PÁR Í TÍU ÁR: Dagana 15.-20. október halda nemendur í ritlist við Háskóla Íslands, fyrrverandi og núverandi, upp á það með ýmsu móti að tíu ár eru liðin frá því að ritlist varð að fullgildri námsgrein. Af því tilefni mun Hugrás birta daglega nýtt efni eftir höfunda sem stunda eða hafa stundað nám í ritlist við HÍ. Hér er einkum um að ræða brot úr væntanlegum eða nýútkomnum bókum. Í dag birtum við sögu úr bókinni Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur.

Þórdís Helgadóttir.

Kæri Himbrimi

Takk fyrir umsóknina. Mikill áhugi var á starfinu og því miður varð annar umsækjandi fyrir valinu að þessu sinni. Það er kannski aðeins út fyrir handritið en ef þig langar að auka möguleika þína á því að vera ráðinn prófarkalesari við tímarit eins og okkar mæli ég með námskeiðum Endurmenntunar í stafsetningu og notkun greinamerkja. Mig langar að játa fyrir þér í einlægni að það sem þú sagðir í viðtalinu hreyfði við mér. Ég vona innilega að þú finnir bráðum starf við hæfi.

Kær kveðja,

Erla Björk

 

Kæra Erla

Seint í gærkvöldi settist ég niður með tebolla og valdi gamla bók úr hillunni, bók sem ég hafði ekki skoðað lengi, hún var eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Þegar ég opnaði bókina flögraði úr henni þríbrotið A4-blað og veistu hvað það var? Fyrsta bréfið sem þú skrifaðir mér. Fyrsta höfnunin. Þegar ég les það aftur ímynda ég mér að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem þú fórst út fyrir handritið. Mig langar að trúa því að ég hafi haft áhrif á líf þitt, að ég hafi breytt þér þegar upp er staðið. Þú breyttir öllu fyrir mig.

Með söknuði og hlýju,

Himmi

 

Kæri Himbrimi

Það eru tvö n í „laugardaginn“. Og nei, ég sé mér ekki fært að mæta, af augljósum ástæðum. Ég skil ekki hvernig þér datt í hug að bjóða mér, mér finnst það jaðra við grimmd. Á hinn bóginn veit ég að þú átt ekkert slíkt til í þínum beinum. Ég vildi að ég gæti óskað þér til hamingju en það væru algjör óheilindi. Þetta eru mistök, hlægileg mistök og grátleg auðvitað. Er möguleiki að þetta hafi að gera með B5-M?

Kveðja,

Erla Björk

 

Kæra Erla

Ég man að þú varst að lesa Derrida á ströndinni í Grikklandi. Hárið á þér var eins og gull í sólinni. Þú borðaðir kvöldmat á veröndinni meðan sólarlagið málaði himinninn, flísarnar voru bláar og hvítar. Þú hrökkst við þegar ég kitlaði þig í hálsinn. Þú hélst samt áfram að tala. Þú varst að útskýra að texti merkti vefnaður, væri sama orð og textíll. Tungumálið er hula, sagðirðu, sem við felum okkur á bak við. Ég sá að þér bauð við nöktum og þöglum líkama mínum. Þú snertir mig ekki aftur. Ég hef skorið af mér útlimi fyrir þig, Vera, og ég myndi gera það aftur. Ég elska þig.

Þinn,

Himbrimi

 

Himbrimi

Ég hef aldrei komið til Grikklands. Og hver er Vera? Ertu kominn á þetta helvítis lyf aftur?

 

Kæra Erla

Nafnið þitt minnir mig á suðandi býflugur á hásumri. Erla er skínandi birta sem gerir alla liti skærari. Ég þarf að gera játningu. Ég skelf, mér líður eins og líf okkar beggja hangi í limbói. Kannski ertu búin að átta þig á þessu öllu, allavega sérðu að ég er enginn prófarkalesari. Ég var meira að segja einu sinni greindur með lesblindu, það var í grunnskóla, en ég trúi því reyndar að það hafi ekki verið rétt greining. Að minnsta kosti minnkuðu einkennin þegar ég fór að taka B5-M vítamín við athyglisbresti. Og samt er ég ennþá svona út og suður. Já, ég villti á mér heimildir til að fá að eiga athygli þína óskipta í dálitla stund. Heldurðu að þú getir fyrirgefið mér?

Þinn auðmjúki,

Himmi

 

Himbrimi

Viltu gjöra svo vel að láta mig í friði.

Erla Björk

 

Kæra Erla

Erfðabreytt pantótenat, eða B5-Modified, var upprunalega þróað í kjölfar tilrauna sem sýndu að ofurskammtar af B5-vítamíni gátu dregið úr einkennum liðagigtar, örvað ónæmiskerfið og haft fyrirbyggjandi áhrif gegn sumum gerðum krabbameina. B5-M örvar myndun fitusýra, hormóna, taugaboðefna og hemóglóbíns. Það er ennþá ekki hægt að kaupa það löglega á Íslandi en ég get reddað þér prufuskammti. Ég veit um marga sem hafa tekið það og læknast af kvíða og persónuleikaröskunum. Heyrðu bara í mér ef þú hefur áhuga. Númerið mitt er 859 7221.

Þinn,

Himbrimi

 

Elsku Himbrimi

Ef ég kem mér ekki beint að efninu verður blaðið orðið gegnblautt af tárum áður en ég klára. Það er ég eða lyfið, Himbrimi. Við höfum verið að stefna þangað lengi en það er samt sárt að segja það. Ég var klukkutíma að skrifa þessar þrjár línur. Jæja, veldu. Þú mátt svara en ef þú segir einu sinni enn að það stafi engin hætta af náttúrulegum vítamínum þá brenni ég bréfið og við tölum aldrei aftur saman. Augnlokin á mér eru svo bólgin af gráti að þú myndir ekki þekkja mig á götu. Ég hætti hér.

Þín,

Erla

 

Kæri/a  ERLA

Þú ert boðin/nn velkomin/nn á opnun sýningarinnar HULA eftir Himbrima Bjarnason í Hafnarhúsinu laugardagin 12. maí kl. 17.

HULA er persónuleg sýning á mörkum hins óþægilega og óbærilega þar sem listamaðurinn rannsakar tvískiptinguna einka/opinbert um leið og hann notar eigin líkama til að gera upp sársaukafull sambandslit.

Léttar veitingar verða í boði.

 

Kæri Himbrimi

Ég held að ég hafi aldrei séð bláan lit áður en ég byrjaði að taka B. Kannski er það samt bara hafið hérna sem hefur þessi áhrif á mig. Það er svo blátt að mér finnst eins og það þurfi ný orð til að tala um það. Vissirðu að í Hómer er sjórinn aldrei kallaður blár heldur vínlitaður? Ég er sannfærð um að blár hefur sérstaka merkingu fyrir mannfólk. Eilífðin fyrir ofan okkur er blá. Líka eilífðin fyrir neðan (hafdjúpið).

Ég borðaði kolkrabba í fyrsta skipti í gær. Pantaði þetta sem þú mæltir með. Hann var góður en ég gat samt ómögulega klárað. Ég fékk óþægilega gæsahúð um allan líkamann við það að bíta í gúmmíkenndan arminn. Þetta er annað sem skilur okkur að. Vissirðu að texti er sama orð og textíll? Ég rakst á þessa staðreynd í bók fyrir löngu, ég veit ekki af hverju henni skaut upp í hugann á mér núna. Allt sem mér dettur í hug langar mig fyrst til að segja þér. Ég sakna þín, Himbrimi. Þegar ég kem til baka ætla ég aldrei aftur að fara svona langt í burtu frá þér. Skítt með vinnuna. Ég elska þig.

Þín,

Erla

 

Sagan hér að ofan er úr sagnasafninu Keisaramörgæsir sem er rétt óútkomin hjá bókaforlaginu Bjarti. Í káputexta segir m.a.: Í sagnaheimi Þórdísar Helgadóttur rekast á kunnuglegir hlutir og furður – en þegar betur er að gáð reynast sumar furðurnar líka kunnuglegar. Hér er teflt saman fantasíu og raunsæi á heillandi og kraftmikinn hátt.“ Þórdís hefur áður sent frá sér smásögur og ljóð en Keisaramörgæsir er fyrsta bók hennar. Þess má geta að Þórdís er núverandi formaður Blekfjelagsins, nemendafélags meistaranema í ritlist.

Um höfundinn
Þórdís Helgadóttir

Þórdís Helgadóttir

Þórdís Helgadóttir er nemandi í ritilist og formaður Blekfjelagsins, nemendafélags meistaranema í ritlist.

[fblike]

Deila