Fyndið, vandræðalegt og óendanlega hlýtt

Upphaf
Þjóðleikhúsið, Kassinn
Fjórða sýning, 29. september, 2020
Höfundur: David Eldridge
Leikstjóri: María Reyndal

Þegar gestirnir fara úr innflutningspartíi Guðrúnar hinkrar Daníel við og verður einn eftir – enda hafa neistarnir flogið á milli þeirra allt kvöldið. Þetta eru kunnuglegar aðstæður úr íslensku djammlífi þó að leikritið sé breskt og gerist upphaflega í Lundúnum. Auður Jónsdóttir hefur þýtt verkið af list og staðfært á snjallan hátt og útkoman er saumlaus.

Það sem gerist næst í þessu tveggja manna hjartnæma leikriti er óborganlega fyndið og skerandi vandræðalegt, en fyrst og fremst gegnsósa af mannlegri hlýju frá upphafi til enda. Eins og fluga á vegg fáum við að fylgjast með því sem gerist í íbúð Guðrúnar, í níutíu mínútur án hlés. Við fylgjumst með Guðrúnu og Daníel tengjast og berskjalda sig eina næturstund sem mögulega markar upphafið að sameiginlegri framtíð þeirra beggja.

Þessi sýning vísar ekki út á við í þjóðfélagsástand eða ytri atburði, heldur beint inn á við þar sem mannlegar þrár og tilfinningar eru í forgrunni. Hér er fjallað á hlýjan og afar kómískan hátt um leitina að nándinni og ástinni, einmanaleika og væntingar. Persónurnar tvær eru hjartagott fólk um fertugt úr millistétt nútímans. Guðrún er hreinskilin við Daníel um hvað það er sem hún vill og það gerir Daníel enn taugaóstyrkari. Án þess að vilja ljóstra of miklu upp, þá er það hugsanlega eini akkilesarhællinn á framvindunni hversu erfitt er að trúa því að Daníel verði við þessari tilteknu ósk hennar einmitt þetta kvöld, miðað við hvernig fortíð hans og sálarástand eru teiknuð upp í verkinu.

Leikstjóranum Maríu Reyndal hefur tekist framúrskarandi vel sú jafnvægislist að skila á sterkan hátt innilegum tilfinningum samtímis því að uppfærslan er svo óborganlega fyndin að salurinn sprakk hvað eftir annað úr hlátri. Raunar lifði salurinn sig svo inn í verkið að það heyrðust margsinnis andköf frá bekkjunum á ögurstundum eða kæfð óp. Sýningin er afar heil og sterk; hér hefur verið vandað til verka og Maríu tekst að halda spennunni, tilfinningunum og húmornum frá upphafi til enda á jafnan og öruggan hátt.

Það er að sjálfsögðu ekki síst vegna þeirra frábæru leikara sem sem fara með hlutverk Guðrúnar og Daníels sem svo vel tekst til. Bæði Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson hafa auðvitað löngu sýnt hvers þau eru megnug, en hér ná þau samleik og samspili sem er algjör unun á að horfa. Andrúmsloftið er þrungið bæði vonbrigðum fortíðarinnar og heitum framtíðarvonum, þau tjá á víxl sterka þrá og miklar efasemdir með fínlegu og nákvæmu líkamstungumáli, en síðast en ekki síst er það hin mikla næmni beggja fyrir kómík sem undirstrikar berskjöldunina og afhjúpar hræðsluna sem fylgir því að taka stökkið og treysta annari mannesku fyrir þrám sínum og löngunum. Og dansatriðið er auðvitað gjörsamlega óborganlegt.

Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar er í raunsæislegum anda, stofa og eldhús þar sem skemmtilegt partý hefur farið fram, tómar flöskur, bakkar og konfetti um allt. Íbúðin á auðvitað að vera smart, enda er Guðrún í góðri stöðu og greiddi töluvert fé fyrir hana, en í slíkum íbúðum heyrast ekki djúpir dynkir og holhljóð eins og í kofa þegar gengið er um (og nokkuð mikið er gengið um í uppfærslunni). Sem áhorfandi verður maður því óvænt mjög meðvitaður um leikmyndina: smíði hennar þrengir sér óboðin inn í upplifunina af því sem gerist á sviðinu. Þetta er erfitt við að eiga, enda sitja áhorfendur mjög nálægt sviðinu í Kassanum.

En út heldur áhorfandinn með hlýju í hjartanu. Eftir að Guðrún og Daníel hafa deilt með okkur sínum innstu hugrenningum, berskjaldað sig og kveikt innilegan hlátur, langar mann eiginlega mest að hringja í þau daginn eftir og inna þau eftir því hvernig hafi gengið.

Um höfundinn
Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir er blaðamaður og bókmenntafræðingur. Hún starfar sem nýdoktor við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum.

[fblike]

Deila