Hver er þessi óvelkomni maður?

Óvelkomni maðurinn er þriðja bókin í seríunni „Eddumál“ eftir Jónínu Leósdóttur. Bækurnar um Eddu hafa allar komið út snemma árs en Jónína hefur sagt að það sé kærkomið að þurfa ekki að taka þátt í jólabókaflóðinu. Það er tilhlökkunarefni að eiga inni eina „jólabók“ og geta dýft sér ofan í dúnmjúka glæpasögu þótt komið sé fram í febrúar. Dúnmjúk glæpasaga, hvað er nú það? Jú, sögurnar um Eddu eru nefnilega ekki harðvíraðar frásagnir af ofbeldi og glæpum heldur nær því að vera blanda af spæjara- og skemmtisögum með hinni stórskemmtilegu Eddu í aðalhlutverki!

Þeir sem hafa lesið fyrri tvær bækurnar ættu að vera farnir að kannast við og jafnvel þykja vænt um helstu sögupersónur. Edda stendur upp úr sem aðalpersónan, kona á eftirlaunaaldri sem þráir að hafa eitthvað að gera og flækist inn í hin ýmsu glæpamál, fjölskyldu sinni til lítillar gleði. Ættingjar Eddu eru óvenjulegir og skemmtilegir og birtast ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans. Þeir eru persónur sem flestir geta tengt við úr sínu daglega lífi. Þó að hver saga sé sjálfstæð þá er einkalíf Eddu og hennar nánustu rauði þráðurinn í gegnum bækurnar. Í hverri bók fær lesandi nánari innsýn í líf og viðfangsefni persónanna og er það frábær viðbót við spennandi söguþræði.

Í Óvelkomni maðurinn lendir Edda sem fyrr í hringiðu glæps. Maður fellur fram af svölum á blokkinni hennar við Birkimelinn, í íbúð þar sem erlent verkafólk heldur gleðskap. Edda kemst ekki hjá því að dragast inn í rannsókn málsins. Hún er nefnilega farin að þekkja einn verkamanninn ágætlega og getur ekki annað en reynt að aðstoða, þó að Leifur tengdasonur hennar og rannsóknarlögreglumaður kæri sig ekki mikið um það. Hinn tengdasonur Eddu, góðvinur og kaffidrykkjufélagi (þegar klukkan er ekki orðin nógu margt fyrir rauðvín), tengist síðan inn í annað mál sem Edda þarf að komast til botns í. Mamma hans kveikir í íbúðinni sinni öllum að óvörum og er í framhaldi lögð inn á geðdeild. Edda, full af forvitni, lúmskri stjórnsemi og þrá eftir því að láta málin ganga „rétt“ upp, skellir sér enn og aftur í spæjarahlutverkið.

Hótel Saga leikur mikilvægt hlutverk í bókunum um Eddu. Mynd: Jóhanna Sif Finnsdóttir.

Persónusköpunin er styrkleiki sögunnar og eins er fléttan vel útfærð. Á kafla er þó heldur mikill hraði í söguþræðinum sem varð ruglandi enda margar persónur sem koma við sögu. Frásögn Jónínu er uppfull af hlýju og einstaklega hjartnæm og þrátt fyrir að vera spennandi saga um glæp fer textinn mjúkum höndum um lesandann. Jónína hefur talað um í viðtölum að konur á eftirlaunaaldri fái ekki nægan hljómgrunn í samfélaginu og henni þyki það miður. Það er því engin tilviljun að heldri borgarinn Edda sé full af orku og hundleiðist að hanga bara heima. Hún er forvitin félagsvera, stundar sundlaugarnar og hlustar á fréttir af fólki í heitu pottunum. Hún er enginn tæknisnillingur og beitir fyrst og fremst hyggjuvitinu við úrlausn erfiðra mála. Þar sem hún er að vissu leyti vanmetin af samfélaginu sem „eftirlaunakella“ er fólk gjarnt á að veita henni ýmsar upplýsingar sem það annars hefði kannski ekki gert. Edda er algjör andstæða hins þunglynda, einmana rannsóknarlögreglumanns sem leikur aðalhlutverk í fjölmörgum skandinavískum glæpasögum. Húmor gegnir stóru hlutverki og vel er hægt að skella upp úr við lestur bókarinnar, eins og þegar Edda situr uppi með tvo karlmenn í íbúðinni sinni sem báðir renna til hennar hýru auga. Atburðir og samtöl geta verið sprenghlægileg enda sér Edda spaugilegu hliðina á flestu.

Óvelkomni maðurinn er að mínu mati besta bókin í „Eddumálum“ til þessa. Hún á jafnt erindi við unglinga, eftirlaunaþega og alla þar á milli. En hver er þessi óvelkomni maður sem titill bókarinnar vísar í? Það er kannski einskonar ráðgáta sem lesandinn getur skemmt sér við að leysa við lestur bókarinnar!

 

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Jóhanna Sif Finnsdóttir

Jóhanna Sif Finnsdóttir

Jóhanna Sif Finnsdóttir er meistaranemi í HÍ.

[fblike]

Deila