Aðgát skal höfð

Fimmtudaginn 31. mars kl. 17 opnar sýningin Aðgát skal höfð í Listasafni Einars Jónssonar. Sýningin er samstarf meistaranema í myndlist við Listaháskóla Íslands og meistaranema í áfanga um sýningarstjórnun við Háskóla Íslands.

Safn Einars Jónssonar getur virkað eins og lokaður heimur fyrir mörgum, fullur af framandi táknmyndum og goðsögum, vísunum í hetjur, hefð og hugsjónir. Á sýningunni, sem sett er upp innan um fastasýningu safnsins sem opnaði fyrir hartnær einni öld, mætir samtíðin fortíðinni á nýjum forsendum. Við þessar krefjandi aðstæður leitast listamennirnir við að hefja samtal við „vofur“ safnsins, heim þess og rými með því að vekja athygli á því sem hefur nærveru í fjarveru sinni.

Vofur fortíðar birtast í ýmsum myndum í samtímanum og minna á þögguð samtöl eða gleymdar sögur sem ganga í endurnýjun lífdaga þegar viðfangsefni eru skoðuð með nýrri nálgun, líkt og listamennirnir gera hér. Sýningin skapar þannig vettvang fyrir ólíkar frásagnir, þar sem listamennirnir takast á við heim og hugmyndir Einars með því að brjóta upp og opna það sem er hulið.

Frítt er á safnið á meðan sýningu stendur.

Opnun verður 31. mars kl. 17-19 og sýningin mun standa yfir til 10. apríl. Safnið er opið alla daga, nema mánudaga, kl. 12-17.

Viðburðir:

  • 2. apríl kl. 14 leiðsögn á ensku.
  • 3. apríl kl. 12:30 leiðsögn í samvinnu við Hallgrímskirkju.
  • 7. apríl kl. 12:10 hádegisspjall með Hildi Bjarnadóttur, prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, og ÖlmuDís Kristinsdóttur, safnstjóra Listasafns Einars Jónssonar.
  • 9. apríl kl. 14 leiðsögn á íslensku.
Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila