Vaðlaheiðargöng – tilvistarlegur gleðileikur um samband manns og náttúru

Áhorfendur skemmtu sér vel á sýningu leikhópsins Verkfræðingar sem sýndi verk sitt um Vaðlaheiðargöngin á nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu á föstudaginn var. Leikhópurinn samanstendur af Karli Ágústi Þorbergssyni, Aðalbjörgu Árnadóttur, Hilmari Jenssyni og Kolbeini Arnbjörnssyni auk tónskáldsins Gunnars Karels sem stóð fyrir tilþrifamikilli hljóðmynd verksins auk þess að bregða sér í líki heilagrar Barböru, verndara gangagerðar og námuvinnslu. Júlíana Lára Steingrímsdóttir hannaði búninga og sviðsmynd sem sýndi slútandi loft ganganna sem voru á hreyfingu og urðu fremur ógnandi þegar frá leið.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um leiksýninguna Vaðlaheiðargöngin sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.

Sýningin hófst fyrir framan tjaldið á kankvísri úttekt leikenda á upphafi og tilurð ganganna. Það var bráðfyndið og skotið nokkrum föstum skotum. Sennilega könnuðust allir áhorfendur við hið slysalega upphaf gangavinnunnar og umdeilanlegar ákvarðanir ráðamanna.

Annars var allt í þessari sýningu tvírætt. Markmið hennar var eins og segir í kynningu hennar: „Verkið endurspeglar þá ljóðrænu fegurð sem birtist í framkvæmdasögu Vaðlaheiðarganga, sambandi mannlegs hversdagsleika og náttúru og yfirvofandi endalokum alls í kjölfar hamfarahlýnunar.“

Þannig rómuðu persónurnar þrjár aukið umferðaöryggi og öryggi ganganna yfirleitt en hættu því snögglega þegar heitt og kalt vatn byrjaði óforvarendis að fossa úr berginu.  Augljóslega var heilög Barbara ekki að vinna vinnuna sína þar. 

Þá leituðu þremenningarnir sér skjóls í örlitlu húsi (við lygnan straum) og þar spunnu þeir senur sem hverfðust um ótta og fóbíur nútímamannsins sem beinist mjög að því sem hann lætur ofan í sig. Strax eftir þá senu tók við fölskvalaus gleði þremenninganna yfir fjölbreytileika skyndibita á skyndibitastöðum.

Síðasti hluti verksins (hamfarahlýnun og flóð) var ansi súrrealistískur og minnti mig oft á Lísu í Undralandi sem var vel við hæfi í þessari grínaktugu en pólitísku ádeilu.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.