Orð ársins 2022: Innrás        

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Starkaður Barkarson, verkefnisstjóri hjá sömu stofnun, skrifa um val á orði ársins 2022.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur frá árinu 2018 valið orð ársins á grundvelli gagna sem stofnunin safnar um málnotkun árið um kring. Fjölbreyttum textum er stöðugt bætt við svokallaða Risamálheild en þar er nú gífurlegt magn texta, rúmlega 2,4 milljarðar lesmálsorða úr nútímamáli. Til að velja orð ársins er tíðni orða úr textum seinustu fjögurra ára sem finna má í Risamálheildinni skoðuð og borin saman við tíðni orða sem koma fyrir í þeim textum sem safnað hefur verið á nýliðnu ári. Þar sem einungis gögnum af vefmiðlum og úr Alþingisræðum síðasta árs hefur verið safnað var eingöngu athuguð tíðni orða úr þeim undirmálheildum Risamálheildarinnar til að samanburðurinn yrði marktækur. Kallaðir voru fram þrír tíðnilistar: Listi yfir ný orð árið 2022 sem engin eldri dæmi eru um í Risamálheildinni, listi yfir orð sem birtust tvöfalt oftar árið 2022 en nokkuð annað ár og listi yfir orð sem birtust oftar árið 2022 en samtals næstu fjögur ár á undan.

Þau orð sem rötuðu inn á tíðnilistana voru svo skoðuð og tíu orð valin sem uppfylltu einhver eða sem flest af eftirfarandi skilyrðum:

  • Orðið endurspeglar samtímann eða samfélagsumræðu.
               
  • Orðið hefur möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
               
  • Orðið er lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.
               
  • Orðið er nýtt í málinu eða gamalt orð sem hefur fengið nýja merkingu.

Hér fyrir aftan er sagt frá þeim tíu orðum hverjum fyrir sig sem komu til greina sem orð ársins og skyld orð. Fyrst er fjallað um orðið innrás, en það varð fyrir valinu sem orð ársins 2022, og valið rökstutt. Í framhaldi af því er fjallað um önnur orð sem komu til greina.

Seinustu tvö ár tengdist orð ársins heimsfaraldri kórónuveirunnar: sóttkví árið 2020 og bólusetning árið 2021. Sú umræða sem hefur gnæft yfir allt annað seinasta ár tengist innrásinni í Úkraínu og ýmsum afleiddum vandamálum, bæði efnahagslegum og félagslegum. Á sama tíma skutu ýmis önnur málefni upp kollinum og í sumum tilvikum fann fólk sig knúið til að búa til ný orð til að lýsa nýjum eða lítt skoðuðum kimum veruleikans, eins og þegar kynþáttur og/eða húðlitur fólks hefur mögulega áhrif á samskipti lögreglunnar við það (kynþáttamörkun) eða þegar fólk er tælt inn í andlega hópa eða jafnvel ástarsambönd í nafni brenglaðs kærleika (kærleikskæfing).

Innrás (no. kvk.)

Þann 24. febrúar gerðu Rússar innrás í Úkraínu eftir vaxandi spennu mánuðina á undan. Þrátt fyrir að Pútín legði áherslu á að ekki væri um innrás að ræða, heldur sértæka hernaðaraðgerð, þá hafa flestir þeir sem ekki eru hliðhollir Rússum talað um innrás. Hér er að sjálfsögðu ekki um nýtt orð að ræða en því miður hefur það litað umræðu seinasta árs. Eitt og sér kemur orðið nær fjórum sinnum oftar fyrir á liðnu ári en árið á undan, ef skoðaðar eru valdar undirmálheildir Risamálheildarinnar. Einnig kemur orðið oft fyrir sem hluti annarra samsettra orða, eins og innrásarstríð, innrásaraðili, innrásaráætlun, innrásarher, innrásarlið og innrásarríki o.fl.

Það að stríðandi fylkingar heyi stríð um hugtakanotkun er ekkert nýtt enda getur verið mikill munur á merkingarblæ tveggja orða sem vísa til sama hlutar eða atburðar. Þannig má benda á orðapörin fóstureyðing og þungunarrof en síðarnefnda orðið, sem var innleitt með nýjum lögum 2019, hefur unnið á síðastliðin ár og var þrefalt algengara en fóstureyðing árið 2021 samkvæmt gögnum Risamálheildarinnar. Margir sem eru á móti þessu inngripi læknavísindanna kjósa hins vegar enn að tala um fóstureyðingu. Nýlegt dæmi er svo útspil dómsmálaráðherra sem kýs að tala um rafvarnarvopn í stað rafbyssu og vill með því leggja áherslu á varnargildi þessa tóls í stað þess að tengja það byssum í huga almennings. Þótt enn sé óljóst hversu lengi stríðið í Úkraínu muni standa yfir þá er ljóst að Pútín tapaði hugtakastríðinu strax á fyrstu vikum enda neita flestir að líta á aðgerðir Rússa sem annað en óvinveitta innrás í fullvalda ríki.

Erfitt er að sjá hvenær orðið innrás kemur fyrst inn í tungumálið. Það er ekki að finna í fornmálsorðabókinni (https://onp.ku.dk/) þótt þar sé að finna orðin árás og atrás. Né kemur orðið fyrir í eldri biblíuþýðingum og þar sem talað er um að „gera innrás“ í nýjustu þýðingu Biblíunnar er talað um að draga upp á, koma inn í eða brjótast inn í land í eldri þýðingum. Elsta dæmið um notkun orðsins á timarit.is er úr Skírni árið 1872 en þar er minnst á innrás sem Ítalinn Guiseppe Mazzini stóð fyrir með það fyrir augum að „reisa þjóðvald og þjóðarsamband á Ítalíu“. Seinni liður orðsins innrás er rás sem samkvæmt nútímaorðabók getur m.a. merkt ‘lítill skurður eða renna sem vatn rennur eftir’, eða ‘framvinda’. Gömul merking þess er hins vegar ‘hlaup’ enda eru orðin árás og áhlaup merkingarlega náskyld. Þessi merking hefur t.a.m. lifað í orðatiltækinu „að taka á rás“.

Neyðarbirgðir (no. kvk.)

Ofarlega á listanum yfir þau orð sem koma margfalt oftar fyrir en á undanfarandi árum tróna ýmis orð tengd Úkraínu og Rússlandi. Fyrir utan fjölda mannanafna (Selenskí, Pútín, Volodymyr o.s.frv.) og staðarheita (Kænugarður, Maríupól, Zaporizhzhia o.s.frv.) má nefna orð á borð við stríðsrekstur, herkvaðning, hergögn, gasleiðsla og innrásarher.

Sem betur fer hefur stríðið haft lítil áhrif hérlendis. Ísland nýtur þess að vera eyja úti á ballarhafi og að vera tiltölulega sjálfbært hvað varðar orkumál. Hins vegar hefur umræðan um fæðuöryggi landsins verið fyrirferðarmikil og einkum hefur orðið neyðarbirgðir verið mikið notað. Nokkuð bar á því í tengslum við COVID-19 en notkun orðsins hefur margfaldast í kjölfar stríðsins. Hér er að sjálfsögðu ekki um nýtt orð að ræða. Elsta dæmið af timarit.is er frá því í desember 1961 en þar var rætt um loftbrú Sameinuðu þjóðanna til Katanga-flóttamanna í Belgísku Kongó sem flutti matvæli frá neyðarbirgðastöðvum Sameinuðu þjóðanna í Leopoldville. Starfshópi, sem forsætisráðherra setti á laggirnar á síðasta ári, var falið að gera skýrslu um nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Í skýrslu hópsins kom fram að engar reglur væru til um lágmarksbirgðir af matvælum, olíu eða öðrum aðföngum sem þarf til að halda matvælaframleiðslu gangandi. Skiljanlega treysta því ekki allir stjórnvöldum til að tryggja sér og sínum nauðsynlegar birgðir og hafa tekið til sinna ráða. Facebook-hópurinn „Prepparar á Íslandi“ telur ríflega fimm þúsund einstaklinga sem skiptast á ráðum um það hvernig best er að koma sér upp eigin neyðarbirgðum og vera þannig viðbúinn hvers kyns áföllum. Samkvæmt Risamálheildinni kom orðið preppari fyrst fram á samfélagsmiðlum árið 2012, birtist í grein um bestu kvikmyndir ársins 2019 í veftímaritinu Hugrás og svo í umfjöllun á vefmiðlum um fyrrnefndan Facebook-hóp árin 2021 og 2022. Preppari er tökuorð en enska orðið prepper (eða survivalist) á við um þá sem vilja vera vel undirbúnir fyrir neyðartilvik eins og náttúruhamfarir, borgarastríð og heimsfaraldur. Prepparar Íslands hafa fengið ærnar ástæður síðustu misserin til að koma sér upp góðum neyðarbirgðum: COVID-19, eldgos og nú stríðið í Úkraínu. Hvort orðið preppari eigi eftir að hljóta varanlegan sess í orðaforða Íslendinga á hins vegar eftir að koma í ljós og enn er notkun þess væntanlega nógu takmörkuð til að áhugasamir geti lagt til annað orð á nýyrðavef Árnastofnunar (https://nyyrdi.arnastofnun.is/).

Orkukreppa (no. kvk.)

Orkukreppa er eitt af þeim orðum sem mikið voru í umræðunni árið 2022. Orðið sjálft er gagnsætt og merkir ‘það þegar mikill skortur er á orku’.

Á timarit.is má sjá að þetta er ekki í fyrsta sinn sem orkukreppa hefur verið til umræðu. Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mjög mikið á áttunda áratug síðustu aldar og leiddi það til mikilla verðlagshækkana. Mikið var fjallað um orkukreppu í fjölmiðlum á þessum tíma og hvernig unnt væri að leysa hana.

Á síðasta ári var einkum rætt um orkukreppu í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Vegna viðskiptaþvingana sem settar voru á Rússa vegna innrásarinnar var skrúfað fyrir flutning á gasi til Evrópu. Ríki í álfunni þurftu því að leita annarra leiða til að fullnægja orkuþörf sinni og spenna jókst á mörkuðum með jarðgas, kol, rafmagn og olíu. Framboð orku var ótryggt og hafði áhrif á efnahagsstarfsemi margra þjóða. Verð á gasi í Evr­ópu hækkaði til dæmis gífurlega og hafði mikil áhrif á fjárhag almennings og heimila.

Þótt íslenskur orkumarkaður sé að miklu leyti sjálfbær og ótengdur erlendum mörkuðum leiðir hækkandi orkuverð erlendis til hærra verðs á innfluttri vöru og þjónustu hérlendis. Enda þótt áhrif orkukreppunnar séu minni hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum sýna dæmi úr Risamálheildinni að orðið orkukreppa var mikið notað í fyrra.

Kærleikskæfing (no. kvk.)

Orðið kærleikskæfing virðist fyrst hafa komið fram á liðnu ári. Það var skráð á nýyrðavef Árnastofnunar í maí og er þar skilgreint sem „[s]amband þar sem gerandinn sýnir öfgakennda umhyggju, notar yfirdrifin jákvæð orð og orðasambönd, hrósar mikið, gefur dýrar gjafir, sýnir óeðlilega mikinn áhuga og setur viðfang sitt á stall. Þetta er gert til að byggja upp óverðskuldað traust svo það sé auðveldara að stýra þolandanum og komast upp með ofbeldi seinna meir.“

Orðið er þýðing á enska hugtakinu love bombing sem fyrst var notað á áttunda áratugnum í umræðu um trúarhreyfingar sem umvöfðu nýliða kærleika til að tæla þá inn í söfnuð sinn. Nýverið hefur hugtakið frekar verið notað til að lýsa ákveðnum sjúkleika innan náinna sambanda. Íslenska orðið kærleikskæfing birtist einmitt fyrst, um mitt seinasta ár, í tengslum við starf andlegs hóps með aðsetur við Esjurætur og hefur, að því er virðist, nær eingöngu verið notað í því samhengi í opinberri umræðu.

Umræða um ofbeldi í samböndum, jafnt andlegt sem líkamlegt, hefur aukist mjög á undanförnum árum. Kærleikskæfing er því síður en svo eina orðið sem skotið hefur upp kollinum í tengslum við þá umræðu. Annað orð er gaslýsing. Það er svokölluð tökuþýðing á enska orðinu gaslighting og er dæmi um það þegar gömlu orði í málinu er gefin ný merking. Í stað þess að orðið gas vísi til ‘lýsingu húsa og gatna með gasi’ á það við um tilraun ofbeldismanns til að sá sjálfsefa og ruglingi í huga fórnarlambs, yfirleitt í þeim tilgangi að ná völdum og stjórn yfir því með því að afbaka raunveruleikann og neyða það til að efast um eigin dómgreind og innsæi. Leikritið Gaslight eftir Patrick Hamilton, sem frumsýnt var 1938, fjallaði einmitt um ofbeldissamband af þessu tagi og þaðan er hugtakið fengið.

Annað dæmi er aukin notkun hugtaksins narsissismi og afleiddra hugtaka, eins og narsissisti og narsissískur. Notkun þess hefur aukist jafnt og þétt seinustu ár enda nátengd umfjöllun um gaslýsingu og kærleikskæfingu, hegðun sem oft er eignuð „nörsum“. Rétt eins og í tilfelli hins gríska og ægifagra Narsissusar þá einkennir narsissista óhófleg þörf fyrir athygli og aðdáun og vanhæfni til að sýna samkennd. Narsissismi er talinn til persónuleikaröskunar og hefur m.a. verið kallaður sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun innan sálfræðinnar hér á landi. Það verður að teljast ólíklegt að það hugtak nái almennri útbreiðslu og að almenningur velji frekar fjögurra atkvæða narsissismann fram yfir þann sem þjáist af tólf atkvæða sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun.

Kynþáttamörkun (no. kvk.)

Orðið kynþáttamörkun kom fyrst fram á nýliðnu ári og birtist alls 72 sinnum í þeim textum sem eru í Risamálheildinni. Ólíkt því sem oft er með nýyrði má á einfaldan hátt benda á uppruna orðsins því að 19. maí rituðu sex einstaklingar grein í Kjarnann þar sem þeir lögðu til að íslenska orðið kynþáttamörkun yrði notað fyrir enska hugtakið racial profiling. Töluverð umræða hafði verið um mál sextán ára drengs sem lögreglan hafði í tvígang afskipti af eftir ábendingar frá almenningi sem taldi að um strokufanga væri að ræða. Var drengurinn dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi. Í umræðu um viðbrögð lögreglunnar var töluvert rætt um kynþáttamiðaða löggæslu sem þýðingu á racial profiling. Sexmenningarnir lögðu til í grein sinni að hugtakið kynþáttamörkun yrði notað í staðinn:

Við teljum að það nái merkingunni í profiling vel – það er verið að marka (e. profile) tiltekna einstaklinga eða hópa, skilgreina eiginleika og hegðun þeirra, gefa þeim tiltekið mark (e. profile). Hugtakið racial profiling má því þýða sem kynþáttamörkun. Á sama hátt má þýða criminal profiling sem afbrotamörkun, gender profiling sem kynjamörkun, age profiling sem aldursmörkun o.s.frv.

Fréttamiðlar voru fljótir að taka upp þetta nýja orð í stað kynþáttamiðaðrar löggæslu en hin orðin sem nefnd voru í greininni hafa ekki enn komist í almenna notkun. Orð sem enda á mörkun eru þó nokkur, þau algengustu takmörkun, afmörkun og stefnumörkun. Í þessu samhengi vekur athygli að árin 2019 og 2020 bar nokkuð á nýyrðinu vörumörkun fyrir enska orðið branding. Það virðist hins vegar lítið sem ekkert hafa verið notað seinustu tvö ár. Hér spilar kannski inn í að mismunandi orð hafa verið notuð, eins og auðkenning, ímyndarþróun, vörumerkjastjórnun eða einfaldlega mörkun, og hefur ekki náðst samhugur um eitt þeirra.

Það verður áhugavert að fylgjast með nýyrðinu kynþáttamörkun á komandi árum. Það að sex þekktir einstaklingar setjist niður og skrifi grein með það að sjónarmiði að koma nýju orði inn í umræðuna hefur án efa mikið að segja fyrir viðgang orðsins.

Hraðtíska (no. kvk.)

Orðið hraðtíska (enska: fast fashion) er nokkurra ára gamalt en í Risamálheildinni sést að notkun orðsins árið 2022 er meiri en nokkru sinni. Orðiðer notað yfir framleiðslu fatnaðar þar sem markmiðið er að framleiða sem mest af fatnaði á sem stystum tíma. Hraðtíska hefur verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum. Hraðtíska er ósjálfbær og skaðar umhverfið. Neytendur kaupa hraðtískufatnað til að nota í skamman tíma og henda svo. Fatnaðurinn er oft framleiddur í löndum þar sem starfsfólk fær lág laun og vinnur við slæmar aðstæður. Þau fyrirtæki sem framleiða hraðtískufatnað hafa einnig verið sögð stela hugmyndum frá þeim fyrirtækjum sem leggja metnað í framsækna hönnun.

Hægtíska (enska: slow fashion) er andstaða hraðtísku. Með hægtísku er lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð og að nota umhverfisvæn efni. Hægtíska gengur út á að kaupa færri og vandaðri flíkur sem endast lengur.

Vistmorð (no. hk.)

Árið 2022 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að ríkisstjórnin legði það til við þing aðildarríkja Alþjóðlega sakamáladómstólsins að vistmorð yrði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum. Vistmorð stendur fyrir enska orðið ecocide og er skilgreint sem ‘ólögmæt eða gerræðisleg athöfn sem framkvæmd er þótt vitað sé að athöfnin kunni að leiða til alvarlegra og annaðhvort víðtækra eða langvarandi umhverfisspjalla’. Dæmi um vistmorð er eyðing skóganna í Amazon, olíulekar og plastmengun.

Samkvæmt greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögunni kom hugtakið fyrst fram á sjónarsviðið í kjölfar Víetnamstríðsins og var fjallað um það á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi árið 1972. Það er þó ekki fyrr en um 40 árum síðar sem íslenska orðið vistmorð kemur fram en elsta dæmi sem fannst um það á timarit.is er frá 2012. Dæmum um orðið fjölgaði mikið í fyrra eftir að þingsályktunartillagan var lögð fram.

Fyrri liður orðsins, vist-, kemur einnig fyrir í samsetta orðinu vistfræði semkom fram upp úr 1970. Eitt elsta dæmi um það er í grein frá Félagi náttúrufræðinema í Tímanum 1971:

Ekkert íslenzkt orð í stað orðsins ökólógía hefur náð að festast í málinu, en stungið hefur verið upp á ýmsum orðum eins og lífkjarafræði, lífskiptafræði, vistfræði. Orðið ökólógía táknar fræðigreinina, sem fæst við samband lífvera og umhverfis.

Orðið vistfræði nær fljótt að festast í málinu og þar hefur án efa haft mikið að segja að á næstu árum á eftir koma út bækur þar sem orðið er fest í sessi, svo sem Líf og land – Um vistfræði Íslands  (1973) eftir Sturlu Friðriksson og Vistkreppa eða náttúruvernd (1974) eftir Hjörleif Guttormsson.

Íþróttaþvottur (no. kk.), sportþvottur (no. kk.) og íþróttaþvætti (no. hk.)

Orðin íþróttaþvottur, sportþvottur og íþróttaþvætti hafa öll verið notuð sem þýðingar á enska hugtakinu sportwashing sem merkir það þegar ríkisstjórnir, fyrirtæki eða aðrir aðilar nota íþróttir til að bæta ímynd sína og draga athygli almennings frá glæpum og mannréttindabrotum. Ýmis dæmi eru um slíkt en á árinu 2022 var hugtakið einkum notað í umræðunni um heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar þar sem mannréttindabrot eru algeng og illa farið með farandverkamenn. Mikið af þeim framkvæmdum, sem ráðist var í fyrir uppbyggingu mótsins, var unnið af erlendu vinnuafli við slæmar starfsaðstæður. Stjórnvöld í Katar voru gagnrýnd fyrir að nota heimsmeistaramótið til að beina athyglinni frá mannréttindabrotum sem þola illa dagsljósið.

Orðið íþróttaþvottur kemur seinna fram en sportþvottur og íþróttaþvætti en er núna algengasta orðið fyrir sportwashing. Orðið íþróttaþvottur er myndað hliðstætt við orðin grænþvottur (enska: greenwashing) sem er notað um það þegar fyrirtæki gefa ranglega til kynna að þau séu umhverfisvæn með ruglandi framsetningu eða blekkingum og bleikþvottur (enska: pinkwashing) sem er notað til að lýsa því hvernig þjóðríki og fyrirtæki nota hinsegin fólk og málefni þeirra til að skapa sér jákvæða ímynd.

Stýrivaxtahækkun (no. kvk.)

Það kemur sjálfsagt engum á óvart að rætt var 15 sinnum oftar um stýrivaxtahækkun en stýrivaxtalækkun á árinu, ef miðað er við Risamálheildina. Né heldur að leita þarf aftur til ársins 2008 til að finna hærri tíðni orðsins stýrivaxtahækkun.

Ef leitað er á timarit.is kemur orðið stýrivextir fyrst fyrir í apríl árið 1998 í grein í Morgunblaðinu. Þar var vísað til orða þáverandi Seðlabankastjóra, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, sem fjallaði um ný stjórntæki Seðlabankans. Nefnir hann í því samhengi að bankinn hafi nýtt sér vaxtastýringu til að ná fram markmiðum sínum í peningamálum í rúm tíu ár. Stuttu síðar nefnir hann þetta stjórntæki bankans stýrivexti. Í ársskýrslu bankans frá því ári kemur orðið stýrivextir fyrir fimm sinnum, og er það öllum líkindum í fyrsta skipti sem það kemur fyrir á prenti. Notkun orðsins eykst svo jafnt og þétt næstu árin og er þegar orðinn tíður gestur í fréttum og Alþingisræðum þremur árum síðar.

Stýrivöxtum, eins og við þekkjum þá nú, var ekki almennilega beitt hér fyrr en undir aldamótin og er það skýringin á því hvers vegna orðið kemur ekki fram fyrr en þá. Áður beitti bankinn gengisfellingu í ríkari mæli. Hins vegar er áhugavert að Seðlabankinn sjálfur hefur í fleiri ár frekar notað hugtakið meginvextir um þá vexti sem Seðlabankinn notar í viðskiptum við lánastofnanir og ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Sú hugtakanotkun hefur hægt og bítandi sótt á þótt notkun orðsins stýrivextir sé enn mun algengari. Sýnir það að þótt Seðlabankinn geti auðveldlega stýrt þeim vöxtum sem almenningur landsins þarf að sætta sig við, á hann erfiðara með að stýra málnotkun þjóðarinnar.

Kúlturbörn (no. hk.)

Í lok ársins 2022 var mikið rætt um kúlturbörn en það er nýtt orð í íslensku sem notað er um börn sem hafa notið góðs af fjölskyldutengslum sínum við að koma sér á framfæri. Á ensku er talað um nepo babies eða nepo kids og er fyrri liðurinn nepo stytting á nepotism sem merkir ‘frændhygli’. Orðið nepo babies fór á flug á netinu eftir að New York Magazine birti grein um að árið 2022 hefði verið árið sem afkvæmi stjarnanna yfirtóku Hollywood. Dakota Johnson, Maya Hawke, Zoë Kravitz og fleiri voru tekin sem dæmi um einstaklinga sem hefðu náð frama vegna frægðar og stöðu foreldra sinna.

Umræða um þetta málefni hófst í desember á Íslandi og fyrir vikið er orðið ekki enn að finna í gögnum Risamálheildarinnar. Rithöfundarnir Berglind Ósk Bergsdóttir og Auður Jónsdóttir tókust þá á um frændhygli og klíkuskap en Berglind Ósk gagnrýndi bókablað Stundarinnar, sem Auður ritstýrði,fyrir það hve svokölluð kúlturbörn hefðu verið áberandi við gerð og í umfjöllun blaðsins. Með orðinu kúlturbörn átti hún við þá sem hafa alist upp í „meðfæddu menningarauðmagni“ og fá auðveldlega tilnefningar til styrkja og verðlauna og útgáfutækifæri. Þeir sem ekki koma af menningar- og listafólki standa hins vegar fyrir utan klíkuna og fá ekki sömu tækifæri. Kúltúrbörnin geri sér ekki grein fyrir forréttindunum sem þau fæðast inn í, s.s. að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir geirann og hefur réttu tengslin. Það væri mun erfiðara fyrir þá sem koma úr verkalýðsstétt að komast að.

Í umræðum sem spunnust á netinu um deilu rithöfundanna hefur verið bent á að réttara væri að tala um frændhyglisbörn sem væri bein þýðing úr nepo babies eða klíkukrakka. Ýmsum þykir umræðan ósanngjörn og niðrandi þar sem jafnvel er gefið í skyn að hin svokölluðu kúlturbörn hafi ekki hæfileika og hafi eingöngu náð frama vegna foreldra sinna.

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Starkaður Barkarson, verkefnisstjóri hjá sömu stofnun.