Oleanna: Valdið til að skilgreina sannleikann

Borgarleikhúsið, Nýja sviðið
Frumsýning: 18. september, 2020
Höfundur: David Mamet
Leikstjórar: Hilmir Snær Guðnason og Gunnar Gunnsteinsson

Ungur háskólanemi, Carol, gengur inn á skrifstofu kennara síns í öngum sínum vegna þess að hún nær engu sambandi við námsefnið og óttast að falla. Hugsanlega er bók kennarans full af merkingarleysum en Carol er sannfærð um að skilningsleysi hennar stafi af því að hún sé svo heimsk. Háskólakennarinn, sem á von á fastráðningu hvað úr hverju og er sífellt truflaður með símtölum vegna húsakaupa sem hann stendur í, faðmar hana samúðarfullur og gerir henni tilboð: Hún fær tíu í einkunn ef hún mætir í nokkur skipti – ein – á skrifstofu hans. Áhorfandinn sér og heyrir allt sem gerist á skrifstofunni. Eftir því sem líður á verkið verður hann þó minna viss um hvað gerðist í raun og veru, hver sé að níðast á hverjum.

Þetta verk bandaríska höfundarins Davids Mamets frá árinu 1992 var heimsfrumsýnt í öðru andrúmslofti í jafnréttismálum en nú ríkir og hefur vafalaust talað öðruvísi til fólks en það gerir nú, nærri þrjátíu árum og að minnsta kosti einni MeToo byltingu síðar. Verkið eins og það er sett upp á Nýja sviðinu nú fjallar fyrst og fremst um vald – valdaójafnvægi, valdníðslu, valdeflingu, vald orðanna og tungumálsins og vald þess sem fær að skilgreina og ákveða hvað það var sem raunverulega gerðist, og þar með hvar sektin liggur.

Það má horfa á báðar persónur verksins sem fulltrúa síns bakgrunns (stéttar, kyns, stöðu) en þau ná ekki að skilja hvort annað eða sjá sjónarhorn hins. Enda tala þau ekki sama tungumálið. Hvort um sig skilgreinir það sem gerist inni á skrifstofu háskólakennarans út frá sínum reynsluheimi og sínu sjónarhorni, sannfærð um eigin réttsýni og sekt hins.

Hvort um sig tekur sér vald, með þeim ráðum sem þau hafa, til að skilgreina atburðina. Öðrum þræði fjallar verkið einnig um tungumálið, vald þess og noktun. Carol býr ekki yfir sama orðaforða og John, hennar félagslegi bakgrunnur er annar og hún hefur þurft að hafa mikið fyrir því að brjótast til menntunar. Reynsluheimur Carol er sem lokuð bók fyrir John og hann er þar að auki algjörlega blindur á eigin forréttindi sem hvítur karlmaður í valdastöðu og skilur alls ekki hverjum klukkan glymur. Hvorugt þeirra er skrímsli þrátt fyrir að þau níðist hvort á öðru, heldur er í þessari vel heppnuðu uppfærslu einstigið fetað af miklu öruggi svo að samkennd helst með báðum persónum. Allt rekst þetta svo kröftuglega á í sterkum átakapunktum.

Þetta er mjög vel skrifað leikrit, texti þess er snarpur, snjall og þéttur, í íslenskri þýðingu Kristínar Eiríksdóttur. Verkið gerist í bandarísku umhverfi og er ekki staðfært enda engin þörf á því. Það er krefjandi taktur í textanum, þar sem hálfkláraðar setningar og frammígrip einkenna sérstaklega fyrsta hlutann. Þar reynir á næmni leikaranna í tímasetningum og samleik til að egghvöss baráttan um orðið og valdið skili sér.

Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk háskólakennarans og leikur það í höndunum á honum. Hilmir spilar meistaralega á allan skalann í gegnum sviptingar verksins, allt frá smæstu blæbrigðum og hárfínum sviðshreyfingum upp í mergjaðar senur þrungnar krafti, þar sem áhorfandinn finnur til innilegrar samúðar með honum eina stundina en fyllist djúpri fyrirlitningu hina. Vala Kristín Eiríksdóttir leikur háskólanemann Carol, hennar fyrsta aðalhlutverk á leiksviði, og ferst það afar vel úr hendi. Persóna Carolar er hrárri og dregin færri dráttum, en þeim mun meiri er krafturinn þegar hún tekur sér valdið í seinni hluta verksins.

Leikmynd Seans Mackaouis samanstendur af stórum flekum sem mynda bókahillur utanum virðulega skrifstofu háskólakennarans en breyta um svip og þrengja að honum eftir því sem verkinu vindur fram. Falleg lýsing Þórðar Orra Péturssonar og hljóðmynd Garðars Borgþórssonar og Þorbjörns Steingrímssonar vinna saumlaust með heildarmynd sem er án allrar ágengni. Hér eru góður leikur og góður texti í forgrunni, í vel heppnaðri uppfærslu á átakamiklu verki sem spyr stórra spurninga.

Um höfundinn
Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir er blaðamaður og bókmenntafræðingur. Hún starfar sem nýdoktor við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum.

[fblike]

Deila