Stuðlað að skáldi

Ævisögulega kvikmyndin Genius (2016, Michael Grandage) byggir á bókinni Max Perkins: Editor of Genius eftir A. Scott Berg og fjallar um ritstjórann Max Perkins sem ritstýrði m. a. þekktustu skáldverkum Thomas Wolfe, F. Scott Fitzgerald og Ernest Hemingway.  Myndin beinir sjónum fyrst og fremst að tilfinningaríku og stormasömu sambandi Perkins (Colin Firth) við rithöfundinn Thomas Wolfe (Jude Law) og hvernig vinátta þeirra og samstarf þróaðist í gegnum árin, eða allt fram að andláti þess síðarnefnda.

Útlit myndarinnar og yfirbragð ber strax í upphafi merki um staðsetninguna og tímabilið, New York borg á krepputímanum, með raunsærri notkun á brúnleitum jarðartónum sem eru ráðandi jafnt í litabyggingu sem og í leikmyndar- og búningahönnuninni.

Max Perkins er kynntur til sögunnar sem hinn virðulegi, rólyndislegi ritstjóri sem er með allt líf sitt í föstum skorðum. Í fyrsta sinn sem hann kemur fram sést hvar hann situr inni á skrifstofunni sinni og mundar rauða pennann. Í bókahillu fyrir aftan hann sjást öll helstu verk þekktustu rithöfunda þess tíma, Hemingway og Fitzgerald, bækur sem Perkins sjálfur hefur ritstýrt og hefur í hávegum.

Wolfe er aftur á móti eins og stormsveipur; hávaðasamur, sítalandi, á stöðugu iði, illa til fara og stundum (einkum síðar meir) drukkinn. Einkalíf hans er brotakennt og sviptingasamt, líkt og skapgerðin. Það eina sem virðist drífa hann áfram í lífinu er tilhugsunin um að fá bókina sína einhvern tíman gefna út. Hann er með óbilandi þörf fyrir að fá að segja sögu sína.

Samband mannanna tveggja hefst áður en þeir hittast, þegar Perkins fær í hendurnar handrit sem áður hefur verið hafnað af flestum öðrum útgefendum borgarinnar. Fyrstu línurnar grípa hann samstundis og eyðir hann allri lestarferðinni heim úr vinnunni niðursokkinn í lestur. Athygli vekur að titill myndarinnar kemur ekki fram fyrr en í téðri lestarferð, þegar rúmlega tíu mínútur eru liðnar af myndinni. Um leið og Perkins lítur örstutt upp úr blaðabunkanum, horfir í myndavélina og brosir með sjálfum sér, birtist titillinn við hlið hans nánast eins og orðið „genius“ (eða snillingur) sé nákvæmlega það sem hann er að hugsa við lestur handritsins.

Perkins og Wolfe eru andstæður en þó er eitthvað sem dregur þá hvorn að öðrum. Þeir virðast finna hvorn annan þegar þeir eru hvor um sig að ganga í gegnum einhvers konar tilvistarkrísu. Wolfe hefur efasemdir um hæfileika sína sem rithöfundur og um samfélagslegt gagn bókmennta almennt og Perkins hefur áhyggjur af því að með ritstjórnarafskiptum sínum sé hann frekar að eyðileggja bókmenntaverk en að gera þau betri.

Perkins tekur Wolfe undir sinn ritstjórnarvæng og saman takast þeir á við hið gríðarmikla verk að ritstýra fyrstu tveimur bókum Wolfe, lesa þær yfir, skera niður og fínpússa og er þetta ferli sýnt með hjálp myndfléttuskeiða (e. montage) sem eru listilega römmuð inn og undirstrikuð með nærmyndaskotum af hinum alræmda “rauða penna” Perkins sem þeysist yfir texta handritsins.

Á vissan hátt mætti segja að samband Perkins og Wolfe sé eins konar mannlegt ritstýringarferli að því leyti að vinátta þeirra snýst að miklu leyti um að gera hvorn annan að betri manneskjum með því að bera kennsl á vankanta hvors annars og koma með tillögur að því hvernig þeir geti bætt sig, hvort sem það er gert á uppbyggilegan og vinsamlegan hátt eða með því að grípa til harkalegs raunveruleikatékks.

Atriðið sem helst dregur þessa hlið vináttunnar fram er þegar Wolfe fer með Perkins inn á djassklúbb þrátt fyrir lágstemmda vanþóknun hins síðarnefnda sem segist ekki vera mikið fyrir djass en kjósi frekar að hlusta á góða vísnatónlist. Wolfe biður hljómsveitina að skella í djassaða útfærslu af uppáhaldslagi Perkins og úr verður eitthvað alveg nýtt og snilldarlegt sem allir gestir klúbbsins sameinast í að njóta. Þarna hlýtur Perkins einnig nýja innsýn í það móderníska umbyltingarstarf sem Wolfe telur sig vera að inna af hendi sem skáld, að „riffa“ með hefðbundin tjáningarform og skynjun.

Myndin í heild er svo innrömmuð á athyglisverðan hátt af tveimur skimskotum af bókahillu inni á skrifstofu Perkins sem hefur að geyma þau bókmenntaverk sem hann hefur í hávegum. Í byrjunaratriðinu má sjá þar verk Hemingways og Fitzgeralds í löngum röðum, en í lokaatriðinu hafa doðrantar Wolfes bæst í safnið og taka upp mesta pássið í skotinu líkt og til að leggja áherslu á plássið sem Wolfe tók í lífi Perkins.

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Gunnhildur Ægisdóttir

Gunnhildur Ægisdóttir

Gunnhildur Ægisdóttir er nemandi í kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila