„Af hverju að rýna?“

„Gagnrýni er ómissandi þáttur í menningunni, sem er þversagnakennd sem slík, en í ósannindum sínum er gagnrýnin jafn sönn og menningin er ósönn. Gagnrýni er ekki ranglát þegar hún brýtur til mergjar – þetta kann að vera það besta við hana – heldur þegar hún verst með því að leggja niður varnir.“ [1]

Adorno
Theodor W. Adorno

Svo skrifaði Theodor W. Adorno árið 1947 í ritgerð sinni Menningargagnrýni og samfélag sem kom út árið 1947. Vangaveltur um hlutverk listgagnrýnandans í síbreytilegum heimi hafa lengi verið í brennidepli. Adorno segir menningargagnrýni verða fyrir árásum úr öllum áttum, hún er hluti af hinum ríkjandi strúktúr samfélagsins og hún verður fyrir árásum vegna þess að hún tjáir gjarnan skoðanir sem gætu fallið í grýttan jarðveg.[2] Gagnrýnendur hafa oftar en ekki gegnt hlutverki fréttamanna, sem vísa mönnum veginn um frumskóg afþreyingar en hlutverk þeirra þróaðist út í að veita sérfræðiálit og dæma.[3]

Undirtónninn í ritgerð Adornos er sá að þegar menningin og gagnrýnendur hennar eru ofurseld markaðsöflunum verða þau bitlaus.
Margir gagnrýnendur hafa á síðustu áratugum, líkt og listamenn, öðlast mikla frægð og hálfgerðan stjörnustimpil og eru vel þekktir í listheiminum. Í ritgerð Adornos kemur fram að fagmennska gagnrýnandans sé ekki „aðalatriði heldur í besta falli aukaafurð og því minni sem hún er, þeim mun ákafari verða sleggjudómarnir og fylgispektin sem koma hennar í stað.“[4] Adorno skýrir hvernig samfélaginu er stýrt af ríkjandi viðhorfum þar sem allt er aðlagað eftir hentisemi markaðsins.[5] Menningargagnrýnandinn er ofurseldur þeim örlögum að þurfa að reyna að selja sem flest eintök af því tímariti eða blaði sem hann skrifar fyrir, en slíkt hið sama er oft sagt um listamanninn sem er ofurseldur fjárfestum og galleríum. Áður fyrr ákvarðaði gagnrýnandinn að miklu leyti verðmæti listaverka en nú hefur það í auknum mæli fallið í hlut markaðsaflanna.[6] Undirtónninn í ritgerð Adornos er sá að þegar menningin og gagnrýnendur hennar eru ofurseld markaðsöflunum verða þau bitlaus. Hann segir að menningargagnrýnin sé háð markaðsöflunum og hafi upphaflega orðið til á því sviði og ljúki för sinni á sama stað, sem „einföld boðskipti“.[7]

after-criticismÍ inngangi að bókinni After Criticism hefur listfræðingurinn Gavin Butt tekið saman þær hugmyndir sem ríkjandi eru um stöðu myndlistargagnrýninnar í samtímanum. Butt segir marga gagnrýnendur og listamenn telja að aldagamlar hugmyndir um hlutverk þeirra séu vafasamar og að þeir efist um hlutverk sitt sem sérhæfða greinendur með virka menningarþátttöku; að fræðimaðurinn sé framleiðandi menningarefnis en ekki hlutlaus áhorfandi. Margir gagnrýnendur hafa af þessum sökum dregið sig í hlé að sögn Butts; gagnrýnendur og listamenn vilji ekki tala frá sjónarhorni sem talið er mengað af forréttindum og völdum.[8]

Margir gagnrýnendur hafa af þessum sökum dregið sig í hlé að sögn Butts; gagnrýnendur og listamenn vilji ekki tala frá sjónarhorni sem talið er mengað af forréttindum og völdum.
Butt segir miklar breytingar hafa orðið á viðhorfinu gagnvart stöðu myndlistargagnrýni og mikilvægi hennar — ekki síst meðal gagnrýnendanna sjálfra.[9] 

Listfræðingurinn Benjamin Buchloh rekur, líkt og Adorno, hvernig vettvangurinn fyrir gagnrýni hafi fjarað út í hinu kapítalíska samfélagi 20. aldarinnar vegna þess að stórfyrirtækin hafa teygt sig inn á svið fagurfræðilegrar framleiðslu. Þar að auki eru stórfyrirtækin sífellt farin að taka sér meira pláss í listheiminum og nefnir Buchloh þar sem dæmi samstarf listamannsins Matthews Barney og tískurisans Hugo Boss.[10] Þá hafa sýningarstjórar farið að taka tillit til og nýta sér samskiptamiðlanotkun gesta á söfnum með því að merkja inn hvar best sé að taka ‘Instagram-vænar’ myndir og hvetja gesti til þess að dreifa efni sínu á miðlunum. Þannig geta söfnin markaðssett sig án kostnaðar og eigendur samskiptamiðla græða að sama skapi.[11] Einnig eru listkaupstefnur sífellt að verða meira áberandi í listheiminum sem byggir á sölu og tengslamyndunum listamanna, galleríista og fjárfesta.

SevenDaysintheArtWorldÍ bókinni Seven Days in the Art World rekur Sarah Thornton hvernig áhugi almennings á myndlist tók að stóraukast undir lok 20. aldar sem olli gífurlegri útþenslu listaverkamarkaðarins. Hún rekur auknar vinsældir myndlistar meðal annars til hækkandi menntunarstigs almennings, að margir kjósi afþreyingu sem krefjist virkni og athygli, hnattvæðingar og að listaverkaeign sé orðin að stöðutákni vegna hækkandi verðs.[12] Það lítur því út fyrir að hið kapítalíska samfélag verði óðar búið að gleypa listgagnrýni og safnamenningu, nú ákvarða galleríistar og fjárfestar hvað er verðmætt og tekst að skapa bólumyndun á verkum eftir geðþótta og söfnin elta.

Fræðasamfélagið virðist vera sammála um að stöðnun hafi átt sér stað í menningargagnrýni, og veltir Butt upp spurningum sem hafa bergmálað í listheiminum um hvort hið fræðilega svið sé nægilega frjór jarðvegur til að fjalla um listir, hvort listin hafi þroskast frá fræðasviðinu, hvort fræðin hafi skapað of þrönga rás um það hvernig má fjalla um listir, er frelsun frá þessum íþyngjandi fræðilegu hugmyndum væntanleg?[13] Gagnrýni er póst-teorísk að sögn Adorno, þ.e. hún hefur orðið að því valdi sem henni var ætlað að grafa undan. Til að halda áfram að vera gagnrýnin þurfi hún að slíta sig frá stofnanabundnum ferlum og hugsunum.[14]

Umfjöllun um myndlist á Íslandi þykir fremur lýsandi en gagnrýnin, sem þýðir að ekki er rýnt djúpt í sýningu og tekin afstaða til þess hvort hún sé áhrifamikil, góð o.fl.
Adorno lýkur ritgerð sinni á þeim orðum að nú sé „menningargagnrýnin stödd á lokastiginu í díalektík menningar og villimennsku. Á meðan hinn gagnrýni andi dvelur við sjálfhverfar hugleiðingar stenst hann algjörri hlutgervingunni engan snúning, hún hafði framrás andans að forsendu en býst nú til að gleypa hann í sig.“[15] Þó Adorno hafi skrifað ritgerð sína eftir seinni heimsstyrjöldina og gagnrýni hér að stríðið falli í skuggann af sjálfhverfri menningargreiningu er að mínu mati hægt að snúa hugmyndum hans upp á myndlistarrýni í dag. Umfjöllun um myndlist á Íslandi þykir fremur lýsandi en gagnrýnin[16], sem þýðir að ekki er rýnt djúpt í sýningu og tekin afstaða til þess hvort hún sé áhrifamikil, góð o.fl. heldur fjallað á hlutlausan hátt um sýninguna eins og um frétt væri að ræða.

Vettvangurinn til þess að skrifa um myndlist er nokkuð blómlegur í dag. Bæði Morgunblaðiðið og Fréttablaðið hafa gagnrýnendur á reiðum höndum, þá eru þættir í útvarpi og sjónvarpi tileinkaðir myndlist og skammlíf tímarit og vefmiðlar hafa dúkkað upp við og við. Þrátt fyrir það er umræðan hlutlaus og lýsandi fremur en gagnrýnin. Hér verða teknir fyrir tveir mánuðir af útgáfu Morgunblaðsins, september og október 2015, og rýnt í umfjöllun blaðsins um myndlist, og til samanburðar sömu mánuðir fimmtíu árum áður, þ.e. árið 1965. Þeir tveir mánuðir, september og október, sem voru skoðaðir voru valdir af hálfgerðu handahófi. Reynt var að forðast að velja mánuði sem væru óvenju tíðindamiklir í íslensku samfélagi, t.d. í kringum Alþingiskosningar eða stóra viðburði þar sem menningarumfjöllun gæti mætt afgangi. Þessi litla gagnaöflun gefur vísbendingu um stöðu myndlistagagnrýni í prentmiðlum nú í samanburði við árið 1965 en til þess að fá marktækar niðurstöður þyrfti að skoða lengra tímabil og fleiri ár.

morgunbladid-1965

Hér verða teknir fyrir tveir mánuðir af útgáfu Morgunblaðsins, september og október 2015, og rýnt í umfjöllun blaðsins um myndlist, og til samanburðar sömu mánuðir fimmtíu árum áður, þ.e. árið 1965.
Skráðar voru þrjár tegundir af menningarumfjöllunum: 1) sýningarrýni með nafngreindum gagnrýnanda sem lýsir skoðun sinni, 2) hlutlausar frásagnir af sýningum sem líktust fréttum frekar en rýni og eru að líkindum skrifaðar út frá frásögn listamanns eða sýningarstjóra, gjarnan nafnlausar og 3) stuttar tilkynningar um sýningar. Alls voru 28 færslur í blöðunum frá árinu 1965 en 62 færslur í blöðunum frá árinu 2015. Þess ber þó að geta að Morgunblaðið kom ekki út á mánudögum árið 1965 svo alls voru þetta 53 tölublöð frá árinu 1965 en 61 tölublað frá árinu 2015. Blöðin eru svipuð að þykkt ef dregin eru frá auglýsingablöð og sérblöð sem gjarnan fylgdu blöðum ársins 2015. Þetta sýnir að árið 1965 birtist menningarumfjöllum að meðaltali annan hvern dag í Morgunblaðinu en daglega árið 2015. Ef tilkynningar, sem voru stór hluti færslna árið 2015, eru teknar út úr menginu er hlutfallið á milli áranna fimmtíu jafnt, eða í þriðja hverju blaði á báðum tímabilum.

Menningarumfjöllun
Árið 2015 voru 3 greinar með sýningarrýni (a – græn súla), 17 hlutlausar frásagnir af sýningum í líkingu við fréttir (b – rauð súla) og 42 tilkynningar um sýningar (c – gul súla). Árið 1965 voru 4 greinar með sýningarrýni (a – græn súla), 14 hlutlausar frásagnir af sýningum í líkingu við fréttir (b – rauð súla) og 10 tilkynningar um sýningar (c – gul súla). Það vekur athygli að þrátt fyrir talsvert meiri umfjöllun um menningu árið 2015 voru fleiri greinar með myndlistagagnrýni fimmtíu árum áður. Af þessu má sjá að tilkynningar hafa snaraukist, og má af nokkru sjálfstrausti draga þá ályktun að fleiri myndlistasýningar hafi verið á Íslandi árið 2015 en fimmtíu árum áður. Það vekur því furðu að ekki skuli fleiri sýningar vera rýndar, þegar menningarlíf er jafn blómlegt og tölurnar bera merki um. Lognmolla er í skrifum um íslenska myndlist og tilhneigingin virðist vera sú að skrifa á hlutlausan, lýsandi hátt.

Lognmolla er í skrifum um íslenska myndlist og tilhneigingin virðist vera sú að skrifa á hlutlausan, lýsandi hátt.
Gagnrýnandinn tekur ekki afstöðu til sýningarinnar heldur fjallar aðeins um það sem fyrir augu hans ber og segir frá verkunum á lýsandi hátt. Þó algengastar væru tilkynningar, þar sem í stuttu máli var sagt frá hvenær opnun sýningar yrði eða að nú færi hver að verða síðastur, var einnig algengt að fréttamenn tvinnuðu saman stutt viðtöl um listamenn ásamt því að segja í stuttu máli frá sýningunni, hugmyndum á bakvið hana og/eða við hvaða miðla listamaðurinn fengist. Teljast hlýtur eðlilegt fyrir þroska listheimsins, og listamannanna og fræðimannanna innan hans, að gagnrýnin umræða sé tekin um hvað er vel heppnuð myndlist, hvort ásetningi sýninganna hafi verið fullnægt, hvernig listin er að þróast o.fl. Hlutlaus, lýsandi umfjöllun skilar okkur opnum tékka þar sem hættan verður sú að öll list sé lögð að jöfnu — engin list illa heppnuð né vel heppnuð, engar sýningar bitlausar né beittar. Samtímalist er mun flóknari viðfangs en list fyrri tíma og hefur haft áhrif um víða veröld á hvernig við hugsum um, lesum um, skynjum og rýnum list. Hún leggur oft áherslu á hversdagslega hluti, þátttöku áhorfenda og list sem afþreyingu svo erfitt getur reynst fyrir fræðimenn að bregðast við og finna sér nýtt hlutverk í breyttum heimi.

Í upphafi greinar var vitnað í Theodor W. Adorno sem sagði gagnrýni vera rangláta þegar hún verst með því að leggja niður varnir. Þrátt fyrir að gagnrýni sé hluti af valdastrúktúr samfélagsins og sé þverstæðukennd í eðli sínu er hún mikilvæg — ómissandi í raun, eins og Adorno segir. Án hennar skrælnar listin því hún þarf díalóg til að knýja fram þroska og framvindu.

Grein þessi var unnin sem verkefni í MA-námskeiðinu Menningarfræði og þjóðfélagsgagnrýni við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[line]
[1] Theodor W. Adorno, „Menningargagnrýni og samfélag“, þýð. Benedikt Hjartarson og Jón Bjarni Atlason, Ritið: 1/2016 — Loftslagsbreytingar, frásagnir, hugmyndafræði, 204.
[2] Sama, 210.
[3] Sama, 202.
[4] Sama, 202.
[5] Sama, 202.
[6] Jón B. K. Ransu, Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi, Reykjavík: Jón B. K. Ransu, 2012, 52.
[7] Adorno, „Menningargagnrýni og samfélag,“ 207-8.
[8] Gavin Butt, „Introduction: The Paradoxes of Criticism”, After Criticism, Oxford: Blackwell Publishing Ltd, 2005,  2-3.
[9] Sama, 1.
[10] Sama, 1-2.
[11] Sophie Gilbert, „Please Turn on Your Phone in the Museum,” The Atlantic, október 2016.
[12] Sarah Thornton, Seven Days in the Art World, London: Granta Publications, 2009, xv-xvi.
[13] Butt, „Introduction: The Paradoxes of Criticism,“ 2.
[14] Sama, 4-5.
[15] Sama, 217-218.
[16] Sjá samantekt Jóns B. K. Ransú á hugmyndum James Elkins um ólíkar tegundir gagnrýnenda, Morgunblaðið, 2. desember 2006.

Um höfundinn
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir er meistaranemi í listfræði í Háskóla Íslands ásamt því að leggja stund á Miðausturlandafræði. Hún er einn stofnanda Plan-B art festival.

[fblike]

Deila