Kvikmyndagerð full af töfrabrögðum

Kjartan Már Ómarsson ræðir við Evu Sigurðardóttur um stuttmynd hennar hennar Cut.

Mætti ég nokkuð biðja þig um að kynna þig?  

Eva Sigurðardóttir heiti ég og er ég kvikmyndaframleiðandi, handritshöfundur og leikstýra. Ég rek fyrirtækið Askja Films sem að sérhæfir sig í kvikmyndum um og eftir konur. En sem leikstjóri hef ég verið að vinna að verkefnum bæði á Íslandi og í Bretlandi. Stuttmyndirnar eftir mig eru Regnbogpartý sem vann Edduverðlaunin árið 2016, og nýjasta myndin sem ég skrifaði og leikstýrði Cut er nú á kvikmyndahátíðum. Sem framleiðandi hef ég gert tólf stuttmyndir, og er nú að leggja lokahönd á fyrstu mynd mína í fullri lengd sem heitir Tryggð og er leikstýrð af Ásthildi Kjartansdóttur. Einnig vann ég sem framleiðslustjóri við myndirnar Hrútar og Andið Eðlilega, og sem meðframleiðandi í undirbúningi við myndina Hjartasteinn.

Gætirðu kannski líka sagt okkur aðeins af myndinni þinni?

Myndin fjallar um hina 17 ára gömlu Chloe eftir að kynlífsmyndbandi af henni er lekið á netið og hún ákveður að skrá sig í Bikini Fitness keppni til þess að breyta ímynd sinni. En þegar keppnisdagurinn rennur upp áttar hún sig fljótt á því að það verður erfitt að breyta skoðunum fólks. Spurningin er hversu langt hún mun ganga til þess að breyta ímynd sinni og ná aftur stjórn á orðspori sínu?

Gætirðu sagt okkur svolítið betur frá fyrirtækinu þínu, Askja films.

Askja Films er íslenskt framleiðslufyrirtæki sem að ég stofnaði árið 2013. Það er ákveðinn fókus hjá mér að framleiða myndir og verk eftir konur og/eða um konur. Askja Film vinnur aðallega að íslenskum verkum, en einnig erum við að þróa bresk og spænsk verkefni.

Þú lærðir í Bretlandi. Gætirðu sagt okkur hvar þú lærðir, aðeins frá skólanum og hvernig þú komst þér í nám?

Ég lærði sjónvarpsframleiðslu í BA námi í London við University of Westminster. En ég hafði svo ekki efni á að fara í framhaldsnám við kvikmyndagerð. En til þess að halda áfram að læra þá fór ég að vinna sem sjálfboðaliði í London Film School við útskriftarmyndir þar. Það eru nú komin tíu ár síðan ég útskrifaðist úr námi og get ég sagt að ég hef lært lang mest að því að vinna að myndum, frekar en náminu sjálfu.

Þótt mig langi helst að ræða við þig um nýjustu mynd þína Cut þá er ekki hjá því komist að greina ákveðna samfellu milli hennar og kvikmyndarinnar Regnbogapartý sem þú gerðir fyrir tveimur árum. Í báðum mætti segja að umfjöllunarefnið sé meðal annars félagslegur þrýstingur og sjálfsmyndir ungra stúlkna. Er þetta efni þér hugleikið?

Já ég hef haft mikinn áhuga á unglingsárum stúlkna, og hvernig félagslegur þrýstingur getur haft áhrif á þær. Ég mótaðist sjálf mikið á þessum árum, og gerði ég mikið af mistökum. En í dag er þrýstingurinn og pressan allt öðruvísi og í raun miklu meiri. Félagsmiðlar, Netið, Instagram og klámsíður hafa mjög hættuleg áhrif, og snerta báðar myndir mínar á þessum þemum.

Gætirðu rætt aðeins um merkingarmöguleika titilsins: Cut

„Cut“ er orð sem að fólk notar til þess að lýsa því þegar það er að „skera niður“ eða „kötta“ líkamsfitu rétt fyrir fitnesskeppnir. Þar sem að myndin gerist á fitnesskeppni þá fannst mér þetta orð mjög lýsandi, bæði þar sem að það vísar í þetta ferli, en einnig er þetta frekar sársaukafullt orð sem getur vísað í aðrar tilfinningar.

Cut byrjar á mjög svipaðan hátt og Regnbogapartý, leikkonurnar eru naktar inni á baði. Er þetta til þess að gefa áhorfanda í skyn að viðfangsefnið sé berskjaldað eða eru aðrar hugmyndir á bakvið þetta?

Ég gerði þetta í raun ósjálfrátt. En já ætli það sé ekki það sem að ég er að gera – að ná að tengja áhorfandann við aðal karakterinn áður en að hún fer út í heiminn og þarf að setja upp grímuna. Við erum öll mjög berskjölduð þegar við erum ein inni í herbergi, og er mjög spennandi sem kvikmyndagerðakona að fá að vera með aðal karakter á þeim stundum.

Maður verður strax var við að stúlkan er með húðflúr á bringunni. Þar stendur eitthvað skrifað en með þess lags skrift að það er fremur erfitt að lesa það. Sjálfum tókst mér það ekki í fyrstu. Mig grunar þar standi „To quit does not exist“, er það rétt hjá mér? Gætirðu sagt okkur hver hugmyndin á bakvið þessa setningu er? Og varstu viljandi að leika þér að hafa þetta í skrautskrift svo það væri erfitt að ráða í það.

Þetta er húðflúr sem að leikkonan er í alvörunni með. Og já það stendur einmitt „to quit does not exist“. Fannst mér það bara frekar vel við hæfi, og ákvað því að vera ekkert að fela tattúið í myndinni.

Hverjar eru hugmyndir þínar varðandi líkamsdýrkun eins og hún birtist í mynd þinni?

Líkamsdýrkun og þemað „body image“ er eitthvað sem að ég pæli mikið í. Sjálf er ég ekki mjög grönn og hef því upplifað lífið frá hinni hliðinni. En það sem að kemur mér alltaf á óvart er hversu mikið við konurnar veltum okkur uppúr þessum áhyggjum um „hvernig lít ég út?“, hvort sem við erum grannar eða feitar. Við höfum allar lært það að gildi okkar felst í útliti okkar, og finnst mér það svo sorglegt. Því hef ég mikið pælt í þessum þemum í verkum mínum.

Annað sem maður tekur eftir, er að snjallsímar og notkun þeirra við ímyndasköpun, ímyndagerð, til dæmis með sjálfum (e. selfie) er áberandi í báðum myndunum þínum. Gætirðu rætt það aðeins?

Þetta er bara partur af lífi unglinga. Snjallsímar eru allstaðar og vildi ég því ekki vera að berjast á móti því. Svona talar fólk saman í dag. En það sem að mér finnst áhugavert er hvernig við getum stillt okkur upp og verið rosa fín og brosandi í myndum, þó að stundum líður okkur ekki þannig.

Það kemur fram að stúlkan sé aðeins 17 ára gömul. Skiptir það máli? Og ef svo, af hverju?

Ég vildi bara hafa hana unga. Þessi aldur er svo viðkvæmur og ég man vel eftir að hafa haldið að ég væri svo fullorðin á þessum árum. Þannig að við tökum á okkur ákveðnar ábyrgð og tilfinningar og teljum okkur trú um að við getum höndlað þetta allt saman, en við erum samt börn.

Sögunni vindur fram í e.k. „Fitness-“/líkamsræktarkeppni. Þurftirðu einhvern sérstakan undirbúning til þess að setja þig inn í aðstæður? Hvernig var að finna leikkonu sem stóðst líkamlegar kröfur og gat leikið? Og hvernig var að taka upp undir þessum kringumstæðum? Fékkstu leyfi, voru einhver skilyrði o.s.frv.? Er þetta ekki alvöru keppni sem er í gangi þarna?

Ég þurfti mikið að undirbúa og rannsaka þennan heim. En ég hef verið í kringum fólk sem tekur þátt í þessum keppnum í þó nokkurn tíma, þannig að ég hafði í raun verið að rannsaka þennan heim frekar lengi. Svo komum við okkur í samband við alvöru keppni í Bretlandi og fengum þar leyfi til þess að taka upp. En samt er bara lítill hluti af myndinni tekinn upp í keppninni – fullt af senunum sem virðast vera teknar upp í keppninni eru í raun teknar upp deginum áður eða eftir með aukaleikurum. Þannig að við blönduðum ýmsu saman.

En það var ákveðin áskorun að finna leikkonu. Við leituðum að stúlkum út um allt Bretland sem voru til í svona keppni og voru í ákveðnu líkamlegu formi. Við fundum loksins Kennedy Atkins sem var boxari og því í góðu formi. Hún fékk svo sex vikur til þess að æfa og koma sér í fitness form (sem er ekki mikill tími). Við útveguðum henni einkaþjálfara og svo fékk hún sérstaka tíma í að læra hvernig hún átti að ganga og haga sér á sviði. Kennedy hafði aldrei leikið áður og hún hafði aldrei keppt í fitness heldur, þannig að það var mikið á hana lagt. Svo ákváðum við að setja hana í alvöru keppni svo að við gætum fengið skot af henni á sviðinu – og viti menn, hún vann! Kom okkur öllum á óvart því hún hafði haft svo stuttan tíma til að æfa.

Þegar þú ert að taka keppnina upp er fjöldi sjónarhorna eftirtektarverður. Varstu með margar vélar að taka upp eða er hlaupið á milli og svo allt bundið saman með hljóðbrú?

Við vorum með tvær vélar, en svo tókum við upp fleiri sjónarhorn næsta dag á sama sviðinu með aukaleikurum í bakgrunni. Allar nærmyndir af henni á sviðinu eru ekki teknar upp á öðrum degi en víðu skotin. Kvikmyndagerð er með fullt af töfrabrögðum.

Að því sögðu þá er söguheimurinn þinn nokkuð stór. Farið er víða, miðað við stuttmyndir þar sem oft er reynt að binda söguna við minni rými, hreinlega vegna framleiðslukostnaðar. Þú hins vegar sýnir heimili stúlkunnar, ferðalag hennar á staðinn þar sem keppnin er haldin, ferð víða í því rými, sem hefur kostað mikið skipulag í tökum og aftur til baka. Gætirðu rætt aðeins þessa ákvörðun þína? Það er, maður gæti haldið að það væri hægt að láta myndina virka án þess að sýna hana ganga á milli staða, en þá myndi maður missa tilfinningu fyrir borginni sjálfri. Var þetta eitthvað sem þú hugsaðir mikið út í.

Það er mikilvægt að pæla ekkert í þessum praktísku atriðum þegar maður er að skrifa, því það er sköpunarferli. En svo þegar það kemur að því að fara að skjóta þá þarf maður að skoða hvað maður hefur mikinn tíma og pening. Ég vann með frábærum framleiðanda sem heitir Alexandra Blue og við náðum að verða okkur úti um ágætis fjármagn, sem að gaf okkur færi á að mynda aðeins meira en annars hefði verið hægt. Svo er þetta aðallega spurning um að nýta tímann og tækifærin vel. Tökukonan mín Marianne Bakke er rosalega sniðugt að finna staði og vinkla sem að kosta lítið en líta vel út. Einnig var leikmyndahönnuðurinn minn algjör snillingur, hún Isona Rigau. Við náðum að skjóta þessa mynd á fjórum og hálfum degi, og telur reynslan auðvitað líka mikið þegar maður er að láta allt þetta ganga upp á stuttum tíma.

Ég sé að kvikmyndasjóður og Bluebird komu að framleiðslu myndarinnar. Gætirðu aðeins rætt hlut þeirra í ferlinu.

Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkti myndina, sem að var alveg frábært. Ég hef verið mjög heppin að fá stuðning frá þeim fyrir báðar stuttmyndir mínar. En svo vorum við tvö framleiðslufyrirtæki sem tóku að sér framleiðsluna – fyrirtækið mitt Askja Films á Íslandi og svo breska fyrirtækið hennar Alexöndru Blue, Bluebird Productions. Einnig fengum við styrk frá Evrópu Ungafólksins, Byko og framleiðslufyrirtækinu SKOT Productions.

Mannslíkaminn er blætisgerður allt frá fyrstu í myndinni og allt til enda. Það fer mikill tími í að horfa á fótleggi og abstrakterarða líkamsparta. Hið karllæga augnaráð (e. male gaze) Mulvey er ágengt og ég get ekki ímyndað mér annað en það sé með vilja gert. Gætirðu rætt þetta aðeins?

Ég hugsaði eflaust aðeins minna út í þetta en þú telur. En ég vildi ekki sýna líkamsparta nema í einhverjum tilgangi, og er það sérstaklega viðkvæmt þar sem aðalleikkonan mín er alltaf bara í litlu bikiníi. Í raun hugsa ég öll skot bara útfrá því hvernig það skot styrkir söguþráðinn og hvað hver rammi er að segja. Til dæmis þegar þær eru á sviði, þá er verið að dæma þær útfrá líkama þeirra, og nýti ég þá mikið af nærmyndum. En annars hef ég meira verið að nýta nærmyndir af andliti þar sem að ég er að reyna að sýna tilfinningalega sögu Chloe í myndinni í öðrum senum.

Þá má greina ákveðna tvískiptingu í líkamshyggju, eða kannski ætti maður að kalla þetta líkamsmenningu. Ein gerð nektar er samfélagslega viðurkennd og ásættanleg en önnur ekki? Þykir þér mikilvægt að vekja athygli á þessu og af hverju?

Ég vil ekki dæma neinn fyrir það sem að hann eða hún vill sýna á netinu eða í keppnum líkt og fitness keppnum. En það mikilvægasta er að allt sem tengist nekt og líkama okkar er gert með okkar samþykki. Í myndinni er Chloe mjög opin fyrir því að fara upp á svið nær nakin og sýna líkama sinn, en við lærum svo að kærasti hennar hafði sett nektarmyndir af henni gegn hennar vilja á netið. Þetta er allt spurning um vilja.

Maður heyrir á mállýskunni sem töluð er að þetta er fólk sem mætti kalla af lágstétt, eða mögulega neðri millistétt. Skiptir það máli fyrir myndina?

Í raun og veru er það ekki alveg rétt – þau eru frá Liverpool, en það þarf ekki endilega að þýða að þau séu af lágstétt. Ég einmitt vildi passa upp á það að gera Chloe ekki að svona klisjukenndri lágstétta stelpu, og því er heimili hennar frekar venjulegt/fínt og mamma hennar ekki sýnd með áfengi til dæmis. Í þessari mynd vildi ég bara sýna að hver sem er getur orðið fyrir hefndarklámi, og því vildi ég ekki vera að sýna sérstaklega að þetta væri lágstétta fjölskylda. Leikkonan var frá Liverpool og því nýttum við okkur þann hreim.

Í Cut eru það umfram allt stúlkur sem eru aðalpersónunni til ama, svo var það líka í Regnbogapartý. Manni verður hugsað til frasans: konur eru konum verstar. En þá kemur í ljós að þjálfarinn hennar, stoð hennar og stytta bregst henni líka. Það kemur manni jafnvel meira á óvart því það hafði verið e.k. rómantísk spenna á milli þeirra allt frá því áhorfandi sér þau saman fyrst. Hver eru skilaboðin með þessu. Að það sé engum treystandi?

Stelpur eru stelpum verstar – allavega á unglingsárum. Eða það er mín reynsla allavega. Það sem ég vildi sýna með þjálfaranum, og mömmunni, er að þau sem að standa okkur næst dæma okkur líka. Heimurinn er bara ansi vondur stundum. Og oft geta orð verið mjög særandi.

Loks myndi mig langa til þess að spyrja þig út í lokin. Leikkonan horfir mjög meðvitað á áhorfendur og rífur þannig fjórða vegginn, blekkingarheiminn sem kvikmyndin er. Hverju langar þig að ná fram með þessu?

Ég segi oft að ég hafi gaman af því að láta áhorfendum mínum líða frekar óþægilega, og með því að rjúfa fjórða vegginn þá er það að brjóta upp ákveðinn þægindaramma sem að áhorfandinn er vanur. En einnig vildi ég að fólk hugsi um Chloe og þemu myndarinnar í lokin. Fyrir mér er Chloe að segja „gerðir þú mér þetta ekki?“ eða „hefur þú ekki horft á svona klám?“ Ég vil opna á umræðu.

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila