Óþverrastefnuskráin

Það er eitthvað sérstaklega ógeðslegt við hugmyndina um „hið illa og djöfullega barn“. Það er af því að goðsögnin um sakleysi bernskunnar breiðir yfir það að barnið er fáfrótt, þekkir ekkert siðferði og/eða boð eða bönn. Það er hvorki gott né vont, það er eigingjarnt og sér ekki fyrir afleiðingar gjörða sinna enda þekkir það ekki orsakalögmálið. Það er hlutverk foreldranna að koma barninu til manns.

Hið illa barn, umskiptingurinn, gamalmenni í dulargerfi, er af ætt hryllingssögunnar. Á bak við saklaust, barnslegt yfirborðið býr gömul sál. Þetta eru fyrstu andstæðurnar sem Marius von Mayenburg leikur sér að í Bæng, pólitísku leikriti um undrabarnið og svínið Hrólf Bæng (Björn Thors).

Litlir kassar…

Leikmynd Barkar Jónssonar tekur mið af þessu og býr til svið sem er sett saman úr stórum leikfangakubbum/-flekum sem sýna skurðstofu, heimili Hrólfs litla, eldhús, síðar boxarahring, sjónvarpsstúdíó og sitthvað fleira. Flekarnir eru tiltölulega léttir og færðir auðveldlega til og frá til að búa til ný leikrými. Búningar Evu Signýjar Berger og leikgervi Elínar S. Gísladóttur eru raunsæ og fyndin, einkum í óteljandi búninga- og kyngervaskiptum þeirra Halldórs Gylfasonaar í sex hlutverkum og Katrínar Halldóru Sigurðarsdóttur í fjórum hlutverkum.

Myndbönd Inga Bekk leika stærra hlutverk hér en myndbönd víða annars staðar af því að ævi Hrólfs Bæng er tekið upp í sérstökum sjónvarpsþætti um undrabörn, allt frá sónarmyndinni sem sýnir hann kyrkja tvíburasystur sína í móðurlífi til að hún dragi ekki athygli frá fæðingu HANS, að lokasenu og dauða hans og endurfæðingu. Kvikmyndatökumaðurinn Tómas (Davíð Þór Katrínarson) á þannig sinn þátt í að skapa (fjölmiðla) ófreskjuna Bæng og skjáirnir tveir eru óspart notaðir. Leikstjórn var í höndum Grétu Kristínar Ómarsdóttur.

Eitraðir brandarar

Marius Meyerberg skrifaði þetta leikrit stuttu eftir kjör Donalds Trump til forseta Bandaríkja Norður Ameríku. Enga snilld þarf til að sjá hliðstæður milli samfélagshugmynda forsetans og Hrólfs Bæng, um rétt hins sterka og ógeð á þeim veika, kvenfyrirlitningu, „post-truth“ og „valkvæðar staðreyndir“ sem koma sér vel í kosningasvindli.

Hugarheimur Hrólfs er oft afsakaður með því að „hann sé bara fimm ára“ og það er svo sem satt, fólk með fimm ára þroska ætti ekki að geta valdið herfilegu tjóni nema þeim sé hjálpað. Þar kemur til kasta foreldranna, móðurinnar (Brynhildar Guðjónsdóttur) og föðurins (Hjartar Jóhanns Jónssonar), sem búa skrímslið til í sinni sjálfumglöðu millistéttarmynd og sjálfsást – ef þau eiga að geta speglað sig í þessu barni verður það að vera súperbarn sem leyfist allt.

Óþverrastefnuskráin

Dr. Bauer, læknirinn frækni, sem tekur á móti Hrólfi varar heiminn við honum og telur rétt að fylgjast með þessu óbermi. Það er hressandi að heyra hana flytja í lokin kafla úr SCUM manífestó (óþverrastefnuskrá) Valerie Solanas (sem skaut Andy Warhol) en SCUM stendur fyrir „Society for cutting up men.“ Eins og Solanas er Viktoría á því að karlar séu hættulegustu dýr jarðar – en þegar þar var komið sögu var maður farinn að merkja svolitla þreytu meðal áhorfenda.

Verk Mayenburg fer yfir gríðarlega víðan völl í gagnrýni sinni, eins og hans er háttur, ekkert er honum heilagt, ekkert undanskilið háðsádeilunni og straumurinn er stríður og fyndinn á köflum. Vísanir Hrólfs Bæng í aðrar sýningar Borgarleikhússins (Ellýju okkkar og Ríkharð III o.fl.) skemmtu okkur mjög og þýðing Hafliða Arngímssonar var bráðgóð. Sýningin í heild var hins vegar full löng og skjöldótt og hefði haft gott af gagnrýninni styttingu.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila