Sælir eru einfaldir

Hamingjusamur eins og Lazzaro (Lazzaro Felice eða Happy as Lazarro á ensku, 2018) er þriðja leikna frásagnarmynd ítalska leikstjórans Alice Rohrwacher, sem jafnframt skrifar handritið, en fyrir það hlaut hún handritsverðlaunin í Cannes síðastliðið vor. Hér er um forvitnilega kvikmynd að ræða og býsna óvenjulega þótt hún raði sér einnig með sýnilegum og örlítið hefðbundnum hætti í flokk evrópskra samtímalistamynda. Skökk og skemmtilega bjöguð veruleikasýn myndarinnar og undiralda myrkrar kímni minnir dálítið á verk gríska leikstjórans Yorgos Lanthimos meðan efnistökin skírskota til sumra verka Lars Von Trier. Rohrwacher fer þó mildari höndum um persónur sínar en áðurnefndir leikstjórar.

Í upphafi kynnast áhorfendur afskekktum þorpsbúum sem lífsviðurværi sitt hafa allir af starfi á tóbaksplantekru sem er í eigu hinnar tiginbornu Luna–fjölskyldu. Tímasetning atburðarásarinnar er örlítið á reiki, lífshættir leiguliðanna eru um margt frumstæðir og fornfálegir, sem og undirskipuð þjóðfélagsstaða þeirra gagnvart plantekrufjölskyldunni. Sést þó í farsíma og það er ekki síst yfirbragð hins unga og ofdekraða Tancreda (Luca Chikovani), aðalerfingja plantekruaristókrasíunnar, sem veitir nútímalegum blæ inn í söguna. Framvindan hverfist þó um titilpersónuna, Lazzaro (Adriano Tardiolo), stálpaðan munaðarleysingja sem gengur í öll störf í þorpinu af miklum krafti og fljótlega kemur í ljós að er hálfgerður einfeldningur. Lazzaro er auðtrúa og hjálpsamur, og hlýðir öllum sem að gefa sig að honum, skapgerðareinkenni sem þorpsbúar virðast fyrir löngu hafa vanist að misnota. Það er eins og fyrir hálfgerða tilviljun að hinn forframaði Tancreda fær augastað og áhuga á Lazzaro, en í einfeldni sinni telur hinn síðarnefndi að þar hafi hann eignast sannan vin og jafnvel hálfbróður. Í hönd fer „vinasamband“ sem auðvitað hverfist einvörðungu um hagsmuni unga aðalsmannsins og þorpsbúunum er sumum örlítið hverft við, en þó aðallega vegna þess að Lazzaro hefur í kjölfarið minni tíma til að snúast í kringum þá og vinna vinnunna þeirra.

Adriano Tardiolo sem Lazzaro við störf á tóbaksplantekrunni.

Kastað inn í nútímann

Þegar áhorfendur telja sig nokkurn veginn hafa reiknað út hvert myndin sé að fara og með hvaða hætti myndin nálgast efniviðinn á sér hins vegar stað rof í frásögninni sem gjörbreytir framvindunni. Í ljós kemur að Luna–fjölskyldan hefur haldið þorpsbúum í einskonar tímalausri ánauð í kjölfar þess að tóbaksplanekran einangraðist í flóðum alllöngu fyrr. Vinnufólkið á plantekrunni er sér allsómeðvitað um framgang nútímans eða hinn stærri heim utan þessa litla héraðs, hvað þá réttindi sín og hversu takmörkuð lífsgæðin eru á plantekrunni. Þeim hefur bókstaflega verið haldið í miðaldarlegum vistarböndum og þau öll miskunnarlaust arðrænd. Hneykslismálið skekur nútíma Ítalíu og kotbændunum er auðvitað öllum bjargað. Í kjölfarið missir Luna–fjölskyldan allt sitt og hrekst í burtu í skömm. Það er hér sem frásögnin tekur að minna á Manderlay (2005) eftir Trier, en þar greinir einmitt frá lífinu á plantekru í suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar þar sem öllu vindur fram eins og þrælastríðið hafi aldrei átt sér stað.

En þegar þorpsbúarnir eru leystir úr ánauð sinni gleymist Lazzaro, sem skömmu fyrr hafði lent í slysi. Þegar hann rankar við sér er heimurinn eins og hann þekkir hann gjörbreyttur, allir hafa yfirgefið plantekruna. Hér leikur Rohrwacher sér að því að skapa villandi samfellu í framvindunni   og það sem áhorfendur ekki vita í fyrstu, ekki frekar en Lazzaro, er að margir áratugir hafa liðið frá því að leiguliðunum var bjargað. Ráðvilltur Lazzaro finnur sig þvínæst í stórborg þar sem hann lendir fyrir tilviljun í slagtogi með eftirlifendum af plantekrunni, börnunum sem nú eru orðin fullorðin, en þorpsþrælunum hafði verið kastað inn í nútímann að því er virðist á gæfusnauðan hátt, því öll viðhafast þau nú á götunni, eða þvísem næst, en hafa þó haldið hópinn. Það sem er undarlegt er að Lazzaro hefur ekkert elst – hann er nákvæmlega sá sami og þegar þau öll sáust síðast, jafnungur og hraustur, og jafn einfaldur. Með áreynslulausum hætti fellur hann í svipað far og áður, hann fylgir sínum gömlu vinum, auðsveipur og hamingjusamur að hafa fundið þau á nýjan leik. En á sama tíma er ljóst að lífsgæðin hafa ekki haldist í hendur við aukið „frjálsræði“ hjá gömlu tóbaksþrælunum, þau lifa sem einhvers konar eftirhreytur hins kapítalíska þjóðskipulags, þau hírast ráðalaus á botni samfélagsins, tilgangurinn sem líf þeirra hafði undir Lunaaðalsættinni er horfinn og ekkert hefur komið í staðinn. Kraftaverkið sem felst í endurkomu Lazzaro kemur þeim jafnframt ekki meira úr jafnvægi en svo að áður en langt um líður hafa þau öll sætt sig við óútskýranlega tilvist hans.

Nicoletta Braschi sem greifynjan og Luca Chikovani sem Tancreda.

Þrællinn og húsbóndinn

Snemma verður áhorfendum ljóst að Lazzaro er rammtáknrænn, í senn eins konar samtímalegur Lazarus – slysið sem olli því að hann missti af björgun þrælanna og lokun tóbaksekrunnar hefði skýrlega átt að ríða honum að fullu – og Jesúsgervingur. Fórnfýsi hans eru engin takmörk sett, né góðmennsku, hann tileinkar sig heilshugar öðrum og minnir þar aftur á ákveðna þræði í verkum Lars Von Trier, þ.e. ítrekaða umfjöllun leikstjórans danska um píslarvættishugtakið og það hvernig hann hefur oftar en einu sinni staðsett hina miðaldarlegu fígúru píslarvottsins í nútímalegu sögusviði (Breaking the Waves, 1996, og Dogville, 2003, sem dæmi). Raunir Lazzaro verða reyndar aldrei jafn yfirgengilegar og vill vera hjá Trier, enda andrúmsloftið sem Rohrwacher skapar allt miklum mun mildara og hæglátara.

Því fer þó fjarri að Hamingjusamur eins og Lazzaro hafi ekki pólitískt bit eða brodd, það gerir hún svo sannarlega. Ádeila myndarinnar á bagalegt ástand flóttafólks og þeirra sem lægst eru sett og lifa í eymd og volæði mitt í hagsæld evrópskra stórborga verður sífellt vafningalausari eftir sem á líður, og kaldhæðnin sem felst í þeirri staðreynd að velferð „þrælanna“ er síst meiri eftir að þeim hefur verið bjargað, er jafnframt skýr. Áframhaldandi virðing tóbaksbændanna fyrir aðalsfjölskyldunni sem hneppt hafði þá í þrældóm er þó forvitnilegur vinkill á pólitísku erindi myndarinnar og virðist að hluta snúast um gildi skýrrar heimsmyndar og hugmyndafræði sem finnur einstaklingnum stað í samfélaginu. Það er að segja, að slík hugmyndafræði og heimsmynd kunni að hafa þýðingu og gildi fyrir fólk, burt séð frá innbyggðu valdamisvægi og kúgun, og sé jafnvel ákjósanlegri en rótleysi nútímans. Í Ríkinu ræðir Plató um það hann kallar „göfugu lygina“ og á þar við eins konar goðsögulegan uppspuna sem hefur þann tilgang að réttlæta og útskýra stöðu ólíkra stétta, og hann telur jafnframt nauðsynlega grunnforsendu röklegs þjóðskipulags. Tóbaksplantekran var rekin á lygi, maður hikar reyndar við að kalla hana „göfuga“, en greifynjan sem þar hélt um stjórnartaumana var einmitt á þeirri skoðun að með henni væri þrælunum greiði gerður, þeir væru hamingjusamari en ella. Og hamingjusamastur er auðvitað Lazzaro, þræll þrælanna, eins og titill myndarinnar segir berum orðum. Nú er ljóst að myndin talar ekki máli greifynjunnar og Luna–fjölskyldunnar, en jafnljóst er að hún ætlar sér að afhjúpa þá blekkingu að tannhjólin í samtímalegu gangverki kapítalismans séu frjáls, séu frjálsari en leiguliðar liðinna tíma.

Og mitt í straumnum flýtur svo titilpersónan Lazzaro, Jesúsgervingur og einfeldningur, sá sem öllum vill vel. Og auðvitað rúmast hann illa í veruleikanum og samtímanum – örlög píslarvotta eru að fórna sér og það gerir Lazzaro. En myndin svarar ekki fyrir um tilgang fórnarinnar – eða tilgang Lazzaros í heiminum – umfram það að við vitum auðvitað að fórnin er gerð fyrir okkur hin.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila