, prófessor viðutan sem vinnur svo mikið að hann má varla vera að því að halda heilög jól. Í fyrri bókinni getur Stella varla á sér heilli tekið sökum þess hve hallærisleg og áberandi móðirin er og einsetur sér að „breyta mömmu“, sama hvað það kostar. Móðirin er afspyrnu hress karakter en hugsar jafnframt mjög vel, ákaft og á frumlegan máta um velferð barna sinna. Hún má ekki til þess hugsa að þau séu beitt misrétti á nokkurn hátt. Þetta kemur stundum einkar hjákátlega út, til að mynda þegar mamma umbreytir sér í „arabíska tuskukonu“ í smartri Zöru-verslun. Þá þarf Stella hreinlega að bakka inn í fatarekka til að fela sig. Í öllu þessu er vitaskuld fólgin lexía fyrir Stellu en hún þarf að læra að elska fólkið sitt, bæði ættingja og vini, eins og það er og að það er hreinlega betra að takast á við þau vandamál sem að manni steðja augliti til auglits – eins og mamma gerir – í stað þess að fara í feluleiki með þá.

Stella er uppfull af efasemdum um hæfileika föður síns til að halda heilög jól sem eiga að vera nákvæmlega svona en ekki hinsegin.
Pabbi er í kastljóstinu í næstu bók en þá er mamma rokin til útlanda að elta drauma sína og hefur skilið pabba eftir með börnin þrjú, þ.e. Stellu, Sigga litla bróður og Palla stóra bróður. Hingað til hefur mamma alltaf séð til þess að jólin gangi eins og smurt – gætt þess að allt sér tandurhreint, viðeigandi smákökur bakaðar, jólakort send o.s.frv. Stella er uppfull af efasemdum um hæfileika föður síns til að halda heilög jól sem eiga að vera nákvæmlega svona en ekki hinsegin. Hún reynir eins og hún getur að halda í vonina og pabbi virðist ekki ætla að standa undir hóflegum væntingum hennar. Stella ákveður þá að taka málin í eigin hendur og afleiðingar þess eru anski skrautlegar og lærdómurinn ef til vill sá að maður verður að treysta fólki til að gera það sem það segist ætla að gera.

Stellusaga er bráðsmellin og skondin gleðisprengja um Stellu, vini hennar og fjölskyldu og sá boðskapur sem fjallað hefur verið um hér á rétt á sér innan íslenskra barnabóka. Bækurnar eru þó um ýmislegt fleira. Fyrst og fremst eru þær um þroska Stellu sem er að breytast úr barni í ungling. Þetta er ferli sem er allt í senn hræðilega vandræðalegt, ofsalega skemmtilegt og ferlega erfitt. Þess utan þráir Stella fátt annað en vera venjuleg og það er varla mögulegt með svona foreldra! Stór hluti af þeim þroska sem Stella tekur út í bókunum tveimur tengist einmitt því að læra að vera hún sjálf. Þetta er erfitt fyrir alla unglinga og án efa öðruvísi og erfiðara að mörgu leyti fyrir þá sem eru bundnir við hjólastól.

Það er mjög sjaldgæft að söguhetjur í íslensku barnabókum séu hreyfihamlaðar eða hafi einhvers konar líkamlega skerðingu.
Það er mjög sjaldgæft að söguhetjur í íslensku barnabókum séu hreyfihamlaðar eða hafi einhvers konar líkamlega skerðingu. Nonni úr bókunum Nonni og Selma – fjör í fyrsta bekk (2007) og Nonni og Selma – fjör í fríinu (2008) eftir Brynhildi Þórarinsdóttur er eina slíka íslenska aðalsöguhetjan sem kemur upp í hugann. Aukapersónur sem nota hjólastól eða önnur hjálpartæki eru algengari en til að mynda er slíka persónu að finna í bókinni Gula sendibréfinu eftir Sigrúnu Eldjárn. Í Stellusögu er afskaplega lítið talað um þá staðreynd að Stella er í hjólastól og raunar veit lesandinn varla af hverju svo er. En þótt Stella geti ekki gengið getur hún flest allt annað sem aðrar stúlkur geta og gerir það flest. Á þetta er lögð áhersla í bókunum tveimur, það sem hún hefur fram að færa og við verðum öll að leggja eitthvað – mismikið þó – á okkur til að fá og geta gert það sem við viljum. Sumt er þó óneitanlega öðruvísi einmitt vegna hjólastólsins og sum vandamál – og brandarar – bókarinnar tengjast honum. Til að mynda má rekja ofverndun mömmu og framkomu ömmu í garð Stellu til hjólastólsins. Stella lendir líka í vinkonuvandræðum vegna hans hans, sem síðar reynast einsdæmi, og þarf jafnframt að taka á eigin fordómum í garð fólks í hjólastólum. Ástin bankar líka upp á en hjólastóllinn flækist fyrir, bæði fyrir verðandi ástmanni og Stellu sjálfri.

Mamma klikk og Pabbi prófessor eru báðar skondnar og skemmtilegar bækur, vel skrifaðar og ná vel að fanga anda unglingsstúlkunnar sem vill hvort tveggja í senn hvíla í faðmi foreldra sinna og slíta sig frá þeim.
Stella veit að mamma hefur hagsmuni hennar að leiðarljósi en getur þó ekki að því gert að skammast sín fyrir hana þegar hún tekur skala í smörtum tískufatabúðum. Sömuleiðis veit hún vel að sannur vinur skammast sín ekki fyrir félaga sína, sama hvernig þeir eru, en engu að síður vill hún helst ekki vera með Blæ, félaga sínum sem einnig er í hjólastól, annars staðar en í skólanum eða heima hjá sér. Þá veit hún að hvorki hún sjálf né Þór, strákurinn sem hún er skotinn í, eigi að nota hjólastólinn sem afsökun fyrir því að opinbera tilfinningar sem og að hann eigi ekki að koma í veg fyrir að þau nái saman. Það er ákaflega jákvætt að skrifað sé um börn og unglinga með skerðingar og sömuleiðis gott að Gunnar skuli ekki skrifa um Stellu sem fórnarlamb heldur geranda í eigin lífi. Flækja og flétta snúast ekki um þá staðreynd að Stella er í hjólastól heldur aðra hluti sem hefðu vel getað komið upp hvort sem hjólastóllinn væri fyrir hendi eða ekki. Vegna hans verða vandamálin og úrlausn þeirra þó ögn öðruvísi en vanalegast hefði verið. Það má hins vegar vel spyrja sig að því hvort þarna sé teiknuð upp raunsæ mynd af unglingi í hjólastól sem aftur vekur upp þá spurningu hvort slík mynd sé nauðsynleg, hvort ekki sé í lagi að skrifa skemmtibók um unglingsstelpu í hjólastól án þess að velta sér of mikið upp úr því.

Mamma klikk og Pabbi prófessor eru báðar skondnar og skemmtilegar bækur, vel skrifaðar og ná vel að fanga anda unglingsstúlkunnar sem vill hvort tveggja í senn hvíla í faðmi foreldra sinna og slíta sig frá þeim. Gunnar er jafnframt laginn við að skapa sérkennilega en um leið sannfærandi persónur á borð við foreldra Stellu, ömmuna snobbuðu og bræður hennar. Aurapúkinn Hanni granni er án efa mín uppáhaldspersóna. Grínið verður þó stundum helst til farsakennt og mikið en þetta dregur úr trúverðugleika sagnanna. Þetta breytir því þó ekki að á meðan brandararnir hrúgast upp síðu eftir síðu tekst Gunnari að fjalla um vandamál Stellu af mikilli lagni og innlifun og niðurstaðan er fyrst og fremst sú að lífið er yndislegt.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila