„Voru engar konur á Íslandi?“

Í sýningunni Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt? er ljósi varpað á stöðu kvenna á Íslandi allt frá stofnun fyrsta kvenfélagsins árið 1875 til kvennafrísins 2018. Að sýningunni standa Leikhúslistakonur 50+ í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur. Leikgerð samdi Helga Thorberg. Sviðsrýmið er Þjóðleikhúskjallarinn.

Taka sig ekki of hátíðlega

Sýningin hefst á því að „maður“ leiðir Fjallkonuna (Þóreyju Sigþórsdóttur) upp á pall. Hann þvingar bók í hönd hennar, lagar höfuðburð hennar og klípur í kinnina á henni líkt og hún sé einhver Barbie-dúkka, samanber myndina sem auglýsir verkið. Síðan les Fjallkonan ættjarðarljóð „eftir löngu dauðann karl“ eins og Bjartmar Hannesson orðaði það í laginu „17. júní“ sem var sungið seinna í sýningunni. Þá er sjónum áhorfenda beint upp á svið en þar eru sex konur á stofnfundi kvenfélags (Halla Margrét Jóhannesdóttir, Helga Thorberg, Lilja Þórisdóttir, Margrét Rósa Einarsdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir og Salvör Aradóttir.) Þær eru allar klæddar svörtum langermabolum og síðum pilsum sem minna á 20. aldar peysuföt. Allar eru þær með skotthúfur á höfði. Í barmi sér eru þær með stórar silkislaufur. Ein er gul, önnur sægræn, fjólublá, rauð, kóngablá og græn. Litagleðin stingur í stúf við hefðina og setur glettnislegan, eða allt að því trúðslegan, brag á meðferð sögunnar. Frá upphafi er áhorfendum því ljóst að leikkonurnar taka sig ekki of hátíðlega. Þær ætla sér að rekja sögu kvenna á Íslandi með húmorinn og leikgleðina að vopni.

Á tjaldi sem stendur vinstra megin við sviðið birtast myndir, til dæmis af konum í fiskvinnslu, fólki á Þingvöllum og herflugvélum, og ártöl og nöfn ýmissa kvennahreyfinga. Þetta hjálpar áhorfendunum að staðsetja sig í tíma þar sem farið er hratt yfir sögu, það er um það bil 140 ár á rúmri klukkustund. Kvenfélagskonurnar sex nýta auk þess ýmsa leikmuni sem vísa í tísku og tíðaranda. Þær setja á sig skuplur og ólíka hatta, sveifla handtöskum og dansa með kústa. Tónlist spilar stóran þátt í sýningunni. Konurnar syngja hin ýmsu lög við undirspil Aðalheiðar Þorsteinsdóttur á hljómborð. Þeim ferst vel úr hendi að syngja raddað.

Fjör færist í leikinn

Inn á milli sena tekur Fjallkonan til máls. Ljóðaupplestur hennar er eins og endurtekið viðlag við framvinduna á sviðinu. Eftir því sem atburðirnir færast nær okkur í tíma verður auðveldara að skilja vísanir og meiri hraði kemst í verkið. Konurnar dansa með regnhlífar við lagið „Singing in the rain“ á Þingvöllum 1944. Þær hugga Fjallkonuna sem kemur grátandi. Það er ekki henni að kenna að hún hafi ekki komist á hátíðina þegar menn líta á hana sem eitthvert skraut sem má ekki blotna. Konurnar amast yfir því að engin kona sé á þingi eða á opinberum ljósmyndum og telja að eftir hundrað ár verði spurt: „Voru engar konur á Íslandi?“

Hvörfin í sýningunni eiga sér stað þegar Fjallkonan kemur ólétt upp á pall og missir vatnið undir lestri á ljóði Huldu, „Hver á sér fegra föðurland“. En konurnar eiga ekki að gleyma því að þeirra staða er fyrir aftan eldavélina og því bindur „maðurinn“ hvíta svuntu um mitti Fjallkonunnar næst þegar hún mætir á svið. Hún heldur á barninu sínu í fanginu. „Maðurinn“ lætur hana hafa mataruppskrift til að lesa og klípir í rassinn á henni. Þegar hippaárin byrja fá brjóstahaldararnir að fjúka. Konurnar passa barn Fjallkonunnar á meðan hún er í pontu og rétta henni ljóð um konur til að lesa. Þvottasnúra þakin rauðum sokkum er strengd yfir sviðið og Fjallkonan fer af pallinum og mætir konunum sex. Hún fær sokkapar um hálsinn. Konurnar steyta hnefum og syngja lag Grýlanna: „Ekkert mál“ – Hvað er svona merkilegt við það, að vera karlmaður? og „Áfram stelpur“. Að lokum er samtíma okkar gert skil. Þar birtist Druslugangan, Fokk ofbeldi-húfurnar, #Metoo skilti og fjöldasamstaða undir myndbandinu „D.R.U.S.L.A“ með Reykjavíkurdætrum og aftur er sungið „Áfram stelpur“.

Samstaðan gerir okkur gott

Þar sem sýningin fór fram í Þjóðleikhúskjallaranum er rýmið lítið og áhorfendur sitja mjög þétt en við það skapaðist ef til vill meiri samstaða og samkennd meðal áhorfenda en ella. Áhorfendum var blásinn baráttuandi í brjósti. Það er í senn viðeigandi og aðdáunarvert að það skulu vera Leikhúslistakonur 50+ sem færa okkur þessa sýningu því þeim fannst ekki nóg af tækifærum fyrir leikhúslistakonur á sínum aldri og tóku því málin í sínar eigin hendur – Áfram stelpur.

Fólk á öllum aldri ætti að sjá sýninguna Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt? því við höfum gott af því að staldra stundum við og líta yfir farinn veg, spegla okkur í sameiginlegri fortíð og nútíð. Og velta fyrir okkur framtíðinni.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila