Landssýn í lifandi myndum

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
Eins mig fýsir alltaf þó
aftur að fara í göngur.

Jónas Hallgrímsson

Eftir að vorsmölun er lokið og
fénaður rekinn á afrétt og allt til
fyrstu gangna, má enginn smala
né valda afréttarpeningi ónæði á
einn eða annan hátt

– Fjallskilasamþykkt

Nafnið er tignarlegt og yfir því er forn blær. Það er jarðbundið og vísar til þess sem er fast fyrir og bognar hvorki né breytist. Þannig er nafnið jafnframt minnisvarði um heim sem liðinn er undir lok. Þetta og meira má greina í undirstraumi titils nýrrar heimildarmyndar Guðmundar Bergkvist, Fjallkóngar (2017), sem sýnd var í kvikmyndahúsum í Reykjavík og á landsbyggðinni á fyrstu mánuðum ársins og er nú aðgengileg í gegnum Vodafón og Símann. Myndin greinir frá fjárbændum í Skaftártungu og störfum þeirra í tæpt ár.

Leikstjórinn velur myndinni form sem dregur fram fegurð umhverfisins, líkt og fjallað verður um nánar hér á eftir, og beinir sjónum að tilteknum hópi bænda þannig að viðfangsefnið verður fljótlega skýrt. Á stöku stað birtast upplýsingar í formi texta í myndrammanum, en bein upplýsingamiðlun um fólk, staði og tíma er þó hverfandi, og er þar raunar að finna eitt helsta einkenni myndarinnar. Fólk og staði ber fyrir augu án þess að sérteiknum á borð við nöfn, tímatalningu, eða örnefni, sé fundinn staður í myndrammanum. Þarna er að sumu leyti um djarfa ákvörðun að ræða, einkum fyrir áhorfendur sem hugsanlega eru ókunnugir staðarháttum og sveitalífi, en reynist afskaplega vel til fundin. Tímaleysið í bland við umsvifarými myndavélarinnar, óvænta tökuvinkla og tónlistina ljær myndinni sérstakt og fagurt, jafnvel draumkennt yfirbragð á köflum.

Hljóðheimur myndarinnar er sérstaklega eftirtektarverður. Tónlistina semja Kristinn Snær Agnarsson og Jónas Sigurðsson og framan af er blandað saman gítartónlist og píanói eða orgeli, en eftir því sem lengra dregur í myndinni tekur að gæta raftónlistar og stundum heyrist í hinum hefðbundna karlakór, þó jafnan dauft. Tónlistin vinnur með myndheiminum á áhrifaríkan hátt, og blandast stundum umhverfishljóðum. Þá víkur tónlistin fyrir upptökum á samræðum og tali þegar ástæða þykir til, en framkallar engu að síður mikilvægan hluta af heildaráhrifunum.

Einkum tvennt vekur sérstaka athygli þegar að hljóðheimi myndarinnar kemur. Annars vegar að ávarp myndarinnar er óbeint, spyrill er sjaldnast til staðar. Spurningar og innskot virðast nær alltaf vera klippt út (á þessu eru tvær eða þrjár undantekningar). Hins vegar er það sú ákvörðun að láta tal bændanna gjarnan heyrast á hljóðrásinni meðan myndrásin birtir annað myndefni en viðtalið sjálft. Ljóst er þó í slíkum tilvikum að viðmælendur eru að ræða við kvikmyndagerðarmann, frekar en hvern annan. Stundum er orðræðan sem þannig heyrist „skreytt“ við myndir af þeim sem talar en í öðrum tilvikum tengist myndefnið öðrum hlutum, náttúrunni og umhverfinu; stundum er svo samræða myndrásar og hljóðrásar til áhersluauka, eða írónísk, eða merkingarbær að öðru leyti.

Með því að ljá hljóðrásinni sjálfstæði bregður Guðmundur út af nokkuð fastmótuðum hefðum í gerð íslenskra heimildarmynda og finnur um leið ferskan lykil að formi og miðlun eigin myndar. Í grein sem birtist í Sögu árið 2008 um íslenskar heimildarmyndir ræðir Björn Ægir Norðfjörð það sem kalla má formræna einsleitni margra þeirra, og nefnir sérstaklega í því samhengi viðtalsformið: „Viðtöl eru […] frásagnarmeðal sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn virðast ánetjaðir þegar kemur að heimildamyndagerð“¹. Í Fjallkóngum horfir hins vegar öðruvísi við. Myndin er aldrei njörvuð niður í einsleitni viðtalsformsins. Gegnir þar frelsi hljóðrásarinnar, og aðskilnaður hennar frá myndrásinni, lykilhlutverki. Það að hljóðrásin sé farvegur fyrir hugleiðingar, skýringar og boðskipti bændanna án þess að myndrásin sé bundin á klafa hennar ljær öllu formi myndarinnar sérstakt og lifandi yfirbragð, og helst það í hendur við fjarveru sjálfs leikstjórans sem áður var nefnt.

Hvað sumt annað varðar falla efnistök Fjallkónga vel að langri hefð íslenskra kvikmynda, en í áðurnefndri grein ræðir Björn Ægir hvernig landið og þjóðin urðu snemma mikilvægasta viðfangsefni hérlendra heimildarmynda. Nefnir Björn Ægir kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Ísland í lifandi myndum (1925), sem dæmi um hvernig ákveðinn tónn var sleginn í upphafi sem síðan hefur ómað í gegnum kvikmyndasöguna, svo mjög að „Íslandsmyndin“ svokallaða verður að mati Björns Ægis hálfgerður samnefnari fyrir form heimildarmyndarinnar hér á landi. Sjónum beinir Björn Ægir þó fyrst og fremst að samtímalegu heimildarmyndinni, myndum sem gerðar eru eftir árþúsundamótin, og vert er að vitna í athugasemd sem hann lætur falla í því samhengi um ákveðna hneigð greinarinnar:

„Svo virðist sem íslenskum heimildamyndagerðarmönnum þyki fátt minna spennandi en það sem stundum er kallað venjulegt fólk. Jón og Gunna eru m.ö.o. ekki viðfangsefni íslenskra heimildamynda. Fólkið skal annað hvort vera frægt eða utangarðs – a.m.k. nógu mikið öðruvísi en meðalmaðurinn.“²

Þetta á ekki við um mynd Guðmundar Bergkvist. Í Fjallkóngum er fjallað um venjulegt fólk og það sem meira er, það er gert með hlýju og nærgætni. Þá er efninu miðlað með óvenjulegri djörfung miðað við form sambærilegra mynda undanfarin ár og áratugi.

Samvinnufélög

Fjárbændur þeir sem fjallað er um í myndinni sinna smalamennsku, eins og gefur að skilja, og er þar meðal annars um að ræða ferðir í víðáttumikla afrétti í og við Vatnajökulsþjóðgarð, en afréttur er heiðaland sem bændur í hreppi nota sameiginlega sem sumarhaga handa búfé. Um undurfagurt landslag er að ræða á svæðinu, eins og frægt er, og náttúran bókstaflega engu lík. Frásagnarleg miðja myndarinnar eru haustgöngurnar sem í er haldið í þessu umhverfi, en bændum er einnig fylgt eftir er þeir losa féð á vorin. Smalamennskan er viðamikið verkefni. Sveitungarnir verða að taka höndum saman, slíkar eru víðátturnar og umfang fjárbúskapsins að samvinnan er bókstaflega lífsnauðsynleg. Ef ekki mætti reiða sig á samvinnuna væri ekki hægt að nota þær afréttir sem fyrir hendi eru og þá myndi nú heldur betur kárna gamanið. Þessi staðreynd reynist þýðingarmikil fyrir atburðarásina sem í hönd fer.

Þegar að haustgöngum kemur er um umtalsvert ferðalag að ræða, stundum uppundir viku; menn veltast um fjöll og firnindi á bílum, fjórhjólum og hestum en fyrst og fremst á tveimur jafnfljótum, og „tolla stundum ekki á neinu nema leir og sandi“, eins og segir á einum stað.

Návíginu milli manna í göngum og oft viðsjárverðum kringumstæðunum fylgir krafa til leitarmanna um að vonda skapið sé skilið eftir í bæjarhlaðinu og fólk klæðist í staðinn samsömunar– og skilningssamfestingnum. Í Fjallkóngum er ítrekað haft á orði hvílík mildi það sé að samstarfið gangi upp ár hvert; eins og áður hefur verið minnst á er samvinnan lykilatriði, ekki síst í tilviki þessa tiltekna samfélags. Ekki er þó alltaf hægt að ganga út frá því að hlutirnir séu eins og þeir virðast í fyrstu, og reynast það orð að sönnu í tilviki Fjallkónga.

Dramatísk bygging myndarinnar snýst ekki síst um að afhjúpa brestina undir yfirborðinu og fúann undir fögrum orðunum, það hversu grunnt er orðið á velvildinni og samvinnunni í bændasamfélaginu sem lýst er. Samfélagsmyndina dregur leikstjórinn fram samhliða því að hann birtir fegurð landslagsins og leyfir sér jafnvel svigrúm til að sýna litlu hlutina, smáatriðin og augnablikin sem auðvelt er að missa af. Á öðrum tímum dregur Guðmundur fram fomræna fegurð umhverfisins, og sauðfésins sem umbreytir landslaginu í beitijarðir, með metnaðarfullum og afskaplega vel heppnuðum tökum, oft úr lofti. Í slíkum tökum er það ekki síst hvernig lofthæð tökuvélarinnar breytist milli klippinga og skota sem gefur myndfléttunum dýnamískan kraft.

Landssýnin og lagabókstafurinn

Að sleppa um vor og sækja fé á fjöll um haust er flóknara ferli en utanaðkomandi skyldi ætla; hér blandast saman hefðir og lagabókstafur, fornir siðir og krafa nútímans um skilvirkni og markaðshagkvæmni (nokkuð sem er reyndar kannski víkjandi breyta í ríkisstýrðu og búvörusamningsknúnu– og vörðu samhengi).

Til að stýra og hafa yfirsýn yfir ferlið skipta sveitastjórnir hreppum og öðrum skilgreindum landsbyggðarumdæmum í fjallskiladeildir og innan hverrar slíkrar er kosin fjallskilanefnd sem sér um framkvæmd fjallskila og tekur ákvarðanir um fjallskil á sínu fjallskilasvæði. Starf þetta er fjármagnað að heild eða hluta af fjárskilasjóði en innistæður þar koma meðal annars til af greiðslum fyrir andvirði óskilafés.

Þessu vindur fram á landsvæði sem skiptist í tvennt, og er þar um afréttir og heimalönd að ræða. Aðgreiningin virðist skýr en vill þó stundum vera dálítið á reiki. Segir til dæmis á einum stað í fjallaskilasamþykkt vestur–Skaftafellssýslu um afréttir:

það skulu vera afréttir sem að fornu hafa verið“.

Samþykktin vísar sum sé ekki til neinna annarra skilgreininga en sögunnar, þess sem verið hefur. Ekkert er hins vegar jafn undirorpið túlkunum og sagan. Fjáreigandi hefur síðan upprekstrarrétt í ákveðið afréttarsvæði en stjórnar því ekki frekar, og hefur til að mynda ekki leyfi til að bjóða öðrum fjáreigendum að koma þangað með sitt fé.

Það er hins vegar ekki nefnd eða deild sem ábyrgð ber á öllu þessu þegar á vettvang er komið, nei, þar er það fjallkóngurinn sem horft er til, leiðtoginn í göngum og leit. Að vera fjallkóngur er ábyrgðarhlutverk. Titill kvikmyndar Guðmundar Bergkvist leggur enda áherslu á það, en strax þar vakna spurningar, og kvikna þær af fleirtölumynd orðsins. Engar samþykktir eða ákvæði, hefðir eða venjur, eru til sem nefna fjallkónginn í fleirtölu og tala um fjallkónga.

Skaftfellskur sveitasinfónn

Mynd Guðmundar birtir mynd af lífsháttum og persónuleikum, samskiptum og búvenjum. Áðurnefnd náttúrufegurð er bakgrunnurinn fyrir daglegt líf fólksins í sveitinni. Í meðförum Guðmundar verður náttúran og fegurð hennar reyndar meira en bakgrunnur. Hún er lífheimurinn, uppspretta lífsviðurværis, minnisvarði um liðna tíð og forfeðurna, sögu og uppruna, og í sumum tilvikum, málstaður til að berjast fyrir.

Hið síðastnefnda vísar til Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur, einyrkja á Ljótarstöðum í Skaftártungu, en hún meðal lykilviðmælenda í myndinni. Það gerðist svo eftir að tökum lauk en áður en myndin var frumsýnd að Heiða varð landsfræg. Bók Steinunnar Sigurðardóttur, Heiða – Fjalldalabóndinn, kom út síðastliðið haust og naut mikilla vinsælda, en eins og titillinn gefur til kynna er áðurnefnd Heiða viðfangsefni verksins, líf hennar, fortíð, bændastörf en sérstaklega umhverfisbarátta. Heiða hefur reynst atkvæðamikill baráttumaður gegn virkjunarframkvæmdum í sinni sveit, en slíkar hugmyndir voru heldur betur áformaðar. Þessi barátta hefur átt hug hennar allan um langt skeið. Þá er bakgrunnur Heiðu annar en oftast er með bónda. Um tíma starfaði hún t.a.m. fyrirsæta í New York, eða eins og hún segir sjálf: „Fólk hugsar um bóndann sem karl. Skítugan karl í samfestingi með húfu. En bændur eru aðeins fjölbreyttari heldur en ímyndin gefur til kynna.“

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir – Fjalldalabóndinn – ræðir við leikstjórann/tökuvélina/áhorfandann um umhverfissjónarmið sín og heimssýn.

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir í sjónvarpsþættinum Kiljunni sl. haust.

Er Heiða bóndi á Ljótarstöðum mesti kvenkostur sem nú er uppi á Íslandi?“, spyr Stefán Jón Hafstein í umfjöllun um ævisögulegt verk Steinunnar, og meinar það auðvitað sem hrós þótt velta megi fyrir sér hvort þar sé ekki jafnframt litið fram hjá þeirri margítrekuðu ákvörðun Heiðu að búa ein. Hverju sem því líður heillaði Heiða þjóðina ekki minna en Stefán Jón þegar bókin kom út. Sama er uppi á teningnum í Fjallkóngum. Heiða er ein minnistæðasta persóna myndarinnar, blátt áfram og heillandi, og heldur sínum hugsjónum og sinni baráttu á lofti yfirveguð en innblásin.

Náttúrublæti

Í Fjallkóngum er náttúran ekki blætisgerð, eins og löng hefð er fyrir að gera í íslenskum kvikmyndum, og er þar átt við að sýna hana að því er virðist að tilefnislausu (nokkru sem líkja má við náttúruklám) eða það að náttúran er látin drottna yfir frásögninni og áskapa henni um leið viðbótarmerkingu, tákna upphafið skynsvið eða handanbláma djúpspekinnar; miðla merkingu sem frásögnina kann í einhverjum skilningi að skorta. Náttúrunni er með öðrum orðum ekki umbreytt í frásagnarlegu klisjuna sem Birna Bjarnadóttir hefur lýst sem eins konar lögmáli í hérlendri kvikmyndagerð:

Ægivald náttúru landsins trónir yfir sköpun innra lífs. Helsta birtingarmynd þessa lögmáls er skugginn sem náið samband tökuvélar og náttúru landsins framkallar, skuggi sem hvílir oftar en ekki yfir til tilfinningalífi persóna. Í stuttu máli líða persónur og áhorfendur innri skort meðan gælt er við skynlausa náttúruna.³

Í tilvikunum sem Birna vísar í er náttúran látin sjá um að „framsetja“ innra líf persóna, jafnvel „skapa“ það með tilfærslu á merkingarlegri hleðslu stórbrotinnar náttúrusýnar, og á það jafnt við frásagnarmyndir og heimildarmyndir. Slík stílbrögð eru í grunninn tilraun til að virkja stórt og mikið mengi hugmynda eða skynhrifa (gæti eins verið kenningakerfi, trúarbrögð eða hugtök eins og „frelsi“, gullöldin“, „náttúrulegt líf“ eða „móðurjörðin“) og sjást oft og tíðum. Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami hefur til að mynda áratugum saman leitast við að láta lágstemmda og óljóst ívísaða handanheimatilvist virka sem merkingarþrungið táknmið sagna sinna, með sífellt dvínandi árangri. Michelangelo Antonioni afhenti eyðilegu svart hvítu landslagi prókúru fyrir persónusköpun í myndum sínum í allmörg ár og hugvísindafólk virðist stundum halda að heimildatilvísun sé rökstuðningur, einkum ef vísunin er í stórt kenningakerfi. Allt ber þetta að sama brunni, eitthvað skortir, maður styttir sér leið.

Í fyrstu gæti mynd Guðmundar virst augljós kandídat í sögulegan og hugmyndalegan flokk lista– og hugverka sem blætisgera náttúruna (eða stór hugmyndakerfi) sem staðgengil fyrir inntak eða merkingu. Svo er þó ekki, eða svo fer ekki. Til þess er form kvikmyndarinnar of markvisst og áhugi á innra lífi þeirra sem fylgst er með of einlægur, innra lífi þess sem og venslum og samböndum. En áður en lengra er haldið gæti verið gagnlegt að huga örlítið að ákveðnum grunneigindum heimildarmyndaformsins – og því hversu gæfusamur Guðmundur Bergkvist reyndist í vissum skilningi vera við gerð myndarinnar.

„Lífið á sér stað meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön“

Heimildarmyndir eru jafnólíkar og þær eru margar en algengt er að fólk og mannleg örlög séu í forgrunni, og þá jafnframt samskipti og viðburðir af einhverju tagi. Sýn kvikmyndagerðarfólksins og formrænir þættir, miðlunin með öðrum orðum, móta svo útkomuna með afgerandi hætti. Eftir stendur að nálgun á borð við þá sem gefur að líta í Fjallkóngum má kenna við einn af meginstraumum heimildarmyndaformsins. Viðhorf aðstandenda myndarinnar virðist býsna hlutlaust, fólkið sem um er fjallað er í forgrunni og ákveðinn upplýsinga– og fróðleiksbragur er á efnistökunum: „Svona lifa þessir einstaklingar; svona hugsa þeir, og því vindur fram í þessu umhverfi undir þessum kringumstæðum. Og svo gerist þetta, og næst þetta.“

Við gerð heimildarmyndar eins og Fjallkónga er með öðrum orðum fylgst með ákveðnum einstaklingi eða hópi fólks á ákveðnu tímabili þannig að líf þeirra og nærumhverfi mótar og myndar þungamiðju atburðarásarinnar.

Stundum velti ég fyrir mér hvort spurningin „hvað ef ekkert gerist?“ hvarfli einhvern tíma að þeim sem í gerð svona mynda ráðast, bæði áður en framleiðsluferlið hefst og meðan á því stendur. Með þessu á ég ekki við að búist sé við stórkostlegum hvörfum eða vonast sé eftir bíóhasar; oftast, eða svo ímynda ég mér, telur kvikmyndagerðarmaðurinn sig sjá eitthvað „nú þegar“ í viðfangsefninu, eitthvað sem sé innbyggt í það sem kallar á athygli, umræðu og framsetningu.

En því fylgir væntanlega að um sé að ræða iðju af einhverju tagi, eða að tilteknum lífheimi hafi í upphafi verið veitt athygli, sem til standi að festa á filmu. En hvað þá ef leikstjórinn eða framleiðandinn verða svo fyrir vonbrigðum? Ef viðfangsefnið raðar sér ekki upp eins og við var búist, viðfangið hagar sér ekki samkvæmt áætlun og fyrirframgefnum upplýsingum, bregður út af venjunni, eða eitthvað sem ekki var vitað dúkkar upp? Hvað ef fréttist af fjölskyldu sem leitast við að nanóbreyta þangi í hreina orku, og ákveðið er að ráðast í gerð heimildarmyndar um fjölskylduna og framtakið, en svo væri sú ákvörðun skyndilega tekin að kvæðinu skuli undið í kross og í staðinn fyrir að sinna þangvinnunni eins og til var ætlast gengur fjölskyldan í klaustur. Langsótt vissulega, en það byrgir enginn brunninn, eða klaustursdyrnar, eftir á – kvikmynd um þangbreyti og lausn við umhverfisvánni verður í besta falli mynd um það hvernig vísindi víkja fyrir trúaruppljómun. Nú, ekki er óhugsandi að sú mynd reynist betri en sú sem lagt var upp með, en óvissan sem hér um ræðir, það hvernig heimildarmyndarverkefnið er undirorpið veruleikanum á óumflýjanlegan hátt, segir okkur heilmikið um formið.

Þá er jafnframt hægt að ímynda sér að meðan á gerð heimildarmyndar stendur sé ekkert lát á viðburðum, og þeir reynist hver öðrum epískari og passi eins og flís við rassinn á upphaflegu áætluninni, en útkoman sé samt ekki ásættanleg. Þótt umbreytingarnar á þanginu séu undraverðar – í þessari sviðsmynd gengur fjölskyldan ekki í klaustur heldur stendur vaktina við nanóvinnuna – kann stirðleiki, fát og eitthvað sem líkist klaufaskap, sem í fyrstu var álitið feimniseinkenni gagnvart myndavélum, ekkert að rjátla af fólkinu. Ljóst verður aftur að myndin stefnir í skipbrot. Sumum líður ekki vel fyrir framan myndavél og mun aldrei gera. Aðrir kunna að hafa ákveðið mikið að segja og fátt í viðbót, eða láta í ljós skoðanir sem ekki var ráð fyrir gert, en neita að láta af þeim. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að klippa efni mikið til og skeyta saman til að umbreyta ásýnd og áru fólks.

Sömuleiðis getur það hent að þrátt fyrir góðan vilja og frábæra hugmynd og náðarsamlegt samstarf við hlutaðeigandi aðila þá vanti „neistann“ þegar myndunum er varpað á tjaldið. Heimildarmynd getur með öðrum orðum tekið fullkomna u-beygju meðan á framleiðslu stendur, og þá verður kvikmyndagerðarfólkið jafnframt að vera nægilega frátt á fæti til að fylgja viðsnúningnum eftir. Í þessum skilningi er heimildarmyndagerð í grunnatriðum ekki á valdi kvikmyndagerðarfólksins. Í öllu falli eru þær það ekki á sama hátt og leiknar frásagnarmyndir, sem eru skipulögð framkvæmd, þær má kortleggja fyrirfram, allt niður í smæstu smáatriði. Frægt er til dæmis að bresk–bandaríski leikstjórinn Alfred Hitchcock undirbjó tökur svo nákvæmlega fyrirfram að sjálf framkvæmdin var í hans huga aukaatriði; mikilvæga vinnan hafði farið fram áður en tökuvélarnar rúlluðu. Þessu er þveröfugt farið í tilviki heimildarmynda.

Fagurfræði hins hverfula andartaks: Heimildir og hermilíki

Vandasamt er með öðrum orðum að fást við raunveruleikann í öllum sínum truflandi mikilfengleika, hvimleiða fyrirsjáanleika og rásandi smámunasemi. Og það er jú veruleikinn sem nafninu samkvæmt er hráefni heimildarmyndarinnar – hvort sem heimildarmynd byggir á heimildum eða ekki, nokkuð sem fleirtölumynd orðsins gefur í skyn og ber því að forðast, því heimildir eru sjaldnast uppistaða heimildarmynda. En þótt heimildir í hefðbundnum skilningi þess orð reynist sjaldgæft hráefni í heimildarmyndum er staðreyndin sú að sjálf heimildarmyndin reynist ávallt heimild um eitthvað þegar upp er staðið, hún er heimild um viðfangsefnið. Þess vegna er heimildaRmyndar–errið mikilvægt.

Í þessu samhengi eru hefðbundin afleidd starfssvið frásagnarmyndarinnar vitnisburður um herinn af fagmönnum sem þarf ef ætlunin er að stoppa í eyðuna sem veruleikinn skilur eftir sig: sviðsmynd, tölvugrafík, leikarar, statistar, handrit, æfingartímabil, leikmunir, búningar, förðun, fjöldi tökuvéla, ljósamenn, rafmagnsmenn, allskonar menn, fegurðarbransi og stjörnukerfi, markaðsáætlanir og samningar við dreifingaraðila, útlenska markaðssvæðasölu og svo framvegis. Sumt af þessu spilar vitanlega inn í framleiðslu og dreifingarferli heimildarmynda en sjaldan í sama mæli og af jafn miklum þunga og í tilviki frásagnarmynda.

Það er ódýrara að kvikmynda raunveruleikann en að búa til hermilíki lifaðs veruleika með aðstoð fagfólksins sem nefnt er hér að ofan. Gallinn er hins vegar að þegar maður er með hann í sigtinu, veruleikann það er að segja, er oft erfitt að segja fyrir um hvað gerist – hvort búin verður til umhverfismálamynd um nanótækni og þang eða klaustursfaramynd.

Fjallkóngur

Leikstjórinn er kannski ávallt fjallkóngur þess töfrafalls sem leitast er við að skapa í kvikmynd, og ætla má að Guðmundur Bergkvist hafi verið búinn að skilgreina fyrir sjálfum sér og sínu fólki viðfangsefni sem að hans og þeirra mati myndi frá byrjun teljast áhugavert. Viðfangsefni sem án nokkurra skreytinga eða viðbóta bjó yfir hrifmagni, og vafalaust er það rétt; hinir ólíku þættir landsbyggðarlífsins hafa jafnan heillað hérlent kvikmyndagerðarfólk og áhorfendur. Í þessu tilviki hefur fullvissan um óhemjulega náttúrufegurð svæðisins í kringum Vatnajökul eflaust ekki skemmt fyrir.

En eins og minnst er á hér að ofan getur alltaf brugðið til beggja vona þegar ráðist er í heimildarmyndagerð. Gæfan reyndist hins vegar vera með leikstjóranum á sama tíma og hún er kannski ekki með sumum þeim sem fram koma í myndinni sjálfri; það er jú í eðli dramatískra viðburða, átaka og ólgu sem brýst fram eftir að hafa kraumað undir yfirborðinu, að slíkar sviptingar vilja særa og skaða og skapa óvild, brýr eru brenndar og lífið breytist. En þar er líka dramatíkin.

Allt kemur þetta saman í myndinni í formi Gísla Halldórs Magnússonar, sitjandi fjallkóngi til áratuga, sem áhorfendur kynnast um leið og myndin hefst. Gísli Halldór, oftast kallaður Dóri, er stór og mikil persóna, skarpir andlitsdrættir tróna ofan á driftugum og grönnum, samanspenntum líkama; hér er bóndi sem er yfirvegaður en ákveðinn, með munninn fyrir neðan nefið, kann að svara fyrir sig, hefur útgeislun. Auðvelt er að sjá af hverju Gísli Halldór hefur heillað leikstjórann og hugsanlega verið sá fasti og öruggi punktur sem þurfti að vera til staðar þegar lagt var af stað í upphafi með gerð myndarinnar.

Þegar skammt er liðið á mynd birtist texti birtist texti á myndfletinum sem útskýrir hlutverk fjallkóngsins:


„Fjallkóngur nefnist sá sem stjórnar smölun og afrétti að hausti. Foringi gangnamanna er ráðinn til starfsins af fjallskilanefnd sveitar eða hrepps og ber hann ábyrgð á mannskap og framkvæmd smölunar.“ – segir á spjaldinu. Fjallkóngurinn ræður hverjir smala hvar, hann getur deilt svæðum niður milli manna, og hann stjórnar í raun hvaða verklag stuðst er við og skipuleggur dagana og skiptir þá engu hvort vel gengur eða illa. Hann hefur einnig sitt að segja um það hvenær sleppt er og hvenær sótt er.

Vangaveltur Gísla um starf fjallkóngsins sýna að honum er skýrlega umhugað um að vera við öllu búinn og að öryggisatriði séu í lagi. Þegar allt gengur vel, bendir hann á, hættir fólki til að gleyma hversu skjótt veður skipast í lofti. Ef menn eru ekki nógu vel búnir kárnar gamanið fljótt þegar veðurguðirnir sýna á sér skapstyggu hliðina. Óhöpp gera heldur ekki boð á undan sér, líkt og leikstjóri myndarinnar, Guðmundur Bergkvist, getur staðfest en hann lenti í lífshættulegu slysi við tökur þegar fjórhjól sem hann ók fauk út af veginum. Við þetta má svo bæta að samkvæmt fornum fróðleiksmolum sem varðveittir eru í Sauðfjársetrinu veltur sjaldan jafn mikið á leiðtogahæfileikum fjallkóngsins og þegar leitarhópurinn lendir í „bardaga við útilegumenn eða tröll“. Ýmislegt getur með öðrum orðum komið fyrir í göngum.

En Gísla Halldóri er svo sem ekki hlátur í huga þegar hann ræðir þessi mál: „Ég hef verið mjög heppinn í þessu starfi mínu sem fjallkóngur. Það hefur sloppið við slysfarir og það er ekkert eingefið að það gerist.“

Kímni myndarinnar og glögg myndskipan birtist svo skýrt í tilvikum eins og þeim þegar Gísli segist svo sem aldrei hafa farið troðnar slóðir. Eins og rætt var hér að framan er hljóðrásin ekki bundin viðtalsforminu og meðan þessi orð hljóma sést Gísli vaða stríða á, eins og til að undirstrika það sem hann segir um sjálfan sig.

Form og innihald

Það er hins vegar í síðari hluta myndarinnar sem aukinn dramatískur þungi færist í persónulegu sögu Gísla. Í ljós kemur að í sveitinni hefur óánægja kraumað undirniðri með eitt og annað varðandi störf hans í sveitinni. Líkt og nefnt er hér að ofan þá brýst óánægjan fram skyndilega, Gísla sjálfum alveg að óvörum. Birtingarmyndin er líka vafningalaus. Gísla er formlega sagt upp sem fjallkóngi, enda þótt störf hans sem slíks hafi sennilega haft minnst með umrótið að gera, og er slík aðgerð einsdæmi að hans sögn í sögu fjallakónga í þessu héraði. Inn í þessa héraðsbundnu atburðarás fléttast persónulegur knekkur en í sama atriði og uppsögnin er rædd kemur í ljós að langt hjónaband Gísla hefur jafnframt liðið undir lok. Atriðið í Fjallkóngum þegar þessi viðkvæmu mál eru rædd er magnað og marglaga, átökunum sem eiga sér stað í myndrammanum vindur fram á nokkrum ólíkum plönum, ekki síst vegna þess að fyrrum eiginkona Gísla kemur óvænt inn um dyrnar meðan málin eru rædd, en upptakan er ekki stoppuð. Persónulegar sviptingar sem þessar eru auðvitað ekki auðveldar fyrir fólkið sem í þeim stendur, en fleytir vissulega óvæntri dramatík inn í kvikmyndina sem verið er að búa til.

Eins og minnst hefur verið á er form myndarinnar um margt forvitnilegt. Bæði er ljóst að Guðmundur og hans teymi hefur haft afskaplega gott auga fyrir staðsetningu tökuvélarinnar þegar atriði eru mynduð, en sjónarhorn eru fjölbreytileg og oft mjög óvanaleg. Lágir tökuvinsklar gefa til að mynda atriðum sem að öðru leyti væru kannski ekki óvenjuleg afar sérstakt yfirbragð og stýra augum áhorfanda í átt að allt að því framandlegri sýn á sveitalífið. Hér að neðan eru nokkur dæmi um þessa notkun á lágum tökuvinklum.

Í andstöðu við skot á borð við þessi eru önnur sem umbreyta sjónarhorninu með því að taka úr mikilli hæð. Útkoman er dýnamísk togstreita sem opnar sjónheim myndarinnar fyrir fjölbreyttri umhverfis– og rýmisskynjun.

Fjallið heilaga og menningarþokan

Fjallkóngar er afskaplega vel unnin heimildarmynd sem bæði bregður frá og vinnur innan fyrirliggjandi hefðar. Í upphafi var hugað að titli myndarinnar og ekki er úr vegi að gera það einnig í lokaorðunum. Sumum kann að verða hugsað til fjallsins sem vakir yfir flóanum með kyrrlátu langlundargeði, Esjunnar, en það eru nú kannski helst borgarbörnin. Hvað kvikmyndir varðar er rétt að minnast þess að kvikmyndagerð hér á landi tók sínu fyrstu skref í fjöllum og er þar átt við Fjalla–Eyvind (1918) eftir Victor Sjöström. Glöggir kvikmyndaáhugamenn kunna einnig að minnast þýskrar kvikmyndagreinar sem átti sín sokkabandsár fyrir kannski tæpum áttatíu árum, en greinin kennir sig við sama landafræðilega fyrirbæri og mynd Guðmundar. Hér er því um „fjallamyndina“ [þý. Bergfilme] svo kallaða að ræða, en myndir þessar greindu jafnan frá fræknu og fjallmyndarlegu fjallgöngufólki á ferð um Alpanna og öllu vindur fram í anda sannrar íþróttamennsku þar til einhvers konar ógn, ekki ósjaldan veðurfarsleg, sviptir persónurnar öryggi sínu; nú verður að berjast, og klifra, fyrir lífi sínu . Sköpulag þessarar kvikmyndagreinar einkenndist ávallt af órakenndri menningarþoku síð-Weimar tímabilsins, þetta voru ævintýri frá annarri öld. Þótt „fjallamyndin“ sé ekki lengur til í sinni upprunalegu mynd er fjallið sjálft með miðlægari táknmyndum vestrænnar menningar, líkt og Alejandro Jodorowski dregur fram í titli sinnar þekktustu kvikmyndar, Fjallið heilaga (La montaña sagrada, 1973), og Gunnar Gunnarsson rithöfundur gerði nokkrum áratugum fyrr þegar hann nýtti fjallsmyndina til að bæði festa og víkka táknræna merkingu nafngiftar sinnar ástsælustu skáldsögu, Fjallkirkjunnar (1941–1943). Lengra mætti auðvitað halda með tengingar og skírskotanir, innan jafnt sem utan kvikmyndasögunnar, en við látum hér staðar numið. Fjallkóngar eftir Guðmund Bergkvist fjallar um lífheim sem fylgt hefur þjóðinni frá örófi alda, náttúröfl sem sjaldan hafa verið ábyggjendum landsins vinsamleg, en þó nógu vinsamleg til að hægt hefur verið að framfleyta fámennri þjóð. Fólkinu sem ræktar landið í eiginlegum og óeiginlegum skilningi er hér gerð skil á fallegan og skilningsríkan hátt og eftir stendur kvikmyndaverk sem opnar augu áhorfenda fyrir fegurð og togstreitu, áföllum og umhverfinu.

Aftanmálsgreinar:

  1. Björn Ægir Norðfjörð: „Einsleit endurreisn. Íslenskar heimildamyndir á nýrri öld“, Saga, 46. árgangur 2008, 2. Tölublað, bls. 124.
  2. Sama heimild, bls. 124.
  3. Birna Bjarnadóttir, „Náttúra tilfinninga í íslenskum kvikmyndum“, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Forlagið og art.is, bls. 937.
Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila