Eyður: Sjónræn veisla og vatnssull

Eyður er önnur sýning Marmarabarna í samstarfi við Þjóðleikhúsið en sú fyrri, Moving Mountains, var sýnd á síðasta leikári. Flytjendur verksins eru þau Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir, auk Gunnars Karels Mássonar á píanó. Sviðslistaverkið Eyður býður áhorfendum með sér í ferðalaga til eyðieyju sem er einhvers staðar milli raunheims og skáldskapar, eins og segir um sýninguna. Orðin sem berast áhorfendum rétt áður en sýningin hefst ýtir undir þessa hugmynd því í stað þess að segja „góða skemmtun“ segir röddin „góða ferð“.

Hugrenningatengsl við hamfarahlýnun

Segja má að verkið skiptist í sjö hluta þó aðeins sé eitt hlé. Fyrsti hlutinn hefst í myrkri og þögn. Síðan heyrist lágt í vindi og ljós birtist í fjarska sem verður sífellt skærara þar til áhorfendur fá ofbirtu í augun. Rautt ljós lýsir upp tvö tjöld og á þau er varpað óljósum myndum sem líkjast hellamyndum, myndum af líkamspörtum, beinum og frumbyggjum. Um leið og stormurinn ágerist, hljóðin magnast og ljósin fara að blikka sést í fimm manneskjur. Í framhaldinu heyrast píanótónar og manneskjurnar fetar sig ofurhægt í gegnum draslið sem þekur sviðið.

Þá birtir á sviðinu og annar hluti hefst. Leikmunir taka á sig skýrari mynd; Þarna er að finna aragrúa af plastdóti, svo sem plastpoka, umbúðir, tjald, þvottabala og garðstóll en einnig reipi, viðarprik, staka vídeóspólu og pizzukassa. Allt er á rúi og stúi eins og fellibylur hafi feykt öllu um koll – og það skapar hugrenningatengsl við þær miklu náttúruhamfarir sem hamfarahlýnunin hefur haft í för með sér. Við að sjá svona mikið plast á einum stað er heldur ekki annað hægt en að hugsa til þess að það stefnir í að það verði meira af plasti en fiskum í sjónum árið 2050. Manneskjurnar hreyfa sig hægt um rýmið, hvekktar og undrandi að sjá, með hárið blautt og fötin klesst upp við líkamann. Allar eru þær eitthvað að bardúsa svo erfitt reynist að fylgjast með þeim öllum í einu. Þær gera ýmislegt skondið og heyra má áhorfendur bæla niður hlátur. Framarlega á sviðinu fara tvær manneskjur úr fötunum og vinda þær svo enginn vatnsdropi fari til spillis. Annars staðar eru búnir til skúlptúrar, þar á meðal origami fugl úr bláu plasti. Sköpunin þróast síðan út í tiltekt sem túlka mætti sem ádeilu á afþreyingu í rauntíma þar sem lítið gerist, samanber það þegar Landinn var í beinni útsendingu í 24 tíma. Hvítur og grænn eru áberandi litir framan af en auk þeirra er aðeins um silfurlitaðan, svartan og appelsínugulan. Við tiltektina verður græni liturinn enn meira áberandi og felst í því ákveðin von um bjarta framtíð.

Upphaf næsta þáttar markast á píanótónum og göngu karlmannanna um rýmið, það er sem þeir skoði verk á listsýningu. Hlátur áhorfendanna verður meira sannfærandi þegar fáránleikinn eykst. Klædd í regnponsjó fylla flytjendurnir hettur sínar af plastpokum og ganga rólega um rýmið og stíga nokkur dansspor. Ein í hópnum birtist þá í drottningargervi með veldisporta úr priki með gúmmíhanska á endanum og bolta undir hendinni, kúlutjaldið úr fyrsta þættinum er skikkjan hennar. Þegn drottningar fær svo vatn í fat ofan á kollinn á sér og hneigir sig svo að vatnið skvettist, líkt og þegar vatnsblaðra springur. Þessum þætti líkur með upplausn. Tónlistin stoppar í miðju stefi og boltanum er kastað upp í loft. Drottningin gengur um með boltann og hinir reyna að ná honum af henni. Hefst þar með eltingaleikur. Manneskjurnar hlaupa í hringi, fyrst allar í sömu stefnu en síðan verður óreiðan meiri og þær líta sífellt aftur fyrir sig líkt og á flótta. Heimurinn byrjar að hrynja, stærra tjaldið fer á hliðina og skúlptúrarnir eyðileggjast.

Síðasti þátturinn fyrir hlé er ólíkur hinum þáttunum. Þar færist ró yfir hópinn; Allir setjast niður og pizzukassinn úr öðrum þætti er opnaður. Sími er dregin fram og samtal fimmmenninganna er tekið upp eins og í Facebook-live og varpað upp á tjaldið sem liggur fyrir aftan þau. Samtalið er furðulegt þar sem allir halda fast í sitt umræðuefni og því er talað í kross. Að lokum er tjaldið dregið fyrir og hreyfimynd af þeim í beinni varpast á rautt tjaldið.

Plastið í hafinu

Myndbandstæknin er aftur nýtt eftir hlé. Þá er hreyfimynd af öldum á rauða tjaldinu. Þegar tjaldið er dregið frá hefur kúlutjaldið verið blásið upp svo það minnir á hnött og sett á stand. Myndbandi af öldum er varpað á hnöttinn og dramatísk kvikmyndatónlist leikin undir. Allt í einu birtist einn flytjendanna á sviðinu og potar í hnöttinn svo hann skoppar út af. Atriðið minnir á hnattar-senuna í Charlie Chaplin myndinni The Great Dictator. Inn á sviðið koma hinir flytjendurnir í búningum sem eru ævintýralegir og sérlega frumlegir, allir eru þeir búnir til úr plastdótinu úr upphafi sýningarinnar. Viðarprik eru látin detta og flytjendurnir spila Mikado. Þar næst búa flytjendurnir til landamæri í kringum sig með Mikado-prikunum sem þau unnu í leiknum og velta má fyrir sér hvort í þeim gjörningi sé að finna ádeilu á misskiptingu auðs og valds. Þau slíta búningana af sér eins og fjötra. Hringsviðið snýst og hreyfingarnar verpa endurtekningasamar, tónlistin martraðarkennd og ljósin blikka.

Næst síðasti þátturinn er að mínu mati eftirminnilegastur. Á meðan ein breiðir úr grænu plasti á gólfið bera hinir vatnsdunk á börum. Flytjendurnir eru í skærum sundfötum og sprauta vatni upp í sig sem þau síðan nota til að mynda hljóð svo úr verður fyndið kóratriði því lagið minnir á ættjarðarsöng. Síðan sprauta þau vatni hvert á annað eins og í vatnsslag áður en þau taka sér stöður, mynda stellingar sem minna á styttur og sprauta vatni með munninum. Úr verður gosbrunnasýning sem er óneitanlega frumlegri en fræga sýningin hjá hótel Wynn í Las Vegas.

Síðasti þátturinn er angurvær og fallegur. Tveir flytjendanna draga silkislétt, örþunnt plast eftir sviðinu og láta það svífa um sviðið eins og öldur. Atriðið er sjónrænt og dáleiðandi, bylgjur plastsins minna á hafið og hljóðið sem það gefur frá sér minnir á öldunið. Á sviðinu eru blaut fótspor, eins og spor í sandi. Það tekur að rökkva og þar með líkur verkinu Eyður.

Sérlega frumlegt

Eyður er saman sett úr sjö þáttum sem takast á við ólíkar tilfinningar en skapa þó eina heild. Vatn er leiðandi stef og kemur fyrir í mismunandi samhengi í gegnum verkið. Tvisvar koma fyrir langdregin kunnugleg atriði sem einkennast af endurtekningu, martraðakenndri tónlist og ljósablikki. Öll hin atriði sýningarinnar eru aftur á móti sérlega frumleg og skemmtileg á sinn einstaka hátt: Ber þar helst að nefna gosbrunnaatriðið sem krefst óvenjulegrar hæfni af flytjendunum. Óhætt að segja að Eyður sé sjónræn veisla.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila