Sök bítur sekan

Fræg hjátrú er bundin sýningum á leikriti William Shakespeare, Macbeth, frá 1623. Það mátti ekki nefna það með nafni í leikhúsunum heldur var það kallað Skoska leikritið og því átti að fylgja ógæfa á pari við áhættuna af því að leggja þjóðveg gegnum huldufólksbyggð!  Ekki er að því að spyrja að þá bila allar vinnuvélar og fólk sem að verkinu stendur fer að dreyma illa. 

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um sýningu Borgarleikhússins á MacBeth.

Þetta sannaðist föstudagskvöldið 13. janúar í Borgarleikhúsinu.  Tæknin bilaði skyndilega, ekkert heyrðist í mikrófónum leikaranna nema brak og brestir, það ljósin blikkuðu og létu illa og kviknuðu í salnum og óvænt hlé varð að gera á sýningu.

Það er svolítið erfitt að úttala sig um þessa sýningu. Áhrifin af henni eru mikil og þversagnakennd. Leikstjóri verksins er Lithái, Uršulė Barto að nafni frá Vilnius, fædd 1994. Það er nærtækt fyrir hana að nota hrylling stríðsins sem nú geisar sem yfirskipaða myndhverfingu í uppsetningu og túlkun verksins.

Herforinginn Macbeth (Hjörtur Jóhann Jónsson) er að koma alblóðugur og örmagna  og særð stríðsherja heim til hirðar Dúnkans skotakonungs og með honum í för er vopnabróðirinn Bankó (Sigurður Þór Óskarsson), hans besti vinur.  Með er líka sjálfskipaður fjölmiðlafulltrúi Macbeths, aðalsmaðurinn Ross (Bergur Þór Ingólfsson) sem blæs út afrek, fórnir og hugrekki yfirmanns síns og lætur ekkert færi ónotað til að troða sér fram fyrir myndavélarnar og lýsa stríðinu æsilega og hetjudáðum ofurhetjunnar Macbeths. Ross var leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni sem tók sýndarmennskuna alla leið.

Á leiðinni heim hefur hinn úttaugaði Macbeth hitt þrjár örlaganornir á heiðinni, ketill þeirra kraumaði en verandi yfirnáttúrulegar birtust þær á myndbandi  á risastóru baktjaldi þar sem þær sáust við störf í einhverju sem líktist gamalli símstöð. Þær voru leiknar af Rakel Ýr Stefánsdóttur Þórunni Örnu Kristjánsdóttur og Esther Talíu Casey, geifluðu sig ógurlega og voru skrípislegar og óhugnanlegar. Spánni um æðstu tign komu þær til skila og helltu þannig eitri í eyra hershöfðingjans metnaðargjarna.  Hann miðlar spánni um konungstign strax áfram til sinnar fögru, þunguðu og enn metnaðarfyllri lafði (Sólveig Arnarsdóttir). Ræða hennar þar sem hún túlkar spádóminn og eggjar hann til voðaverka var ástríðufull og hrollvekjandi.

Leikmynd Millu Clarke var mögnuð, mínímalísk og aðeins örfáir nauðsynlegir leikmunir notaðir en lýsing og myndbönd notuð ótæpilega ásamt tónlist. Allt þetta eru áhrif frá fagurfræði kvikmyndanna eins og margir hafa bent á.  Lýsingin og myndbandshönnunin í verkinu var glæsileg en um hana sá Pálmi Jónsson og hljóðmynd var í höndum Þorbjörns Steingrímssonar.  Kristján Þórður Hrafnsson þýddi verkið listilega.   

Dúnkan konungur var leikinn af Sólveigu Guðmundsdóttur sem sýndi svolítið bangsalegan og elskulegan karl í lopapeysu sem vökvaði blóm, barði karlana á bakið og káfaði á konunum. Á meðan hann var myrtur í baði var haldið gríðarlegt partý hjá Macbeth hjónunum þar sem ungir karlar, hermenn og hirðmenn, dönsuðu fáklæddir við háværa teknótónlist, lengi, og listrænn tilgangur væntanlega sá að sýna spillinguna, ruglið og gredduna sem fylgir morðæðinu sem ríkti/ríkir þar sem barist er til valda og einskis svifist. Það var sterkt en langdregið. Borðið langa sem stundum var dansað á var síðar notað sem mjög svo ydduð paródía á samningsviðræður Pútín og Sarkozy með míkrófóna hvor við sinn enda hins langa borðs.

Eftir ódæðið eru Macbeth hjónin kvalin af ódæði sínu og sekt. Hefndin kemur innan frá og birtist í ofskynjunum, ótta og þráhyggju í mögnuðum texta Shakespeare. Þetta var tjáð í sýningunni með hinum öfgunum, orðræður þeirra urðu eintóna og dauð/dofin og hinar frægu einræður þeirra eftir ódæðið guldu þess. Engu að síður var þessi sýning stórbrotin þegar á allt er litið.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.