Óður til ástarinnar og leikhússins

Shakespeare verður svo sannarlega ástfanginn á stóra sviði Þjóðleikhússins í leikhússútgáfu kvikmyndarinnar Shakespeare in Love. Myndin sem er frá árinu 1998 er þekkt fyrir að vera í hópi þeirra kvikmynda sem hlutu Óskarsverðlaunin en hefðu að margra mati ekki átt að gera það. Söguþræðinum svipar mjög til Rómeó og Júlíu, en verkið segir frá leikskáldinu Will Shakespeare sem verður ástfangið af hinni ungu Víólu de Lesseps. Hún tilheyrir hins vegar hástéttinni og er auk þess lofuð öðrum manni. Víólu dreymir um að verða leikari en í kvenfjandsamlegu samfélagi 16. aldar mega konur ekki stíga á svið og öll kvenhlutverk eru leikin af körlum. Þvert á boð og bönn finnur Víóla leið til að taka þátt í uppsetningu á verki eftir hið upprennandi skáld og verður þegar fram líða stundir skáldgyðja Shakespeares við samingu leikritsins.

Verkið er tilgáta um hvernig Rómeó og Júlía gæti hafa orðið til og fjallar um skáldskapinn sjálfan, leikhúsið og listina. Draumur Víólu um leikhúsið hrindir af stað ævintýralegri atburðarás þar sem skáld, leikarar og aðrir leikhúsáhugamenn setja líf sitt í hættu fyrir málstað listarinnar og töfra hennar. Uppsetning Þjóðleikhússins á Shakespeare verður ástfanginn er metnaðarfull, kraftmikil og full af húmor og leikgleði. Hún er þó ekki síst full af eldheitum ástum og óði til listarinnar og leikhússins.

Leikgleði

Selma Björnsdóttir leikstýrir Shakespeare verður ástfanginn, en hún hefur ítrekað sýnt hvað í henni býr sem leikstjóri stórra uppsetninga í Þjóðleikhúsinu. Leikhópur sýningarinnar er breiður og þéttur, en því miður hallar áberandi á hlut kvenna í verkinu. Þrjú stór kvenhlutverk eru í sýningunni: Víóla de Lesseps (Lára Jóhanna Jónsdóttir), fóstra hennar (Edda Björgvinsdóttir) og Elísabet drottning (Jóhanna Vigdís Arnardóttir). Leikarar sýningarinnar stóðu sig með prýði þar sem leikgleðin var allsráðandi. Sérstaklega var samspil Will Shakespeare (Aron Már Ólafsson) og Christopher Marlowe (Jóhann G. Jóhannsson) áhrifaríkt. Þá fór Guðjón Davíð Karlsson á kostum sem hinn seinheppni Henslowe, en kómísk vídd verksins vó á móti dramatískum þræði þess. Að lokum verður að minnast á samleik Láru Jóhönnu og Arons Más í hlutverkum ungu elskendanna; neistinn á milli þeirra var sannfærandi, einlægur og eldheitur.

Glæsileg umgjörð

Shakespeare verður ástfanginn ber vott um mikinn metnað af hálfu listrænna stjórnenda sýningarinnar. Lýsingin er áhrifarík og vinnur frá upphafi vel með leikmyndinni og vendingum sýningarinnar. Fíngerðar stjörnur blika í kvöld- og nætursenum og vísa til þeirra stjarna sem eru endurtekið stef í Rómeó og Júlíu Shakespeares. Tónlist sýningarinnar er eftir bræðurna Jón Jónsson og Friðrik Dór, en hún er flutt á sviðinu af GDRN og hljómsveit. Nærvera tónlistarfólksins bætir miklu við sýninguna og fléttast við atburðarásina. Leikmyndin er falleg og þjónar verkinu vel. Hún býður upp á fjölmargar skemmtilegar útfærslur á hringsviðinu en engu er þó ofaukið. Þá er sýningin sannkallað búningadrama þar sem öllu er tjaldað til. Búningarnir vísa til þeirra sem notaðir eru í kvikmyndinni og eru margir augnayndi.

Hallar á hlut kvenna

„Í óði mínum lifir fegurð þín“ kallar Will Shakespeare til Víólu í svalasenu sýningarinnar, en Shakespeare verður ástfanginn er óður til leikhússins sjálfs. Verkið er þó einnig óður til hins þjáða snillings og ómældrar aðdáunar og upphafningar samfélagsins á honum. Eins og fram hefur komið hallar mjög á hlut leikkvenna í sýningunni og líkt og í kvikmyndinni er handritið mjög karllægt. Þó má nefna að með tilkomu tónlistarkonunnar GDRN hefur Þjóðleikhúsið bætt mikilvægri kvenrödd á sviðið, en því miður eru hlutföllin enn mjög skökk. Sú ákvörðun Þjóðleikhússins að setja upp verk með 14 karlkyns leikurum og 6 kvenkyns er vægast sagt vafasöm í ljósi jafnréttisumræðu samtímans. Að öðru leyti er ekki hægt að segja annað en að sýningin hafi heppnast glæsilega.

Um höfundinn
Kristín Nanna Einarsdóttir

Kristín Nanna Einarsdóttir

Kristín Nanna Einarsdóttir er meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands og ritstjóri Stúdentablaðsins.

[fblike]

Deila