Því engin saga sögð að fornu og nýju er sárari en af Rómeó og Júlíu

Það er skammt stórra högga á milli núna í leikhúsunum eftir tilslakanir í sóttvörnum með batnandi horfum. Guði sé lof!

Hinn frægi harmleikur Williams Shakespeare, Rómeó og Júlía, var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu um síðustu helgi í leikstjórn Þorleifs Arnarssonar. Að hans hætti er þessi sýning áhrifamikil, frumleg, skrautleg og svolítið villt.

Júlía

Eins og hæfir „me too” tímum er áhersla sýningarinnar á Júlíu. Hún er af Kapulett ættinni, annarri valdamestu ætt í Veróna, og foreldrar hennar ætla að gifta hana París greifa. Rómeó er af hinni valdamestu ættinni í Veróna, Montag ættinni og þessar tvær ættir hatast. Gengi Rómeós og Montagmenn svindla sér inn á grímuball hjá Capulet fólkinu þar sem verið er að „frumsýna“ Júlíu. Ungmennin verða ástfangin og þar hefst harmleikur þeirra, átök og dauði sem kunnugt er.

Unglingurinn er “opið kerfi” sagði Júlía Kristeva, hann er mjög á valdi líkamans sem er í kröftugu breytingaferli, nýuppgötvuð kynhvöt ólgar en siðferðilegt reglukerfi á erfitt uppdráttar. Þess vegna er unglingurinn svo veikur fyrir einhverju yfirþyrmandi, hann kastar sér á allsherjarlausnir sem gætu bjargað honum frá ruglinu; þráhyggju, öfgasamtök, eiturlyf eða hamslausa ást, rétt eins og Júlía og Rómeó völdu.

Júlía og Rómeó

Ebba Katrín Finnsdóttir býr til öflugustu Júlíu sem ég hef séð. Hún miðlar tilfinningalegum rússíbana hennar, spennu og hamingju yfir fyrstu ástinni afar vel og jafnframt kúguninni, eða því hvernig ofbeldið og harkan, sem hún er beitt þegar hún neitar að giftast greifanum, sýnir henni stöðu sína. Hlutverk hennar sem kona í þessu samfélagi er að hlaupa í hringi eins og sirkushestur til dómsdags. Þá vill hún frekar deyja. Mótleikari hennar, Sigurbjartur Sturla Atlason, er líka gríðargóður Rómeó, bjartur og fagur en eyðileggur líf sitt endanlega með morðinu á frænda Júlíu.

Fjölmiðlar og fjölbreytni

Í þessari sýningu, eins og í sýningu Unnar Stefánsdóttur Vertu úlfur, eru stórir skjáir notaðir til að búa til nærmyndir af persónum og atburðum. Þetta er eitt af því sem höfðar til ungra áhorfenda en sýningin leitast einmitt við að tala til þeirra. Unga kynslóðin horfir mikið á stutt myndbönd og annað myndefni og þessi tækni er notuð fagmannlega en myndbandshönnun er eftir Nönnu MBS og Signýju Rós Ólafsdóttur. Tónlist og dans leika líka gríðarmikið hlutverk í sýningunni og þar er teflt fram flinkum dönsurum og tónlistarmönnum svo sem Bríeti Ísis Elfar, sem bæði söng og lék og var ótrúlega flott auk Sölku Valsdóttur, Ebbu Katrínu Finnsdóttur sem er einn lagasmiða, Sigurbjarti Sturlu Atlasyni og Auði. Hallgrímur Ólafsson lék París greifa og stal senunni í söngatriði í veislu tilvonandi tengdaföður Capulet og minnti mig ekki lítið á flagarann Alexander Lemtov í Eurovision song contest: The fire saga.

Búningar eru eftir Önnu Rún Tryggvadóttur og Urði Hákonardóttur. Þær leggja áherslu á unglingamenningu, stelpurnar eru með skærlitaðar hárkolllur og stíllinn minnir á japönsku krútttískuna Kawaii og barngervinguna sem sjá má  útum allt í henni. Shakespeare raðar vinum kringum Rómeó en Þorleifur raðar vinkonum kringum Júlíu, þær eru kallaðar hliðarsjálf Júlíu í leikskrá og eru Rebecca Hidalgo, dansari og Salka Valsdóttir, sem er tónlistarstjóri sýningarinnar.  Fyrri hluti sýningarinnar einkennist mjög af litadýrð og stuði en seinni hlutinn er myrkari, ofbeldið þéttist og ljóminn fölnar.

Femínískar áherslur

Áður er sagt hvernig þyngdarpunktur sýningarinnar er færður yfir til Júlíu og það gerist mest í síðari hlutanum. Arnar Jónsson lék Kapulet og gervið var alveg kostulegt, hégómlegt og svolítið stórkarlalegt en um leið er hann vænn við Júlíu sína, meðan hann telur að hún muni gera allt sem hann vill. Þegar téð „Júlía hans“, og skiptimynt í efri stéttum Veróna, heldur að hún geti sagt „nei” við hann afhjúpar hann bæði ofsa og fantaskap fyrir utan orðræðu sem fær kaldan hroll til að fara um fleiri en Júlíu. Það skyldi þó aldrei vera að Don Vito Corleone hafi átt ættir að rekja til Veróna? Og um leið skilur maður betur lögnina í hlutverki konu hans sem Nína Dögg Filippusdóttir lék. Aðeins ein manneskja í fjölskyldunni sýnir Júlíu samlíðan en það er fóstran sem Ólafía Hrönn lék af mikilli næmi.

Breytingar

Rómeó og Júlía er af höfundarins hálfu mannmörg sýning með um 30 manna áhöfn. Hrafnhildur Hagalín er dramatúrg þessarar sýningar og þau Þorleifur fækka persónum niður í ellefu. Merkutsíó, vini Rómeós og föður Lórens, er rennt saman í einn mann sem Atli Rafn Sigurðsson leikur af list. Og endi verksins er breytt. Þar var upphaflega frekar flókinn blekkingarleikur sem átti að bjarga elskendunum eins og menn muna. Júlía átti að drekka gervieitur svo að hún virðist líflaus en vaknaði innan tveggja daga og Rómeó átti að sækja hana þá en fékk ekki þau boð um brögðin, hélt að hún væri dáin og drakk sjálfur alvörueitur. Júlíu varð svo mikið um þegar hún vaknaði og Rómeó var dáinn að hún stakk sig til bana með rýtingi hans.

Í nýju sýningunni stytta þau sér aldur bæði og saman frekar en að lúta dómi feðraveldisins og láta það skilja sig að. Þetta fer fram í lestarklefa sem er hækkaður upp á sviðinu, myndrænn og mögulega táknrænn fyrir hina hinstu ferð. Þetta er jafnframt ansi mikil breyting á lokum verksins og þar með túlkun þess.  Senunni er varpað upp á skjá í stækkaðri mynd og þessi hápunktur sýningarinnar var hlaðinn táknum en snart mig satt að segja ekki.

Þýðingin

Þýðinguna gerðu tvö ung skáld, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarsson. Þau velja að íslenska verkið með vísunum til ungrar menningar samtímans, með rapptakti og slangri, fyndnu og stundum ruddalegri lágmenningu í bland við hámenningu sem birtist í vísunum til fegurstu ljóða íslenskra bókmennta. Allt er þetta létt og virkar áreynslulaust en hefur augljóslega verið mikið átak.

Þýðing ungskáldanna er gerð fyrir þessa sýningu, mér fannst góð skemmtun að lesa hana og vona að hún verði gefin út svo að fræðimenn sem vilja bera saman þýðingar verksins geti gert það.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila