Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006.

Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og þrettán þýðendur unnu að útgáfunni. Meðritstjórar Kristínar eru Rúnar Helgi Vignisson og Jón Karl Helgason. Rómanska-Ameríka er stór heimsálfa og löndin eru mörg og ólík innbyrðis. Kristín Guðrún segir að því hafi ekki verið auðvelt að velja úr sögur til útgáfu, en lesendur fái að skyggnast sem snöggvast inn í lífið í Mexíkó, Mið-Ameríku, margra landa Suður-Ameríku og eyja Karíbahafsins.

Aðspurð segir Kristín að það sem einkenni smásögur frá Rómönsku-Ameríku sé m.a. knappur stíll og þær séu ósjaldan styttri en t.d. smásögur í ensku mælandi heiminum. Sumar þeirra séu ekki nema ein og hálf síða eða tvær og algeng lengd sé sex til tíu síður. „Það gerir það að verkum að sögurnar eru oft þrungnar spennu. Ég held að það megi segja að í Rómönsku-Ameríku sé gerð krafa til smásögunnar um eitthvað mjög kröftugt“, segir Kristín. „Annað einkenni sem má nefna er yfirþyrmandi náttúruskynjun og náttúrukraftur, eða þá að hugmyndir eru færðar eins og að endimörkum mannlegrar hugsunar, að eins konar þanmörkum eða þá út í fáránleikann. Það vill líka valda spennu. Þessar sögur eru kannski ekki beinlínis heimspekilegar en ég held að hægt sé að segja að þær séu frumspekilegar.“

Ritstjórn Smásagna heimsins: Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason.

Kristín segir erfitt að segja nákvæmlega til um það hvers vegna smásagnahefðin sé svona sterk í álfunni, en henni hafi löngum verið gert hátt undir höfði þar, eða allt frá byrjun síðustu aldar fram á okkar daga. „Til marks um það er fjöldi þeirra höfunda sem hefur nánast eingöngu gefið sig að smásagnaskrifum. Margir þeirra eru heimsþekktir og hafa haft áhrif á smásagnaritun utan álfunnar, má þar nefna höfunda á borð við Jorge Luis Borges, Juan Rulfo, Julio Cortázar, Gabriel García Márquez, Clarice Lispector og Patrick Chamoiseau. Það sem eflaust hefur haft áhrif er að mjög snemma á síðustu öld fóru rithöfundar að skrifa um það hvernig ætti að skrifa góðar smásögur. Horacio Quiroga frá Úrúgvæ, sem oft er nefndur lærifaðir smásögu Rómönsku-Ameríku, skrifaði strax árið 1927 um það hvernig eigi að bera sig að við smásagnaskrif. Þetta eru eins konar reglur um smásagnaritun þar sem Horacio líkir smásögunni við ör sem hittir beint í mark eftir vel miðað skot. Juan Bosch, frá Dóminíska lýðveldinu, skrifaði eitthvað svipað árið 1958 og nokkru síðar hélt Julio Cortázar áfram með sínar hugmyndir. Það má því segja að meðvitundin um formið hvetji til síkrefjandi nýsköpunar.“

Íslenskir lesendur safnritsins mega engu að síður eiga von á að finna þar höfunda sem eru óþekktir hér á landi. Fjölbreytni var höfð að leiðarljósi þegar sögurnar voru valdar, ekki síst fjölbreytni bókmenntastrauma og stefna þar sem ólíkum formum og stílbrögðum er beitt. Kristín segir að sumar sögurnar kunni að reyna dálítið á lesandann, enda sé tilraunamennska eitt einkenni smásagna Rómönsku-Ameríku. Margir höfundar gefi sig eingöngu að þessu formi og því sé smásagan ekki einhvers konar tilraunamennska til að skrifa skáldsögu, heldur tilraun smásögunnar vegna.

Smásögur heimsins verður fimm binda ritröð þar sem birtar verða þýðingar á smásögum úr öllum byggðum heimsálfum. Fyrsta bindið var safn smásagna frá Norður-Ameríku en næsta bindi verður með smásögum frá Asíu. Bókaforlagið Bjartur er útgefandi ritraðarinnar.

Höfundar og lönd:

  • Horacio Quiroga – Úrúgvæ
  • María Luisa Bombal – Chile
  • Jorge Luis Borges – Argentína
  • Juan Rulfo – Mexíkó
  • Gabriel García Márquez – Kólumbía
  • José María Arguedas – Perú
  • Augusto Monterroso – Gvatemala
  • Clarice Lispector – Brasilía
  • João Guimarães Rosa – Brasilía
  • Elena Garro – Mexíkó
  • Julio Cortázar – Argentína
  • Luisa Valenzuela – Argentína
  • Carmen Naranjo – Kosta Ríka
  • Cristina Peri Rossi – Úrúgvæ
  • Pedro Peix – Dóminíska lýðveldið
  • Julio Ramón Ribeyro – Perú
  • Alecia McKenzie – Jamaika
  • Giancarla de Quiroga – Bolivía
  • Ángel Santiesteban – Kúba
  • Patrick Chamoisieau – Martiník
  • Gisèle Pineau – Gvadelúp
  • Yanick Lahens – Haití

Þýðendur smásagnanna eru:

  • Ásdís R. Magnúsdóttir
  • Erla Erlendsdóttir
  • Friðrik Rafnsson
  • Guðbergur Bergsson
  • Hermann Stefánsson
  • Ingibjörg Haraldsdóttir
  • Jón Hallur Stefánsson
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir
  • María Gestsdóttir
  • Rúnar Helgi Vignisson
  • Sigfús Bjartmarsson
  • Sigrún Ástríður Eiríksdóttir
  • Skúli Jónsson
Um höfundinn
Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson er kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs HÍ. Sjá nánar

[fblike]

Deila