Hljóðheimur hryllingsins

Eftir drykklangan dag, stútfullan af allslags áreiti, er fátt huggulegra en að kveikja á nokkrum kertum og láta amstur dagsins líða úr líkamanum í ró og kyrrlátri þögn. Þögnin er uppspretta slökunar og hugleiðslu og þögnin hjálpar okkur að vinna úr atburðum dagsins. Í þögninni er best að sofna og í henni er einnig best að vakna. En er í þögninni best að lifa?

Þögnin í A Quiet Place (John Krasinski, 2018) er gjörsneydd allri ró og slökun. Spennuþrungin þögnin sem Abbott-fjölskyldan neyðist til að lifa í er þeim lífsnauðsynleg. Fjölskyldan berfætta lifir í veröld þar sem minnsta brak og brestir laða að sér drápsóðar ókynjaverur sem annars eru blindar og lyktarskynlausar. Hver hreyfing, hvert fótspor og hvert viðbragð þarf því að vera hið fíngerðasta og framkvæmdin nákvæm og útreiknuð þar sem minnsta tíst ómar eins og heröskur í ærandi þögninni.

A Quiet Place er þó engin venjuleg skrímslamynd (e. Ceature Feature) heldur á hún meira skylt við hljóðlátan hrylling kvikmynda á borð við Eraserhead (David Lynch, 1975) og TheBabadook (Jennifer Kent, 2014). Kvíðaþrunginn hryllingurinn á rætur að rekja til ótta foreldranna við að geta ekki verndað börnin sín í ógnvænlegum heimi. Kynjaðar staðalímyndir kristallast í foreldrunum, Lee (John Krasinski) og Evelyn (Emily Blunt), því þó atburðir kvikmyndarinnar eigi sér stað í náinni framtíð, er sem heimurinn krefjist afturhvarfs til frumstæðari lífsstíls þar sem áreiðanlegur fjölskyldufaðirinn veiðir í matinn, kennir syni sínum mikilvægar lífslexíur og ver börn sín með kjafti og klóm. Velferð fjölskyldunnar hvílir á herðum hans og þarf hann því að vera gallalaust ofurmenni; hugaður, fórnfús og almáttugur ættfaðir. Evelyn er aftur á móti uppljómun hinnar nærandi móður. Hún stundar garðyrkju, umvefur niðurnítt heimilið voðum, ilmandi blómum, fjölskyldumyndum og kertum. Hún skapar heillegt og náttúrulegt umhverfi fyrir fjölskylduna og ber hag barnanna fyrir brjósti með útsjónarsemi og styrk sem að sögn finnst aðeins í móðureðlinu. Börnin tákna svo framtíðina. Þau eru vonarglætan sem lýsir upp þessa ókennilegu dystópísku veröld, þar sem fjögurra manna fjölskylda húkir í hljóði, án nokkurra samskipta við umheiminn og reynir sitt allra besta til að lifa eðlilegu lífi – þó það verði í eilífri þögn.

A Quiet Place er ferskur andvari í gegndarlausa ofgnótt nútímahryllingsmynda. Í kvikmyndalandslagi þar sem gamlar slægjur og slagarar eru endurunnir á korters fresti, er ákaflega eftirtektarvert að kvikmynd sem þessi fái hárin til að rísa. Hvernig getur hryllingsmynd, sem er nánast þögul og hljóðlaus, laus við blóðsúthellingar, limlestingar og skerandi kvenmannsóp, vakið upp jafn líkamlegan hrylling og A Quiet Place gerir? Hún getur það með því að ganga þvert á sumar miðlægustu hefðir greinarinnar. Þar sem áhorfendur geta ekki reitt sig á munnleg samskipti persóna til að koma skilaboðum kvikmyndarinnar á framfæri verða vökul augu þeirra að nema hverja einustu hreyfingu, augngotur og líkamlega tjáningu, sem er ný upplifun fyrir aðdáendur hryllingsmynda. Þegar ljóst er hversu hættulegt það er að gefa frá sér hljóð, þagnar salurinn. Þögnin heltekur áhorfendurna og skrjáf nammibréfa og gosdrykkjasötur heyra sögunni til  – hún er taugatrekkjandi, óþægileg og magnast upp eins og ærandi suð eftir því sem líður á. Hugarheimur kvikmyndarinnar sogar áhorfendur til sín og sannfærist þeir um að minnsta hreyfing og minnsta hljóð verði þeim sjálfum að aldurtila.

A Quiet Place slær vonandi upptaktinn fyrir endurnýjaða lífdaga hryllingsmyndarinnar í krafti andstöðu sinnar við þann háværa og blóðuga sorahrylling sem er orðinn nútímaáhorfendum alltof kunnuglegur.

Um höfundinn
Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila