„Lífið er núna“

Sunnudagskvöldið 4. febrúar næstkomandi býðst söngvaskáldum, bæði reyndum og óreyndum, að koma fram á Gauknum og kynna tónlist sína fyrir áhugasömum. Tónlistarkonan Diljá Sævarsdóttir á hugmyndina að viðburðinum og sér um alla skipulagningu en þetta er fjórða kvöldið af þessu tagi sem hún stendur fyrir síðan í nóvember síðastliðnum. Diljá vendir síðan kvæði sínu í kross um miðjan febrúar og leggur í tónleikaför til sex fylkja Bandaríkjanna.

„Það er ekki mikið um tækifæri fyrir óreynd söngvaskáld á Íslandi til þess að koma fram,“ segir Diljá um ástæðu þess að hún skipulagði viðburðaröðina. Hún hafði nokkrum sinnum spilað á svipuðum kvöldum á Íslenska rokkbarnum í Hafnarfirði en langaði mjög að geta komið fram í miðbænum. „Ég skildi ekki alveg af hverju þetta væri ekki í gangi á fleiri stöðum. (…) Ég fór bara að hugsa: „Af hverju ekki?“ og ákvað svo að hrinda þessu í framkvæmd.“

Aðsóknin hefur verið talsvert meiri en Diljá bjóst við og margir hafa lýst yfir áhuga á að koma fram. „Það eru alltaf einhverjir nýir, ekki alltaf sama fólkið. Fólki finnst gaman að sjá og heyra góða tónlist og upplifa nýja listamenn.“ Diljá bætir við að einungis frumsamin tónlist sé flutt á kvöldunum. Auk þess að kynna tónlist sína fyrir almenningi telur hún mikilvægt fyrir upprennandi söngvaskáld að fá æfingu í að koma fram. „Það er öðruvísi að spila bara heima hjá sér eða fyrir nokkra vini heldur en að vera á sviði, á almennilegum stað og hafa þessa pressu á sér, að þurfa að gera þetta almennilega.“ Einnig segir Diljá algengt að tónlistarfólk myndi sambönd sín á milli á viðburðum sem þessum og oft spretti upp úr þeim ný samstarfsverkefni og tækifæri.

Diljá er tuttugu og átta ára gömul og hefur samið tónlist nærri því hálfa ævina. Nýlega ákvað hún að einbeita sér að tónlistinni af fullri alvöru og ætlar að verja tæpum mánuði á vordögum á tónleikaferðalagi um Bandaríkin. „Þetta byrjaði allt sem lítil hugmynd; ég kynntist tónlistarfólki síðasta sumar frá Bandaríkjunum og þau sögðu mér frá hvernig tónlistarheimurinn virkar þar, hvernig þau ferðast og spila og lifa bara á þeim peningum sem þau fá fyrir spilamennskuna. Mér þótti þetta merkilegt því þetta þekkist ekki hérna heima, hér eru mjög fáir tónlistarmenn sem geta lifað á tónlistinni sinni.“ Þessir bandarísku vinir Diljár buðu henni síðan að koma í heimsókn og reyna fyrir sér í tónleikahaldi, hún ákvað að slá til og keypti sér flugmiða við fyrsta tækifæri. Hún hefur nýtt sér mátt netsins, sérstaklega Facebook, til að koma sér í samband við tónleikahaldara ytra. „Þetta gæti endað í að vera svona tíu „gigg“ sem ég fæ á þessum tíma. Ég er náttúrulega bara „nobody“,“ segir Diljá hlæjandi og segir afar ánægjulegt hversu vel henni hafi gengið að skapa áhuga fyrir tónlistinni sinni. Hún vonast jafnframt til að geta endurtekið leikinn síðar meir og hvetur listafólk sem dreymir svipaða drauma til að láta ekki neikvæðnina stoppa sig. „Lífið er núna.“

Diljá býður öll þau sem vilja hlýða á söngvaskáldin þann 4. febrúar velkomin á Gaukinn, Tryggvagötu 22. Viðburðurinn hefst klukkan 20 og aðgangseyrir er enginn.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila