Er enn hægt að tala um Guð?

Í nýjustu bók sinni, Den sista grisen, skrifar Horace Engdahl rithöfundur, bókmenntafræðingur, gagnrýnandi og til skamms tíma ritari sænsku akademíunnar:

Fyrr á tíð var mögulegt að vísa til æðri dómstóls hvernig sem hann nú var skipaður. Fólk trúði á Guð, á andaheim, á forferðurna sem horfðu niður til okkar og mátu verk okkar. Ef einhver glímdi við samviskuna taldi hann sig heyra raddir af himni sem ásökuðu hann eða hughreystu, raddir sem hann gat einnig spurt í von um svar eða að minnsta kosti merkingarþrungna þögn sem lesa mátti í. Enginn þurfti að sætta sig við álit mannanna einna. En hvað gerum við þegar við höfum steypt öllum þessum æðri máttarvöldum af stóli? […] Ekkert svar við tilveruspurningum okkar er öðru betra þar sem enginn beinir okkur á réttar brautir. […] Maður gæti allt eins spurt gamla frænku.

Ummælin um frænkuna afhjúpa vissulega karlrembu enda er bókin skrifuð í kjölfar skilnaðar og fjallar öðrum þræði um átök kynjanna.

Er hægt að tala um Guð?

Það er þó annað sem situr í mér eftir lesturinn sem sé spurningin um hvort hægt sé að tala um Guð á merkingarbæran máta eftir að mytan og heimsmyndin sem fól í sér himnaríki og helvíti er liðin undir lok og afstæð veruleikaskynjun okkar er ein eftir. Eru þá ekki öll svör við stærstu gátum tilverunnar jafngóð og hægt að spyrja hvern sem er? — Þetta eru svo sem ekkert nýtt eða hvað segir ekki í kvæði Stephans G. um Jón hrak:

[…]
Hugði ei sannleik hóti betri
Hafðan eftir „Sankti“-Pétri
Heldr en ef svo hending tækist,
Húsgangurinn á hann rækist.

Hugsanlega lýsti Klettafjallaskáldið hér eigin afstöðu ekki síður en skáldbróður síns úr þjóðsögunni.

Heiðarleg tilraun

Hvað sem því líður hef ég kynnt a.m.k tvær tilraunir hér á Hugrás til að tala um Guð í nútímanum.

Önnur kemur fram í bók náttúrufræðingsins Bjarna E. Guðleifssonar, Öreindirnar, alheimurinn, lífið — og Guð (Hólar, 2016). Þar er gengið úr frá þeirri hugmynd að bæði raunvísindi og trú glími við og veiti svör við spurningunni um myndun alheimsins. Í glímunni við hana þurfi bæði að beita goðsögunni um sköpunina og kenningunni um miklahvell. Þegar þess er freistað að samþætta þannig heimsmynd trúarinnar og náttúruvísindanna er gripið til Guðs sem tilgátu eða leyndardóms þegar viðtekinni þekkingu vísindanna sleppir.

Höfnun Bonhoeffers

Þýski andspyrnuguðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer hafnaði öllum slíkum tilraunum til að sameina trú og vísindi. Hann vísaði því á bug til að hægt væri að grípa til Guðs sem lausnar á óráðnum gátum hvort heldur um uppruna alheimsins eða þess vegna merkingu rétts og rangs í siðferðilegum efnum. Hann leitaðist við að leggja grunn að guðfræði sem hæfði myndugum manni í veraldlegu samfélagi og snerist ekki eingöngu um hjálpræði einstaklingsins heldur fjallaði um framtíð gjörvalls mannkyns og alheimsins.

Það er einmitt slíkur kristndómur sem við þörfnumst nú á dögum þegar okkar bíður tvísýn framtíð í skugga loftslagsváar, fólksflutninga og vaxandi andstæða milli þeirra sem búa við allsnægtir og hinna sem líða skort.

Önnur tilraun

Hin tilraunin sem ég minntist á kemur fram í riti bandaríska guðfræðingsins Robs Bell sem heitir í íslenskri þýðingu Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð (Skálholtsútgáfan, 2016). Hann gengur líkt og Bjarni Guðleifsson út frá heimsmynd náttúruvísindanna og lítur svo á að Guð búi innst í „alheimsgeimi“, þ.e. í tómarúmminu milli smæstu eininga efnisheimsins eins og þeim er lýst í kjarneðlisfræðinni. Að hans mati á allt sér eina, sameiginlega uppsprettu og er því innilega tengt. Guð er þá upphafið, einingin eða tengslin hvernig svo sem við annars hugsum okkur þau.

Þriðja tilraunin

Hér skal bent á þriðju tilraunina til að ræða um Guð í samtímanum. Hún kemur fram í bók írsk, skoska jesúítaprestsins Gerards W. Hughes (1924–2014), Guð sem kemur á óvart , en hún kom út í íslenskri þýðingu Vigfúsar Ingvars Ingvarssonar í fyrra. Þetta er þó ekki ný bók heldur kom hún fyrst út á frummálinu 1985 og tvívegis eftir það síðast 2008.

Líkt og Bonhoeffer hafnar Hughes því að mögulegt sé að grípa til Guðs sem vinnutilgátu þegar vísindalegri þekkingu sleppir. Hann gengur þó feti lengra þegar hann bendir á að svo geti jafnvel farið að ekkert geri okkur blindari á Guð en trúin sem einnig geti gert okkur dauf fyrir innri víddum í tilveru okkar sjálfra. Hið sama kemur fram þegar Hughes varar við trúhneigðinn sem getur valdið því að fólk fyllist af tortryggni og fordæmi alla sem ógna öryggi þess í trúarefnum og líti á gagrýnendur sína sem guðleysingja og illmenni. Þessu skylt er gagnrýni Hughes á þá útilokunarhyggju sem margir trúmenn eru helteknir af þegar þeir líta svo á að þeirra kirkja, kirkjudeild eða trúarbrögð hafi einkaleyfi á sannleikanum. Þvert á móti slíkum tilhneigingum staðhæfir Hughes að Guð sé að starfi í öllum kristnum kirkjudeildum en jafnframt „[…] úti um allt innan trúarbragðanna og í hjörtum þeirra sem játa sig enga trú hafa.“ Hann telur engin trúarbrögð geta einokað Guð þótt flest þeirra reyni það og haldi því fram að án þess að fylgja þeim geti enginn orðið hólpin/n. Þá lítur hann svo á að Guð sé ekki að finna í trúarbrögðunum heldur í einlægum samskiptum okkar við annað fólk og heiminn umhverfis okkur.

Af þessu má sjá að Gerard W. Hughes var inni á nokkuð öðrum brautum en Bjarni Guðleifsson og Robb Bell í bókum sínum. Hann er ekki að glíma við spennuna milli guðstrúarinnar og kjarneðlisfræðinnar líkt og þeir heldur er guðfræði hans á sálfræðilegri og félagsfræðilegri brautum þótt hún sé þar fyrir alls ekki eingöngu mannhverf heldur jafnframt vistfræðileg eða eins og hann segir:

Við getum aðeins fundið Guð í tengslum okkar við annað fólk og með hjálp þess og sambands okkar við veröldina í kringum okkur. Við þörfnumst þess að elska og vera elskuð því það er aðeins í gegnum slíkt tengsl sem við getum kynnst Guði sem er kærleikur.

Þeir Bell og Bjarni beina lesendum sínum inn að minnstu byggingareiningum alheimsins í leit þeirra að Guði. Hughes beinir þeim frekar inn í fyglsni hugans þegar hann bendir á að við getum ekki lifað sem mannlegar verur nema við eygjum „einingu og meiningu“ í lífi okkar og að við verðum að hafa einhver áform með lífinu og eiga einhverja drauma um framtíðina auk hugmynda um hvernig þeir geti ræst. Þá bendir hann á að þegar við leitum fullnægingar á þessum frumlægu þörfum okkar verði fyrir okkur ýmislegt hulið og ógnvekjandi. Hann telur okkur nær Guði þegar við upplifum slíka dularfullu innri reynslu sem er bæði laðandi og ógnandi fremur en þegar við förum með formlegar bænir. Hughes lítur því á að Guð sé leyndardómur sem sé alltaf meiri og stærri en kirkjur eða trúarbrögð.

Vissulega má líta svo á að hér sé rætt um Guð sem kemur á óvart þegar við leitumst við að kynnst draumum okkar og þrám. Það má líka líta svo á að Gerard W. Hughes sé jesúíti sem kemur á óvart.

Heimildalisti:

 1. Horace Engdahl, Den sista grisen, Stokkhólmi: Alb. Bonniers förlag, 2016, bls. 262–263.
 2. Sjá Hjalti Hugason, Er hægt að tala um Guð? sótt 30. okt. 2017 af https://hugras.is/2016/09/er-haegt-ad-tala-um-gud/
 3. Stephan G. Stephansson, Andvökur II, Reykjavík: Nokkrir Íslendingar í Vesturheimi, 1909, bls. 153.
 4. Hjalti Hugason, Trú og vísindi sótt 30. okt. 2017 af https://hugras.is/2016/12/tru-og-visindi/
 5. Hjalti Hugason, Ekki lengur þörf fyrir guð — Guði sé lof! sótt 30. okt 2017 af http://tru.is/pistlar/2010/09/ekki-lengur-thorf-fyrir-gud
 6. Hjalti Hugason, Öðruvísi stríðsárabók sótt 30. okt. 2017 af https://hugras.is/2016/01/odruvisi-stridsarasaga/
 7. Hjalti Hugason, Er hægt að tala um Guð?
 8. Gerard W. Hughes, Guð sem kemur á óvart, án útgst.: Bókstafur, 2016, 200 bls. ( á ensku God of Surprises)
 9. Sama, bls. 26.
 10. Sama, bls. 100, 101.
 11. Sama, bls. 54.
 12. Sama, bls. 54.
 13. Sama, bls. 87.
 14. Sama, bls. 34, 35, 88.
 15. Sama, bls. 37.
 16. Sama, bls. 52–53.
Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila