Hawkline-skrímslið

PÁR Í TÍU ÁR: Dagana 15.-20. október halda nemendur í ritlist við Háskóla Íslands, fyrrverandi og núverandi, upp á það með ýmsu móti að tíu ár eru liðin frá því að ritlist varð að fullgildri námsgrein. Af því tilefni mun Hugrás birta daglega nýtt efni eftir höfunda sem stunda eða hafa stundað nám í ritlist við HÍ. Hér er einkum um að ræða brot úr væntanlegum eða nýútkomnum bókum. Að þessu sinni birtist kafli úr bókinni Hawkline-skrímslið eftir Richard Brautigan í þýðingu Þórðar Sævars Jónssonar. Á þessu hausti sendir Þórður Sævar einnig frá sér þýðingu á bókinni Hefnd grasflatarinnar eftir sama höfund. Áður hefur Þórður sent frá sér ljóðabókina Blágil.

Þórður Sævar Jónsson.

Reiðkennslan

Þeir lágu með rifflana sína á ananasakrinum og horfðu á mann kenna syni sínum að sitja hest. Þetta var á Hawaii sumarið 1902.

Þeir höfðu ekki talast við í dágóða stund. Þeir lágu bara í hnipri og horfðu á manninn og drenginn og hestinn. Þeim var ekki skemmt.

„Ég get þetta ekki,“ sagði Greer.

„Þetta er ljóta helvítið,“ sagði Cameron.

„Ég get ekki skotið mann sem er að kenna syni sínum að sitja hest,“ sagði Greer. „Ég er ekki þannig gerður.“

Greer og Cameron þekktu ekki til á ananasakrinum. Þeir voru einsog þorskar á þurru landi. Þeir voru báðir í kúrekafötum frá Austur-Oregon.

Greer var með uppáhalds byssuna sína, 30:40 Krag, og Cameron með 25:35 Winchester. Greer fannst gaman að stríða Cameron út af byssunni hans. Hann sagði alltaf: „Hvað ertu að paufast með þennan kanínuriffil þegar þú getur verið með alvöru byssu einsog ég?“

Þeir fylgdust af athygli með reiðkennslunni.

„Jæja, þarna fara tvöþúsund dollarar fyrir lítið,“ sagði Cameron. „Og þessi andskotans ferð á þessum andskotans bát var til einskis. Ég hélt ég ætlaði aldrei að hætta að æla og þarf núna að endurtaka leikinn tómhentur.“

Greer kinkaði kolli.
Sjóferðin frá San Francisco til Hawaii var hræðilegri en orð fá lýst. Greer og Cameron höfðu aldrei lent í öðru eins, ekki einu sinni þegar þeir skutu lögreglustjóra í Idaho tíu sinnum án þess að stúta honum. Hann vildi ekki drepast þannig að Greer sagði loks við lögreglustjórann: „Viltu vinsamlegast deyja? Við viljum ekki skjóta þig oftar.“ Og lögreglustjórinn sagði: “Gott og vel, ég skal deyja, en bara ef þið skjótið mig ekki aftur.“

„Við skjótum þig ekki aftur,“ sagði Cameron.

„Ókei, ég er dauður.“

Hann stóð við orð sín

Maðurinn, drengurinn og hesturinn voru í garði framan við stórt hvítt hús sem stóð í skugga pálmatrjáa. Það var einsog skínandi eyja á ananasökrunum. Frá húsinu barst píanótónlist. Hún ómaði letilega í hlýju síðdeginu.

Síðan kom kona fram á veröndina. Hún bar sig einsog frú og móðir. Hún var í síðum hvítum kjól með uppháum kraga. „Það er kominn matur!“ hrópaði hún. „Komið og fáið ykkur, strákar!“

„Helvítis djöfull!“ sagði Cameron. „Nú er þetta endanlega búið. Eitt þúsund dollarar. Undir venjulegum kringumstæðum væri hann dauður og búið að koma líkinu fyrir í dagstofunni, en núna arkar hann inn til að fá sér að éta.“

„Komum okkur af þessari andskotans eyju,“ sagði Greer.

Aftur til San Francisco

Cameron var teljari. Hann kastaði nítján sinnum upp á leiðinni til San Francisco. Honum fannst gaman að telja allt sem hann gerði. Þegar þeir kynntust fyrir mörgum árum gerði þessi árátta Greer dálítið órólegan, en hann var búinn að venjast henni núna. Það kom ekkert annað til greina. Annars hefði hann gengið af göflunum.

Stundum veltu menn fyrir sér hvað Cameron væri eiginlega að gera og þá sagði Greer: „Hann er að telja eitthvað,“ og þá spurðu menn: „Hvað er hann að telja?“ og Greer svaraði: „Hvaða máli skiptir það?“ og þá sögðu menn: „Ó.“

Yfirleitt fóru menn ekkert nánar út í þetta því að Greer og Cameron voru mjög öruggir með sig á þennan stórmannlega afslappaða hátt sem gerir fólk órólegt.

Greer og Cameron höfðu yfir sér þannig áru að þeir gátu leyst úr hverju sem var með lágmarks fyrirhöfn en hámarksárangri.

Þeir litu ekki út fyrir að vera harðir í horn að taka. Þeir litu út einsog pollrólegur kjarni eimaður úr þeim eiginleika. Þeir litu út fyrir að eiga í mjög nánu sambandi við eitthvað sem enginn annar gat séð.

Með öðrum orðum: Þeir voru með sitt á hreinu. Maður abbaðist ekki upp á þá, þótt Cameron væri alltaf að telja hluti og þar á meðal nítján uppköst á leiðinni til San Francisco. Manndráp voru lifibrauð þeirra.

Og Greer spurði um borð í bátnum: „Hvað ertu kominn upp í?“

Og Cameron sagði, „Tólf.“

„En á leiðinni þangað?“

„Tuttugu.“

„Hvernig fer það?“ spurði Greer.

„Nokkuð jafnt.“

Ungfrú Hawkline

Richard Brautigan.

Á þessari stundu beið ungfrú Hawkline eftir þeim í þessu risastóra, ískalda gula húsi . . . í Austur-Oregon . . . meðan þeir redduðu sér ferðapening í Kínahverfi San Francisco með því að drepa einhvern Kínverja sem fullt af öðrum Kínverjum fannst að ætti að drepa.

Þetta var gallharður Kínverji og þeir buðu Greer og Cameron sjötíu og fimm dollara fyrir að drepa hann.

Ungfrú Hawkline sat nakin á gólfinu. Herbergið var fullt af hljóðfærum og steinolíulömpum sem loguðu dauft. Hún sat við hliðina á sembal. Það var óvenjuleg birta á nótum sembalsins og sú birta myndaði skugga.

Sléttuúlfar ýlfruðu fyrir utan.

Skuggar af hljóðfærunum, sem birtan frá lampanum afskræmdi, mynduðu framandi mynstur á líkama hennar og eldurinn skíðlogaði í arninum. Eldurinn leit næstum því út fyrir að vera of stór, en hann varð að vera stór því það var ískalt í húsinu.

Það var barið að dyrum.

Ungfrú Hawkline leit við.

„Já,“ sagði hún.

„Maturinn verður til eftir augnablik,“ hljómaði rödd gamals manns gegnum hurðina. Maðurinn gerði sig ekki líklegan til að koma inn í herbergið. Hann stóð fyrir utan.

„Þakka þér fyrir, herra Morgan,“ sagði hún.

Svo barst hávært fótatak frá dyrunum og niður eftir ganginum sem hvarf að endingu bakvið lokaða hurð.

Sléttuúlfarnir voru nálægt húsinu. Af ýlfrinu að dæma gátu þeir allt eins verið á veröndinni.

„Við gefum ykkur sjötíu og fimm dollara. Þið drepa,“ sagði aðalkínverjinn.

Fimm eða sex Kínverjar sátu með þeim í litlum dimmum bás. Staðurinn angaði af slæmri kínverskri eldamennsku.

Þegar Greer og Cameron heyrðu sjötíu og fimm dollurum varpað fram brostu þeir á þennan afslappaða hátt sem breytti stöðunni hið snarasta.

„Tvö hundruð dollara,“ sagði aðalkínverjinn svipbrigðalaust. Þetta var klár Kínverji. Þess vegna var hann foringi þeirra.

„Tvö hundruð og fimmtíu dollara. Hvar er‘ann?“ spurði Greer.

„Í næsta herbergi,“ sagði aðalkínverjinn.

Greer og Cameron fóru inn í næsta herbergi og drápu hann. Þeir komust ekki að því hversu gallharður hann var því þeir gáfu honum ekki séns. Þannig fóru þeir að. Þeir voru ekkert að tvínóna við manndrápin.

Meðan þeir afgreiddu Kínverjann beið ungfrú Hawkline enn eftir þeim, kviknakin í herbergi þöktu skuggum ýmissa hljóðfæra. Fyrir tilstilli lampanna flöktu skuggarnir um líkama hennar í þessu risastóra húsi í Austur-Oregon.

Það var eitthvað annað á ferli í þessu herbergi. Það fylgdist með henni og naut nakins líkama hennar. Hún vissi ekki að það væri þarna. Hún vissi ekki heldur að hún væri nakin. Ef hún hefði vitað það hefði hún verið yfir sig hneyksluð. Hún var fín ung dama, fyrir utan skrautlega málfarið sem hún hafði lært af föður sínum.

Ungfrú Hawkline var að hugsa um Greer og Cameron, þótt hún hefði aldrei hitt þá eða heyrt þeirra getið, en hún beið sífellt eftir því að þeir kæmu einsog örlögin höfðu fyrirskipað, því hún var hluti af gotnesku framtíðinni þeirra.

Morguninn eftir náðu Greer og Cameron lestinni til Portland í Oregon. Þetta var fallegur dagur. Þeir voru glaðir því þeim þótti gaman að taka lestina til Portland.

„Hvað eru komin mörg skipti núna?“ spurði Greer.

„Átta sinnum án vandræða og sex sinnum fyrir horn,“ sagði Cameron.

 

Richard Brautigan (1935–1984) var á meðal þekktustu rithöfunda Bandaríkjanna á sinni tíð. Hann samdi 10 skáldsögur og gaf út 9 ljóðasöfn og eitt smásagnasafn á ferli sínum. Hawkline-skrímslið var sú fimmta sem hann sendi frá sér og er á margan hátt einstök í höfundarverkinu þar sem hún er skopstæling á hinni vinsælu bókmenntagrein vestranum. Tveir atvinnumorðingjar eru ráðnir til að ganga milli bols og höfuðs á skrímsli sem hefur lagt undir sig Hawkline-setrið, en þar búa líka hinar gullfallegu systur, sem nær ógerningur er að þekkja í sundur. Dimma gefur bókina út.

Um höfundinn
Þórður Sævar Jónsson

Þórður Sævar Jónsson

Þórður Sævar leggur stund á nám í ritlist.

[fblike]

Deila