Fræðimaðurinn Theodor Adorno hélt því fram að hlutverk dægurmenningar á borð við popptónlist væri að hvetja fólk til að ganga aftur í barndóm. Það væri með öðrum orðum hlutverk hennar að láta fólk hverfa aftur á fyrri þroskastig. Í fjöldaframleiddri tónlist væri sífellt breitt yfir sömu endurteknu mynstrin til að láta eins og um nýstárlegt efni væri að ræða.¹ Þetta benti Adorno einkum á til að sýna fram á að dægurtónlist væri ófrumleg og hana skorti sjálfstæði. Margir mótmæltu honum, sögðu að hann einfaldaði dægurmenningu um of og hún væri margslungnari og flóknari en hann vildi vera láta. Þótt aðgreining Adornos milli poppmenningar og hámenningar eigi varla við í greiningu á kvikmynd eins og Svaninum, enda flokkast hún varla sem dægurmenning, er kenning hans um að listir hvetji fólk til að hverfa aftur á fyrri þroskastig engu að síður áhugaverð. Hún var mér ofarlega í huga eftir að ég sá Svaninn, því við áhorfið fékk ég tækifæri til að ganga inn hugarheim barns og upplifa skynjun þess að vissu marki.

Kvikmyndin Svanurinn var frumsýnd hér á landi föstudaginn 5. janúar síðastliðinn. Hún er fyrsta kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, sem er bæði höfundur handrits og leikstjóri, í fullri lengd og er byggð á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar (1991). Í myndinni endurspeglar falleg og miskunnarlaus náttúra ólíkar hliðar mannskepnunnar. Það er ekkert nýtt að náttúran kallist á við mannlegt eðli í íslenskum kvikmyndum en helsti styrkleiki Svansins er hvernig viðfangsefnið er sýnt frá sjónarhorni barnsins. Ásu tekst þannig að miðla tærri og fordómalausri skynjun bernskunnar sem við mörg hver leitumst sífellt við að endurupplifa.

Lífið á sveitabænum

Söguhetja myndarinnar er níu ára stelpa að nafni Sól sem er send í sveit eftir að hafa verið til vandræða í heimabæ sínum. Gríma Valsdóttir fer með hlutverk Sólar og tekst með áhrifamiklum hætti að túlka hið fjölbreytta litróf tilfinninga sem persónan upplifir í myndinni. Myndin er tekin upp í Svarfaðardal og tilkomumikil náttúran þar undirstrikar smæð aðalpersónunnar frammi fyrir aðstæðunum sem hún er í. Sól kemst fljótt að því að í sveitinni gilda aðrar reglur um lífið en í smábænum. Á sveitabænum þarf hún að ganga í öll verk, sama hversu erfið þau eru, og hún fylgist með því þegar dýr sem eru rétt komin í heiminn eru tekin af lífi svo mannfólkið fái að borða.

Dauði og líf – sakleysi og grimmd, þetta eru kunnugleg stef í íslenskum þroskasögum sem gerast í sveit og í mörgum þeirra kynnast börn lífinu gegnum dauðann. Hér má taka sem dæmi skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur, Kaldaljós, og samnefnda mynd Hilmars Oddssonar frá 2004 og Nóa albinóa, mynd Dags Kára Péturssonar frá 2003, en í þeim báðum setur vægðarlaus náttúran mark sitt á sálarlíf óharðnaðra barna og unglinga. Af nýlegum kvikmyndum má nefna Hjartastein Guðmundar Arnars Guðmundssonar frá árinu 2016 og Þresti Rúnars Rúnarssonar frá 2015.
Myndmál náttúrunnar í Svaninum er engu að síður frumlegt og spennandi, ekki síst líkingin sem felst í sjálfum svaninum, þessum fallega en stygga fugli. Í frægu ævintýri H.C. Andersens breyttist ljóti andarunginn sem átti erfitt uppdráttar að lokum í fallegasta svaninn á tjörninni. Svanurinn á líka sinn ljóta andarunga, sem enginn sér fegurðina í nema litla stelpan, en vegna næmninnar sem hún býr yfir er hún sú eina sem tengist óhamingjusömustu persónum sögunnar – vinnumanninum og dóttur hjónanna á bænum. Dóttirin er með þykkan skráp en litla stelpan gefur sig að henni og tekst að skyggnast undir kalt yfirborðið.

Barn í heimi fullorðinna

Stúlkan hrífst líka af vinnumanninum á bænum, einrænu skúffuskáldi með flókið sálarlíf. Eins og aðrar manneskjur á vinnumaðurinn bæði sínar ljósu og dökku hliðar og hann heldur sig ekki alltaf réttu megin línunnar í samskiptum við stúlkuna. Vinnumaðurinn sem birtist okkur í skáldsögu Guðbergs er þó ef til vill öllu pervertískari en sem Ása sýnir okkur í kvikmyndinni. Það er líka hann sem kynnir Sól fyrir skuggahliðum lífsins; meðal annars slátrar hann uppáhaldskálfinum hennar sem hún tók sjálf þátt í að koma í heiminn. Áhorfandinn verður fyrir áhrifum af fordómaleysi barnsins og það gerir honum auðveldara fyrir að finna til samkenndar með persónum myndarinnar og sjá það góða í hinu vonda.

Börn geta sannarlega hrifist af fullorðnu fólki. Í þessu sambandi leitar önnur skáldsaga, minna þekkt en Svanurinn, á hugann. Í Sögunni af sjóreknu píanóunum (2002) eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur er hinn níu ára gamli Kolbeinn sendur sumarlangt í sveit í Landeyjarnar. Þar hrífst hann á skilyrðislausan hátt af Steingerði, matmóður sinni, og gerir allt sem hann getur til að ganga í augun á henni. Þegar Kolbeinn verður fullorðinn eignast hann svo unga vinkonu sem hrífst af honum á sama hátt. Guðrún Eva fetar þarna inn á svipaðar slóðir og gert er í Svaninum, með sambandi Sólar og vinnumannsins, þrátt fyrir að ekkert í sögu hennar sé kynferðislegt.

„Öll börn eru listamenn“

„Öll börn eru listamenn, þau hafa einhvers konar skáldlega skynjun,“² sagði skáldið og rithöfundurinn Sigurður Pálsson í viðtali við Morgunblaðið árið 2011 um Bernskubók sína, en þar fjallaði hann um uppvöxt sinn á Skinnastað í Öxarfirði. Töfrarnir í bók Sigurðar, rétt eins og í kvikmynd Ásu, liggja í sjónarhorni barnsins sem sér og skynjar heiminn á móttækilegan og tæran hátt. Er það ekki einmitt þessi milliliðalausa og fordómalausa upplifun á veruleikanum, þessir skæru litir og sterka lykt sem við erum alltaf að reyna að fanga, aftur og aftur, í daglegu lífi?

1. Green, L. (1999) Ideology. Í Horner, Bruce og Swiss, Thomas (ritstjórar), Key terms in popular music and culture (bls. 7-8). Malden: Blackwell.

2. Einar Falur Ingólfsson. (2011, 13.11). Skrásetningarbrjálæðið byrjaði snemma. Mbl.is.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila