Den of Thieves: þegnar gráa svæðisins

Leikstjórn og handrit; Christian Gudegast. Aðalleikarar: Gerard Butler, Pablo Schreiber og O‘Shea Jackson Jr. Frumsýnd 26. janúar 2018.

Sögusviðið er borg englanna. Við fylgjumst með hættulegum þjófum sem í sameiningu ætla sér að ræna einn brynvarðasta banka borgarinnar. Á hælum þeirra er sérsveit fógetans sem brýtur allar reglur við að reyna að grípa þá glóðvolga. Titill myndarinnar er bein vísun í glæpatíðni borgarinnar en í Los Angeles eru framin fleiri rán en í nokkurri annarri bandarískri borg.

Andrúmsloft myndarinnar er dramatískt og spennuþrungið. Tónlistin, eftir Cliff Martinez, er eins og úr framtíðarsögu, rafmögnuð og tölvugerð, en passar undarlega vel við groddalegan töffaraskap myndarinnar sem birtist helst í förðun og búningum persónanna sem eru margar með illa snyrt skegg og skarta tattúum og leðurjökkum. Þakka má búningahönnuði Terry Anderson og meðlimum förðunardeildarinnar, meðal annars Allan A. Apone, Suzanna Bykin og Amber Crowe fyrir þau smáatriði sem virkilega ýttu undir andrúmsloft myndarinnar. Stærstur hluti myndarinnar er þó án tónlistar sem gerir það að verkum að í hvert sinn sem tónar heyrast verða þeir þýðingarmeiri. Háværir byssuhvellir í annars yfirgnæfandi þögn ýta undir spennu og dramatík.

Þó svo að myndin sé næstum tveir og hálfur tími að lengd er orðum ekki sóað. Handritið er knappt og orð og þögn fá jafn mikið vægi. Með slíkt handrit í höndunum þurfa leikarar að geta sýnt en ekki sagt til að áhorfandinn nái að upplifa alla dýpt sögunnar. Gerard Butler fær bitastærstu línurnar og túlkar fagmannlega fjölbreyttari tilfinningar en aðrar persónur virðast búa yfir. Meðleikarar hans standa sig þó einnig vel og tekst ágætlega að koma eðli og skapgerð persóna sinna frá sér nánast orðalaust. Þó mætti gagnrýna leik Pablo Schreiber en er hann full stífur og einhæfur. Persóna hans er líka afar grunn í sjálfu sér og skortir þrívíðan persónuleika. Þriðja aðalpersóna myndarinnar, Donnie, er  leikin af O‘Shea Jackson Jr. sem er ekki mjög þekktur leikari enn sem komið er, og stendur hann sig prýðilega í að tjá hinn óörugga og hrædda Donnie sem veit varla út í hvað hann er búinn að koma sér.

Í framhaldi af umræðu um handritsgerð á þýðandi skjátextans á íslensku, Haraldur Jóhannsson, hrós skilið en honum tekst vel að ná fram orðstíl persónanna, jafnvel þó að um sérhæft slangur sé að ræða. Allt blót, og nóg er af því, er þýtt á góða íslensku, „shit“ og „fuck“, verða „andskotinn“ og „helvítis“ í stað „sjit“ og „fokk“. Niðrandi orðum eins og „nigger“ (sem þó er notað góðlátlega af einni persónunni) er breytt í „surtur“ í stað „negra“, sem hefði verið svo auðveld og löt þýðing. Áhorfandinn fær því á tilfinninguna að þýðandi hafi tekið sér nægan tíma til verksins.

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Á yfirborðinu fjallar Den of Thieves einfaldlega um bankarán, byssur og bardaga, en ef betur er að gáð er myndin gagnrýnin á hina eitruðu karlmennsku sem allar persónur myndarinnar þjást af, upp að einhverju marki. Þetta sést hvað best í samskiptum karlanna og hvernig þeir reyna að sýna yfirburði sína og drottnun hver yfir öðrum, sem og í framkomu þeirra við konur en hún einkennist að mestu af vanvirðingu og losta. Þeir hóta yngri mönnum sem sækjast eftir dætrum þeirra öllu illu en eyða frítíma sínum sjálfir í faðmi gleðikvenna og halda framhjá eiginkonum sínum hægri, vinstri.

Þegar heim er komið upplifa svo persónurnar afleiðingar gjörða sinna, einangrast og beita ofbeldi í stað þess að tjá tilfinningar sínar, einfaldlega vegna þess að þær kunna ekki annað. Ein persónan upplifir vendipunkt þar sem hún áttar sig á því hvað sé í raun og veru mikilvægast og sér eftir mistökum sínum. En það er spurning hvort það sé ekki einfaldlega um seinan? Því er hulunni svipt af glansmyndinni og gallar persónanna skína í gegn. Töffararnir eru afhjúpaðir og við sjáum þá í sinni hráustu mynd: tóma, þreytta og viðkvæma.

Myndin er afar spennandi og inniheldur sterk einkenni klassískra hasarmynda; það eru stórir byssubardagar, stæltir og sterkir „vondir kallar“, rómantískur aukasöguþráður, spennuþrungin andartök þar sem hver sekúnda skiptir máli, og svo mætti lengi telja. Þessi einkenni eru hins vegar skoðuð frá öðrum sjónarhornum og áhorfandinn fær nýja sýn á því sem áður hefur verið hampað sem „töff“ og „kúl“. Stærsti byssubardaginn fer t.d. fram í algjörri þögn sem gerir hann raunsæjan, og það sem meira máli skiptir, dapran.

Forsprakki gengisins, Merriman, leikinn af Pablo Schreiber, er fyrrverandi hermaður með mikinn sjálfsaga, á meðan fógetinn, „Big Nick“, leikinn af Gerard Butler, er hrokagikkur og vanur að ná glæpamönnum með góðu eða illa. Aðallega illu. Þessar persónur eru því eins og dæmigerðar útgáfur af hvor annarri, agaði bófinn og siðlausa löggan. Því er erfitt að vita með hvoru liðinu maður á að halda en báðir hópar leysa flest sín vandamál með ofbeldinu einu saman og ofbeldi er í sjálfu sér stórt þema í myndinni.

Hvert er hlutverk áhorfandans?

Við fyrstu sýn virðist Den of Thieves vera enn ein klisjukennd bófamyndin, sem hún vissulega er að einhverju leyti. Hinn dæmigerði spennumyndarfíkill væri líklegur til að fara á myndina þar sem stiklan gefur til kynna að hún sé klassísk hasarmynd sem snýst í kringum löggu-og-bófa eltingarleik. En á sama tíma er eins og leikstjórinn vilji heilla annan áhorfendahóp með listrænni tjáningu í formi tónlistar, sem og þungum boðskap hennar um siðferðislega grá svæði og skaðsemi „macho-isma“ . Varla er hægt að halda því fram að markmið myndarinnar sé að ná til annars markhóps en spennufíklanna ef miða má við auglýsingaherferð hennar og því gæti virst sem verið væri að lokka þá sem vilja sjá einfaldar ofbeldismyndir í gildru.

Þegar myndin hefst er áhorfandi í ákveðnum stellingum með fyrirfram tilbúnar hugmyndir um hver söguþráður myndarinnar sé en er hressilega kippt upp úr þeim. Hér er hlutverk áhorfenda í brennidepli og væri hægt að túlka Den of Thieves í hinu stærra samhengi sem gagnrýni á þá færibandaframleiðslu Hollywood-legra mynda sem tröllríður samtímanum. Í sjálfu sér er þess háttar nálgun afar sniðug því þeir sem líklegastir eru til að fara á ofbeldismyndir þar sem vondir menn slást með stórum byssum eru líka þeir sem líklegir eru til að hafa ranghugmyndir um gildi karlmennskunnar. Ekki væri hægt að fá slíkan mannskap á þess háttar mynd ef hún væri auglýst á annan máta.

Áhorfendur eru því neyddir til að horfast í augu við raunsæja mynd af hegðun og atburðum sem í mörgum, ef ekki flestum spennumyndum, eru sveipaðir töfraljóma. Ef til vill upplifa þeir sem á hana fara móðgun og svik en varla reiði þar sem boðskapnum er komið fram með svo miklu offorsi að maður fer í raun að skammast sín fyrir að hafa undirbúið sig fyrir eitthvað einfalt og auðmeltanlegt. Hér er því verið að taka spennumynd og rífa af henni þann stimpil sem þess háttar myndum fylgir oft. Spennumyndir eru ekki bara hraði, byssur og hávær tónlist og við sem áhorfendur ættum að vera reiðbúin að taka á móti erfiðum tilfinningum og flóknum boðskap úr öllum áttum.

Þegar klisjum er snúið á hvolf

Stór hluti þessa boðskaps kemur einnig fram í því hve margir lausir endar verða eftir og það tel ég vera viljandi gert. Við fáum ekki svör við öllum spurningum, baksaga sumra glæponanna er ennþá óljós og við komumst hvorki að því hvort líf persónanna utan glæpaheimsins breytist til hins betra, né hvort þeir átti sig á neikvæðum hliðum karlmennsku sinnar sem hefur hlaupið með þá í gönur. Þó svo að áhorfandi gæti upplifað óþægindi í kjölfarið eykur það bara á raunsæi myndarinnar.

Að auki leikur Christan Gudegast, leikstjóri og handritshöfundur, sér líka að annarri vinsælli klisju spennumyndanna en það er spurningin um siðferði og réttvísi, rétt og rangt. Í hinum dæmigerðu hasarmyndum eru vondu kallarnir, bófarnir, að berjast við góðu kallana, löggurnar. En hér ræður spilling ríkjum og allt er á gráu svæði. Fógetinn virðist sannfærður um að ef niðurstaðan í málinu sé að hann handsami glæpamenn skipti ekki máli hvernig farið sé að því.  Lengi vel má rökræða um hvort þess háttar hugsun sé siðferðislega rétt. Ef þú fremur glæpi til að fanga glæpamenn, ertu þá ekki orðinn skúrkur sjálfur?

Den of Thieves er því í raun ádeila á tilgang spennumynda sem og boðskap þeirra til áhorfenda. Glampandi glansheimur bíómyndanna er ekki eins frábær og hann er oft látinn líta út fyrir að vera: óheflaður töffaraskapur getur skaðað meira en hann styrkir, byssuskot skera af depurð og ótta í eyrun og ekkert tattú getur bætt upp fyrir að mega ekki hitta börnin sín lengur.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir hefur lokið BS-námi í sálfræði og er nú meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila