Óþekkti hermaðurinn (Tuntematon sotilas, 2017) er byggð á samnefndri metsölubók eftir Väinö Linna frá árinu 1954 en hún kom út í íslenskri þýðingu árið 2009. Skáldsagan hefur tvisvar áður verið kvikmynduð, árið 1955 og 1985, en það er Aku Louhimies sem færir söguna yfir á hvíta tjaldið að þessu sinni. Um er að ræða umfangsmestu og dýrustu stríðsmynd sem gerð hefur verið á Norðurlöndunum og þess má geta að íslensku kvikmyndaframleiðendurnir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson eru meðfamleiðendur myndarinnar. Óþekkti hermaðurinn hefst rúmu ári eftir að Vetrarstríðinu lýkur milli Finnlands og Sovétríkjanna og fylgir áframhaldandi stríði beggja þjóða, nánar tiltekið áttundu fótgönguliðasveit vélbyssudeildar finnska hersins, en þegar hér er komið við sögu hefur Finnland gengið í bandalag – skilgreint sem „óþægilegt“ af skiljanlegum ástæðum í myndinni – við Þýskaland gegn sameiginlegum óvini þeirra.

Þeir sem eru vel að sér í sögu seinni heimsstyrjaldarinnar þekkja endalokin. Óþekkti hermaðurinn leggur ekki áherslu á að miðla heimildum um stríðið, heldur er leitast við að skyggnast inn í sálarlíf mannanna sem börðust í stríðinu. Myndin einblínir þannig á „mennina“ en ekki „hermennina“ og engin ein söguhetja ber frásögnina á herðum sér þó hinn gamalreyndi Rokka (Eero Aho), sem einnig barðist í Vetrarstríðinu, sé mest áberandi af þeim um það bil tíu sem mynda uppistöðu herdeildarinnar.

Að því sögðu er ekki farið í manngreinarálit þegar hver hermaðurinn á fætur öðrum, finnskur sem sovéskur, er felldur í hrikalega átakanlegum orrustusenum. Áhorfandinn er rétt byrjaður að kynnast einni persónu þegar hún skyndilega „fær blýkúlu í höfuðið“ eins og Rokka kemst að orði, og lætur lífið. Það er ekki staldrað við slíkar hörmungar því orrustan verður að halda áfram og hverfulleiki lífsins er hvergi augljósari en í hernaði. Áhorfandinn lærir fljótt að treysta ekki á formúlukennda tengslamyndun við mennina tíu því að öllum líkindum mun einn þeirra fljótt hverfa frá sögusviðinu á voveiflegan hátt. Óþekkti hermaðurinn er að því leytinu til framsögulegt ólíkindatól borin saman við aðrar stríðsmyndir þar sem fyrirsjáanleiki og uppgjör eru nánast kunn frá fyrstu mínútum.

Myndin kemst þó ekki alfarið hjá heyrinkunnugum klisjum stríðsmynda eins og óstöðugri handheldri kvikmyndatöku í sjónarhornsstíl, hljóðgerðu suði samhliða persónu í mynd sem upplifir það eftir mikla sprengingu og ofurmannlegum hetjudáðum. Helsti galli hennar er hversu lítið er gert úr sálrænum áhrifum stríðsins á mennina en fáir fá svo mikið sem vægt kvíðakast. Vanhala (Hannes Suominen) er til dæmis blátt áfram síbrosandi og skemmt þegar mest á reynir. Lítið er unnið með líkamleg einkenni eins og skjálfta, oföndun, lífshræðslu og algera lömum líkamans þegar farið er yfir vissan sálfræðilegan þröskuld, það sem með öðrum orðum gerist þegar taugarnar bresta.  Þetta er einkennilegt í ljósi þess að almenn nálgun kvikmyndarinnar felst í því að sýna hversdagsmenn úr ólíkum stéttum samfélagsins saman komna í miskunnarlausu stríði.

Andstæðingarnir hafa litla sem enga rödd og bregður nánast eingöngu fyrir í víðskotum. Rokka segist vera sannfærður um að þeir séu allir villimenn en aðspurður hvort hann trúi því kemur örstutt hik á hann áður en hann svarar: „Það segja mér vitrari menn.“ Rokka tekur þessum orðum sem algildum sannleik án þess að véfengja gildi þeirra og þannig er reynt að innræta áhorfendum andlega baráttu mannanna tíu við fjandsamlegt ofurefli þeirra. Ádeilan er þó ekki á andstæðinga þeirra heldur hatrið á óvininum sem alið er upp í hermönnunum.

„Maðurinn“ Rokka er engu að síður ljúf sál sem segir yfirmönnum sínum hreint og beint að hann berjist ekki fyrir þá, heldur fjölskyldu sína sem bíður eftir honum heima. Þrátt fyrir framúrskarandi, og að því er virðist meðfædda, hæfileika í hernaðartaktík og óbilandi traust á sjálfum sér í návígishernaði, lætur hann sér fátt um finnast um afrek sín. Hann er fyrst og fremst náttúrubarn sem upprifinn handleikur fiðrildi í skotgröfunum og finnur sér vin í villtri kanínu milli skothríða. Svipaða sögu má segja um deildarfélaga hans; í stað þess að drepa rottuna sem veidd er varlega með spotta er henni hleypt út í frelsið. Það endurspeglar kannski eigin frelsisþrá hermannanna.

Óþekkti hermaðurinn er áleitin mynd. Hún skilur eftir sig ýmis konar hugrenningar og er á köflum svo undurvel tekin og lýst að hver rammi er eins og listilega útpæld ljósmynd sem myndi sóma sér vel innrömmuð uppi á vegg. Niðurstaðan er ekki einföld. Í myndinni túlkar hver og einn hermaður hana eftir sínu eigin höfði og það sama á tvímælalaust um áhorfendur. Sumir komast heim að stríði loknu en aðrir falla sem óþekktir hermenn.

Um höfundinn
Sigurður Arnar Guðmundsson

Sigurður Arnar Guðmundsson

Facebook

Sigurður er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila