Það var ókvenlegt að yrkja: Hugleiðingar í kjölfar viðtals við kvæðakonuna Ásu Ketilsdóttur

Þær köstuðu fram vísum. En hins vegar þótti það ekki við hæfi að vera að yrkja. Eins og til dæmis Unnur Benediktsdóttir – Hulda. Og ég heyrði það líka, að það var sagt við mömmu mína, sem hafði gaman að setja saman vísur en gerði lítið af því; að þetta væri ekki kvenlegt. Það var svo margt sem ekki var kvenlegt. Og það var ekki kvenlegt að vera að yrkja.

Svo mælti kunnasta kvæðakona landsins, Ása Ketilsdóttir (f. 1935), í samtali okkar um kvennatjáningu á fyrri tíð – sem er að finna í myndbandinu hér að ofan; „það var ekki kvenlegt að vera að yrkja“.¹

Þó – einstök spor snúa öfugt,
ef að er vandlega gætt,
sem fingrunum fipast hafi.
Því fékk hún ei beinn þrætt?

Frá glugganum yndisleg augu
á hana skinu heitt;
því titraði haga höndin. –
Ó, heimur, þú veist ekki neitt.
(Unnur Benediktsdóttir, sem skrifaði undir heitinu Hulda, Í skautbúningi)

Í kjölfar fundar okkar Ásu, varð mér hugsað til móður hennar, og þeirra vísna sem hún setti aldrei saman – því yrking var ekki talið vera iðja við kvenna hæfi:² „Á þetta nú að heita kveðskapur. / Passaðu þig á þessu, láttu þetta nú ekki heyrast“.³ Mér varð hugsað til óborinna vísna íslenskra kvenna fyrri tíðar sem aldrei var ætlað að skila sér í þennan heim. Hvert rötuðu þær ósögðu vísur? Tóku þær á sig annað form í þögninni?

Ein þegar vatt og önnur spann,
iðnin hvatti vefarann,
þá var glatt í góðum rann,
gæfan spratt við arin þann.

(Ólína Andrésdóttir (1858-1935), Breiðfirðingavísur)

Það var ekki kvenlegt að vera að yrkja“. Það var hins vegar kvenlegt að sinna mjólkurstörfum, vinna innanbæjarverk, vefa, prjóna, þrífa þvott, annast börnin, raka, svo fátt eitt sé nefnt.⁴ Konur fyrr og síðar geta börnin í þennan heim og öldum saman sáu þær um að framleiða vörur á borð við mjólkurmat, kjötmeti og ullarvörur – en vísnagerð var þeim ekki ætluð. Þær máttu sauma saman klæðin, prjóna lykkju og band saman – en þær máttu ei binda saman mál sitt í höfuðstafi og stuðla. Konum var ýmist bannað eða gert ljóst að þeirra hugrenningar skyldu þær ekki birta í vísum; því þá um leið hefðu þær hugleiðingar kvennanna tekið á sig efnislega mynd – líkt og rjóminn, slátrið og hannyrðir kvennanna. Vísurnar hefðu orðið hluti af heimilislífinu, samfélaginu, líkt og aðrar afurðir kvenna. En kvennavísur voru ekki taldar vera búsílag. Draumar, skoðanir og gremja kvenna áttu ekkert erindi við þjóðarsálina, aðeins verkleg störf kvenna; „það var ekki kvenlegt að vera að yrkja“.

Mitt var starfið hér í heim
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga

(Theodora Thoroddsen (1863-1954), Mitt var starfið)

Í kjölfar þess umróts sem ummæli Ásu sköpuðu í huga mér; ummæli um ókvenleika kveðskaparlistarinnar á fyrri tíð og alla sköpunina sem þannig fór forgörðum. Þá varð mér hugsað til þeirra kvennavísna sem íslenskar konur miðluðu á fyrri öldum. Vísna sem fæddust inn í þennan heim þrátt fyrir þá andúð sem þær mættu. Vísur sem hafa varðveist, og vísur sem hafa gleymst, á tímum þegar að það að yrkja var talin vera karlmannsleg iðja, líkt og rímnakveðskapur vitnar um.⁵ Yrking kvenna hér áður fyrr er því vissulega áhugaverð; sú ramma hvöt kvennanna í andbyr ókvenleikans. Spurningar vöknuðu upp: Af hverju ortu konur engu að síður, og þá á hvaða nótum? Ortu þær kvæði þar sem yrkisefnið samsvaraði yrkisefnum karla? Eða ortu konur kvæði sem miðluðu reynsluheimi kvenna?

Útfærsla Dalrúnar J. Eygerðardóttur á ljósmynd af burstabæ á Byggðasafninu á Skógum og af fyrrum safnverðinum þar, Þórði Tómassyni. Ljósmynd Brynjar Gauti.

Sé litið til bókmenntaverka á borð við Rímnasafnið,⁶ og Silfurplötur Iðunnar sem hafa að geyma mikið safn af rímum og rímnalögum⁷ sem og bókina Stúlka: Ljóð eftir íslenskar konur eftir bókmenntafræðinginn Helgu Kress. Þá má sjá blæbrigðamun á bæði yrkisefni og stíl kvenna og karla á fyrri tímum. Við lauslega athugun mína kom í ljós að á meðal helstu kvæðaefna karlmanna voru yrkisefni á borð við; hetjur;⁸ hesta; sjóferðir;⁹ landslag; óttann við ellina og endalokin; bakkus; og kvæði um konur sem þeir báru heithug til; auk klámfengins efniviðar karlanna. Af yrkisefnum kvenna fyrr á tíðum má nefna; kvennastörf; landslag; fugla; ósætti með eigin kjör; hvíldina sem endalokin áttu að færa þeim; árstíðir; mæður/formæður/börn; mikilvægi þess að standast freistingar; ljóðadísin (konurnar dásömuðu títt ljóðaformið).¹⁰ Konurnar, ólíkt körlunum, fjölluðu síður um yfirstandandi ástir, en treguðu þeim mun oftar horfna elskhuga.¹¹

Í þessum samanburði mínum er ekki farið djúpt í saumana – engu að sýnir hann sem þekkt er, að kyn og ásköpuð kynhlutverk kvenna og karla mörkuðu þeim ákveðna sýn sem síðan endurspeglaðist í yrkingu þeirra – tjáningu sem talin var vera ókvenleg. Sannarlega er margt sameiginlegt með kvæðaefnum kynjanna, sem verður ekki reifað hér. Það sem vekur þó öðru fremur áhuga er hve mikill munur er á yrkisefnum kvenna og karla, ekki síst í ljósi þess að bæði konur og karlar studdust við sömu ljóðareglur, sem afmörkuðu tjáningu þeirra að því leytinu. Hins vegar er það þekkt að sumar konur brutust undan stöðluðum ljóðareglum, í sinni kvæðagerð, líkt og Helga Kress hefur bent á.¹² Einnig var áhugavert að sjá að konurnar beittu samtalsforminu mun meira í sinni kvæðagerð. Dæmi um það er þegar að konurnar ávarpa og/eða eiga í samræðum við náttúrufyrirbæri sem þær persónugera. Annað dæmi er þegar þær spyrja yrkisefnið spurninga, hvort sem það er náttúrufyrirbæri, mannvera eða vættur; eiga í einhliða samræðum við yrkisefnið. Það að konur beiti samtalsformi við samningu kvæða, kemur ekki á óvart enda hafa konur hérlendis löngum stuðst við samtalsformið þegar þær tjá sig, líkt og ég hef bent á í mínum fyrri skrifum.¹³

Þarna ertu, máni minn,
mildur þig að sýna,
lætur til mín ljóma inn
ljúfa geisla þína.

Hvaðan ertu kominn frá,
hvert á nú að halda?
Viltu yfir lönd og lá
ljósinu þínu tjalda?

(Herdís Andrésdóttir (1858-1939), Mánavísur)

Ertu þar, mildasti Máni?
Manstu, að þráin mín er
heit, til þín úti og inni
alls staðar hvar sem ég fer?

(Halla Eyjólfsdóttir (1866-1937), Máninn)

Yrking var ekki talin vera kvenleg iðja, en þau verk íslenskra skáldkvenna sem varðveist hafa sýna að í eðli sínu var skáldskapur sveipaður kvenlegum eiginleikum. Svo ljóst er að yrking var kvenleg iðja enda þótt slík iðja þætti ekki við hæfi frá hendi kvenna.

Móður ráðum mæddrar náðu fylgja,
en ei sæmir auðar Hlín
illu dæmin rækja mín.

Guð þig eigi, gullhlaðs Freyja, lætur
synda granda gjöldin mín,
ef gætin vandar breytni þín.

———

Þessi ljóðin þinnar móður Rósu,
halt til góða, hringa slóð,
hrittu móð úr sinnu lóð.

(Vatnsenda-Rósa (1795-1855), Ljóðbréf Rósu til dóttur sinnar Pálínu)

Útfærsla Dalrúnar J. Eygerðardóttur á ljósmynd af Haukagili í Hvítársíðu.

Þó svo að yrking var ekki talin við hæfi kvenna, þá skýrði Ása jafnframt vel að miðlun kvenna með söng og kveðskap var ekki talin ókvenleg: „Þær köstuðu fram vísum. En hins vegar þótti það ekki við hæfi að vera að yrkja“.¹⁴ Í lýsingum Ásu frá uppvexti sínum kemur fram að kveðskapur og söngur kvenna átti sér títt stað á vinnuvettvangi vífa; þar var í lagi að miðla, og það var gert öld fram af öld. Miðlun kvenna rímaði því gjarnan við hljómfall vinnu þeirra,¹⁵ og því það kvað við annan tón en hjá körlum. Hyggja má að konur fyrri alda hafi fengið frelsi til að miðla með söng, kveðskap og sögum, þegar sú tjáning hafði hlutverki að gegna á starfsvettvangi kvennanna. Því má segja að þegar tjáning kvenna féll að hefðbundnum verkum kvenna, þá varð sú tjáning kvenleg.

Ása: Það var sungið í fjósinu á meðan það var verið að mjólka, á meðan verið var að skilja, á meðan verið var að þvo upp, á meðan verið var að þvo gólfin, það var alltaf verið að syngja. Svo var raulað við vinnu sína.

Það að íslenskar konur hafa í gegnum tíðina haft svigrúm til að miðla efni með kveðskap og öðrum hætti, á sama tíma og þær höfðu lítið sem ekkert svigrúm til að yrkja, endurspeglar félagslega og laglega stöðu kvenna á Íslandi. Sjálfseignarréttur og séreignarréttur kvenna eru réttindi sem eru ný af nálinni í samhengi sögunnar. Í aldaraðir máttu konur meðhöndla eigur, búfénað og fólk sem tilheyrði körlum í lagalegum skilningi, en eignarétturinn var ekki kvenna megin. Konum var þannig löngum meinaður réttur til séreignar; meinuð réttindi til menntunar; eigið sjálfstæði meinað sem og réttindi til að kjósa; og forræði yfir börnum sínum meinað – svo lítið eitt sé nefnt. Og konum var löngum meinað að yrkja. Það að yrkja er að skapa verk sem er þitt eigið – og konum var óheimilt „að eiga“ langt fram eftir öldum. En með auknum almennum réttindum kvenna þá má sjá að yrking þeirra færist í aukanna. Það sýnir útgáfa fyrstu ljóðabókarinnar eftir íslenska konu, bókin Stúlka (1876) eftir Júlíönu Jónsdóttur.¹⁶ Og tilkoma fyrstu konunnar sem gerði það að atvinnu sinni að skrifa, Torfhildur Hólm (1845-1918).¹⁷ Því má segja að konur hafi fengið aukin ráðstöfunarrétt yfir eigin hugsunum og tilfinningum strax á ofanverðri 19. öld sem síðan ágerðist frekar er leið á 20. öldina, allt fram til dagsins í dag, sé litið til aukinnar yrkingar íslenskra kvenna.¹⁸

Mér kennið ráð, þess krefur þörf
er kem eg fyrir heiminn;
á ég að vera upplitsdjörf?
eða á eg að sýnast feimin?
Sjálf eg hlýt að svara mér
frá sálar minnar djúpi;
eg kem til dyra eins og er
í engum dularhjúpi.

(Júlíana Jónsdóttir (1838-1917), Á ræðupalli)

Tilberi íslenskra kvenna. Akríll og trélitir á pappír (30×20). Mynd eftir Dalrúnu J. Eygerðardóttur. 2019.

Íslenski kvenlíkaminn er hljóðfæri sem hefur um aldir alda miðlað hugrenningum karla, því miðlun á skoðunum kvenna hefur almennt ekki verið í boði. Það breytir engu um það að konum er áskapað að hafa sjálfstæða hugsun og sjálfstæðan reynsluheim, sem vegna kynferðis var þó ekki hægt að miðla óhindrað. Þá andlegu næringu frá hendi kvenna, sem fólst í áskapaðri og áunninni þekkingu þeirra, var þeim skylt að byrgja inni í líkama sínum. Þessi hindrun samfélagsins sem tálmaði för hugrenninga kvenna minnir um margt á hindurvitni sama samfélags, sem sá til þess að ungbörn fengu ekki að njóta móðurmjólkurinnar. Konum hefur löngum verið meinað að gefa börnum sínum mjólkina sem náttúran ætlar þeim, og á sambærilegan hátt hefur konum ekki alltaf verið ætlað að viðra hugsanir sínar samfélaginu til hagsbóta. Slíkur áskapaður stálmi skáldkvenna leiddi til óþarfa vannæringar í andlegu lífi íslenskrar þjóðar – sem rekja má til hræðslu karla við skáldamjólkina, þá kraftmiklu afurð kvenna.

Brjóstin syngja barmafull
blæða hvítum taumum
Hvítvoðungsins hvarmagull
hvíla á kirtlum aumum

(Dalrún J. Eygerðardóttir, Skáldamjólk)

 

Heimildir:

 1. Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur hefur unnið að því að skrásetja fjölmörg verk sem varðveist hafa í munnlegri geymd Ásu Ketilsdóttur. Í því sambandi má sérstaklega nefna hljómdiskinn Vappaðu með mér Vala: Ása Ketilsdóttir kveður, syngur og segir sögur (2010).
 2. Fjallað hefur verið um kveðskap kvenna af fræðimönnum á borð við Helgu Kress í bókum hennar Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga (1993), og Stúlka: Ljóð eftir íslenskar konur (1997). Guðrún P. Helgadóttir fjallaði um konur sem ortu í bókinni Skáldkonur fyrri alda (1961-1963).
 3. Ása Ketilsdóttir, viðtal við höfund, Hólmavík, 21. ágúst 2018.
 4. Um kvenleika og ókvenleika fjallar sagnfræðingurinn Erla Hulda Halldórsdóttir í bók sinni Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 (2011). Sjá sérstaklega kaflann „Orðræður um samfélagslegt hlutverk kvenna“, bls. 180-224. Einnig ber að geta umfjöllunar Önnu Sigurðardóttur um vinnu kvenna með hliðsjón af ríkjandi hugmyndum um kvenleikann í bók sinni Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár (1985).
 5. Bókmenntafræðingurinn Helga Kress segir í bók sinni Stúlka: Ljóð eftir íslenskar konur (1997), að af 475 rímnaskáldum sem verk hafa varðveist eftir, þá eru aðeins 16 þeirra konur: „Flestar eru þær nöfnin tóm og rímur glataðar. Aðeins hafa varðveist rímur eftir fimm þessara kvenna“, bls. 26. Helga vísar þar í Rímnatal Finns Sigumundssonar (1966).
 6. Sveinbjörn Beinteinsson, Rímnasafnið: Sýnisbók rímna frá 14. öld til nútímans (1966).
 7. Silfurplötur Iðunnar. Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson (2004).
 8. Sannarlega ortu konur kappakvæði, s.s. rímur kvenna frá 14. öld vitna um. En heilt á litið, þá ortu þær mun minna af slíkum kvæðum í samanburði við karla.
 9. Af kvæðum um sjóferðir eftir konur má sérstaklega nefna kvæði tvíburasystranna Herdísar og Ólínar Andrésardætra úr Breiðafirði. Silfurplötur Iðunnar hefur að geyma fjölda kvæða eftir systurnar – og í reynd er það svo að stærsti hluti kvennakvæðanna í þeirri bók er eftir þær systur.
 10. Hér er ekki síst verið að vísa til kvæða Ólínu Andrésdóttur, þar sem ljóðadís bregður gjarnan fyrir.
 11. Finna má mörg fleiri dæmi um kynbundnar áherslur í kveðskaparefni. Helga Kress hefur til dæmis bent á hve gjarnt var að skáldkonur yrki afmælisljóð til sjálfra sín, í grein sinni „Farið vel, fimmtíu árin! – Felið sárin“: Um afmæli kvenna og uppsprettu ljóða, í Kynlegir kvistir: Tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri (1999).
 12. Um það fjallar Helga Kress bæði í Stúlka og Máttugar meyjar.
 13. Um kvennatjáningu og samtalsformið fjalla ég í eftirfarandi skrifum mínum: „Drifting: Feminist oral history and the study of the last female drifters in Iceland“, í Feminist Research (2018); „Konur á vatnaskilum: Hugvekja um femíníska munnlega sögu“, í Sagnir (2018); „Nútímasagnadansinn #Metoo“, í vefritinu Hugrás (2018).
 14. Ása Ketilsdóttir, viðtal við höfund, Hólmavík, 21. ágúst 2018.
 15. Ýmsir fræðimenn hafa fjallað um hljóm kvenna með hliðsjón af vinnu þeirra, svo sem Nína Björk Elíasson í grein sinni „Eru sagnadansar kvennatónlist?“ (1980) og Helga Kress í bók sinni Máttugar meyjar þar sem hún meðal annars fjallar um vinnusöngva. Einnig má nefna grein mína „Íslenskir svannasöngvar“ þar sem ég skoða verkmenningu kvenna með hliðsjón af söngi þeirra, í vefritinu Hugrás (2018).
 16. Helga Kress fjallaði um ritstörf Júlíönu Jónsdóttur (1838-1917) í bók sinni Stúlka: Ljóð eftir íslenskar konur, bls. 13-17.
 17. Björg Einarsdóttir fjallar um ritstörf Torfhildar Hólm (1845-1918) í bókinni Úr ævi og starfi íslenskra kvenna I: Erindi flutt í Ríkisútvarpið veturinn 1983-1984 (1984-1986), bls. 104-125.
 18. Líkt og Helga Kress hefur bent á í skrifum sínum, þá höfðu konur aukið svigrúm til yrkingar á heiðnum tímum þegar að munnleg hefð var í fullum blóma, en með tilkomu kristninnar og tilheyrandi ritmenningarinnar þá: „má sjá breytingu frá tiltölulega sterkri kvennamenningu til svo að segja allsráðandi karlamenningar“. Sjá Máttugar meyjar, bls. 13.
Um höfundinn
Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila