Burt með hringekjuna!

Það er öllum ljóst að núverandi kerfi við kosningar til Alþingis er meingallað og ekki til þess gert að vekja traust almennings. Hluti vandans snýr að því að fólki þykir óréttlátt að möguleikar fólks til að velja sér fulltrúa eru mismiklir eftir landshlutum. Annað vandamál snýr að því að sumir flokkar sem eru í framboði fá ekki úthlutað þingsætum í samræmi við fjölda atkvæða. Að auki  þykir fólki sú hringekja millifærslu á svonefndum uppbótarþingsætum fáránleg, auk þess sem kerfið leiðir oft til þess að ákveðnir aðilar eru kosnir á þing með afar lítið hlutfall atkvæða á bak við sig.  Umræan um endurbætur á kerfinu snýst um það að sumir vilja tryggja áhrif landsbyggðarinnar á þingi, þar sem fólk stendur nær þingmönnum sínum, en aðrir vilja helst eitt landskjördæmi þar sem allir sitja við sama borð. Svo er að heyra að fólki þyki þessi sjónarmið ekki geta samræmst. Ég vil því koma á framfæri hófstilltum breytingatillögum á núverandi kosningakerfi þar sem hægt væri að sætta þessi ólíku sjónarmið. Fólk gæti sem fyrr kosið sér fulltrúa í sínu kjördæmi en jafnframt væri í boði landskjördæmi þar sem allir kjóendur sætu við saama borð, óháað búsetu.

Meginatriði þessarar tillögu byggir á því að rúmlega helmingur þingmanna, eða 32 alls, yrði kosinn á forsendum núverandi kjördæmakerfis. Restin, eða 31 þingmaður, yrði landskjörinn. Landinu yrði skipt upp í átta kjördæmi þaar sem hvert kjördæmi hefði  4 þingmenn. Í meðfylgjandi töflu má sjá mögulega útfærslu á nýju kjördæmakerfi sem byggir á núverandi kerfi að mestu leyti en skiptir stærstu kjördæmunum upp þannig að nokkurn veginn sami fjöldi atkvæða yrði á bak við hvern kjördæmaakjörinn þingmann.

Eins og hér má sjá væru rétt rúmur helmingur þingmanna kjördæmakjörinn samkvæmt þessari tillögu. Fólk hvar sem er á landinu ætti þá aðgang að sínum þingmönnum sem væru fulltrúar þess. Restin af þingmönnum, eða 31, yrði kosinn á landsvísu. Þeir sem væru kosnir á þann hátt væru allir þeir sem væru í framboði í kjördæmunum 8. Flokkarnir bæru ábyrgð á því að raða þeim í forgangsröð á landslistanum. Framkvæmdin væri  sú að þegar búið væri að úthluta þingsætum til kjördæmakjörinna þingmanna færi restin af atkvæðum flokkanna á lista yfir landið allt þar sem þingmenn yrðu kosnir út frá fyrirframgefinni forgangsröð flokkanna.

Niðurstaðan úr þessu væri sú að allir hefðu nokkuð jafnan aðgang að því að velja sér fulltrúa í sínu kjördæmi. Vægi allra atkvæða yrði hins vegar fullkomlega jafnt þegar kæmi að kjöri þingmanna á landsvísu. Þar sem röð frambjóðenda í landskjöri væri ákveðin fyrirfram yrðu breytingar á kjöri manna meðan á kosningu stæði skiljanlegar og hófstilltar, nokkuð sem væri líklegt til að auka traust almennings á skipulagi lýðræðis hér á landi.

Um höfundinn
Hlynur Helgason

Hlynur Helgason

Hlynur Helgason er myndlistarmaður og listfræðingur. Hann er lektor í listfræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og stundar m.a. rannsóknir á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi. Sjá nánar

[fblike]

Deila