„Ég þráði að brúa bilið á milli kristinna og ókristinna í færeysku samfélagi“

Er hægt að breyta heilu samfélagi með ljóðabók? Dania O. Tausen (f. 1998), söngkona og ljóðskáld frá Færeyjum, er aðalpersóna heimildarmyndarinnar Skál sem var frumsýnd fyrr á árinu, en myndin hefur vakið athygli á heimsvísu og var meðal annars sýnd á íslensku kvikmyndahátíðinni Reykjavík International Film Festival fyrr í haust. Myndinni er leikstýrt af Cecilie Debell og Mariu Tórgarð og fjallar hún um líf hinnar ungu listakonu sem ólst upp í íhaldssömu, kristnu samfélagi á færeyska „biblíubeltinu“. Frásögnin hverfist um þá innri togstreitu sem Dania upplifir þegar hún eignast kærasta sem er ekki af kristnum bakgrunni. Hún byrjar þá að skrifa ljóð um tilfinningar sínar og safnar þeim saman í ljóðabókina Skál.

Að svo stöddu er Dania búsett á Íslandi ásamt kærastanum sínum, Trygva Danielsen, en bæði leggja þau stund á ritlistarnám við háskólann í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja, og eru í vetur í skiptinámi við Háskóla Íslands. Á milli þess sem Dania leggur stund á námið syngur hún á tónleikum og auk þess ferðast hún víðsvegar um heiminn til þess að vera viðstödd frumsýningar á heimildarmyndinni. Hún settist niður með mér, sagði frá listsköpun sinni og tilurð þess að saga hennar varð að kvikmynd.

„Jæja, þá er Dania farin að syngja djass á börum“

„Ég hef verið lengi í tónlist og alltaf sungið mikið í kirkju þannig að þetta hófst allt saman þar. Síðan komst ég í samband við stórsveit í Þórshöfn og byrjaði þá að syngja djass. Þannig hófst tónlistarferill minn, en ég hef verið að skrifa lög frá því að ég man eftir mér. Þegar ég kynntist djassinum fór ég að móta mér minn eigin tónlistarsmekk, spá í hvernig tónlist mig langaði að semja og út frá því fór ég líka að skrifa ljóð. Stundum fann ég bara að textinn sem ég hafði skrifað hentaði ekki sem söngtexti og var miklu frekar ljóð, eða jafnvel saga. Söngtextarnir mínir hafa meira form, takt og rím en ljóðin eru frjálslegri. Og ég byrjaði líka að skrifa þau út frá erfiðleikum sem ég var að kljást við. Þegar ég fór að syngja djass hafði það afleiðingar, fólk fór að hvísla sín á milli og segja: „Jæja, þá er Dania farin að syngja djass á börum.“ Það urðu til alls konar skrítnar sögur um mig.“ Dania tekur einnig fram að ákvörðun hennar um að syngja utan kirkjunnar hafi vakið sterk viðbrögð.

„Fólkið í kirkjustarfinu hneykslaðist á mér, en líka ungt fólk sem leit upp til mín. Áður en ég prófaði djassinn hafði ég eingöngu sungið í kirkju og á stórum, kristilegum hátíðum þar sem ég var forsöngvari þegar við sungum lofsöngva. Margir í starfinu litu svo á að ég væri búin að snúa við blaðinu og að ég gæti ekki sungið í trúarlegu samhengi lengur. En sjálfri fannst mér ég bara vera að víkka sjóndeildarhringinn. Þetta varð síðan flókin staða því að fólk varð mjög ringlað og vildi vita hver ég væri í raun og veru, hvar ég stæði. Það gerði mig pirraða því ég hugsaði bara með mér: „Af hverju má ég ekki gera það sem ég er að gera? Stendur einhvers staðar í Biblíunni að það sé bannað?“ Þetta snýst aðallega um væntingarnar sem fólk hefur til manns.“ Dania fór smám saman að heyra minna frá kirkjunni og að lokum var hún ekki lengur beðin um að syngja á samkomum þar.

Úr heimildamyndinni Skál.

„Það kom mér mjög á óvart og mér fannst ég ekki geta tjáð tilfinningarnar sem ég fann fyrir með því að semja lag og texta. Ég varð að lýsa þessari reynslu í lengra máli, skrifa um alla þessa hluti, og ég vissi að það var fullt af ungu fólki í kringum mig sem hafði sambærilega reynslu. Þetta er rosalega stíft andrúmsloft í kringum kirkjustarfið, ekki mikið rými fyrir fjölbreytileika og um leið og maður drekkur til dæmis einn bjór líður manni nánast eins og maður sé ekki velkominn á samkomur lengur. Þetta er svo sérstakt og mig langaði bara að fólk myndi slappa af og hugsa sig tvisvar um áður en það útilokaði aðra. Þannig að þarna var ég orðin mjög þreytt á þessu öllu og á svipuðum tíma byrjaði ég með núverandi kærastanum mínum sem er ekki með kristinn bakgrunn. Það var líka um það leyti sem heimildarmyndarteymið byrjaði að taka okkur upp.“

Það þarf að vera rými til að vera öðruvísi

Í heimildarmyndinni er útgáfu ljóðabókarinnar Skál fylgt eftir, en hún kom út árið 2020 og hristi upp í færeysku samfélagi. Bókin er sögð frá sjónarhorni tveggja ungra einstaklinga sem velta því fyrir sér hvort hægt sé að tilheyra tveimur heimum, það er að vera kristin en á sama tíma ungar manneskjur sem upplifa heiminn, prófa sig áfram og gera mistök. Verkið er gagnrýnin umfjöllun um kristið samfélag í Færeyjum og tekur á málefnum sem lítið hafði verið fjallað um í opinberri umræðu fram að útgáfu bókarinnar. Dania segir að það hafi verið mikilvægt fyrir hana að heimildarmyndin yrði ekki of einsleit.

„Ég var mjög varkár þegar tökurnar hófust og vildi gæta þess að þetta yrði ekki of einhliða umfjöllun, sem er hættan þegar fjallað er um trúarbrögð. Ég vildi ekki að þetta fjallaði bara um að ég væri með innilokunarkennd eða eitthvað í þá áttina. En mér fannst myndin koma vel út og ég held að ein af ástæðunum fyrir því sé að þær Cecilie og Maria leyfðu foreldrum mínum, ömmu og afa og fleira fólki úr kirkjustarfinu að fá pláss í myndinni. Mér fannst líka mikilvægt að það kæmi fram að ástæðan fyrir því að ég tók þátt í myndinni var ekki löngun til að andmæla einum hópi og upphefja annan. Það sem mér fannst skipta öllu var að ungt fólk í svipaðri stöðu og ég fyndi að það hefði rými til að anda. Það þarf að vera rými til að vera öðruvísi.“

Í heimildarmyndinni er meðal annars fjallað um viðbrögð foreldra Daniu þegar hún segir þeim frá ljóðabókinni. Móðir hennar lítur svo á að skáldskapur eigi að taka mið af kristilegum gildum og hafa boðskap í samræmi við það. En hvernig lítur Dania sjálf á skáldskap?

„Ég lít ekki á verkin mín sem orð frá Guði heldur frekar að textinn sé andlegur. Þegar það er andi í textanum mínum þá finn ég betur fyrir honum. En já, mér líður eins og það séu vissir hlutir sem ég myndi ekki endilega skrifa um, myrkir hlutir. Kærastinn minn, Trygvi, er líka ljóðskáld og rappari og hann skrifar mikið um þessa myrku hlið af sjálfum sér. Mig langar að skrifa einlægt og skrifin mega alveg vera óþægileg, en þegar ég skrifa langar mig ekki að leiða lesandann út í myrkur og skilja hann eftir þar. Þegar ég byrjaði að skrifa og syngja lög voru þau flest trúarleg og mér fannst ég alveg ná að semja lög sem ég var ánægð með. En sálmarnir sem við syngjum fjalla allir um að þú lifir í synd, finnir Guð og frelsist, og þetta getur orðið dálítið leiðingjörn sýn á list. Eins og mamma mín segir í heimildarmyndinni á skáldskapur alltaf að hafa boðskap samkvæmt kristninni og hann á alltaf að vera góður. Þetta minnir hreinlega á kenningar Platóns um að skáldskapur eigi að vera fallegur og góður. Í þessu kristilega samfélagi sem ég ólst upp í er eins og við séum á platónskri öld þegar kemur að skáldskap.“

Í huga Daniu er tilgangur heimildarmyndarinnar skýr. „Ég þráði að brúa bilið á milli kristinna og ókristinna í færeysku samfélagi. Á milli þessara tveggja hópa hefur myndast stór gjá og miklir fordómar ríkja á báða bóga. Það virðist vera erfitt að staðsetja sig einhvers staðar þarna mitt á milli, þá verður maður auðveldlega utangátta, bæði innan kirkjunnar og utan hennar. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði bókina og ákvað að vera með í heimildarmyndinni var sú að mig langaði til þess að að þessir hópar gætu reynt að skilja hvor annan.“

Færeyingar og Íslendingar eigi mjög vel saman

Dania segir að núna fjalli skrif hennar og söngtextar ekki lengur um trú, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, og hún einbeitir sér að því að kanna eigin tilfinningar og upplifanir.

„Mig langar helst að lýsa því sem gerist bæði fyrir utan mig og innan og ég geri það á færeysku. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að skrifa og syngja á færeysku. Þetta gengur auðvitað misvel, suma daga er maður fullur af sjálfstrausti og aðra daga fer maður að efast um sjálfan sig. En ég held að þetta snúist fyrst og fremst um að halda í bjartsýnina og reyna að líta svo á að ferillinn sé rétt að byrja. Þetta ár hefur auðvitað verið ótrúlegt og mörg ný og spennandi tækifæri komið upp.“

Dania er þegar orðin þjóðþekkt söngkona í Færeyjum og hefur gefið út nokkrar plötur sem hafa einnig vakið athygli utan landsteinanna. Skál hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim og reynir Dania að vera viðstödd eins margar frumsýningar og hún getur. Hún var beðin um að koma fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 2021, en hátíðinni var að lokum aflýst vegna COVID-19 faraldursins. Sjálf segist Dania hafa fengið meira rými til að skrifa eftir að hún flutti til Íslands en einnig nýti hún tímann í að sinna náminu.

„Ég er í áföngum í bókmenntafræði og íslenskri menningu. En ég finn að heimsfaraldurinn hefur sett dálitinn svip á félagslífið og það er erfitt að kynnast fólki í skólanum. Hins vegar hef ég náð að kynnast nýju fólki á öðrum stöðum. Ég tengi mikið við Íslendinga og ég held að Færeyingar og Íslendingar eigi mjög vel saman hvað varðar húmor og stemningu almennt. Ísland minnir mig mjög mikið á Færeyjar, það er bara aðeins stærra.“

„Hvernig geturðu eiginlega kallað þig kristna?“

Dania segir að það fylgi því léttir að hafa flutt til annars lands eftir að ljóðabókin og heimildarmyndin komu út: „Ég kom til Íslands til þess að reyna að slappa aðeins af. Eftir að myndin var frumsýnd í Færeyjum var stöðugt verið að slúðra um mig og ég fékk fjöldann allan af skilaboðum, bæði góðum og slæmum. Þetta var rosalega yfirþyrmandi. Sumir þökkuðu mér fyrir og sögðust hafa svipaða reynslu en aðrir skrifuðu til að spyrja mig hvort ég áttaði mig á hvað ég væri að gera. Ég fékk spurningar á borð við: „Hvernig geturðu eiginlega kallað þig kristna?“ Margir sendu mér líka vers úr Biblíunni til að sýna mér að ég hefði rangt fyrir mér og ég þurfti sífellt að verja sjálfa mig. Auðvitað er þetta lítið samfélag og hér á Íslandi get ég bara gengið um án þess að rekast á neinn sem þekkir mig.“

Áður en Dania heldur heim úr skiptináminu á Íslandi mun hún koma fram á jólatónleikum Eivarar Pálsdóttur í Hörpu þann 5. desember næstkomandi. Einnig er hægt að kynna sér tónlist hennar á streymisveitum á borð við Spotify og Youtube.

Um höfundinn
Guðrún Brjánsdóttir

Guðrún Brjánsdóttir

Guðrún Brjánsdóttir er meistaranemi í íslenskum fræðum við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila