Málverk á krossgötum

Katrín Matthíasdóttir
Listasýning
Norræna húsið – anddyri
14. janúar til 8. febrúar 2017
Nú stendur yfir sýning á verkum eftir Katrínu Matthíasdóttur í anddyri Norræna hússins. Katrín sótti námskeið í málaralist í Listaskóla Kópavogs á árunum 2007-2010 samanber vefsíðu listakonunnar og útskrifaðist áður með MA próf í þýsku og norrænum fræðum frá Ludwig-Maximilian háskólanum í  München.

Húsnæði Norræna hússins er glæsileg hönnun hins finnska arkitekts Alvars Aalto (1898-1976) en rýmið, anddyrið, hentar illa til þess að halda þar málverkasýningar enda víða þröngt milli veggja og ekki um eiginlegan sýningarsal að ræða. Tvö verkanna eru nánast inni í fatahengi, annað er utan í vegg fatahengis.  Milli verka eru opnar hurðir, meðal annars inn á skrifstofu starfsmanna hússins, sem dregur athyglina frá verkunum. Sum verk eru á þröngum göngum og því varla hægt að virða verkin fyrir sér úr neinni fjarlægð. Verkin njóta sín alls ekki, þau þurfa flest stærra rými. Í anddyrinu mætti hugsanlega sýna smærri verk sem ekki þarfnast mikillar fjarlægðar – ekki halda þar málverkasýningu með stórum verkum. Nokkur verkanna eru smá og geta því gengið í þessu rými en stærri verkin njóta sín ekki.

Fram kemur í sýningarskrá og á vef Norræna hússins að inntak verkanna sem til sýnis eru séu tvenns konar. Við fyrstu sýn gæti hér virst vera um samsýningu að ræða því verkin eru afar ólík. Hér er annars vegar um pólítíska hugmyndasýningu að ræða þar sem meðal annars málverkið er nýtt sem miðill en er ef til vill ekki besti kosturinn til þess; eitt verkanna er hreinræktuð hugmyndalist sem kemur málaralist lítið við en er hugsanlega áhrifaríkast í þessum hluta sýningarinnar. Hins vegar er um portrettsýningu að ræða þar sem eiginleikar málverksins njóta sín betur en þar er þó  um talsverðan samtíning að ræða hvað varðar stíl. Katrín hefur greinilega hæfileika á sviði málaralistar, hér er um margs konar þreifingar að ræða en mögulega er þörf á að listakonan velji skýrari farveg.

Mér þykir tenging milli loftlagsverkanna og portrettverka af drengjum ekki sannfærandi og auka enn á samtíninginn. Í sýningarskrá segir:  „Drengirnir horfa á það sem betur mætti fara í heiminum, sjá vandamál sem lífnauðsynlegt er að leysa til þess að tryggja framtíð barna okkar – allra barna.“ Mér þykir þessi hugsun ekki skila sér í verkunum sjálfum, tengingar við loftslagsbreytingar engar, og sýningin virðist tvískipt eða margskipt og sundurlaus. Hins vegar er einmitt einkenni margra hugmyndaverka að nauðsynlegt er að lesa bæklinginn, sýningarskrána eða leiðbeiningarnar til að átta sig á innihaldi verksins.

Verkið á sýningunni sem telst á áberandi hátt til conceptlistar eða hugmyndalistar nefnist THE experiment. Test subjects: all life on Earth og stendur utan í fatahenginu og gæti jafnvel farið framhjá sýningargestum. Hér kristallast allar áhyggjurnar af umhverfismálum þar sem lítilli styttu af stúlku og dreng er komið fyrir inni í glerkúpli (einskonar fiskabúri á hvolfi) á legostöpli og heldur drengurinn á einhvers konar dælu, mengandi tóli. Við skúlptúrinn er texti þar sem okkur er bent á að við erum síðasta kynslóðin til að snúa þessu eyðileggjandi umhverfisspillandi ferli við. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er verkið áhrifaríkt en stakt í hópi málverka; þessar pælingar mætti hugsanlega útfæra nánar ef málefnið er listamanninum enn hugleikið. Ekkert ártal kemur fram við verkið en flest verkin á sýningunni eru frá 2016 eða 2017. Gaman væri að sjá nánari útfærslu á þessum anga sköpunar listakonunnar hafi hún áhuga á hugmyndalistinni sem tjáningarformi. Flest verkin eru unnin með olíu á striga, vatnslitaverk, gvass/blönduð tækni á pappír auk skúlptúrsins.

Mér þykir Katrínu takast best upp í portrettverkum sínum og sýna þar færni í litanotkun og fígúratífri nákvæmni. Portrettverkin sveiflast milli þess að vera nálægt photorealisma eða ljóðrænni litameðferð. Katrín hefur greinilega hæfileika hvað snertir litameðferð – það kemur best fram í húðtónum og hártónum sumra portrettverkanna. Samtíningurinn kemur fram í því að portrettin eru unnin á svo mismunandi hátt, minna stundum á Ingres, stundum á Renoir, stundum er myndumgjörðin í anda Klimt og því vaknar spurningin hvert listakonan stefnir eða vill stefna? Hugsanlega þarf hún að gera upp við sig hvert skal haldið eða samtvinna þessi málefni og sameina betur. Mér þykir sýningin ekki nægilega markviss og teygja anga sína í of margar áttir, einkum með tilliti til þess að verkin eru öll ný.

Sem fyrr segir er greinilegt að Katrín hefur hæfileika á sviði málaralistar og vonandi mun hún halda áfram að þróa málverkið og/eða vinda sér á brautir hugmyndalistar eða eitthvað þar á milli.

Sýningin stendur til 8. febrúar og er opin daglega frá kl. 11 til 17.

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila