Leyndarhyggja og landráð

The Post (Steven Spielberg, 2017) tekur fyrir vendipunkt í Bandarískri fjölmiðlasögu og í raun sögu lýðræðis þar vestanhafs. Í kjölfar birtingar dagblaðsins The New York Times árið 1971 á hluta hinna svokölluðu Pentagonskjala, sem flettu ofan af kerfisbundnum lygum bandarískra stjórnvalda um Víetnamstríðið, hófst atburðarás er teygði sig til hæstu hæða stjórnkerfisins. Fyrir atbeina ríkisstjórnar Nixons var lögbann sett á frekari umfjöllun dagblaðsins á þeim forsendum að skjölin vörðuðu þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Upp var komin nokkuð snúin staða þar sem fyrrnefnt dagblað gat lögum samkvæmt ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni en næði þöggun ríkisstjórnarinnar fram að ganga væri búið að veikja eina af lýðræðislegum grunnstoðum þjóðarinnar alvarlega. Í raun er óhætt að segja að um eina þekktustu árás yfirvalds á vesturlöndum á fjölmiðla og aðhaldshlutverk þeirra sé að ræða.

Undir forystu útgefandans Katherine Graham (Meryl Streep) og ritstjórans Ben Bradlee (Tom Hanks) tók The Washington Post hins vegar slaginn og birti fréttir sem unnar voru úr skjölunum. Þannig var blaðið komið í forystu baráttunnar fyrir fjölmiðlafrelsi í Bandaríkjunum ásamt því að sinna upplýsingaskyldu sinni gagnvart almenningi. The Post gerir vel grein fyrir því sem var í húfi, bæði í samhengi við upplýsingagildi Pentagon skjalanna sem og fordæmið sem „leki“ Daniels Ellsberg (Matthew Rhys) hefur enn í dag varðandi uppljóstranir er varða almannahag.

Persónuleg afstaða Stevens Spielberg varðandi miðlun ofantalinna atburða er skýr og áþreifanleg. Fjölmiðlar eru lýðræðinu lífsnauðsynlegir. Á mikilvægum tímapunktum í myndinni er jafnframt lögð áhersla á gildi stjórnarskrár Bandaríkjanna ásamt því að starf blaðamanna á hátindi aldar prentmiðlanna birtist á raunsæjan hátt. Blaðamennskuferlið var hægfara á tölvulausum tímum og erfitt gat verið að ná í fólk og afla upplýsinga. Þá voru línur ögn skýrari á þessum tíma og dagblöð voru mörg hver sérhæfðari en í dag. Í því samhengi var The Washington Post ekki þekkt fyrir mikla rannsóknarblaðamennsku, í það minnsta ekki átakasinnaða.

Katharine Graham, fyrsta konan sem gegndi stöðu eiganda stórs fjölmiðils í Bandaríkjunum, var tengd vinaböndum inn í efstu lög samfélagsins og var ekki í neinum tengslum við þá mótmælaólgu sem sjöundi áratugurinn bar með sér. The Post fer með persónu Graham sem ögn veruleikafirrta efnismikla konu sem fyrir röð tilviljana er komin í þá stöðu að þurfa að taka vandasama ákvörðun. Ákvörðun sem gæti bitnað á orðspori hennar á meðal meðlima Bandarísku elítunnar ásamt því að starfsfólk hennar gæti verið dæmt í fangelsi fyrir landráð. Það má segja að þungamiðja myndarinnar liggi í ákvörðun Graham um hvort birta skuli skjölin eður ei og hún gerir því nokkuð góð skil á hve mikið hugrekki þarf til þess að ganga veg réttvísinnar í stað þess að líta í hina áttina á ögurstundu. Hvert þróast lýðræðið ef enginn stendur upp til þess að verja grunnstoðir þess og gildi?

Allnokkuð hefur verið rætt um það hvernig myndin dregur fram feðraveldislegt umhverfið sem Graham gengur inn í þegar hún bæði tekur við blaðinu og þarf að taka ákvörðun um það hvort birta eigi skjölin og vilja gagnrýnendur gjarnan sjá þar feminískan þráð. Það má til sanns vegar færa en aðeins upp að ákveðnu marki. Einnig verður að hafa í huga að um konu í mikilli forréttindastöðu er að ræða, konu sem líkt og Charles Foster Kane erfði fjölmiðlaveldi sitt, og nýtur í því ljósi heilmikilla yfirburða þegar að því kemur að láta til sín taka. Yfirburða sem flestar konur hafa hvorki notið í fortíðinni né gera enn.

Augljós líkindi má sjá milli viðbragða Nixon- stjórnarinnar við afhjúpun Pentagonskjalanna og hegðun stjórnvalda vestanhafs um þessar mundir. Það þarf þó ekki að líta út fyrir landsteinana til að finna andlýðræðislegar árásir á upplýsingafrelsi í formi lögbannskrafa á fjölmiðla. Við siglum á ólgusjó falsfrétta og sannlíkis nú um stundir. Því má segja að The Post hefði ekki getað komið út á betri tíma. Hún er sjaldséður óður til lýðræðisins á tímum óvissu og uppgangi fasískrar orðræðu öfgaafla sem viðgengst í huliðsheimum nútímasamfélagsins.

Um höfundinn
Snævar Berglindar og Valsteinsson

Snævar Berglindar og Valsteinsson

Snævar Berglindar–Valsteinsson er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila