Engum sæmir aðra að svíkja, allan sóma stunda ber…

Kardimommubærinn er kominn á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu og það er fagnaðarefni fyrir íslensk börn – og foreldra. Leikritið og söngvar Torbjörn Egner eru frá 1955 en þeir eru löngu orðnir hluti af íslenskri og skandinavískri barnamenningu.

Bær í suðrinu

Torbjörn Egner (1912-1990) teiknaði bæði leikmynd og búninga sjálfur í leikrit sín og þó aðrir semdu tónlistina við Dýrin í Hálsaskógi samdi hann sjálfur tónlistina við Kardimommubænum. Hann ferðaðist töluvert, m.a. til suður Evrópu og norður Afríku og þar eru fyrirmyndir hans að húsunum og turnunum sem hann setti niður í sviðsmynd sína á Kardimommubæ.  Í þessari sýningu virðist leitað til Mexíkó í búningum.

Sagan segir að Egner hafi fyrst teiknað og hannað leikmyndina og síðan valið persónurnar sem áttu að búa í bænum og loks samið söguþráð og samtöl leikritsins og tónlist. Sagan segir líka að meðan hann lifði hafi hann verið ansi erfiður leikhússmönnum sem settu upp verk hans því engu smáatriði mátti breyta frá hugmyndum hans. Nú eru það eftirlifandi börn hans sem standa vörð um þá arfleifð og anda verkanna.

Einfalt, fallegt og leynir á sér

Ekki þarf að rekja efni Kardimommubæjarins fyrir þeim sem eiga börn eða hafa verið börn. Og það er mesta furða hvað maður getur afborið að hlusta oft á þetta verk í flutningi bestu leikara Þjóðleikhússins í uppfærslunni frá 1960. Það var Klemens Jónsson sem leikstýrði.

Nú er það Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir. Hún hefur gert afar fallegar mínímalískar sýningar en ég hef ekki áður séð stóra sýningu í hennar stjórn. Með hlutverk Bastían bæjarfógeta fer Örn Árnason, ungfrú Soffía var á frumsýningunni Ólafía Hrönn Jónsdóttir og ræningjarnir þrír voru í höndum Hallgríms Ólafssonar (Kasper), Sverris Þórs, Sveppar (Jesper) og Odds Júlíussonar (Jónatan). Þar var valinn maður í hverju rúmi. Ég verð að nefna sérstaklega ljónið (Ernesto Camilio Aldazábal Valdés)  sem var eins og fjórði ræninginn, liðugt og mjúkt og skynsamt í því að koma sér strax innundir hjá Soffíu frænku. Auk þessara burðarhlutverka skipta borgarar og börn í Kardimommubæ miklu máli í framvindunni.

Framsögn allra leikara í verkinu á leik- og söngtextum var alveg til fyrirmyndar og hvert einasta orð heyrðist upp á svalir!  Og þó eru hinir frábæru textar Kristjáns frá Djúpalæk ekkert lamb að leika sér við.

Það sem gerir Kardimommubæinn klassískt barnaefni er hvað hann er einfaldur og látlaus. Allt er sem það sýnist og sálfræðin vefst ekki fyrir neinum – að því er virtðist. Bastían er huglaus, Soffía er geðvond, Kasper er skapmikill en raunsær, Jesper er líka skapmikill en ekki raunsær og svolítið súr út í Kasper, Jónatan breyskastur og mesta krúttið. Allir þrá þeir að komast í hlýjuna í Kardimommubæ í staðinn fyrir að stela frá bæjarbúum.

Þó að verkið sé einfalt er það ekki auðvelt heldur afar vandasamt að túlka einfaldleika og einlægni á sviðinu.

Annar leikhússfélagi minn á sýningunni var að fara í leikhús í fyrsta sinn á sinni þriggja ára ævi. Hann kann Kardimommubæinn utan að (á sinn hátt) og vill gjarna ræða hann. Hann hélt að hann yrði hræddur við ljónið en varð í staðinn svolítið hræddur við Soffíu. Ólafía Hrönn mætti að ósekju dempa hana svolítið, Soffía er geðvond en engin skessa eins og kemur í ljós í lokin.

Íburður og stuð

Leikmynd gerir Högni Sigurþórsson og búninga María Th. Ólafsdóttir, danshöfundur var Chantelle Carey. Leikmyndin er afar falleg, turnar og hús eru einföld en um leið skrautleg og spænsk/arabísk áhrif í bogum og mjúkum formum og á miðju torginu er stytta af Torbjørn Egner.

Tónlist Torbjørn Egners er einföld, auðvelt að læra lögin og þau eru leikræn og barnvæn. Tónlistarstjórinn Karl Olgeir Olgeirsson jazzar þau upp og það held ég að sé frekar hugsað út frá þörfum barna en fullorðinna.  Þessi Kardimommubær skartar mjög mörgum ungum leikurum og dönsurum og fimleikafólki og leik- og dansgleðin hjá krökkunum er augljós og alltaf falleg. Þau stóðu sig vel. Sýningin er hins vegar á mörkum þess að vera ofhlaðin, sviðsmyndin tekur mikið til sín og fjöldasenurnar voru svolítið aðþrengdar.

En þó minna hefði kannski orðið meira verður að segjast að við skemmtum okkur prýðilega, öll þrjú.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila