Þétting hryggðar er fyrsta leikrit Halldórs Laxness Halldórssonar, öðru nefni Dóra DNA. Hann vakti eftirtekt fyrir ansi góða skáldsögu, Kokkál sem kom út í árslok 2019. Annars er hann þekktastur sem uppistandari og grínisti og þess má svo sannarlega sjá merki í leikritinu Þétting hryggðar sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu. Uppistandsreynsla skáldsins kemur bæði fram í byggingu verksins með stuttum senum og ydduðum þéttum bröndurum. Ég hef ekki lengi, kannski aldrei, heyrt salinn hlæja jafn rosalega og á þessari frumsýningu.

Gíslar á borgarskrifstofu

Fjórar persónur eru lokaðar inni í skrifstofubyggingu. Sprengjur hafa sprungið, sérsveit lögreglunnar umkringir húsið og þá sem í því eru og þessi fjögur eru sem sagt gíslar hryðjuverkamannsins. Þegar leikritið hefst eru þau öll niðursokkin í farsímana sína og hafa greinilega verið það nokkra stund því að batteríin tæmast hjá þeim öllum innan skamms. Þau geta eftir það engar fréttir fengið utan frá og vita ekkert hvað er á seyði. Skortur á farsímasambandi reynir alvarlega á taugakerfið. Í ljósi lífshættunnar sem fólkið er í er það kaldhæðnislegt að tvö ofsafengnustu atriði verksins er þegar upp kemst að einn í hópnum er að fela virkan farsíma og seinna hvernig eigi að skipta á milli sín pizzu sem dettur af himnum ofan á sviðið.

Persónurnar eru áhrifavaldurinn – í vonum, Þórunn (Vala Kristín Eiríksdóttir) aðgerðasinninn Írena (Rakel Ýr Stefánsdóttir), verktakinn Máni (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og arkítektinn Einar Baldur (Jörundur Ragnarsson). Þau þekkjast ekkert en óhjákvæmilega kynnast þau í einangruninni og það verða átök manna á milli og/eða skoðanabandalög, skætingur og stympingar  – en miðja verksins og það sem alltaf gerir einstaklingana að hóp aftur, það sem sameinar þá og sundrar er borgin, Reykjavík. Kannski er hún bara aðalpersóna verksins?  Umræðurnar um hverfi borgarinnar eru fyndnar og þó þeir væru stöðugir skotspónar, Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson, þá hlógu þeir mjög á frumsýningu og Gísli Marteinn sem var mun meiri skotspónn setti sömuleiðis svip á verkið.

Persónur verða persónur

Persónurnar fjórar stíga ein og ein út úr hópnum, segja sögu sína og dýpka þar með upplýsingar áhorfenda um það hver þau eru. Það fundust mér bestu atriði sýningarinnar. Í Þéttingu hryggðar voru notuð blikkljós og hvell hljóð í bakgrunni til að ramma þessa kafla inn. Sem var alveg ofaukið því að sögurnar voru fyrst og fremst sagðar fangahópnum sem tók einnig þátt í að sviðsetja þær.

Leikmynd Evu Signýjar Berger virkar í fyrstu fráhrindandi og kuldaleg. Leikritið á að gerast í opinberri byggingu á vegum Reykjavíkurborgar en þarna voru kuldalegar háar grindur (eins og byggingarstillasar?) sveipaðar grænum dúkum í bakgrunninn – leikmyndin var ekkert notuð sem slík og dúkarnir þvældust fyrir leikurum í inn og útkomum.  En kannski má túlka hana sem tákn borgarinnar sem persónurnar hrærast í – alltaf verið að brjóta niður og byggja nýtt og þétta byggðina, alls staðar byggingakranar og stillasar.

Sögur persónanna fjögurra í meðförum þessara fínu leikara voru allar nöturlegar og áhrifamiklar og sýndu, hver fyrir sig, inn í heim fólks sem var búið að klúðra sínu lífi verklega. Þar var mikið og magnað efni sem mátt hefði vinna meira með. Skelfilegust var saga Þórunnar og drengsins hennar, Torfa, sem flotti eiginmaðurinn hefur ekki áhuga á.  Drengurinn á enga vini og situr einn og spilar tölvuleiki ár eftir ár og kemur ekki út fyrir dyr bílskúrsins þar sem hann fær að búa – innan um “annað” rusl.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila