Ásta frá Litla Hrauni

Ólafur  Egill Egilsson hefur sérhæft sig í ævisögulegum verkum tilbeðinna og umdeildra listamanna, það fylgir svo sannarlega tímans straumi. „Hið persónulega er pólitískt” sagði Rauðsokkahreyfingin í gamla daga,  löngu á undan „Meetoo“, og núna er það harla viðtekinn sannleikur og það líka að allur sannleikur sé staðsettur í líkama þess sem talar og skilyrt af honum.

Í verkunum um Ellýju Vilhjálms og Bubba gekk Ólafur langt í að segja sögu þessara átrúnaðargoða ófegraða en þegar hann setur sögu Ástu Sigurðardóttur á svið gengur hann enn lengra og kafar dýpra.

Flott sýning

Leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er haganlega gerð. Á hinu litla sviði Kassans er búið til „baksvið“ þar sem hljómsveitin er á upphækkuðum palli  hægra megin en vinstra megin og framar í rýminu er hringstigi með palli efst sem hægt er að nota fyrir afdrifarík atriði. Undir stiganum er líka hægt að koma fyrir húsmunum o.s.frv.  Hljómsveit Guðmundar Óskars Guðmundssonar og Matthildar Hafliðadóttur flutti nokkur lög sem vinsæl voru um miðja síðustu öld, gamla og góða smelli, en þau hafa líka samið ný lög við ljóð Ástu og fluttu þau í sýningunni. Einstaklega fallegt var lagið við Álfarímu sem flutt var undir lokin: Dimm er nótt og daufleg jól, dapurt lítið hjarta, svartálfur í svörtum hól, syrgir álfinn bjarta…

Búningar voru í höndum Sigríðar Sunnu Reynisdóttur og Sigurbjargar Stefánsdóttur. Þeir fylgdu tísku sjötta áratugarins og þegar ég sá fyrst myndir af þeim hugsaði ég að á sínum tíma hefði Ásta mögulega átt fyrir tvinnanum en áreiðanlega ekki efninu í rauða kjólnum sem hún skrýddist í upphafi. Hún var afskaplega fátæk.

Laugavegur 11

Laugavegur 11 var „listamannakrá“. Þar var ekki selt vín en ekki amast við því að menn væru með flöskur undir borðum. Þar hittust allir og þar var Ástu oft að finna á fyrstu Reykjavíkurárunum, ef hún var ekki á Kommakaffi. Myndin sem dregin var upp af atómskáldum, útgefendum, tískuhöfundum og gáfumönnum var grínaktug en Oddur Júlíusson sló öllum öðrum við í hlutverki Jónasar Svavár og Kalla rafvirkja og fleiri reikistjarna kringum Ástu. Allir leikararnir léku mörg hlutverk nema hún. Hver var Ásta Sigurðardóttir frá Litla Hrauni?

Móður og systur Ástu leika þær Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Steinunn Arinbjarnardóttir og túlka afskaplega vel varnarleysi þeirra andspænis hamslausri sjálfseyðingarhvöt Ástu. Meira vildi ég sjá af þeim á sviði sem fyrst.

Það er ekki heiglum hent að leika Ástu, konu sem svo miklar og sterkar tilfinningar hafa verið bundnar við. Líf hennar varð stutt og dramatískt. Henni hefur verið líkt við íslenska Marilyn Monroe og Sylviu Plath – með réttu eða röngu. Hún varð goðsögn í lifanda lífi, elskuð og hötuð og kannski var Ásta aldrei til öðruvísi en sem vörumerki og hvað á bak við það var veit enginn.

Ásta er mikilvægasta hlutverk Birgittu Birgisdóttur hingað til. Hún passar afar vel inn í það, hún er falleg og framandleg og með þessa greiðslu minnir hún sláandi á málverk eftir Rosetti.

Upplausn og endursköpun

Ég viðurkenni að ég skildi ekki lögnina í hlutverkinu í fyrri hluta sýningarinnar. Ásta er þar mætt hjá ungum framúrstefnuskáldum og talar eins og sá sem valdið hefur. Hún talar ekki við heldur yfir félögum sínum. Hún heldur háværar einræður um skáldskap, tilvistarstefnu og sósíalisma.  Á þessum tímum ríkti mikil gáfumannadýrkun sem náði alla jafna ekki til kvenna og þó að Ásta væri fræg fyrir að vera mjög orðheppin og kjaftfor og léti engan eiga inni hjá sér ef menn voru að skensa hana eða ætluðu að valta yfir hana, þá er teygt úr þessum orðræðum og þrætubókartónn hennar verður eintóna og þreytandi.

Í fyrri hlutanum er líka verið að endurskapa andrúmsloft eftirstríðsáranna þar sem landið opnaðist og nútíminn fossaði inn mörgum til skelfingar. Þetta var blómaskeið Ástu. Unga fólkið slokaði í sig strauma og stefnur frá útlöndum, það var flogið hátt og fallið lágt, margir voru „sjení þar til annað sannaðist“ og öllu ægði saman. Gefin var mynd af þessum átaka- og óróleikatímum í fyrri hlutanum, fátt var sagt um margt og kaflinn varð svolítið ruglingslegur. Hins vegar kom það vel fram að það var gaman að vera ungur og vera til. Það var mikið drukkið og dópað og híað á hneykslaða góðborgara.

Í seinni hluta sýningarinnar verða umskipti, uppreisnin er að verða súr, ennþá hringsnúast strákarnir, elskhugar í vonum, kringum Ástu eins og „hjól í spunarokk“, en fordæming góðborgaranna sest að skáldkonunni og ekkert skrifast. Loks finnur Ásta ástina í rómantískum sveitastrák, Þorsteini nokkrum frá Hamri. Stelpan hans Benna á Hrauni er loksins komin í fasta höfn.

Harmleikur

Í seinni hlutanum sýnir  Birgitta Birgisdóttir stórleik, þar verða blæbrigðin fleiri, Ásta er hamingjusöm og það kemur fram hve mjög þau Þorsteinn þrá að búa til fyrirmyndarfjölskyldu. Þau vinna saman til að byrja með. Þorsteinn var leikinn af Gunnari Smára Jóhannessyni  sem sýnir vel hvernig þessi ungi maður, sem er svo hrifnæmur í upphafi, brotnar smám saman andspænis álaginu og ofsa Ástu sem sættir sig aðeins við allt eða ekkert. Hann breytist. Gunnar Smári var líka mjög sannfærandi Steingrímur St Th. útgefandans sem „bjó til“ ímynd Ástu.

Það er líka þriðji aðilinn í sambandi Ástu og Þorsteins, Bakkus að nafni. Ásta var langt leidd og Þorsteinn drakk með konu sinni eða vinum sínum og bæði vanræktu börnin sín. Á þessum tíma var áfengissýki talinn siðferðilegur brestur en ekki sjúkdómur. Meðferðarúrræði við jafn veika manneskju og Ásta var voru fá og smá, hún reyndi sannarlega að hætta nokkrum sinnum en réði ekki við það.

Birgitta sýnir margar, viðkvæmar, glaðar og gefandi hliðar á Ástu í leik og störfum í síðari hlutanum, börnin eru að fæðast, og hún veit að Þorsteinn muni aldrei svíkja sig. Hvorki Ásta né Þorsteinn geta unnið að list sinni né hvílt sig, hann er 25 ára, hún 33 og börnin orðin fimm. Flaskan er alltaf á borðinu. Ásta er  orðin fárveikur alkóhólisti og Þorsteinn yfirgefur hið sökkvandi skip. Hann gengur út frá drukkinni konu sinni og börnunum fimm á Þorláksmessukvöld, börnin eru tekin af Ástu, grátt leikin, og komið fyrir uppi í Borgarfirði.

Birgitta fór allan skalann í því að sýna örvæntingu Ástu eftir að börnin voru farin í lokin. Það var hjartaskerandi og erfitt að horfa á.

En ennþá finnst mér spurningin standa opin: Hver var Ásta Sigurðardóttir og hvað var bak við öll hennar leikgervi?

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila