Bestu myndir ársins 2019

Löngum hefur tíðkast að „gera upp“ kvikmyndaárið í listaformi – hvað stendur upp úr þegar litið er um öxl? Var þetta gott bíóár? Að slíkum listum er þó staðið með ólíkum hætti. Íslensk dagblöð hafa til að mynda löngum haft þá reglu að birta slík uppgjör, þótt nokkuð hafi dregið úr á þeim bænum þegar að kvikmyndaumfjöllun kemur. Ekki er heldur óalgengt að kvikmyndagagnrýnandi eða gagnrýnendur tiltekins blaðs dragi upp sína persónulegu lista yfir helstu fjallstinda kvikmyndaársins. Önnur aðferð er að kalla til álitsgjafa og vinna „allsherjarlista“ úr framlagi ólíkra einstaklinga, jafnan þá með stigagjöf af einhverju tagi sem gagnavinnsluaðferð. Kvikmyndafræði Háskóla Íslands ákvað að fara þessa leið í ár, leita til álitsgjafa og leiða niðurstöður þeirra saman í lista yfir bestu myndir ársins.

Álitsgjafarnir spanna vítt bil í menningarlandslaginu, og var það einmitt ætlunin. Nokkrir kvikmyndafræðingar úr háskólasamfélaginu og utan þess voru spurðir álits, sama um þá kvikmyndagagnrýnendur sem mest hafa látið að sér kveða og hafa borið af öðrum þegar að málefnalegri umfjöllun um kvikmyndir kemur. Þá var falast eftir skoðunum kvikmyndagerðarfólks en ekki var síður forvitnilegt að leita álits hjá öðru menningarfólki, einstaklingum sem fylgjast með kvikmyndum af áhuga en jafnframt í samhengi við hræringar á öðrum sviðum menningarinnar.

Útkoman er sannarlega forvitnileg. Álitsgjafar voru inntir eftir fimm mynda lista, sem á væri raðað í sæti, og stig gefin í kjölfarið. Útkoma stigagjafarinnar endurspeglast í listanum hér að neðan yfir tíu mikilvægustu myndir ársins en ekki er síður forvitnilegt að skoða einstök framlög, því þótt vissulega séu „úrslitin“ skýr er strengurinn sem rekja má í gegnum listana jafnframt hlykkjóttur. Fjöldi athyglisverðra mynda er ekki tryggðu sér sæti á heildarlistanum er nefndur á nafn, og lítill vafi leikur á því að þar er að finna fjölmargar prýðisgóðar hugmyndir að jólaáhorfi – að viðbættri þeirri augljósu sæmdarkröfu að fólk hafi kynnt sér allar þær myndir er finna má á heildræna topp–tíu listanum. En með þetta í huga eru einkalistar álitsgjafa birtir fyrir neðan heildarlistann. Í raun þarf að skoða þá til viðbótar við heildarlistann til að breidd þessarar könnunar um myndir ársins birtist í skýru og greinagóðu ljósi.

Rétt er að víkja, undir lokin, að reglum þeim er álitsgjöfum voru settar við valið. Þær voru í raun einfaldar. Allar myndir koma til greina er frumsýndar voru einhvers staðar í heiminum á þessu ári (frá New York til Peking), sama með hvaða hætti (í kvikmyndahúsi eða á Netflix, VOD-i símafyrirtækjanna, skiptir ekki máli). Einnig koma til greina þær kvikmyndir sem frumsýndar voru erlendis í fyrra (2018) en hér á landi í ár (2019). Inn í það mengi falla til dæmis sumar Óskarsverðlaunamyndir síðasta árs, sem og myndir sem vöktu athygli á Cannes vorið 2018, en voru teknar til sýninga hérlendis á fyrri hluta þessa árs. Dreifingartímabil kvikmynda nær auðvitað, og hefur alltaf gert, yfir nokkurt skeið, og ekki er hægt að horfa framhjá örlítilli „flugþreytu“ af þeim sökum.

Samkvæmt álitsgjöfum kvikmyndafræði Háskóla Íslands eru eftirfarandi myndir þær bestu árið 2019.

10. The Lighthouse – Robert Eggers

Robert Eggers kvað sér hljóðs árið 2015 með tíðarandahrollvekjunni The Witch, en sögusviðið var fyrri hluti 17. aldar í pílagrímabyggðum á austurströnd Bandaríkjanna. Deilur í púritananýlendu valda því að fjölskylda nokkur hrekst má segja út á jaðar hins siðmenntaða heims og kemur sér upp sveitabýli í skóginum. Brátt taka ókennilegir hlutir að gera vart við sig og tengjast dótturinni í fjölskyldunni, sem er á táningsaldri. Andi Arthurs Miller og The Crucible svífur yfir vötnum, stígandinn er hægur og sjónrænn stíllinn yfirvegaður. Útkoman var ein besta hryllingsmynd áratugarins. Eftirtektarvert var til að mynda hversu mikil áhersla var lögð á raunsæislega birtingarmynd hins sögulega veruleika, ekki síst ef haft er í huga að myndin var gerð fyrir takmörkuð fjárráð. Frumraun sinni fylgdi Eggers eftir í ár með annarri tíðarandahrollvekju, The Lighthouse, en það er nítjánda öldin sem nú liggur undir frekar en hin sautjánda. Sögunni vindur fram í afskekktum vita þar sem tveir vitaverðir, leiknir af Williem Dafoe og Robert Pattinson, hafast við í harla frumstæðum aðstæðum. Myndin er svarthvít, draumkennd og jafnvel örlítið lovecraftísk enda þótt sömu áherslu á raunsæi og sögulegan trúverðugleika megi greina í ytri þáttum sviðsetningar og talsmáta persónanna og í fyrri myndinni. The Lighthouse er sláandi afrek sjónrænt séð og þótt grunnhugmynd sögunnar sé um sumt leikhúsleg verður því vart móti mælt að hér er um að ræða eina af bíóupplifunum ársins, og það þótt aðeins væri horft til þeirra gríðarlegu sjónrænu og hljóðrænu áhrifa sem myndin kallar fram.

9. The Favourite – Yorgos Lanthimos

The Favourite hefst 1708, eftir að prinsinn er fallinn frá. Bretar eiga í útistöðum við Frakka og Anna er undir hælnum á Söruh Churchill, hertogaynjunni af Marlborough, sem er hennar helsti ráðgjafi og nánasta vinkona. Þegar fátæk náfrænka Söruh, Abigail Hill, kemur til hallarinnar að sækjast eftir vinnu, upphefst einkennilegur ástarþríhyrningur og valdabarátta á milli kvennanna.

Abigail kemst að hirðinni sem óbreytt þjónustustúlka fyrir náð og miskunn frænku sinnar en ekki líður á löngu þar til hún hefur unnið sig upp innan hirðarinnar. Með gáfur sínar og ósvífna sjálfsbjargarviðleitni að vopni tekst henni að komast í innsta hring drottningarinnar og hljóta virðingarstöðu. Þar með hefst grimm samkeppni Söruh og Abigail um hylli hinnar veiklyndu og óöruggu Önnu sem auðvelt reynist að stjórna. Bakgrunnur þessara innbyrðis átaka kvennanna við hirðina er stríðsátök og milliríkjadeilur Frakklands og Bretlands og pólitísk átök Tories og Whigs í innlendri pólitík. Sarah Churchill  stjórnar landinu í raun og veru í gegnum áhrif sín á drottninguna sem vill helst borða sér til óbóta, hlæja að sérkennilegum kappreiðum anda og humra og leika við kanínurnar sínar 17 sem standa fyrir börnin sem hún missti.

The Favourite er bæði nýstárlegt búningadrama og kolsvört gamanmynd. Þrátt fyrir að myndin fylgi í grófum dráttum eftir sögulegum atburðum og persónum þá hafa leikstjóri og handritshöfundar tekið sér heilmikið skáldaleyfi. Þetta er að mörgu leyti nútímaleg saga í efnistökum, femínísk kvikmynd sem fjallar um valdamiklar konur sem eru flóknir og marglaga karakterar sem berjast innbyrðis og stunda líka skotveiðar og útreiðar. Abigail, sérstaklega, er til marks um konu sem tekst með klækjum og útsjónarsemi að koma sér úr vonlausum aðstæðum og finnur sér farveg til þess að komast af í grimmum heimi stéttskiptingar og nær á endanum að rísa til æðstu metorða innan hirðarinnar. Abigail er ýtt út úr hestvagninum þegar hún kemur til hallarinnar í upphafi myndarinnar, slypp og snauð eftir hræðilegt hjónaband við mann sem vann hana í spilakeppni við föður hennar. Eftir að hafa þurft að sitja undir góni dónakalls sem er samferða henni í vagninum lendir Abigail beint á framhliðinni í drullusvaði, en hún lætur hvorki það né annað mótlæti á sig fá. Klæðaburður, siðir og venjur 18. aldar við hirð bresku krúnunnar koma okkur áhorfendum einnig undarlega fyrir sjónir, við höfum vitaskuld séð svipaða búninga áður í ótalmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en í The Favourite er fáránleikinn frekar undirstrikaður sem og hið gróteska í yfirdrifnum lífsstíl aðalsins. Það er líka áhugavert að skoða klæðaburð karlmannanna á þessum tíma, íburðarmiklar hárkollur, litríkan klæðnað og yfirdrifinn andlitsfarða sem er mun ýktari en hjá konunum. Karlmennirnir eru í raun kvenlegri en konurnar, út frá okkar hugmyndum um ýktan kvenleika sem er einna helst haldið á lofti af dragdrottningum samtímans.“

Úr umfjöllun Mörtu Sigríðar Pétursdóttur sem birtist á menningarvef RÚV 31. janúar 2019, og má lesa í heild sinni hér.

8. Burning – Lee Chang-dong

Sannkölluð hrifningaralda braust út í kringum Burning á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra, en er þar um að ræða fyrstu mynd Lee Chang-dong í hartnær áratug, eða síðan Poetry kom út árið 2010. Í millitíðinni gegndi Chang-dong stöðu Mennta- og menningarmálaráðherra Suður-Kóreu um skamma hríð í tíð vinstri stjórnar, en eftir að stjórnmálin voru sett á hilluna átti hann erfitt uppdráttar. Bæði virðist einhvers konar listræn krísa hafa hrjáð leikstjórann en svo voru hinar afar hægrisinnuðu ríkisstjórnir sem við tóku óvilhallar kvikmyndaverkefnum er hann tengdist. En Burning markar býsna magnaða endurkomu þessa stórmerka leikstjóra, eins af burðarstólpum kvikmyndanýbylgju S-Kóreu. Og Burning stendur undir væntingum, þetta er mynd sem er í senn áleitin og undurfalleg, og að auki stórskemmtilegt dæmi um kvikmyndaaðlögun á bókmenntaverki.

Hér er sum sé smásaga eftir japanska rithöfundinn Haruki Murakami löguð að hvíta tjaldinu („Barn Burning“ sem birtist á ensku í smásagnasafninu The Elephant Vanishes), og ríkuleg ummerki um Murakami er að finna í kvikmynd Chang-dongs, enda þótt sagan hafi bæði verið endurhugsuð og breytt umtalsvert, og sögusviðið fært frá Japan til S-Kóreu. Ber þar fyrst að nefna umlykjandi tilfinningu tilvistarlegs ráðaleysis karlpersóna í eilítið firrtu borgarumhverfi, en Chang-dong gæðir þennan þátt pólitískum broddi sem er fjarverandi hjá Murakami. Þá er skylduatriðið úr Murakami á sínum stað: Karlmaður eldar pastarétt meðan hann hlustar á djass (varíasjónin á þessu atriði hjá Murakami er að karlmaður hlusti á djass meðan hann straujar föt). Köttur kemur við sögu, sem og brunnur. Þá eru dularfullu símtölin sem aðalpersónunni berast að næturlagi, símtöl hvurs uppruna er erfitt að rekja, einnig velþekkt stef hjá Murakami. Og lotningin í garð bandarískrar menningar birtist bæði í tilvísunum til og úrvinnslu á Gatsby-mýtunni, raunar mætti lesa bæði kvikmyndina og smásögu Murakami sem hliðartexta við skáldsögu Fitzgeralds. Það út af fyrir sig er forvitnilegt ef litið er til þess að upphafleg smásaga Murakamis er jafnframt endurritun á smásögunni „Barn Burning“ eftir William Faulkner – og því engin tilviljun að ein af þremur aðalpersónum myndarinnar sé sýnd við lestur á smásagnasafni Faulkners á kaffihúsi. En þessi keðja textatengsla, úrvinnslu og skírskotana og endurrituna, staðfæringa og umbreytinga skilar sér á þessari endastöð, ef um endastöð er að ræða, í afskaplega áhrifamikilli hugleiðingu um einsemd og brostnar vonir.

7. Agnes Joy – Silja Hauksdóttir

„Handrit myndarinnar er feykilega gott. Það vekur athygli að handritshöfundarnir eru þrír, Gagga Jónsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir auk leikstjórans Silju Hauksdóttur. Í ræðunum sem haldnar voru fyrir frumsýningu á myndinni var gert ljóst að þetta hefði verið mikið samstarfsverkefni og þetta fyrirkomulag hefur greinilega gefist mjög vel, lokaafurðin ber því vitni.

Samtölin eru lipur og snjöll og framvindan heldur manni vel við efnið og þrátt fyrir að efniviðurinn sé hversdagslegur næst að viðhalda húmor og spennu gegnum allt verkið. Persónusköpunin er frábær og minnir að vissu leyti á höfundarverk Woodys Allens, þar sem allar persónur eru svolítið óþolandi en samt fyndnar og brjóstumkennanlegar. Leikur og leikstjórn er ekki síðri og greinilegt að Silja er afskaplega fær í að vinna með leikurum því allir leikararnir eru frábærir, líka þeir sem eru í litlum hlutverkum. Katla Margrét vinnur hér leiksigur, hún gengur algjörlega inn í marglaga persónu Rannveigar sem er allt í senn viðkvæm, kímin og þvermóðskuleg. Donna Cruz, sem leikur Agnesi, ryður sér til rúms með glæsibrag í sínu fyrsta stóra hlutverki. Auðvitað er ánægjulegt að sjá Íslending af erlendum uppruna í svona hlutverki þegar maður hefur ekki tölu á því hversu oft maður hefur séð Íslendingum, sem eru ekki hvítir, skipað í hlutverk glæpamanna og mansalsfórnarlamba.

Í frábæru atriði undir lok myndar, sem er best að spilla ekki alveg fyrir áhorfendum, verður Agnes fyrir því að íslenskur karlmaður dregur vissar ályktanir um hana vegna útlits hennar. Agnes stingur rækilega upp í hann sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég efast ekki um að allar konur, sem hafa lent í óviðeigandi athugasemdum frá körlum og óskað sér að þær hefðu svarað með einhverri baneitraðri pillu, upplifi þetta sem mikið siguraugnablik.

Myndin hefur marga styrkleika en ef maður ætti að finna helsta styrk myndarinnar þá tel ég að hann felist í gríðarlegri virðingu fyrir smáatriðum. Sem dæmi má nefna að í einni senu tekur pabbinn mjólkurfernu úr ísskápnum, tæmir úr henni í kaffibollann sinn og setur svo tóma fernuna aftur í ísskápinn. Rannveig segir ekki neitt við þessu en lætur vanþóknun sína í ljós með augnagotum og líkamsburði. Fyrir vikið uppskar þetta pínulitla augnablik mikil hlátrasköll og ég heyrði enduróm í kollinum á mér af minni eigin móður að bölsótast yfir tómum fernum í ísskápnum. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um vönduð smáatriði sem gera myndina extra fyndna og extra sannfærandi.“

Úr umfjöllun Brynju Hjálmsdóttur um Agnesi Joy í Morgunblaðinu 23. október 2019

6. The Irishman – Martin Scorsese

„Í The Irishman glímir Scorsese við eigin fortíð í formi höfundarverksins sem eftir hann liggur, og þá sérstaklega auðvitað mafíumyndirnar og samstarfsmyndirnar með Robert De Niro, og svo spyr hann líka spurninga um merkingarvirkni hins liðna í menningunni og lífi einstaklingsins. Hvaða hlutverki gegnir fortíðin í okkar daglega lífi? Og ef fortíðin er sannarlega miðlæg í skynjun okkar á líðandi stund, ef skurðpunktur fortíðar og nútíðar er eilíflega og alltaf að virkjast, hlýtur þá þungi hins liðna ekki að aukast með árunum, allt þar til núið verður nær merkingarlaust? Sem er kannski ekki alslæm lýsing á ytri mörkum ellinnar.

Frásögnin fylgir „Írska“ Frank Sheeran (Robert De Niro), fyrst flutningabílstjóra en síðar verkalýðsfrömuði og leigumorðingja fyrir Ítölsk-amerísku mafíuna. Sheeran er rumur og durgur sem er jafn tilfinningalega heftur og hann er mælskulega lamaður. Við upplifum minningar Franks um lífshlaup sitt samhliða honum sjálfum, og þótt rammafrásögnin virðist vera löng bílferð sem lagt er í árið 1975, en þaðan er horfið með löngum endurlitum aftur til seinna stríðs og áranna í kjölfarið, reynist ramminn enn víðari, hann teygir sig fram að árþúsundamótunum þegar Sheeran hefst við, saddur lífdaga, á elliheimili. Fyrir honum liggur ekkert, ef val á líkkistu fyrir sjálfan sig er undanskilið (en við fylgjumst með lokaúrskurðinum), því allt sem skiptir máli er að baki, ævin hefur bókstaflega þurrkast út, gufað upp í himinhvolfið án þess að skilja eftir sig önnur ummerki en laskaðan og hruman líkama aðalpersónunnar. Minningar sem verða að endurminningum þegar þeim er miðlað má í þessu samhengi lesa sem viðnám gegn útþurrkun fortíðarinnar, og af þessu viðnámi samanstendur myndin. Raunar mætti halda því fram að miðlægasta viðfangsefnið í The Irishman sé einmitt fortíðin sjálf, ekki mafían eða morðið á Hoffa heldur hvað fortíðarhugtakið þýðir í mannlegu lífi og hvernig fortíðin verður saga, bæði samfélagssaga og sagan sem við segjum okkur sjálfum um okkur sjálf.

Tíminn hvílir þungt á aðalpersónunum í lokahluta þessarar þriggja og hálfrar klukkustunda löngu myndar, en í undanfaranum sviðsetur Scorsese gjarnan atriði sem draga fram hvernig þessir tveir hlutir fléttast saman, samfélagssagan og einkasagan, og hvernig merking mikilvægra sögulegra atburða breytist eftir því hver viðtakandinn er. Hér má nefna atriði á veitingahúsi sem sýnir viðbrögð gesta við fréttum í sjónvarpinu um að JFK hafi látist eftir skotárásina í Dallas. Flestir eru í miklu uppnámi, brotna niður og gráta. En þeir sem þátt áttu í launmorðinu eru líka að horfa, og viðbrögð þeirra fela í sér hagsmunamiðaða ánægju yfir að hafa hnikað framrás sögunnar af einni sporbraut yfir á aðra.

Fyrrnefndu viðbrögðin verða auðvitað ofaná og umbreytast að lokum í þjóðargoðsögn og hið samþykkta viðhorf, en þessu tilfinningalega framhaldslífi vindur hins vegar fram innan þess sögulega ramma sem þrjótarnir kölluðu fram og sköpuðu með verknaði sínum. Nútíðin verður um leið að fortíð sem er svo miðlað áfram og fleytt inn í eigin framtíð í gegnum huglægt minni einstaklinga, en vitund þeirra er hverful og forgengileg og því gallað varðveislutæki. Þess vegna er líka þörf á menningarminni (e. cultural memory), og The Irishman gerir slíkt menningarminni að viðfangsefni og er sjálf dæmi um það. Bandaríska mafían væri til dæmis ekki svipur hjá sjón í hugum okkar allra ef ekki væri fyrir glæpamyndir Scorsese og hér gefur að líta hið epíska lokaverk  í glæpasveignum.

Glamúrinn sem einkenndi Goodfellas og Casino (1995) er þó víðsfjarri, líkt og uppspretta frásagnarinnar gefur til kynna. Úr hjólastól á elliheimili miðlar gamall maður fortíð sinni til okkar, áhorfenda myndarinnar. Ef vel er fylgst með má ennfremur sjá að aldraður Sheeran er ekki að tala við neinn annan en okkur. Enga persónu er að finna í myndinni sem mögulega gæti þjónað hinu hefðbundna milliliðshlutverki milli þess er segir söguna og áhorfenda. Í staðinn horfir Sheeran beint í gegnum linsu tökuvélarinnar og á okkur, eina fólkið hann getur talað við, eina fólkið sem hefur fyrir því að hlusta. Því lengra inn í frásögnina sem við fylgjum honum því skýrari verða ástæður þessar einangrunar á elliheimilinu, hvers vegna aðalpersóna myndarinnar hefur engan til að tala við, að okkur undanskildum og sömuleiðis tekur okkur að gruna hvers vegna fortíðin liggur á honum eins og mara, af hverju gera þarf hana upp, og af hverju frásögnin staldrar við tilteknar minningar.“

Úr umfjöllun Heiðars Bernharðssonar um The Irishman fyrir Engar stjörnur, en hana má lesa í heild hér.

5. Joker – Todd Philips

Todd Philips var þekktastur fyrir Timburmanna-þríleikinn (Hangover I, II, III) og er því ekki of djúpt í árinni tekið þegar sagt er að Joker hafi komið gagnrýnendum í opna skjöldu. Og þá einfaldlega vegna þess að hér var skýrlega um metnaðarfulla kvikmynda að ræða, jafnvel meistaraverk, en ekki gelgjuvitleysu. Fyrsta vísbendingin um að hér væri eitthvað annað á ferðinni en kannski það sem spekingar væntu kom frá á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í sumar þegar Joker endaði með að hreppa aðalverðlaunin, Silfurljónið. Að bandarísk „Hollywood“-mynd yrði slíks heiðurs aðnjótandi mátti alltaf þykja ólíklegt en að ofurhetjumynd hreppti gullið, ja, á því átti ekki nokkur maður von, enda fáheyrð hugmynd. Joker gekk sömuleiðis ágætlega á Toronto International Film Festival (TIFF) en strax þar mátti greina óminn af bakslagi í bakgrunninum. Bakslagið kom svo af fullum krafti þegar myndin fór í almenna dreifingu, langt er um liðið síðan mynd hefur skipt áhorfendum og rýnum jafn kyrfilega í tvær algjörlega andstæðar fylkingar.

Á menningarvef RÚV er söguþræðinum lýst með þessum hætti: „Uppgjafa grínistinn Arthur Fleck vafrar um stræti Gotham borgar íklæddur trúðabúningi þegar hópur manna ræðst að honum. Útskúfaður af samfélaginu glímir Fleck við hugarvíl sem verður þess valdandi að hann langar að valda öðrum skaða, sem hliðarsjálf sitt, Jókerinn.“ Engin ástæða er til að bæta neinu við hér. Spurningin sem brann á fólki í sumar og haust var hins vegar þessi: Er Joker enn eitt dæmið um það eitruð karlmennska sé upphafin? Er ofbeldi göfgað og upphafið? Er þetta Fight Club nýs árþúsunds? Þægindateppi fyrir „Incel“–krypplinga kjallaraíbúða heimsins? „Warner Bros segja kvik­mynd­ina ekki hvetja til of­beld­is í raun­heim­um“, greindi Morgunblaðið frá en fjölskyldur fórnarlamba skotárása í Bandaríkjunum höfðu þá lýst yfir þungum áhyggjum af myndinni. Allavega má fullyrða að þegar gefast mátti upp á því að ofurhetjumyndir kæmu hreyfingu á menninguna, annarri það er að segja en þeirri að sópa saman öllum peningunum, þá kom þessi mynd fram á sjónarsviðið og bæði truflaði og hreyfði við áhorfendum. Svo má auðvitað ekki gleyma því að Hildur Guðnadóttir semur tónlistina við myndina.

4. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma

Marianne (Noémie Merlan) hefur verið að ráðin til að mála málverk af dóttur hefðarkonu, Héloïse (Adèle Haenel), en til stendur að gifta hana auðugum aðalsmanni í fjarlægri Mílanó borg á Ítalíu. Fyrst skal þó senda málverkið og sé myndin væntanlegum brúðguma áþóknaleg mun hjónabandið fara fram. Málverk af logandi hefðarkonu hefst þegar Marianne kemur að áfangastað sínum við Bretagneskagann á árabát, og í ljós kemur að kvenmálari var ráðinn í verkið sökum þess að undanförum hennar hafði mistekist, Héloïse neitaði að sitja fyrir, og ætlast er til að Marianne leiki tveimur skjöldum, á daginn skal hún þykjast vera ráðinn „félagi“ ungu konunnar, og umgangast hana sem vinur og félagi til dægrastyttingar, og þá jafnframt virða hana fyrir sér í laumi, en að kvöld- og næturlagi mun hún mála málverkið og byggja þar á viðkynningunni yfir daginn. Í hönd fer einhver sú allra magnaðsta hinsegin ástarsaga sem sést hefur á hvíta tjaldinu og leikstjórinn, Céline Sciamma (sem jafnframt skrifar handritið), þróar einstakan sjónrænan stíl fyrir myndina sem heild. Lykillin merkingu þessa stórvirkis er að finna í umræðunum sem skapast efitr kvöldlestur á forngrísku mýtunni um Orfeus og Evrídisí, en ólíkar túlkanir koma þar fram á sögunni. Stígandinn er markviss, trúverðugur og úthugsaður og tilfinningalegur höggþungi myndarinnar er gríðarlegur, án þess þó að Sciamma freistist til að leita á náðir melódrömunar.

3. Marriage Story – Noah Baumbach

Noah Baumbach kom fyrst fyrir sjónir (sæmilega) breiðs áhorfendahóps árið 2005 með The Squid and the Whale, sjálfsævisögulegri og lágstemmdri dramamynd er byggði að hluta á unglingsárum Baumbach í Brooklyn á níunda áratugnum og áhrifunum sem skilnaður foreldra hans hafði á hann. Hans nýjasta mynd, Marriage Story, fjallar líka um skilnað og aftur er það ungur drengur sem lendir á milli foreldrana í því flókna og erfiða ferli sem í hönd fer. Fleira eiga myndirnar þó ekki sameiginlegt, eldri myndin er ágæt, eins og flest sem Baumbach hefur gert, en hún flýgur ekki ýkja hátt, ekki frekar en höfundarverkið hefur gert fram að þessu. Í samanburði við samstarfsmann sinn og vin, Wes Anderson, hefur Baumbach alltaf virkað sem hálfgerður þurfalingur, ekkert sérstaklega innblásinn sporgöngumaður Woody Allen og Whit Stillman. Söguhetjurnar oftast New York menntamaður og preppari, kannski lífskúnstner af einhverju tagi og hugsanlega kona, hvurs reynsluheimur einskorðast við tiltölulega sértækt og þröngt tilverusvið, það sem hefur verið kallað „the upper east side“ í New York, og svo kannski hipsterahverfin í Brooklyn líka. Með Marriage Story er hins vegar eins og stökkbreyting hafi átt sér stað, allt sem var forvitnilegt við kvikmyndagerð Baumbach magnast hér upp og er framsett af eldmóði sem ekki hefur sést áður í verkum leikstjórans, en sérstaklega er það vitsmunaleg og tilfinningaleg dýpt handritsins sem markar þroskastökkið. Howard Hawks sagði eitt sinn að uppskriftin að góðri mynd væri þrjú frábær atriði og ekkert vont atriði. Með Marriage Story tókst Baumbach að gera ríflega tveggja klukkustunda mynd með eintómum frábærum atriðum.

2. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino

„Nýjasta kvikmynd Quentin Tarantino, Once Upon a Time … in Hollywood (2019), sem jafnframt á að vera hans næstsíðasta, er hægfara ástáróður til hnignandi gullaldar bandaríska stúdíókerfisins og lygilegrar sögu Hollywood. Eins og titillinn gefur til kynna er ævintýralegur blær yfir frásögninni og áhorfendur sem vonast eftir ofbeldisfullum blóðsúthellingum í anda fyrri mynda Tarantino verða að mestu leyti fyrir vonbrigðum. Þó andi Charles Manson (Damon Herriman) svífi yfir vötnum eins og ísköld vitsuga, hverfist frásögn Once Upon a Time…in Hollywood um allt annað en hrottaleg fjöldamorð, kynþáttastríð og látna leikkonu. Myndin ber heldur ekkert mikið meiri virðingu fyrir sögulegum veruleika en Inglourious Basterds (Quentin Tarantino, 2009). Jú, vissulega er um raunverulega atburði, fólk og staðhætti að ræða en leikstjórinn tekur sinn skrautlega, blóðuga snúning á sögulega atburðarrásina.

Nostalgían sem sveimar yfir Once Upon a Time … in Hollywood er áþreifanleg, þó að vísanir hennar séu ekki alltaf augljósar. Tarantino er þekktur kvikmynda- og dægurmenningarunnandi og er leikstjórinn óragur við á að sáldra ýmis konar vísunum yfir frásögnina, og þá bæði í sín eigin verk og annarra. Þó vísanirnar séu stundum undnar og á fárra vitorði, er óumflýjanlegt að bera kennsl á listfegurð síð-sjöunda og snemm-áttunda áratugarins. Tarantino hefur yfirlýsta óbeit á tölvubrellum og er nákvæmni leikmyndarinnar eins og ferskur andvari í gegndarlaust framboðið af tölvuteiknuðum myndheimum nútímans. Metnaðurinn sem Tarantino og teymi hans sýna í áþreifanlegri tíðarandaendursköpun er nær óaðfinnanlegur og er vert að gefa kvikmyndinni gaum þó ekki sé nema til að fá tækifæri til að líta yfir liðna tíð með rósrauðum glerjum. Áhorfendur geta ekki annað en dáðst að raunsæinu og þó Once Upon a Time … in Hollywood sé ekki gallalaus, er auðvelt að fyrirgefa hennar ýmsu vankanta og skrifa á sérvisku leikstjórans.

Af fenginni reynslu af höfundarverki Tarantino vitum við að hann brýtur gjarnan reglur þegar að línulegri framvindufrásögn kemur. Minna ber þó á því hér en oft áður, þótt atburðarrásin sé öðru hvoru brotin upp með endurlitum eða alvitri sögumannsrödd Kurt Russell, sem fer sjálfur með hlutverk í kvikmyndinni. Undir lokin, þegar lengstur tími myndarinnar hefur liðið hjá eins og í rauntíma, reiðir Tarantino sig hins vegar á frásagnarhátt sem (með aðstoð sögumanns) brýtur upp eðlilegt flæði sögunnar með afgerandi hætti, og upplýsingum er miðlað hratt til áhorfenda með nokkuð óvenjulegum hætti. Þetta kann auðvitað að koma sumum spánskt fyrir sjónir en fyrir sjóaða Tarantino-aðdáendur er auðvelt að lesa í óskipulega framvindu kvikmyndarinnar á meðan beðið er með óttablandinni eftirvæntingu eftir því að örlög Sharon Tate og vina hennar ráðist.“

Úr umfjöllun Silju Bjarkar Björnsdóttur um Once Upon a Time in … Hollywood fyrir Engar stjörnur.

1. Parasite – Bong Joon-ho

 

Parasite eftir suður-kóreaska leikstjórann Bong Joon-ho sló í gegn á kvikmyndahátíðinni í Cannes sl. vor. Haft var eftir kvikmyndarýni sem sótti hátíðina, ætli það hafi ekki verið um miðbik hennar sem hann sendi pistilinn frá sér, að Parasite ætti Gullpálmann svo sannarlega skilið en hún væri hreinlega alltof skemmtileg til að koma til greina, þekkti hann hegðunarmynstur Cannes-dómnefnda rétt. Skemmtileg er hún vissulega en það stóð ekki í vegi fyrir þessari tilteknu vegtyllu, Gullpálmann hlaut myndin og var það upphafið á sigurför hennar um heiminn.

Segir frá tveimur fjölskyldum, Kim-fjölskyldunni annars vegar (hjón, og fullorðin systkini) en þar er barist í bökkum, atvinnuleysi og fátækt blasa hérumbil við öllum fjölskyldumeðlimum og tilgangsleysi svífur yfir vötnum. Hins vegar er það Park-fjölskyldan (aftur hjón, og sonur og dóttir, en börnin eru yngri hér), auðug og falleg, lífið leikur við þau enda andstæða fyrri fjölskyldunnar, Park-slektið tilheyrir efsta lagi samfélagsins og efast aldrei um réttmæti þess. Með klækjabrögðum tekst Kim-syninum að fá vinnu hjá Park-fólkinu sem einkakennari dótturinnar og áður en langt er um liðið hefur fjölskyldan öll hreiðrað um sig á fína heimilinu, í öllum tilvikum með blekkingum og í vinnunni þykjast þau ekki þekkjast. Andstæðurnar milli híbýlanna tveggja, kjallaraholu Kim fjölskyldunnar og arkitektúrkraftaverksins sem Park fjölskyldan býr í, svona til að kóróna allt og staðfesta að líf þeirra er eintómur dans á rósum , gæti auðvitað ekki verið merkingarþrungnari, eða skýrari. Þá eru heimilin tvö án efa sviðsmyndir ársins. Stéttastríð af dálítið einkennilegu tagi fer brátt í hönd, og spyrja má hver eða hvor fjölskyldan sé sníkjudýr titilsins. Svarið er ekki jafn einfalt og það virðist í fyrstu.

Fyrri myndir Bong Joon-ho, verk á borð við Okja (2017), Snowpiercer (2013), Mother (2009) og The Host (2006), nutu allar velgengni en samt innan ákveðinna marka, engin þeirra var beinlínis lofuð í hástert, hvað þá útnefndar sem meistaraverk, en sú er raunin með Parasite og virðist Bong Joon-ho hafa skipað sér í einu vetfangi í fremsta flokk alþjóðlega listabíósins.

Álitsgjafar:

Ásgeir H. Ingólfsson (skáld og menningarblaðamaður)

 1. Ad Astra – James Grey
 2. Parasite – Bong Joon-ho
 3. Marriage Story – Noah Baumbach
 4. A Dog Called Money – Seamus Murphy
 5. The Spy Gone North – Yoon Jong-bin

Ásgrímur Sverrisson (kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri)

 1. Parasite – Bong Joon-ho
 2. Once Upon a Time… in Hollywood – Quentin Tarantino
 3. Marriage Story – Noah Baumbach
 4. The Irishman – Martin Scorsese
 5. Hvítur, hvítur dagur – Hlynur Pálmason

Bjarni Randver Sigurvinsson (guðfræðingur og trúarbragðafræðingur)

 1. Once Upon a Time in… Hollywood – Quentin Tarantino
 2. Pet Sematary – Kevin Kölsch & Dennis Widmyer
 3. Drottningin (Dronningen/Queen of Hearts) – May el-Toukhy
 4. Hinir vægðarlausu (Lo spietato/The Ruthless) – Renato De Maria
 5. The Irishman – Martin Scorsese

Björn Þór Vilhjálmsson (greinarformaður kvikmyndafræði HÍ)

 1. Marriage Story – Noah Baumbach
 2. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma
 3. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino
 4. And Then We Danced – Levan Akin
 5. The House That Jack Built – Lars Von Trier

Erlingur Óttar Thoroddsen (kvikmyndagerðarmaður)

 1. Knífur í hjartað (Un couteau dans le cœur/Knife + Heart) – Yann Gonzalez
 2. Parasite – Bong Joon-ho
 3. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino
 4. Booksmart – Olivia Wilde
 5. Climax – Gaspar Noé

Gísli Einarsson (framkvæmdarstjóri Nexus)

 1. Alita: Battle Angel – Robert Rodriguez
 2. Rocketman – Dexter Fletcher
 3. Parasite – Bong Joon-ho
 4. Once Upon a Time in Hollywood – Quentin Tarantino
 5. Midsommar – Ari Aster

Guðrún Elsa Bragadóttir (doktorsnemi og kennari)

 1. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma
 2. Marriage Story – Noah Baumbach
 3. Once Upon a Time in …Hollywood – Quentin Tarantino
 4. Wilde Rose – Tom Harper
 5. Doctor Sleep – Mike Flanagan

Gunnar Tómas Kristófersson (doktorsnemi og kennari við Háskóla Íslands)

 1. Agnes Joy – Silja Hauksdóttir
 2. Toy Story 4 – Josh Cooley
 3. Joker – Todd Philips
 4. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino
 5. Godzilla: King of the Monsters – Michael Dougherty

Hlín Agnarsdóttir (rithöfundur og leikstjóri)

 1. Parasite – Bong Joon-ho
 2. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma
 3. Joker – Todd Philips
 4. Marriage Story – Noah Baumbach
 5. The Favourite – Yorgos Lanthimos

Kamilla Einarsdóttir (drykkfelldur bókvörður og rithöfundur)

 1. Agnes Joy – Silja Hauksdóttir
 2. Farfuglar (Pájaros de Verano/Birds of Passage) – Cristina Gallego og Ciro Guerra
 3. Parasite – Bong Joon-ho
 4. Terminator: Dark Fate – Tim Miller
 5. Family Romance, LLC – Werner Herzog

Kjartan Már Ómarsson (doktorsnemi og kennari við Háskóla Íslands)

 1. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino
 2. Burning – Lee Chang-dong
 3. The Irishman – Martin Scorsese
 4. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma
 5. The Lighthouse – Robert Eggers

Nikkita Hamar Patterson (doktorsnemi og kennari við Háskóla Íslands)

 1. Parasite – Bong Joon-ho
 2. The Lighthouse – Robert Eggers
 3. Burning – Lee Chang-dong
 4. And Then We Danced – Levan Akin
 5. Once Upon a Time in … Hollywood – Quentin Tarantino

Nína Richter (ljósmyndanemi og fyrrum kvikmyndagagnrýnandi á RÚV)

 1. The Favourite – Yorgos Lanthimos
 2. Vofan (L’Apparition/The Apparition) – Xavier Giannoli
 3. Little Joe – Jessica Hausner
 4. The Art of Self Defense – Riley Stearns
 5. Marriage Story – Noah Baumbach

Oddný Sen (kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu hjá Bíó Paradís)

 1. Parasite – Bong Joon-ho
 2. Varda by Agnès – Agnès Varda
 3. Málverk af logandi hefðarkonu (Portrait de la jeune fille en feu/Portrait of a Lady on Fire) – Céline Sciamma
 4. Pain and Glory – Pedro Almodóvar
 5. The Irishman – Martin Scorsese

Robert Ingi Douglas (kvikmyndaleikstjóri)

 1. The Rise of Jordan Peterson – Patricia Marcoccia
 2. Brexit: The Uncivil War – Toby Haynes
 3. The Brink – Alison Klayman
 4. Rambo: Last Blood – Adrian Grunberg
 5. Depeche Mode: Spirits in the forest – Anton Corbijn

Sigríður Pétursdóttir (kvikmyndafræðingur)

 1. Marriage Story – Noah Baumbach
 2. Parasite – Bong Joon Ho
 3. Joker – Todd Phillips
 4. Dronningen – May el-Toukhy
 5. Hvítur, hvítur dagur/Agnes Joy – Hlynur Pálmason & Silja Hauksdóttir

Steinunn Inga Óttarsdóttir (bókmenntagagnrýnandi)

 1. Joker – Todd Phillips
 2. Tell Me Who I Am – Ed Perkins
 3. Parasite – Bong Joon-ho
 4. Once Upon a Time in Hollywood – Quentin Tarantino
 5. The Laundromat – Steven Soderbergh

Viðar Víkingsson (kvikmyndagerðarmaður)

 1. Parasite – Bong Joon Ho
 2. Shoplifters –  Hirokazu Koreeda
 3. The Irishman – Martin Scorsese
 4. Once Upon a Time in Hollywood – Quentin Tarantino
 5. Burning  – Chang-dong Lee

Þórir Snær Sigurjónsson (kvikmyndaframleiðandi)

 1. Once Upon a Time in Hollywood – Quentin Tarantino
 2. Parasite – Bong Joon Ho
 3. The Favourite – Yorgos Lanthimos
 4. Pain and Glory – Pedro Almodóvar
 5. The Irishman – Martin Scorsese

 

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila