Konur í siðlausum heimi

Pólska kvikmyndin Women of Mafia (Kobiety mafiiPatryk Vega, 2018) er glæpa- og hasarmynd sem gefur innsýn í ofbeldisfullan og miskunnarlausan heim pólsku mafíunnar í Varsjá. Myndin fjallar um fyrrum lögreglukonuna Belu (Olga Boladz) sem smyglar sér í raðir mafíunnar til þess að klófesta valdamikla glæpamenn. Atburðarásin tekur þó ýmsar óvæntar stefnur og fá áhorfendur að kynnast ólíkum persónum þessa heims ásamt því að fylgjast með sigrum þeirra og sorgum. Á meðan hörfar lögreglukonan sjálf úr hlutverki aðalpersónu yfir í aukahlutverk án nokkurra ummerkja eða frekari skýringa. Í kvikmyndinni er atburðarásin sjálf ekki aðalatriðið. Hún er löng og flókin og gefur sterka tilfinningu fyrir því að allt hafi gerst hundrað sinnum áður og muni gerast hundrað sinnum í viðbót. Kvikmyndin er því ekki lýsing á ákveðnum atburðum, hún er lýsing á lokuðum og framandi heimi mafíunnar.

Framvindan er hröð og gefur áhorfendum hvergi svigrúm til að staldra við og velta hlutunum fyrir sér. Klippingarnar eru örar og kvikmyndatakan hnitmiðuð, að undanskildum óstöðugum, handheldum skotum sem birtast inn á milli og gefa tilfinningu fyrir ringulreið. Þessi tökustíll verður á köflum nokkuð hégómakenndur, sérstaklega þegar unnið er með óhefðbundin sjónarhorn, líkt og tökuliðið eða leikstjórinn hafi bara einfaldlega viljað gera eitthvað „töff“. Á örfáum, vel völdum, stöðum eru hrottafengin ofbeldisatriði. Vegna þess hve fá þau eru hafa þau mikil áhrif á áhorfendur og vekja að öllum líkindum upp hroll hjá jafnvel þeim hörðustu. Ofbeldið er þó ekki notað eingöngu ofbeldisins vegna eða til þess að ganga fram af fólki, heldur til að sýna hvernig þessi siðlausi heimur virkar. Heimur þar sem ofbeldi er ekkert annað en leið til að fá sínu framgengt.

Í Women of Mafia er lögð talsverð áhersla á persónusköpun, mun meiri en gengur og gerist í glæpa- og hasarmyndum almennt. Titillinn gefur til kynna að konur innan mafíunnar séu í brennidepli og er það án efa rétt. Karlar eru þó í áberandi valdameiri hlutverkum og konurnar tengjast inn í mafíuna í gegnum þá, til dæmis sem eiginkonur, hjákonur eða dætur. Karlpersónur myndarinnar birtast hins vegar sem heldur einsleitur hópur á meðan kvenpersónurnar fá meiri dýpt og fjölbreyttari persónueinkenni. Segja má að allar persónurnar hafi „góða hlið“ og „slæma hlið“. Hjá flestum karlpersónunum nær persónusköpunin þó ekki lengra en það. Góðu og slæmu hlutarnir eru misstórir eftir því hver á í hlut en að öðru leyti eru mafíukarlarnir afar keimlíkir. Helsta undantekningin á þessu er mafíuforinginn sjálfur, Padrino (Boguslaw Linda), sem fær örlítið dýpri persónuleika; hann er harður í horn að taka en þjáist engu að síður af kvíðaköstum og langar óskaplega mikið að vera dóttur sinni góður faðir.

Kvenpersónum myndarinnar má skipta gróflega niður í „fórnarlömb“ og „sigurvegara“. Það sem skilur að hópana tvo er viljinn og getan til að stíga inn í siðleysi mafíuheimsins, að vera tilbúin til að svíkja fólk, meiða og drepa. Þær sem hafa ekki burði í þetta lenda undir. Markviss lagskipting er þó ávallt til staðar í persónunum; áhorfendur sjá fyrst eina hlið á þeim og síðan aðra þegar líður á myndina. Þannig er dóttir mafíuforingjans, Futro (Julia Wieniawa-Narkiewicz), hlægileg í augum áhorfenda í byrjun myndarinnar. Hún er ofdekruð, sjálfselsk og syngur svo illa að ekki er annað hægt en að skella upp úr. Síðar kemur í ljós að undir yfirborðinu leynist brotin sál unglingsstúlku sem hlaut aldrei uppeldi, kann ekki á lífið og veit ekkert hvað hún á að gera við sjálfa sig. Anka (Kasia Warnke), ein af mafíu-eiginkonunum, er framsett á svipaðan hátt. Hún er svo spillt, yfirborðskennd og heimsk að það verður uppspretta hvers brandarans á fætur öðrum. Hún er jafnframt ein tragískasta persóna myndarinnar; áhorfendur hætta með tímanum að hlæja og öðlast þess í stað djúpa samúð með henni. Í þessum tveimur kvenpersónum, Futro og Önku, skapast því ákveðinn árekstur þess hlægilega og þess tragíska.

Flestar aðrar kvenpersónur eru harðneskjulegar og stíga í þau hlutverk sem almennt eru eignuð karlmönnum. Þær fremja glæpi, drepa og svífast einskis til að ná markmiðum sínum. Engu að síður finna þær rækilega fyrir vanmætti sínum sem konur í þessum heimi og þurfa ítrekað að þola kynferðisofbeldi af hálfu karlmanna. Sterk tilfinning er gefin fyrir því að svona sé „fyrirkomulagið“ í heimi mafíunnar; að karlar beiti hver annan hefðbundnu ofbeldi á borð við barsmíðar en konur séu beittar kynferðisofbeldi. Þetta á einnig við um einkalíf þeirra, gagnvart eiginkonum, hjákonum eða vændiskonum. Konurnar sjálfar virðast átta sig á þessu og gera sér jafnframt grein fyrir því að þeim býðst engin hjálp og ef þær vilja breyta hlutskipti sínu þurfa þær að gera það einar og óstuddar. Afleiðingin er sú að þótt sumar kvennanna standi uppi sem „sigurvegarar“ í atburðarásinni eru þær alltaf markaðar af þeim hræðilegu aðstæðum sem þær lifa og hrærast í. Og sannarlega má deila um hvort einhver geti staðið uppi sem sigurvegari í heimi þar sem siðleysi er helsta grunngildið.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila