Sægræn samfélagsmynd

Nýjasta kvikmynd mexíkanska leikstjórans Guillermo del ToroThe Shape of Water (2017) segir frá ástarsambandi ræstingakonunnar Elisu Esposito (Sally Hawksins) við ókennilega vatnaveru (Doug Jones) sem haldið er nauðugri á rannsóknarstofunni þar sem Elisa starfar. Del Toro tekur mið af skrímslahefð vísindaskáldskapar sjötta áratugarins en bregður þó út af vananum með því að setja veruna ekki í hlutverk illmennisins. Áður fyrr drógu skrímslin dám af siðferðis- og tilvistarkreppu samfélagsins sem það spratt úr, málefni á borð við notkun kjarnorkuvopna eða grunsemdir um heimsóknir utan úr geimnum, og mátti því sjá þau sem óskemmtilegar afleiðingar þess að mannkyninu færðist of mikið í fang. Í The Shape of Waterhorfir öðruvísi við, hugmyndir sem þessar eru afbyggðar með því að sýna skrímslið sem hugsandi veru er býr yfir tilfinningalífi. Þá er litanotkun myndarinnar einkar eftirtektarverð en með henni birtir myndin á táknrænan hátt innra líf persónanna sem og samfélagsviðhorf þeirra.

Sægrænn litur er áberandi í myndheildinni og má þar benda á fyrsta stofnskot myndarinnar sem er draumkennd hreyfitaka er birtir eins konar neðansjávarmynd af heimili Elisu, líkt og íbúðin öll sé á kafi í sjó, en atriðið rennur svo saman við raunveruleikann þar sem hún vaknar í sægrænni íbúð, klæðir sig í sægræn föt og heldur af stað á rannsóknarstofuna þar sem veggirnir eru málaðir sama sægræna lit. Neðansjávartakan í upphafi og litamengið vísa til tengingarinnar sem skapast milli Elisu og vatnaverunnar þegar fram líða stundir en rétt eins og umhverfi hennar einkennist af sægrænum lit er hörund vatnaverunnar sægrænt og heimkynni hennar eru í vatnafljótum S-Ameríku. Frekari stoðum er rennt undir samkennd Elisu og vatnaverunnar – að viðbættri kynferðislegri undiröldu – með táknrænni notkun eggja en í daglegri rútínu er Elisa vön að sjóða egg í potti á meðan hún stundar sjálfsfróun í baði. Þegar henni tekst að fanga athygli vatnaverunnar með eggjunum má því líta sem svo á að tengingin milli þeirra geti jafnframt orðið kynferðisleg. Sægræna vatnaveran er blautur draumur Elisu.

Sægræni liturinn hefur þó skírskotanir umfram samband Elisu og verunnar og táknar þannig einnig viðleitni samfélagsins til nýbreytni og framþróunar. Markmið starfsins sem fram fer á sægrænu rannsóknarstofunni er að auka vísindalega þekkingu og í samhengi myndarinnar eru sægrænir hlutir ítrekað sagðir varða veginn til framtíðarinnar. Þegar vinur Elisu, auglýsingateiknarinn Giles (Richard Jenkins), er til dæmis beðinn um að útfæra auglýsingu fyrir ávaxtahlaup vilja yfirmenn hans hafa það grænt á litinn, vegna þess að grænn er litur framtíðarinnar. Litanotkunin er jafnframt staðfest þegar bílasali sannfærir illmennið, Richard Strickland (Michael Shannon), um að kaupa sjávargrænlitaðan bíl einungis vegna þess að hann er „bíll framtíðarinnar“ eins og það er orðað. Þótt Strickland líki ekki liturinn – eða framþróunin ef út í það er farið – freistar hans fyrirheitið um yfirburði.

Elisa og vatnaveran þrá hvort annað en hvatalíf Stricklands miðast við forræði og tilhneiging hans til íhaldssemi gengur í berhögg við viðleitni sægræna samfélagsins. Hann ber litla sem enga virðingu fyrir vísindamönnunum á rannsóknarstofunni og nýtir hvert tækifæri til að gera lítið úr þeim. Áhugi hans á nýrri þekkingu er jafnframt takmörkuð og afstaða hans til hugmyndafræðilegra nýjunga á borð við jafnræði og jafnrétti er fjandsamleg. Strickland segist vera trúaður maður og á það til að réttlæta vald- og ofbeldisbeitingu sína gagnvart bæði starfsfólkinu á rannsóknarstofunni og vatnaverunni með því að vísa í Biblíuna. Fyrirlitningin virðist því vera byggð á ótta Stricklands við að missa vald sitt í hendur annarra, einkum vísindanna og fulltrúa þeirra. Óttinn ágerist þegar hann áttar sig á því að vatnaverunni er ekki ógnað af honum – þvert á móti rís hún gegn honum.

Del Toro lætur margt ósagt en nýtir táknbúning hins sægræna til að tjá innri þrár, hvatir og andstæður. Hvort sem það er í gengum misnotkun valds, hugmyndir um framtíðina eða viðhorf í garð vatnaverunnar, þá er græni liturinn vísbending um ást, þrá og vellíðan og með þessari djúpstæðu litanotkun, ásamt ýmsum öðrum brögðum, afbyggir del Toro ýmsar fastmótaðar hugmyndir og hefðir skrímslamyndarinnar. Frásögnin snýr að verunni en þó ekki í því ljósi að hún sé hryllileg afleiðing þess er mannkynið teflir við fjandsamleg öfl eða ætlar sér of mikið. Þess í stað er hin framandi nærvera verunnar notuð til að yfirstíga mismun og takast á við fordóma í mannlegu samfélagi. Veran myndar tengsl við Elisu – og áhorfendur – sem vitsmunavera og nýstárlegur elskhugi.

Um höfundinn
Stefán Atli Sigtryggsson

Stefán Atli Sigtryggsson

Stefán Atli Sigtryggsson er með BA próf í kvikmyndafræði frá Háskóla Íslands og hann er meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila