Tilveruréttur

Titill kvikmyndarinnar A Fantastic Woman (Una Mujer Fantástica, Sebastian Lelio, 2017) er lýsandi fyrir umfjöllunarefni hennar – stórkostlega konu. Marina Vidal (Daniela Vega) er ung kona sem starfar við þjónustu á veitingastað, syngur óperur og dægurlög í frístundum sínum og er í hamingjusömu sambandi með talsvert eldri manni. Hún er líka trans. Þegar unnusti hennar lætur lífið skyndilega er grundvallarstoðunum hins vegar kippt undan tilveru hennar og Marina þarf að takast á við mikið mótlæti af hálfu fjölskyldu unnustans og raunar alls samfélagsins.

Framvinda kvikmyndarinnar er greinargóð lýsing á þeim fjölmörgu hindrunum sem trans einstaklingar þurfa að takast á við í sínu daglega lífi, hlutum sem sískynja fólk tekur oftast sem sjálfsögðum. Fókusinn er þó ekki á hræðileg ofbeldisverk eins og í hinni umtöluðu Boys Don´t Cry (Kimberly Peirce, 1999) eða læknisfræðilega þætti líkt og í The Danish Girl (Tom Hooper, 2015) heldur er hér fengist við það sem oft er kallað „microaggressions“ og mætti útleggja á íslensku sem smá-áreitni. Í henni felst kerfisbundin mismunun minnihlutahópa þar sem eitt stakt atvik hefur ekki endilega gríðarmikil áhrif á einstaklinginn en þegar atvikin eru sífellt endurtekin í daglegu lífi viðkomandi hafa þau djúpstæð og niðurbrjótandi áhrif. Í A Fantastic Woman þarf Marina að þola slíka smá-áreitni. Hún er oft miskynjuð, meðal annars af óvinveittum meðlimum fjölskyldu unnustans og lögreglumanni sem kallar hana ítrekað „herra“. Hún á ekki persónuskilríki með sínu rétta nafni, sem er gott dæmi um hvernig skrifræði nútímasamfélags gerir trans fólki erfitt fyrir. Löggæslukerfið gerir sjálfkrafa ráð fyrir að samband hennar við unnustann hafi ekki verið raunverulegt ástarsamband heldur hljóti hún að hafa verið að stunda vændi, eingöngu vegna þess að hún er trans. Þá gefa aðrar persónur ítrekað til kynna að þær álíti Marinu afbrigðilega, að ástarsamband hennar hafi verið byggt á einhverskonar öfuguggahætti, að þær líti ekki á hana sem „alvöru“ konu. Allt þetta eru hlutir sem sískynja fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af og leiðir líklega sjaldan hugann að yfir höfuð en eru fastir liðir í tilveru trans einstaklinga.

Í kvikmyndinni reynir samfélagið sífellt að brjóta sjálfsmynd Marinu niður og áhorfendur fylgjast með henni takast á við mótlætið af nær ótrúlegri þolinmæði, staðfestu og styrk. Leikstjóranum tekst jafnframt að láta það skína í gegn að framkoma annarra persóna gagnvart Marinu, fordómar og jafnvel hatur, á rætur sínar að rekja til vanþekkingar þeirra og ótta gagnvart hinu óþekkta. Setningar eins og „Ég veit ekki hvað ég horfi á þegar ég horfi á þig“ og „Ég veit ekki hvað þú ert“ eru til marks um þetta. Manneskjurnar sjálfar eru ekki endilega illa innrættar, þær einfaldlega vita ekki betur og óttinn knýr þær til að sýna af sér ófyrirgefanlega framkomu. Marina á hvergi öruggt athvarf, hvorki tilfinningalega né veraldlega. Þegar hún missir manninn sem elskar hana glatar hún ekki aðeins ástinni, hún missir einnig heimili sitt, andlegan stuðning og framtíðarvonir á örskotsstundu. Eina athvarf Marinu er í söngnum, en þegar hún syngur sjá áhorfendur hana njóta sín á máta sem er hafinn yfir erfiðleika líðandi stundar og heftandi viðhorf heimsins gagnvart henni.

Samtöl í kvikmyndinni eru hófstillt og snúast að miklu leyti um praktísk atriði, lítið er um að aðalpersónan tjái tilfinningar sínar með orðum. Þess í stað fer leikstjórinn þá leið að túlka sálarlíf hennar á myndrænan hátt. Marina er nær alltaf miðjusett í römmum myndarinnar og í kringum hana er gjarnan tómarúm; pláss sem táknar hversu einsömul hún stendur. Örvænting hennar og andlegt þrot birtist þegar hún gengur um götur í myrkri og rigningu og í einu af eftirminnilegustu atriðum myndarinnar reynir hún að ganga leið sína í mótvindi sem verður sífellt sterkari og sterkari. Í þessum senum eru táknin auðskilin og áberandi og áhorfendur þurfa ekki að rýna sérstaklega í myndmálið til að áhrifin skili sér. Á köflum heldur leikstjórinn lengra frá stíl raunsæis með því að láta „draug“ látna unnustans birtast Marinu þegar mótlætið er hvað mest og í sérstæðu atriði má auk þess sjá Marinu dansa ímyndaðan kabarett inni á skemmtistað. Þá er spegilmynd aðalpersónunnar áberandi í kvikmyndinni allri og minnir áhorfendur á að hún þarf sífellt að standa föst á sínu, berjast fyrir tilverurétti sínum og viðurkenningu í samfélaginu. Þegar Marina gengur fram hjá verkamönnum sem halda á álplötu er flöktandi spegilmynd hennar í plötunni lýsandi fyrir þessa baráttu; baráttuna fyrir sjálfinu.

Daniela Vega á stórt hrós skilið fyrir túlkun sína á Marinu. Einnig er talsvert gleðiefni að leikkona sem sjálf er trans hafi verið valin í hlutverkið en margir hafa gagnrýnt tilhneigingu meginstraumsins til að ráða sískynja leikara í hlutverk trans persóna. Vega kemur afar vel til skila þeirri togstreitu sem Marina glímir við, hvernig hún dansar á mörkum þess annars vegar að koma kurteisislega fram og láta mótlætið yfir sig ganga og hins vegar þess að glata sjálfsstjórninni, henda háttvísinni út um gluggann og öskra af bræði. Ekki er annað hægt en að dást að þessari persónu. Hún heldur alltaf áfram, sama hversu mikilli mótstöðu hún mætir og án þess að hafa nokkra vissu í farteskinu um að einn daginn verði allt í lagi. Hún er sannarlega stórkostleg kona. Kvikmyndin í heild sinni er listræn og vandlega unnin baráttusaga. Hún er einnig vitnisburður um það misrétti sem trans einstaklingar þurfa að kljást við og þörf vitundarvakning fyrir áhorfendur sem lítið hafa leitt hugann að slíku. Allir hafa gott af því að horfa á slíka kvikmynd.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila