Klara Hödd Ásgrímsdóttir sá Visages, Villages – eða Faces Places – og gaf engar stjörnur.

Faces Places eða Visages, Villages eins og hún heitir upprunalega er ný heimildarmynd um samstarfsverkefni belgísku kvikmyndagerðarkonunnar Agnés Varda og franska ljósmyndarans og götulistamannsins JR. Á milli þeirra er 55 ára aldursmunur, hún er 89 ára gömul og hann er 34 ára. Þetta kann að vera óvenjulegt teymi en gengur fullkomnlega upp í myndinni. Agnés Varda var einn af mikilvægustu leikstjórum frönsku nýbylgjunnar og hefur verið að gera kvikmyndir síðan árið 1954. JR er hins vegar þekktur fyrir að líma stórar „portrett“ ljósmyndir á opinberar staðsetningar eins og til dæmis utan á byggingar. Í upphafi er stefna þeirra og myndarinnar ekki skýr en þau eru þó með eitt sameiginlegt markmið og það er að sjá ný andlit.

Agnés Varda og JR eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á fólki, ljósmyndum af fólki og finnast andlit afskaplega merkingarbær fyrirbrigði. Í kvikmyndinni Faces Places keyra þau á milli bæja í frönsku sveitinni, hitta fólk og taka af þeim myndir. Bakvið hverja ljósmynd er manneskja sem hefur sína sögu að segja og þarna er rödd og ásýnd hins almenna borgara gefið vægi. Raunverulegt, venjulegt fólk sem hefur engin völd. Áhorfendur fá að heyra sögu þeirra og hreinar tilfinningar eru fangaðar af myndavélinni og með því móti snertir frásögnin við áhorfendunum. Íbúarnir eru sýndir eins og þeir eru í raun og það er enginn að reyna að vera neitt annað en þeir sjálfir. Bæirnir sem þau heimsækja eru litlir og jafnvel óþekktir. JR og Agnés Varda leita að fegurðinni á hverjum stað og finna viðfangsefni eða fólk sem hefur sögu sem gerir tiltekinn bæ sérstakan. Flestir hefðu kannski keyrt framhjá þessum litlu bæjum en þau sýna okkur að inn á milli leynast gullmolar. Í gegnum kvikmyndina sýna þau fram á að það er hægt að nálgast hvern sem er og hvað sem er ef vilji og þolinmæði til þess að hlusta og vera opinn er með í för.

Ljósmyndirnar eru prentaðar og límdar á byggingar ýmist til þess að heiðra minningu fólksins sem þar bjó eða til þess að koma yfirlýsingu á framfæri. Það er alltaf einhver tilgangur. Hver og ein mynd öðlast dýpri merkingu við það eitt að vera á þeim stað eða byggingu sem ákveðið er að líma myndina á. Ljósmyndirnar eru þó einungis úr pappír og festar með lími og er listaverkinu því ekki ætlað að vera um kyrrt að eilífu. Eins og við komumst að í myndinni er það sjórinn, sandurinn og vindurinn sem eiga síðasta orðið.

Í kvikmyndinni skín áhugi Agnésar á fólki og umfram allt lífinu sjálfu í gegn. Fyrst og fremst er hún forvitin. Sýn hennar á heiminn og fólk er falleg og það er hægt að læra margt af Agnési Vördu. Hún tekur lífinu ekki of alvarlega og síst af öllu sjálfa sig. Hún veitir aldri sínum fyrir sér, sjónin er farin að hrörna en hún hefur húmor fyrir því með einlægni og hreinskilni. Í staðinn fyrir að skammast sín eða vera leið yfir því snýr hún því uppí listaverk með hjálp JR en hann er duglegur að spyrja Agnési spjörunum úr varðandi hluti eins og líf, dauða og list. Fyrst minnst hefur verið á dauðann er vert að taka fram að þar er á ferðinni umræðuefni sem Agnés horfist í augu við með jafnaðargeði. Myndin er ekki síður um vináttu þeirra Agnésar Vördu og JR. Áhorfendur kynnast vinasambandi þeirra á sama tíma og þau sjálf kynnast hvort öðru. Samtölin þeirra um lífið og tilveruna setja mikinn svip á kvikmyndina og styrkja vinaböndin með hverju samtalinu.

Kvikmyndin snertir á femínisma og umhverfismálum og fær áhorfendur til þess að hugsa um umhverfið og neysluna. Græðgin sem ríkir gjarnan í nútímasamfélagi er gagnrýnd og konum er gefið vægi á stöðum þar sem karlmenn ráða ríkjum. Í gegnum kvikmyndina minnist Agnés Varda liðinna tíma, bæði í verkum sínum og bæjum sem þau heimsækja. Einn liður í því er að mæla sér mót við engan annan en frönsku goðsögnina Jean-Luc Godard sem var upphafsmaður frönsku nýbylgjunnar og góðvinur Agnésar til margra ára. Hans hlutverk í myndinni setur svip á framvindu myndarinnar og hún tekur óvænta stefnu í lokin. Godard bætir einhverju við myndina án þess að koma að henni og Agnés og JR leyfa því að vera.

Faces Places kemur fyrir sjónir áhorfenda á tíma þegar nútímamaðurinn er límdur við skjáinn og á það til að gleyma sér í símanum, á samfélagsmiðlum eða öðru. Agnés Varda minnir mann á að njóta þess að hittast, hlusta á hvort annað og tala saman. Að sjá fegurð hvert sem þú horfir og leyfa sér að staldra við um stund. Sætta sig við það sem maður hefur og vera sáttur í eigin skinni. Myndin er umfram allt einlæg og skilaboðin eru skýr. Komum til dyranna eins og við erum klædd og munum að hver manneskja er sérstök. Fögnum fortíðinni og látum hana ekki íþyngja okkur heldur fögnum lífinu og því sem það hefur upp á að bjóða.

Um höfundinn
Klara Hödd Ásgrímsdóttir

Klara Hödd Ásgrímsdóttir

Klara Hödd Ásgrímsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila