Pláss fyrir alla í ljóðaslammi

Ljóðaslamm er keppni þar sem skáld flytja eða lesa frumsamið efni fyrir framan áhorfendur. Slík keppni fer fram í Iðnó mánudagskvöldið 26. febrúar næstkomandi. Þau Ólöf Rún Benediktsdóttir og Jón Magnús Arnarsson standa fyrir viðburðinum í samstarfi við Bókmenntaborgina og Borgarbókasafnið. Þau segjast finna fyrir auknum áhuga meðal almennings á ljóðaslammi og vilja hvetja sem flesta til að koma út úr skelinni með ljóðin sín.

Mótun íslenska slammstílsins

Ólöf segir að íslenska skilgreiningin á ljóðaslammi hafi verið á reiki. Viðburðir sem hér hafi verið haldnir undir þeim merkjum hafi því verið með ýmsu móti. Við skipulagningu keppninnar fylgi þau hinsvegar ákveðnum reglum. Hver flutningur má ekki taka meira en þrjár mínútur og tíu sekúndur. Keppt er í þremur umferðum og fimm dómarar, sem valdir eru á staðnum úr hópi áhorfenda, gefa hverjum flutningi einkunn. Þeir keppendur sem fá hæsta einkunn komast áfram í næstu umferð og að lokum stendur eftir einn sigurvegari. Ekki má nota búninga eða leikmuni, þar með talin hljóðfæri, og bannað er hafa í frammi hvers kyns hatursáróður, kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu. Ólöf segir að kosturinn við að halda keppnina með þessu fyrirkomulagi sé að þátttakendur verði gjaldgengir til að taka þátt í keppnum erlendis þar sem sömu reglur gilda.

Ólöf og Jón segja að það sé spennandi að taka þátt í að móta íslenska slammstílinn. „Enn sem komið er hafa fáir viðburðir verið haldnir hérlendis og það eru ekki margir sem eru sérstaklega að skrifa slammljóð,“ segir Jón. Þau segja að í Danmörku og Þýskalandi, þar sem ljóðaslamm er hvað vinsælast, sé algengt að þátttakendur semji ljóð sérstaklega fyrir keppni. Síðastliðið haust fóru þau til dæmis til Danmerkur og fylgdust með ljóðaslammi þar. Einkennandi fyrir flutning sigurvegarans, sem var ung kona, var ákveðin blanda af fyndni og alvöru. „Þó að ljóðið sé kannski um eitthvað dramatískt eða eitthvað sem stendur henni nærri þá setur hún alltaf smá hlátur inn í þetta því það virkar,“ segir Jón.

(Brot úr ljóðaslammi Borgarbókasafnsins 2017)

Þú getur verið dauðstressaður en samt gengið vel

Ólöf segir að upplestur ljóða hafi alla tíð heillað sig. Hún hefur meðal annars komið fram á ljóðakvöldum með skáldahópunum Fríyrkjunni og á upplestrarkvöldum Hispursmeyja. „Ég hef alltaf skrifað ljóð með það að markmiði að lesa þau upp. Þegar ég komst í kynni við þetta slamm-hugtak þá var það mjög eðlilegt framhald. Ég var líka búin að reyna að vera að skrifa rímur og gera rapp. Sum bestu slammljóðin mín áttu að verða rapp en svo einhvern veginn fann ég mig ekki alveg þar. Ég held að ég sé kannski ekki alveg nógu mikill dólgur til að vera í því,“ segir hún hlæjandi.

Jón segist hafa verið ungur þegar hann byrjaði að flytja textana sína upphátt. Þrettán eða fjórtán ára byrjaði hann að rappa en fór svo fljótlega að flytja rímurnar sínar án tónlistar. „Maður var mikið að flytja rímur í eftirpartíum og svona,“ segir hann. „Mér fannst svo leiðinlegt að vera alltaf í flæði og fannst bara textarnir tapast svolítið, þannig ég fór að fíla að flytja þetta aðeins hægar, öðruvísi, breyta áherslunum og ég fattaði að þarna var eitthvað sem ég fíla að gera.“ Hann segist finna ákveðið frelsi í slammforminu sem er ekki til staðar í rappinu. Rappið fylgir honum samt sem áður inn í ljóðaflutninginn. „Þetta rímar oft hjá mér, á einhverjum stöðum, ekki endilega eitthvað endarím samt. Þannig ég er með góðan bakgrunn úr rappinu.“

Þau segja að erfitt sé að tilgreina nákvæmlega hvað einkenni góðan flutning í ljóðaslammi en eru þó sammála um að það sé mikilvægt að hann virki í augnablikinu. „Þú ert ekki að semja ljóð til að impressa einhverja ljóðaspekúlanta. Þú ert að miða á áhorfendur,“ segir Ólöf. Það sé þó mismunandi eftir áhorfendum hvaða áhrif efnið hafi. „Brandari sem virkar eitt kvöldið fellur kannski dauður næsta kvöld,“ segir hún og Jón bætir við: „Bara eins og í uppistandi, samsetningin á áhorfendahópnum getur verið svo rosalega mismunandi.“

Þau taka fram að það sé allt í lagi að vera stressaður í ljóðaslammi svo framarlega sem maður trúi á textann sem maður ætlar að flytja. „Þú getur verið að bráðna úr stressi, en maður finnur það ef þér finnst textinn sem þú ert að lesa vera næs og boðlegur og trúir því að hann sé nógu góður til að vera á þessu sviði,“ segir Ólöf.

Þá búi sumir flytjendur yfir einhverjum óræðum töfrum sem hrífi fólk með sér. „Sumir eru „crowd-pleaserar“ á sinn hátt, þó þeir flytji allt í mónótón og séu stjarfir af stressi.“

Pláss fyrir alla í ljóðaslammi

Fjölbreyttur hópur fólks skráði sig í keppnina 26. febrúar. „Við auglýstum á Facebook og það kom okkur á óvart hvað það var margt fólk sem tók rosa vel í þetta,“ segir Ólöf. Eins og er eru öll pláss í keppninni full en þau hvetja fólk til að fylgjast með framhaldinu. Auk þess að standa fyrir reglulegum ljóðaslömmum í Iðnó stefna þau á að halda smiðju fyrir þá sem hafa áhuga á listinni að flytja ljóð. Þau segja að allir aldurshópar séu velkomnir og taka fram að leyfilegt sé að flytja ljóð á ensku jafnt sem íslensku. „Ég er spennt fyrir að fá fólk í smiðjuna sem er fyrir utan okkar hring. Fólk sem fer kannski aldrei niður í miðbæ, fólk yfir fimmtugt …“ segir Ólöf. „Já, og líka bara ljóðskáld sem hafa verið í styttri ljóðum, fá þau meira í slammið, til að stækka aðeins ljóðheiminn sinn, fá aðeins meira fútt í ljóðin,“ segir Jón. „Það er allt opið og pláss fyrir alla“.

Hér fá sjá viðburðinn á Facebook.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila