Ástin: saltið í tilverunni

Carol
Leikstjóri: Todd Haynes
2015
Kvikmyndin Carol var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna í ár, meðal annars fyrir besta leik kvenna í aðal- og aukahlutverki, handrit og búninga. Engin hlaut hún verðlaunin í það skiptið en hefur engu að síður sópað að sér tilnefningum og verðlaunum víða, til dæmis var hún valin besta myndin – og besta hinsegin myndin – á GALECA verðlaunahátíðinni (Gay and Lesbian Entertainment Critics Association).

Carol gerist í New York á árunum 1951–1952 og segir frá ástarsambandi tveggja kvenna, unga ljósmyndarans Therese Belivet (Rooney Mara) og Carol Aird (Cate Blanchett), sem er (líklega) á fertugsaldri, vel stæð og í þann mund að skilja við eiginmann sinn, Harge (Kyle Chandler). Ástin kviknar í leikfangadeild í vöruhúsi, þar sem Therese vinnur, rétt fyrir jól þegar Carol kemur í þeim erindagjörðum að kaupa gjöf handa dóttur sinni. Á milli kvennanna fara athugular og merkingarþrungnar augnagotur og þegar Carol gleymir hönskunum sínum á afgreiðsluborðinu verður ekki aftur snúið; Therese skilar þeim, Carol býður henni út að borða í þakklætisskyni og í framhaldinu þróast náin vinátta sem er frá upphafi þrungin rafmagnaðri erótík.

 

Í grunninn er hér um að ræða fremur hefðbundna ástarsögu; tvær manneskjur hittast og fella hugi saman en þegar hamingjan er sem mest kemur eitthvað upp á og leiðir elskendanna skilja, í það minnsta tímabundið, með tilheyrandi örvæntingu og tilfinningaflækjum. Sumar ástarsögur enda vel og elskendurnir ná saman á ný en aðrar gera það ekki – og í tilfelli Carol kemur ekki í ljós hvort verður uppi á teningnum fyrr en á síðustu sekúndum myndarinnar. Babbið sem kemur í bát Therese og Carolar tengist skilnaði þeirrar síðarnefndu og deilu hennar við Harge um forræði yfir dóttur þeirra. Þá erum við einmitt komin að þeim þætti sem gerir þessa ástarsögu frábrugðna mörgum öðrum: ástarsambönd Carolar við aðrar konur, svo sem Therese og æskuvinkonuna Abby (Sarah Paulson), eru ekki bara umdeild heldur lögbrot og því notuð gegn henni í forræðisdeilunni.

ATHUGIÐ – SPENNUSPILLIR! Í eftirfarandi umfjöllun er greint frá sögulokunum og örlögum elskendanna.

PriceOfSaltKvikmyndahandritið er skrifað af Phyllis Nagy og byggt á skáldsögunni The Price of Salt, sem kom fyrst út árið 1952. Höfundur skáldsögunnar notaðist upphaflega við dulnefni, „Claire Morgan“, en það er fremur dæmigert fyrir höfunda bóka sem fjalla um samkynja ástir og koma út á tímum þar sem samkynhneigð er fordæmd og jafnvel ólögleg. Það var ekki fyrr en 38 árum síðar, árið 1990 – þegar bókin var endurútgefin hjá Bloomsbury-bókaútgáfunni með nýjum titli: Carol – að rithöfundurinn Patricia Highsmith, skapari bókanna um herra Ripley og Strangers on a Train (1950), gekkst við því að hafa skrifað bókina um Therese og Carol. The Price of Salt seldist vel á árunum eftir að hún kom út, eða í um milljón eintökum, og var vel tekið, ekki síst af lesbíum og öðrum hinsegin konum sem höfðu ekki úr miklu lesefni um kvennaástir að velja.

PH_small
Patricia Highsmith

Eitt af því sem hefur vakið hvað mesta athygli varðandi skáldsögu Highsmith er að hún endar vel – í sögulok er að minnsta kosti möguleiki á því að konurnar tvær endi saman og samband þeirra fái að lifa. Þetta er, því miður, sjaldséður endir á ástarsögu tveggja kvenna í bókmenntum. Í lesbískum ástarsögum var það nánast regla nær alla 20. öldina – og í raun að miklu leyti enn í dag – að þær enduðu illa og að í það minnsta önnur konan dæi eða „sæi að sér“ og hyrfi í sterkan karlmannsfaðm. Í íslensku samhengi er til dæmis hægt að benda á eina af þeim sárafáu lesbísku skáldsögum sem skrifaðar hafa verið, Z – ástarsögu (1996) eftir Vigdísi Grímsdóttur, en þar deyr einmitt önnur aðalpersónan. Þetta þema var sérlega áberandi á ritunartíma The Price of Salt, eða eins og Highsmith sagði sjálf í eftirmála að endurútgáfu bókarinnar:

The appeal of The Price of Salt was that it had a happy ending for its two main characters, or at least they were going to try to have a future together. Prior to this book, homosexuals male and female in American novels had had to pay for their deviation by cutting their wrists, drowning themselves in a swimming pool, or by switching to heterosexuality (so it was stated), or by collapsing – alone and miserable and shunned – into a depression equal to hell.

Many of the letters that came to me carried such messages as “Yours is the first book like this with a happy ending! We don’t all commit suicide and lots of us are doing fine.”

carol2

Kvikmyndin Carol virðist fylgja söguþræði skáldsögunnar í megindráttum, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fundið á netinu, en um það skal þó ekki fullyrt því bókina hef ég ekki lesið ennþá. Fyrir þá áhorfendur sem ekki hafa lesið bókina, og vita ekki af góða endinum, er óvissan varðandi framtíð sambands Carolar og Therese nær óbærileg og helst fram á síðustu sekúndu. Lokaatriðið er magnað, ekki síst vegna myndatökunnar sem æsir upp spennuna – myndavélin fylgir Therese þar sem hún gengur í átt til Carolar en það er allt eins víst að hún hætti við og flýi; myndin er óskýr og fer inn og út úr fókus, hristist og reikar til, líkt og hugur Therese sem tekur ákvörðunina um framhaldið.

 

Eitt af því sem er áhugavert og afar heillandi við Carol er að söguhetjurnar standa með sjálfri sér og ástinni gagnvart samfélaginu. Þær þroskast hvor á sinn hátt, átta sig á tilfinningum sínum og ákveða báðar að gefa ákveðna hluti upp á bátinn fyrir sambandið. Carol heldur eftirminnilega ræðu þar sem hún afsalar sér forræði yfir dóttur sinni til að þurfa ekki að afneita sjálfri sér lengur en barátta hennar er þó ekki beinlínis slagur við grimmt eða hómófóbískt samfélag, heldur við sáran eiginmann. Harge er engu að síður sympatískur karakter því þegar upp er staðið er hann örvæntingarfullur af því að konan sem hann – og margir áhorfendur – elskar er að renna honum úr greipum. Að öðru leyti mæta Carol og Therese ekki mikilli andstöðu eða fordæmingu og mögulega má halda því fram að það sé ekki að fullu í samræmi við veruleika sögutímans. Það vekur þó í það minnsta von og ánægju í brjósti áhorfandans og hvetur hann jafnvel til að standa með eigin tilfinningum. Enn fremur er sérlega ánægjulegt að hvorug kvennanna reynir að falla að lesbískri steríótýpískri sjálfsmynd, sem oft vill verða heftandi, og þær eru ekki að reyna að vera neitt annað en þær eru: konur sem elskast. Nagy hefur nefnt þetta atriði í tengslum við skáldsögu Highsmith og handritið sem hún byggði á henni: „What still strikes me now,“ segir hún, „is how radical it was in terms of its overall conception — two central figures not giving a rat’s ass about sexual identity. No one frets about being gay; others fret on their behalf.“

carol_cb_a4poster

Ef ég ætti að velja eitt atriði sem heillaði mig mest við Carol yrði það að vera hvernig erótíkin milli Carolar og Therese er undirstrikuð með nærskotum af augum þeirra og augnaráði, svo og höndum og rauðmáluðum nöglum Carolar. Hendur Carolar eru sérstaklega áberandi og þær eru oft í mynd þótt andlit hennar eða aðrir líkamshlutar séu utan rammans. Þar fylgir myndatakan augnaráði Therese en á ljósmyndunum sem hún tekur eru hendur einnig gjarnan í forgrunni. Í stuttu máli má segja að augu og hendur gegni lykilhlutverki í að vekja upp spennu og rafmagnað andrúmsloft í sambandi kvennanna tveggja enda segja augnaráð og handahreyfingar í mörgum tilfellum meira en orð.

Carol er afskaplega vönduð kvikmynd; sagan er vel útfærð og spennandi, kvikmyndatakan er virkur hluti af þematískri heild verksins og búningarnir og umgjörðin öll er falleg og vönduð. Mara og Blanchett eru hreint út sagt frábærar í sínum hlutverkum og aðrir leikarar standa sig einnig vel. Síðast en ekki síst verður að segjast að það er mjög hressandi og vel þegið að sjá fallega og sannfærandi lesbíska ástarsögu sem hvorki er drekkt í klisjum og steríótýpum né endar á dauða eða útþurrkun samkynhneigðarinnar, því það er því miður ennþá allt of algengt.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila