Veðrið, vindurinn og listaverkin

„Ég ætlaði „Þúfu“ að hverfa ofan í jörðina smám saman en þetta yrði nú full stuttur líftími,“ segir Ólöf Nordal myndlistamaður um fjögurra ára gamalt listaverk sitt „Þúfu“ sem skemmdist í miklu vatnsveðri 23.-24. febrúar síðastliðinn. Vatn fann sér farveg inn í verkið þannig að jarðvegur losnaði og seig og stórt skarð myndaðist á annarri hlið þess. Nú hefur verið girt í kringum verkið og engum verður hleypt að því fyrr en 1. júní.

Óstöðugleikinn

Umhverfislistaverkið „Þúfa“ stendur við vestanverða innsiglinguna í gömlu Reykjavíkurhöfn og hefur frá því það var vígt í desember árið 2013 verið þar ákveðið kennileiti. Það kallast á við hið mikla glerverk „Hörpu“ sem trónir austanvið. Ólíkari kennileiti getur tæplega og í munni gárunganna hafa þau fengið heitin „Þúfan“ og „Hlassið“. Unnt er að spinna leiki út frá þessum orðum, en þó er ljóst að þessi þúfa veltir engu hlassi í hinum bókstaflega skilningi. Til þess er hún of óstöðug.

Mikill fjöldi Íslendinga og ferðamanna hefur komið að skoða „Þúfu“ á degi hverjum undanfarin fjögur ár. Fólk gengur upp stíginn á grasi gróinni brekkunni, þefar af fiskinum sem hangir í litla hjallinum og nýtur hins einstaka útsýnis yfir borgina og „sundin blá“. Ólöf segir að „Þúfa“ hafi laðað til sín mun fleiri en ráð var fyrir gert og það kunni að hafa átt sinn þátt í því hvernig fór í vatnsveðrinu mikla. Nú þurfi að styrkja hleðslurnar meðal annars með þetta í huga.

Listaverkið er alfarið unnið úr grjóti, mold og grasi eins og torfbæirnir gömlu þangað sem fyrirmyndin er sótt; formið var mótað úr grjóti sem hleðslumeistarinn valdi og raðaði saman eftir kúnstarinnar reglum og síðan var tyrft yfir. Brons er annars það efni sem mest er notað í þau listaverk sem ætlað er að standi mjög lengi utan dyra; það tærist auðvitað eins og öll efni en á afar löngum tíma. Kalksteinn eða marmari endist einnig lengi. Þá er álið ótalið sem endingargott efni, en annað umhverfisverk Ólafar við strönd í Reykjavík, „Geirfuglinn“, er einmitt úr steyptu áli. Mold og gras eru hins vegar mjög óstöðug byggingarefni.

Slítandin

Ólöf segir að það hafi verið ljóst frá upphafi að „Þúfa“ þyrfti mikið viðhald. „Það er náttúrulega bara frábært að sjá hvað hún fær mikla athygli og ekki síður notkun; allir   sem skapa umhverfislistaverk gera það auðvitað með notendur í huga,“ segir hún. „Mér finnst ákaflega vænt um að sjá verkin mín laða til sín fólk. Í Alþingishúsinu er verkið „Vituð ér enn eða hvat?“ komið með svartan fituhring þar sem fólk hefur borið eyrað upp að til að hlusta og það er gaman að sjá. En notkunin slítur verkum og því þarf að huga vel að viðhaldi.“

Steinhellan í Bríetarbrekku hefur ekki sprungið enn. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Því miður er viðhaldi stundum ekki sinnt sem skyldi og Ólöf tiltekur hér sem dæmi „Bríetarbrekku“ sem var mótuð eftir hennar hugmynd árið 2007 á auðri lóð að Þingholtsstræti 9 árið 2007 til heiðurs kvenréttindakonunni Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Reiturinn er með grasbrekkum og bekkjum og er fjölsóttur af bæði íbúum og gestum og gangandi sem hvíla þar lúin bein. Sumir reykja og spjalla, súpa af kaffimálum og bjór- og gosdósum og hirða ekki alltaf um að stinga  ruslinu í nálæga tunnu.

„Það átti að vera hiti undir steinhellunni til þess að varna því að hún spryngi en það var aldrei gengið frá því,“ segir Ólöf. „Sem betur fer hefur hún ekki sprungið enn en hvíti liturinn í textanum hefur sogið í sig skít og orðið dökkur og aldrei verið þrifinn. Bekkirnir hafa verið pússaðir upp og lakkaðir tvisvar eða þrisvar á þessum tíu árum sem sýnir hvað svona umhverfislistaverk þurfa mikla umhirðu.“

„Bollasteinn“ Ólafar Nordal býður vegfarendum að vinda sér úr sokkum og skóm og njóta náttúrunnar. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Líðandin

Í fjörunni á norðanverðu Seltjarnarnesi, á stað sem heimamenn kalla „Kattaklappir“, stendur annað mjög fjölsótt listaverk Ólafar. Það ber heitið „Bollasteinn“ og var sett upp í júní 2005 að tilhlutan Menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar. Það er „veðra- og vindaverk“ eins og Ólöf kallar sum umhverfislistaverk sín. Þetta er lítil laug, sorfin úr heilum grágrýtissteini, en verkið sjálft er afar huglægt. „Með heita fætur streymir blóðið um kroppinn, líkamleg og andleg skynjun vex, næmi fyrir umhverfinu vaknar og tengsl við náttúruöflin myndast,“ segir Ólöf um þetta verk sitt sem beinlínis býður vegfarendum að vinda sér úr skóm og sokkum, setjast á steininn og stinga fótum ofan í heitt vatnið og hlusta á öldugjálfur og sjófuglakvak og horfa yfir Kollafjörðinn til Esjunnar, Skarðsheiðar og Akrafjalls. Laugin máist af veðri og vindum  — og mun að lokum hverfa.

„Ég er mjög veik fyrir náttúrulegum efnum: grjóti, mold og grasi,“ segir Ólöf. „Þau verða auðvitað náttúruöflunum fljótt að bráð, en hversu lengi þarf maður eiginlega að halda nafni sínu á lofti? Við höfum bara ákveðinn tíma hér á jörðu og hverfum síðan á braut. Spor okkar mást líka og hverfa. Það er hinn eðlilegi gangur lífsins. Allt er hverfult.“

Um höfundinn
Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir er nemi í ritlist við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila