Hvað sem þið viljið 

Fimmtudagskvöldið 12. janúar, frumsýndi Þjóðleikhúsið í kassanum gamanleikinn Hvað sem þið viljið,  „As you like it“, eftir William Shakespeare í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Karl Ágúst Úlfsson gerði söngtexta og þau Ágústa Skúladóttir eru höfundar leikgerðarinnar. Þessi gamanleikur hefur verið sýndur tvisvar áður á Íslandi, árið 1952 í leikstjórn Lárusar Pálssonar og þýðingu Helga Hálfdánarsonar  og aftur 1996 í leikstjórn Guðjóns Pedersen og aftur var notuð þýðing Helga Hálfdánarsonar. Titilinn þýddi Helgi: Sem yður þóknast.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um sýningu Þjóðleikhússins á gamanleiknum Hvað sem þið viljið eftir William Shakespeare.

Söguþráðurinn er flókinn og ekki hlaupið að því að endursegja hann. Persónur og leikendur (og rollur) skipta á milli sín yfir 20 hlutverkum og fara létt með það. 

 Það eru tveir hertogar í verkinu einn góður, þ.e. sá gamli (faðir Rósalindar) og sá nýi og vondi, bróðir hans, Friðrik  að nafni, Sigurður Sigurjónsson leikur báða og nokkur önnur hlutverk að auki og var senuþjófur í þeim öllum. Gamli hertoginn átti dótturina Rósalind (Katrínu Halldóru Sigurðardóttur). Nýi og vondi hertoginn Friðrik á dótturina Selju (Þóreyju Birgisdóttur).

Faðir Orlando var greifinn Róland de Boys sálugi,  Orlando er ungi og fagri sonurinn og eldri bróðir hans, Oliver, öfundar hann og hatar og heldur arfinum fyrir honum svo hann getur sig hvergi hreyft. Hann hataðist við föður Rósalindar og rekur hana burt frá hirð sinni. Þær Selja og Rósalind plotta þá og strjúka báðar út í skóginn þar sem alls konar furðufuglar hafa búið um sig. Þær dulbúa Rósalind sem ungan mann og þegar Orlando rekst á þær tekur þessi kotroskni en sæti strákur það að sér að kenna honum sitt hvað í framkomu við konur.  Sú kennsla  er texti sem hefur verið verklega á undan sinni samtíð á sautjándu öld.  

Nú ætla ég ekki að rekja hinn fyndna og fjöruga gang mála í skóginum og þeim kynusla sem þar er í gangi en allt endar vel og virðulega.  Í sýningunni kemur saman frábær hópur þar sem ástkærir gamanleikarar eins og Siggi Sigurjóns, Guðjón Davíð Karlsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fara á kostum. Hópurinn söng og spilaði eins og englar og Kristjana Stefánsdóttir og Steinunn Ólína eru eigi engar í leiknum eins og þar stendur.  Þýðingar Karls Ágústs Úlfssonar á textunum voru stórgóðar. En það besta við þessa fjörugu og fallegu sýningu var leikgleðin og þokkinn sem var leiðarhnoða í leiknum og enginn skyldi vanmeta hve mikla hæfni þarf til þess að skila því af trúnaði.

Takk fyrir skemmtunina

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.