Mamma er enn í eldhúsinu …..

Á laugardaginn var, sáum við sýninguna Jólaboðið í Kassanum.  Leikritið sjálft er einþáttungur, skrifaður í Ameríku árið 1931, höfundurinn var Thornton Wilder og verkið sýndi heimsókn í jólaboð einnar og sömu fjölskyldunnar, kynslóð eftir kynslóð í níutíu ár.

Þetta er glúrin hugmynd, fjölskyldan er náttúrlega lítið kerfi inni í stærri kerfum samfélagsins og með þessu móti er hægt að láta það litla spegla það stóra og öfugt. Jólaboðin endurspegla líka virðingarröð, forréttindi og mismunun innan stórra fjölskyldna og tímana sem eru alltaf að breytast. Þetta sniðuga leikrit hefur verið staðfært um heim allan og íslenska útgáfan styðst við þá norsku en leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir þýða og staðfæra leikritið skemmtilega.

Jólaboðið

Við jólaborðið situr gamli fjölskyldufaðirinn (Guðjón Davíð Karlsson) í öndvegi eins og prestur sem söfnuðurinn horfir upp til.  Í íslensku staðfærslunni er hann útgerðarmaður sem hefur byggt stórt hús yfir fjölskylduna en þetta er fyrir daga kvótakerfisins og útgerðin er sveiflukennd og brigðul. Mikið er gert úr virðingarröðinni við borðið. Það er langur bekkur sem fjölskyldan situr við í röð og leikið er upp á til dæmis þegar gamla fólkið gengur eftir honum og út úr leikritinu (gengur plankann). Fjölskyldufaðirinn situr að sjálfsögðu í öndvegi eins og prestur sem söfnuðurinn horfir á í kirkjunni. Gömlu kynslóðirnar fara, þær ungu verða fullorðnar og eignast börn sem eignast börn sem foreldrarnir kunna ekki  að sinna.

Leikaraverk

Jólaveislan hvílir mjög á leikurum, átta leikarar bregða sér í hlutverk fjórtán persóna af fjórum kynslóðum.  Þetta eru framúrskarandi gamanleikarar;  Ólafía Hrönn, Ebba Katrín Finnsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Guðjón (Gói) Davíð Karlsson, Gunnar S Jóhannsson, Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsso. Hlutverkin sem þau hafa að moða úr eru misveigamikil því að hringekjubygging verksins gefur ekki kost á dýpkun neinnar persónu en persónusköpun verður hvað dýpst í hlutverki gömlu “frænkunnar” Margrétar sem Nína Dögg túlkar af list. Samleikur þeirra Baldurs Trausta í lokaatriðinu var fallegasta atriði sýningarinnar.

Það eru ekki bara brandarar í verkinu, þar eru líka átök og broddar. Þegar leikritið hefst er útgerðarmannsfrúin, Jóhanna, (Ólafía Hrönn) á harðaspretti í peysufötunum sínum með jólamatinn sem er kjötsúpa. Ættarföðurnum dettur náttúrlega ekki í hug að hjálpa til. Hún er uppgefin eftir að hafa stritað á sívaxandi hraða dögum saman við að gera allt tilbúið fyrir jólaveisluna. Kjötsúpan víkur fyrir lambakjöti með danskri sósuuppskrift og síðar fyrir hamborgarahrygg og loks hnetusteik.

Jólaveislan er um margt vel gerð og skemmtileg sýning en skilur kannski ekki mikið eftir.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila