Frábær sýning!

Það er dásamlegt að íslenskt leikhús skuli færa okkur verk snillingsins Caryl Churchill núna, betra er seint en aldrei.  Í Borgarleikhúsinu er verið að sýna Ein komst undan (Escaped alone, 2016) og nú fáum við að sjá Ást og upplýsingar (Love and Information, 2012) í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Við sáum leikritið A Number (2002) í Skotlandi, það fjallaði um þá tækni sem gerir manninum kleift að búa framleiða eftirmyndir af öðrum lifandi verum, klóna aðra. Það var áhrifamikið verk, en myrkt og þungt og hin fullkomna andstæða Ástar og upplýsinga.

Leikritið sem frumsýnt var á föstudagskvöldið byggist upp af sjö þáttum og fjölmörgum stuttum senum sem leikstjóri og leikhópur geta raðað upp og víxlað að vild. Hlutverkin eru ekki kyngreind eða skilgreind og verkið gefur leikhúsinu þannig fullt listrænt frelsi til að móta útkomuna.  Það frelsi er fagurlega notað af Unu Þorleifsdóttur og listrænu teymi hennar.  Sviðsmynd austurríska leikmyndahönnuðarins Daniel Angermayr er sláandi falleg, mjallahvítt gólfið glansandi og baktjöld grá við svartan bakgrunn.  Allir leikararnir eins klæddir til að byrja með í gráu og hvítu, búningar Evu Signýjar Berger stílhreinir og leikgervi Silfá Auðunsdóttur og teymi hennar mjög fyndin.

Það eru átta leikarar í sýningunni sem leika fjölmörg hlutverk fólks í allskonar samböndum eða sambandsleysi. Þetta er úrvalalið og veitir ekki af því að þau endurspegla og endurskapa tilfinningar sem vekja allar tilfinningar áhorfenda.  Við sjáum fólk sem sýnir hvort öðru samlíðan og ást eða getur það ekki vegna þess að það finnur ekki lengur til, er heilaskaddað eða dofið. Leikararnir eru: Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Thors, Baldur Trausti Hreinsson, Hilmar Guðjónsson og  Ebba Katrín Finnsdóttir sem verður bara betri með hverri sýningu sem ég sé hana í.  Katrín Halldóra og Ragnheiður K. Steindórsdóttir sem fór á kostum og hinn ungi Almar Blær Sigurjónsson sem lofar góðu.. Hópurinn var samhæfður, jafnvígur og sterkur: “Valinn maður í hverju rúmi” eins og frasinn segir.

Texti Caryl Churchill er meitlaður, oft drepfyndinn eða tragíkómískur og þýðing Auðar Övu Ólafsdóttur afar falleg og næm.  En áhrifamestu atriðin voru kannski þau þar sem fólk reyndi að ná sambandi við ástvin sem gat ekki lengur tekið við skilaboðum af því að hæfnin til þess var horfin. Nína Dögg Filippusdóttir túlkað hlutverk eftirminnilega og annað atriði um furður og ævintýri minnisins, leikið af Baldri Trausta og Katrínu Halldóru, var einfaldlega ógleymanlegt.

Ég mætti hafa mörg fleiri orð um þessa sýningu en ég læt þessi nægja – af sannfæringarkrafti:  Sjáið þetta!!!

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila